Skóla- og frístundaráð
Ár 2023, 24. apríl, var haldinn 251. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.19.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Sara Björg Sigurðardóttir (S). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á verkefninu Draumaskólinn Fellaskóli. SFS23040055
Helgi Gíslason, Hlíf Brynja Baldursdóttir og Inga Björg Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata þakka fyrir góða og fræðandi kynningu á draumaskóla Fellaskóla. Það er aðdáunarvert hversu öflugt og faglegt starf er unnið í skólanum þar sem mál, læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf er í hávegum haft. Gaman að sjá hvernig valdefling í sinni víðustu mynd er notuð til að styrkja og efla fjöltyngd börn við skólann og tryggja jöfn tækifæri barna sem stunda nám við skólann. Vilja fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði að skóla- og frístundasvið skoði vinnulag og verkefni, sem eru mælanleg og eru notuð í skólastarfi draumaskólans í Fellaskóla, og hafa reynst vel eins og íslenskukennslu fyrir foreldra samhliða námi barnanna, valdefling í gegnum leiðsagnarnám, skapandi greinar, tónlist og ÍSAT íslenskukennsluna þannig að hægt sé að notast við aðferðafræðina í aðra sambærilega skóla sem eru ríkir af fjölmenningu.
-
Fram fer kynning og umræða um áherslu á innra mat/sjálfsmat í grunnskólum Reykjavíkur 2022-2023. SFS23040056
Sigrún Harpa Magnúsdóttir, Ólöf Kristín Sívertsen og Álfheiður Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata þakka fyrir góða og fræðandi kynningu á innra starfi skólanna í Austur en markmið innra starfsins er aukin gæði náms, betri námsárangur, efling fagmennsku, styrking lærdómssamfélagsins, betri upplýsingagjöf og innra eftirlit. Telja fulltrúarnir það vera mikilvægt markmið að efla, styðja við og auðvelda innra mat á öllum starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs næstu árin eins og unnið er markvisst að á skóla- og frístundasviði.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2023, um svohljóðandi tillögu Oskars Zelmenis fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts sem á fundi borgarstjórnar 14. febrúar 2023 var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs:
Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundaráði að beita sér fyrir því að ákveðnu fjármagni verði veitt til nemendaráða árlega í hverjum grunnskóla frá árinu 2024 og að það verði notað til að lífga upp á skólaumhverfið.
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að nemendaráð grunnskóla geri árlega úrbótatillögur varðandi umhverfi skólans. Tillögur nemendaráðs verði teknar fyrir á fundi skólaráðs. Jafnframt verði haldnar vinnusmiðjur fyrir nemendaráð allra grunnskóla skólaárið 2023-2024 þar sem m.a. verði fjallað um hlutverk og verkefni nemendaráða.
Samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS23020092
Oskars Zelmenis kynnir tillöguna. Oskars Zelmenis og Gísli Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata þakka fyrir mikilvæga og góða tillögu frá ungmennaráði Breiðholts. Fallegt, litríkt og blómlegt umhverfi innan veggja skólans skiptir máli fyrir líðan nemenda og starfsmanna. Þess vegna vilja fulltrúar meirihlutans auka vægi tillögunnar með breytingartillögu þar sem lagt til að nemendaráð grunnskóla geri árlega úrbótatillögur varðandi umhverfi skólans en tillögur nemendaráðanna verði teknar fyrir á fundi skólaráða. Jafnframt verði haldnar vinnusmiðjur fyrir nemendaráð allra grunnskóla skólaárið 2023-2024 þar sem m.a. verði fjallað um hlutverk og verkefni nemendaráða.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að heppilegra hefði verið að samþykkja upphaflegu tillögu ungmennaráðs Breiðholts. Eigi að síður eru ekki slíkir meinbugir á breytingartillögu skólaráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata að ástæða sé til að afgreiða tillöguna í ágreiningi.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. febrúar 2023, um svohljóðandi tillögu Úlfhildar Elísu Hróbjartsdóttur fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem á fundi borgarstjórnar 14. febrúar 2023 var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. apríl 2023:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að sjá til þess að nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar fái fræðslu í skyndihjálp annað hvert ár, tvo klukkutíma í senn, frá og með vorönn 2024.
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Tillögu fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða er vísað til frekari skoðunar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. Tillagan komi svo aftur til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Samþykkt. MSS23020095
Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir kynnir tillöguna. Oskars Zelmenis og Gísli Ólafsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. apríl 2023, um skóladagatal grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2024-2025 ásamt skóladagatali grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2024-2025.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS23040057
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. apríl 2023, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, þrjú mál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 5. desember 2022 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. febrúar 2023:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkur geri reglulega könnun á því hversu margir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur eru í mataráskrift og samhliða fari fram könnun á gæðum skólamáltíða. Mikilvægt er að slík könnun fari reglulega fram og að kannaðar verði sérstaklega ástæður þess hvers vegna allir nemendur nýti sér ekki mataráskrift, hvort um sé að ræða efnahagslegar ástæður foreldra eða að máltíðirnar uppfylli ekki gæðakröfur. Könnunin verði nýtt til þess að gera viðeigandi úrbætur til að fleiri nemendur nýti sér mataráskrift.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðs Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá. SFS22120040
Ólöf Kristín Sívertsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn í skóla - og frístundaráði hefur leitast við að halda áfram á þeirri leið sem hafin var á síðasta kjörtímabili um að mikilvægt sé að fylgjast með viðhorfi barna til mataráskrifta, gæðum matar sem og fjárhagslegum þröskuldum efnaminni foreldra. Vilja fulltrúarnir leggja áherslu á að stafræn umbreyting nái utan um gagnaöflun við spurningakannanir þegar kemur að mataráskriftum, matarmenningu og gæðum. Það verði gert á eins sjálfvirkan hátt og hægt er. Stafrænum leiðtoga skóla- og frístundasviðs yrði falið að taka verkefnið áfram til að tryggja reglulega upplýsingagjöf og að hægt sé að taka stöðuna árlega og fylgjast með öllum skólum borgarinnar. Mikilvægt er að ávarpa í næstu könnun þarfir barna með fæðuofnæmi en hvergi er minnst á þau eða þeirra þarfir.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrsla starfshóps um framtíð skóla- og frístundastarfs við Ingunnar-, Dal- og Sæmundarskóla, dags. í september 2022 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. apríl 2023 og umsögnum skólaráðs Dalskóla, ódags; foreldrafélags Dalskóla, ódags; starfsfólks Dalskóla, ódags; skólaráðs Ingunnarskóla, dags. 17. febrúar 2023; foreldrafélags Ingunnarskóla, ódags; starfsfólks Ingunnarskóla, dags. 21. febrúar 2023; skólaráðs, foreldrafélags og starfsfólks Sæmundarskóla, ódags; starfsfólks félagsmiðstöðvanna Fókuss, Fellsins og Plútó, dags. 22. mars 2023; umsögn íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals, dags. 16. mars 2023 og ungmennaráðs Árbæjar og Holta, ódags. Jafnframt lagðar fram samantektir vinnusmiðju með 1.-4. bekk og vinnusmiðju með 5.-10. bekk. SFS22040092
Sigrún Harpa Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hugmyndir að uppstokkun skólastarfs í Grafarholti og Úlfarsárdal ber að rekja til þess að ekki hefur verið gert ráð fyrir nauðsynlegum innviðum samfara aukinni uppbyggingu í Úlfarsárdal. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir áhyggjur íbúa af uppstokkun skólastarfsins. Til þess verður að líta að íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal hafa mátt þola töluverða röskun á skólastarfi á uppbyggingarárum hverfisins. Það er óheppilegt þegar loksins er kominn stöðugleiki í skólamálunum að verið sé að koma þeim í uppnám og valda foreldrum og starfsfólki skólanna áhyggjum. Aukin íbúafjölgun til framtíðar mun væntanlega kalla á byggingu nýs skóla en þá er mikilvægt að gott samráð verði haft við íbúa hverfisins um þróun skólastarfsins.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. mars 2023, um afgreiðslu borgarráðs á tillögu um breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar. SFS23020119
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Það er alvarlegt þegar mygla kemur upp í skólahúsnæði sem getur komið niður á heilsu nemenda og starfsfólks. Skólayfirvöldum ber að tryggja það að starfsumhverfi nemenda og starfsfólks sé heilsusamlegt. Það er ábyrgðarhlutur að þegar upp kom mygla í Borgaskóla fyrir áramót að hvorki foreldrar né kjörnir fulltrúar, sem bera ábyrgð á skólastarfi í borginni, voru upplýstir um ástandið. Óskað er upplýsinga um hvers vegna hvorki foreldrar né kjörnir fulltrúar voru upplýstir um mygluvandamálið. Þá er jafnframt óskað eftir upplýsingum um hvort úttekt hafi verið gerð á skólanum og ef svo er þá hver hafi framkvæmt hana.
SFS23040098
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Er til tölfræði um skráðar tilkynningar yfir tímabilið 2019-2022 um líkamlegt ofbeldi sem starfsfólk stofnana skóla- og frístundasviðs hafa orðið fyrir af hálfu nemenda á grunnskólastigi? Hvað verkferla er stuðst við þegar upp koma alvarleg tilvik þar sem starfsmaður áðurnefndra stofnana verður fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu nemenda?
SFS23040099
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Til stóð að gengið yrði frá samningum fljótlega eftir áramót við sjálfstætt starfandi leikskóla um rekstur leikskólans Bakka í Staðahverfi. Nú eru liðnir tæpir fjórir mánuðir án þess að það hafi verið gert. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær megi búast við að gengið verði frá samningum og hvenær þess sé að vænta að hægt verði að opna nýjan leikskóla í húsnæði Bakka.
SFS23040100
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um stöðu biðlista sundurliðað eftir leikskólum. Þá er óskað upplýsinga um áætlaðan meðalaldur barna við inngöngu (ekki innritun) í borgarreknum leikskólum í águst-september næstkomandi. Tekið er fram að verið er að spyrja um meðalaldur barna sem munu hefja leikskólagöngu í fyrsta skipti, þ.e. munu ekki hafa verið áður í leikskóla, t.d. í öðru sveitarfélagi eða hjá sjálfstætt starfandi leikskóla.
SFS23040101
Fundi slitið kl. 16:07
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir
Helgi Áss Grétarsson Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Sara Björg Sigurðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl 2023