Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 248

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 6. mars, var haldinn 248. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S), Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Vagnsdóttir og Þórarna Ólafsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfsmannakönnuninni Stofnun ársins 2022. SFS23030001

    Guðný Reynisdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.20 taka Albína Hulda Pálsdóttir og Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.

    Kl. 13.25 tekur Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Pírata þakkar fyrir upplýsandi kynningu á Stofnun ársins 2022. Það er í senn áhugavert og ánægjulegt að sjá hátt viðhorf starfsmanna til jafnréttis, ánægju og stolts og stjórnunar. Ennfremur er líka gaman að sjá að samtals 60% svarenda eru mjög ánægðir eða frekar ánægðir með styttingu vinnuvikunnar þannig að það er vísbending um að við séum á réttri leið að bjóða upp á eftirsóknarverða vinnustaði í skólaumhverfinu.

  2. Lögð fram og kynnt skýrsla starfshóps um mótun stefnu Reykjavíkurborgar um aðkomu að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, dags. í október 2022. MSS22100084

    Haukur Þór Haraldsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata þakka fyrir umfangsmikla og vandaða vinnu starfshópsins. Tillögurnar eru til þess fallnar að skapa aukið jafnræði fyrir foreldra og nemendur um val á skólum í borginni. Um er að ræða mikilvægar tillögur einmitt til að tryggja sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum sess í framboði leik- og grunnskóla í borginni til framtíðar. Þess vegna er mikilvægt að skapa þeim sambærileg starfsskilyrði á við almenna leik- og grunnskóla, í samræmi við alla stefnumótun borgarinnar, þar sem áhersla er lögð á gagnsæi, jafnræði, fyrirsjáanleika og stöðugleika í rekstri þeirra til lengri tíma, auk þess sem aukið eftirlit verði haft með starfsemi þeirra og kröfur gerðar um að rekstrarafgangur sem rekja megi til opinberra framlaga verði nýttur til uppbyggingar skólastarfsins en ekki greiddur út sem arður. Markmiðið er að taka upp samræmda inntöku nemenda og tryggja að rekstrarafgangur verði nýttur í þróun skóla um leið og skólagjöld verði lögð af í grunnskólum en samræmd við borgarrekna leikskóla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þótt margvíslegir annmarkar séu á því hvernig staðið var að gerð skýrslu starfshóps um mótun stefnu um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, dags. október 2022, þá voru efnisatriði í skýrslunni sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lengi talið rétt að næðu fram að ganga. Á hinn bóginn, svo sem fram kemur í umsögn Samtaka sjálfstæðra skóla til borgarráðs, dags. 9. nóvember 2022, þá eru slíkir ágallar á tillögum skýrsluhöfunda að ekki er hægt að fallast á hana í heild sinni. Hér skiptir mestu máli að tillögurnar vega nokkuð að sjálfstæði skólanna og fela í sér aukna miðstýringu, til að mynda hvað varðar launakjör starfsfólks og samræmd innskráningarkerfi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt talið rétt að standa vörð um faglegt frelsi kennara og skólastjórnenda. Einnig er sá valkostur tekinn af sjálfstætt starfandi skólum að velja að bjóða viðbótarþjónustu gegn vægu gjaldi, t.d. hafa sumir slíkra skóla boðið einungis upp á lífrænt fæði eða tryggt að skólarnir loki aldrei vegna starfsdaga. Eðlilegt er að foreldrar eigi þess kost að velja leikskóla sem bjóða upp á slíka viðbótarþjónustu gegn vægu gjaldi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista ítrekar mikilvægi þess að girt sé að öllu leyti fyrir arðgreiðslur til sjálfstætt starfandi leikskóla sem fá fjármagn úr sjóðum borgarbúa. Leikskólarnir eiga að nýta fjármagnið börnum til hagsbóta, en ekki til þess að koma því í eigin vasa. Því miður eru dæmi um slíkt. Einnig gera Sósíalistar athugasemdir við að einkareknir leikskólar skuli fá forgang að húsnæði í eigu borgarinnar. Það er hægt að nýta húsnæði borgarinnar í svo margt, sem er rekið á samfélagslegum grundvelli. Einkaaðilar ættu að geta fundið viðeigandi húsnæði á markaðnum, enda er linnulaust hamrað á þeirri möntru í samfélaginu að markaðurinn veiti jafngóða eða betri þjónustu en borgin. Ef að einkaleikskólar þurfa húsnæði frá borginni er ljóst að markaðurinn er ekki eins skilvirkur og fólki hefur verið talin trú um. Það er varla hægt að tala um einkarekstur þegar að borgin niðurgreiðir rekstur og veitir húsnæði til þessara leikskóla.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna lýsir yfir ánægju með margar þær tillögur sem koma fram í skýrslu starfshóps um mótun stefnu um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Þar má t.d. nefna tillögu um að sjálfstætt starfandi leikskólar muni framvegis innrita í gegnum sama kerfi og leikskólar á vegum borgarinnar og eftir kennitöluröð og forgangsreglum borgarinnar. Tillagan um samræmingu leikskólagjalda milli sjálfstætt starfandi og leikskóla á vegum borgarinnar er fagnaðarefni og mun minnka kostnað fyrir fjölskyldur. Báðar þessar tillögur ættu að leiða til aukins jafnræðis milli fjölskyldna. Áherslur á aukið faglegt og fjárhagslegt eftirlit eru einnig af hinu góða. Tryggja þarf að börn og foreldrar/forráðafólk geti gengið að því að öryggi, faglegt starf, umhverfi, aðbúnaður og fæði sé af miklum gæðum og sambærilegt á öllum þeim leikskólum sem reykvísk börn sækja hvort sem þeir eru sjálfstætt starfandi eða á vegum borgarinnar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga að umsögn skóla- og frístundaráðs, dags. 1. mars 2023, um tillögur starfshóps um mótun stefnu Reykjavíkurborgar um aðkomu að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja til að lið 3 varðandi umsögn skóla- og frístundaráðs um tillögur starfshóps um mótun stefnu Reykjavíkurborgar um aðkomu að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum verði frestað.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Umsögn skóla- og frístundaráðs um tillögur starfshóps um mótun stefnu Reykjavíkurborgar um aðkomu að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum er samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS22100084

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata telja að tillögur starfshópsins séu til þess fallnar að auka jafnræði barnafjölskyldna í borginni og stuðla að auknu gagnsæi og stöðugleika í rekstri og faglegu starfi sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Markviss upplýsingagjöf, fyrirsjáanleiki í starfsemi gagnvart foreldrum, almenningi og Reykjavíkurborg eru í fyrirrúmi hér. Með skýrari umgjörð og ramma verður eftirfylgni Reykjavíkurborgar skilvirkari og betri. Vegna áskorana tengdum húsnæði síðustu misserin er mikilvægt að huga að þörfum borgarrekinna skóla fyrst áður en sjálfstætt starfandi skólum er útvegað húsnæði. Vonast er til að þessar ábendingar muni nýtast í áframhaldandi vinnu en eru mikilvæg viðbót þar sem tekið er tillit til allrar stefnumótun borgarinnar og samfélagsþróun til að jafna möguleika allra barna til farsæls náms og velferðar þeirra. Vilja fulltrúar meirihlutans benda á að ef gera á breytingar er varða aukin framlög til sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla þarf að tryggja rekstrargrunn málaflokksins í fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands harma þau vinnubrögð sem fulltrúar meirihluta ráðsins hafa haft í þessu máli. Hvers vegna? Skóla- og frístundaráð gegnir lögmæltu og faglegu hlutverki sem leik- og grunnskólanefnd sveitarfélags, sbr. 4. gr. leikskólalaga nr. 90/2008 og 6. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Ráðið hefur því ákveðna stöðu samkvæmt landslögum sem og samkvæmt þar til bærum samþykktum Reykjavíkurborgar. Þetta mál, sem varðar framtíðartilhögun um fjárhagsleg og fagleg samskipti Reykjavíkurborgar við sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla, hefur verið unnið síðan í febrúar 2022 á vegum borgarráðs án viðhlítandi samráðs við skóla- og frístundaráð. Þessu samráðsleysi er harðlega mótmælt. Steininn tekur svo úr að beiðni borgarráðs, dags. 30. nóvember 2022, um umsögn skóla- og frístundaráðs um skýrslu starfshóps um mótun stefnu um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, var beint til ráðsins í heild en ekki eingöngu til meirihlutans. Samt sem áður er engin tilraun gerð til að ræða við fulltrúa minnihlutans áður en umsögn meirihlutans, dags. 1. mars sl., er lögð fram á fundi ráðsins í dag. Samráðsleysið við minnihlutann er því æpandi og ólýðræðislegt.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 7. nóvember 2022:

    Fulltrúi Sósíalista í skóla- og frístundaráði leggur til að óheimilt verði fyrir sjálfstætt rekna leikskóla sem sækja fé í opinbera sjóði Reykjavíkurborgar að greiða sér út arð. Einnig eigi þessar takmarkanir við ef hinn sjálfstætt rekni leikskóli er seldur. Rekstrarafgangur verði ávallt nýttur í starfsemi leikskóla.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS22110032

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga hefði að öllu leyti girt fyrir arðgreiðslur þeirra einkaleikskóla sem fá fé úr opinberum sjóðum borgarinnar. Fulltrúi Sósíalista telur tillögur starfshóps í þessum efnum ekki nógu skýrar og opna möguleikann á því að farið sé framhjá þeim. Réttast hefði því verið að samþykkja þessa tillögu.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram og kynnt skýrsla starfshóps um aðlögun elstu barna leikskóla í ágústfrístund og grunnskóla, dags. í janúar 2023. SFS22030077

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

    Lagt er til að skýrsla starfshóps um aðlögun elstu barna leikskóla í ágústfrístund og grunnskóla verði send til umsagnar stjórnenda frístundamiðstöðva, leikskóla og grunnskóla í Reykjavík og til samtaka foreldra leikskóla- og grunnskólabarna í Reykjavík.

    Samþykkt. SFS22030077

    Guðrún Edda Bentsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir góða kynningu og telja mikilvægt að finna leiðir til að bæta þjónustu við börn, foreldra og forráðamenn í borginni. Þessi tillaga er einmitt til þess fallin að koma til móts við óvissutímabil í lífi barna og foreldra eftir sumarfrí þegar flutningur á sér stað úr leikskóla yfir í grunnskóla með þarfir barna að leiðarljósi. Telja fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata í senn þarft og ánægjulegt að málið hafi verið skoðað og umræddar sviðsmyndir liggi til grundvallar við nánari útfærslu á verkefninu. Telja fulltrúarnir mikilvægt að börn sem séu að hefja skólagöngu sína fái tækifæri til aðlögunar að skólanum með því að venjast umhverfi skólans í einhvern tíma áður en sjálft skólahald hefst.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna lýsir yfir ánægju með skýrslu starfshóps um aðlögun elstu barna leikskóla í ágústfrístund og grunnskóla. Bæði börn og foreldrar/forráðafólk hafa kallað eftir þessari breytingu lengi og sambærilegt fyrirkomulag hefur verið í nágrannasveitarfélögum í einhver ár. Ef hægt er að tryggja fjármagn, mönnun og faglegt starf væri best að tilraunaverkefnið gæti hafist strax haustið 2023. Best væri ef börn færu yfir í ágústfrístund beint eftir að sumarleyfi þeirra leikskóla lýkur. Ef farið verður í þetta myndu flestir foreldrar/forráðafólk líklega kjósa að börnin fengju heitan mat í starfinu frekar en sjá þyrfti þeim fyrir nesti. Ef farið verður í þetta tilraunaverkefni þarf að vera skýrt áður en það hefst hvernig árangur af því verður metinn.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi vinnu starfshóps um mótun stefnu gagnvart sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 21. nóvember 2022. SFS22110189

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það svar sem hér liggur fyrir frá skóla- og frístundasviði er dags. 16. janúar sl. en síðan þá hefur skóla- og frístundaráð haldið samtals tvo fundi, 6. febrúar og 20. febrúar. Tafir á að birta svarið eru umhugsunarverðar. Efnislega er grundvallaratriðið einfalt. Um hlutverk skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur gilda m.a. lög um leikskóla nr. 90/2008 og lög um grunnskóla nr. 91/2008. Skóla- og frístundaráð er fagráð í borgarkerfinu en borgarráð er það ekki. Þegar litið er til þessa heildarsamhengis er augljóst hver ályktunin eigi að vera, þ.e. það hefur verulega skort á að viðunandi samráð hafi verið haft við skóla- og frístundaráð við þá vinnu sem varðar framtíðartilhögun um fjárhagsleg og fagleg samskipti Reykjavíkurborgar við sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Það er því full ástæða til að ætla að stjórnsýslan í þessu máli samrýmist hvorki lögum né vönduðum stjórnsýsluháttum. Svarið sem fyrir liggur haggar því mati ekki. Þessu til viðbótar vekur furðu hversu lítið samráð hefur verið haft við Samtök sjálfstæðra skóla í þessu ferli enda er þar í senn mikil reynsla og fagþekking fyrir hendi.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. febrúar 2023, við fyrirspurnum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna húsnæðisvanda Fossvogsskóla, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. ágúst 2021 og 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. nóvember 2021. SFS22020154

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt fram svar við enn einni fyrirspurninni sem lögð var fram á síðasta kjörtímabili, að þessu sinni var fyrirspurnin dags. 24. ágúst 2021. Þessi vinnubrögð eru hvorki í anda gagnsæis né skilvirkrar og vandaðrar stjórnsýslu. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikið hefur reynt á skólasamfélagið í Fossvogsskóla síðustu misserin og hafa starfsfólk, börn og foreldrar þeirra sýnt í senn sveigjanleika og seiglu í umfangsmiklu og flóknu verkefni. Telja fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Pírata að skóla- og frístundasvið hafi náð að bregðast við síbreytilegum aðstæðum og náð að tryggja meginverkefni sviðsins sem var að tryggja samfellu í skólastarfi. Borgaráð samþykkti 30 milljarða viðhaldsátak í húsnæði skóla- og frístundasviðs á árunum 2022-2026 einmitt til að reyna fyrirbyggja eftir mætti þau vandkvæði sem skólasamfélagið í Fossvogskóla hefur staðið frammi fyrir.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum í skóla- og frístundaráði um mat á tilraunaverkefni um 42,5 klukkustunda hámarksvistunartíma barna í leikskólum, sbr. 20. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. desember 2022. SFS22120042

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. febrúar 2023, við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands um kostnað vegna fræðslu um kynþáttafordóma, sbr. 25. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023. SFS23020038

    Fylgigögn

  10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið komi upp viðmiði um hámarksfjölda nemenda á hvern kennara í grunnskólum Reykjavíkur. Bera verði að fylgja slíku viðmiði eftir í starfi grunnskóla. Stutt verði við rannsóknir sem sýni fram á hvert æskilegt hlutfall sé með tilliti til sem bestrar kennslu og starfsskilyrða kennara og nemenda. Jafnframt verði málið unnið í nánu samráði við kennara og óskað eftir þeirra umsögnum og athugasemdum. Tekið verði mark á þeim niðurstöðum þegar kemur að því setja hið nýja viðmið.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS23030035

    Fylgigögn

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í október á síðasta ári fannst mygla í húsnæði á leikskólanum Hlíð. Stóra-Hlíð sem er önnur bygging leikskólans hefur verið lokuð síðan og ekkert bólað á aðgerðum. Hvers vegna eru framkvæmdir vegna myglu ekki hafnar við Stóru-Hlíð? Hvenær er stefnt að því að þær hefjist? Hverjar eru framtíðaráætlanir vegna starfseminnar á Hlíð?

    SFS23030036

Fundi slitið kl. 15:48

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf Sara Björg Sigurðardóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 6. mars 2023