Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 250

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 27. mars, var haldinn 250. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Kerhólum á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 10.11.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Kerhólum: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Sabine Leskopf (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Kerhólum: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar og Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Alda Árnadóttir, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson; Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga Kristínar Soffíu Jónsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sbr. 8. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 15. júní 2021 ásamt skýrslu starfshóps um aðlögun elstu barna leikskóla í ágústfrístund og grunnskóla, dags. í janúar 2023 og umsögnum framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, dags. 22. mars 2023; Félags stjórnenda leikskóla, dags. 23. mars 2023; Félags skólastjórnenda í Reykjavík, dags. í mars 2023 og Samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík, dags. 23. mars 2023:

    Lagt er til að börn sem útskrifast af leikskóla snúi ekki aftur á leikskólann eftir sumarfrí heldur taki þátt í starfi frístundaheimilis fram að skólasetningu.

    Greinargerð fylgir.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata:

    Lagt er til að hefja tilraunaverkefni um ágústfrístund frá því að sumarlokun leikskóla lýkur fram að skólasetningu grunnskóla fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að velja starfsstöðvar til að taka þátt í tilraunverkefninu og útfæra nánar miðað við sumarlokun leikskóla og frístundaheimila. Verkefnið hefjist í ágúst 2023 og verði að því loknu metið og tekin ákvörðun um framhaldið. Lagt er til að stofnaður verði innleiðingarhópur sem undirbúi og haldi utan um verkefnið. Í innleiðingarhópnum verði fulltrúar stjórnenda leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs auk fulltrúa frá fagskrifstofu  og mannauðsskrifstofu skóla- og frístundasviðs.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Tillagan er samþykkt svo breytt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. Vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er samþykkt að fara í tilraunaverkefni á völdum stað í borginni sem lengi hefur verið krafa um. Undirbúningur hefur verið ítarlegur og mikilvægar ábendingar hafa borist úr skólasamfélaginu sem tillit verður tekið til. Verkefnið felst í því að börn sem útskrifast hafa með mikilli athöfn úr leikskóla mæti ekki aftur í leikskólann eftir sumarfrí heldur fari í aðlögun í grunnskólanum sínum. Þar geta þau fengið stuðning í að kynnast grunnskólanum sínum á jákvæðan hátt áður en hefðbundin skólaganga hefst. Þar að auki þýðir þetta að leikskólapláss muni losna fyrr og hægt verður því að taka inn börn í leikskólann fyrr.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það kemur fram í umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva að mannekla hái starfseminni og m.a. af þeim ástæðum eru í umsögninni settar fram efasemdir um þetta tilraunaverkefni. Við tökum þar að auki undir áhyggjur leikskólastjóra sem mótmæla því að starfsfólk leikskóla taki þátt í verkefninu. Við skipulagningu þessa verkefnis virðist samráð við fagfólk á sviði frístundaheimila og leikskóla hafa verið takmarkað. Þegar tilraunverkefni af þessu tagi er ýtt úr vör er lágmark að það sé unnið í góðu samráði við þá aðila sem eiga að sinna þeim.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva lýsa yfir áhyggjum sínum vegna fyrirliggjandi breytingartillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata um tilraunaverkefni um ágústfrístund fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu. Framkvæmdarstjórar hafa áhyggjur af því að ekki hafi verið tekið tillit til eða unnið með umsagnir fagaðila. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að taka mið af umsögnum og hafa samráð við fagaðila þegar fara á í eins viðkvæmar breytingar og tilraunaverkefni fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu.

    Kl. 10.25 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning og umræða um skuldbindingar og tækifæri í tengslum við undirbúning fjárhagsáætlunar skóla- og frístundasviðs 2024. SFS23030142 

    Kl. 10.45 víkur Guðrún Sigtryggsdóttir af fundinum.

    Kl. 10.50 tekur Dagbjört Ásbjörnsdóttir sæti á fundinum.

Fundi slitið kl. 12:02

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Sabine Leskopf Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. mars 2023