Skóla- og frístundaráð
Ár 2023, 6. febrúar, var haldinn 245. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Marta Guðjónsdóttir (D), Rannveig Ernudóttir (P), Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir (D), Sabine Leskopf (S), Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Alex Dóra Björg Brynjudóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Áslaug Björk Eggertsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning og umræða um helstu viðfangsefni skóla- og frístundaráðs á árinu 2023. SFS23020014
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Eftir heimsfaraldur er mikilvægt að rýna menntastefnu borgarinnar með framtíðarþarfir lærdómssamfélagsins í huga. Stöðugt þarf að huga að því og forgagnsraða hvaða verkefni eru í forgangi. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vill huga að stefnumótandi þáttum á þessu ári með áherslu á framtíðarhæfni og vellíðan allra barna.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2023:
Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2023, að sviðsstjóra verði falið að leggja til við skóla- og frístundaráð breytingar á reglum skóla- og frístundasviðs sem gilda um afslátt vegna systkina svo sem vegna dvalargjalda í leikskóla, frístundaheimilum, sértækum félagsmiðstöðum og fæðisgjalda. Í breytingunni felst að samræma reglur skóla- og frístundasviðs er varða systkinaafslátt með tilliti til skiptrar búsetu barna. Í því felst að heimila systkinaafslátt vegna systkina með sitt hvor lögheimilistengslin vegna skiptrar búsetu þeirra. Er sviðsstjóra falið að meta kostnaðaráhrif breytinganna og skoða hvaða breytingar þurfi að gera á tölvukerfum svo breytingin sé framkvæmanleg.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. SFS23020001
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar telur mikilvægt að foreldrar sem eru með börn með búsetu á tveimur stöðum njóti sömu réttinda gagnvart systkinaafslætti eins og aðrir. Brýnt skref sem felst í því að samræma reglur skóla- og frístundasviðs er varða systkinaafslátt með tilliti til skiptrar búsetu barna og heimila systkinaafslátt vegna systkina með sitt hvor lögheimilistengslin vegna skiptrar búsetu.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. janúar 2023, um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs árið 2023 ásamti yfirliti yfir umsóknir um almenna styrki skóla- og frístundaráðs árið 2023 og reglum um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Lögð er fram svohljóðandi tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki skóla- og frístundaráðs 2023, í þeim tilfellum þar sem lagt er til að veittur verði styrkur að hluta er skilyrt að styrkupphæð verði varið í tilgreinda þætti sem fram koma í minnisblaði sviðsstjóra, dags. 16. janúar 2023:
- Umsækjandi: ADHD Samtökin. Heiti verkefnis: Nám og tómstundir með ADHD. Kr. 300.000.
- Umsækjandi: Andri Sæmundsson. Heiti verkefnis: Ormamoltun í skólastofum. Kr. 200.000.
- Umsækjandi: Elísabet Þóra Albertsdóttir. Heiti verkefnis: Hádegisfræðslur FFF 2023. Kr. 200.000.
- Umsækjandi: Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Heiti verkefnis: Eldvarnarátak 2023. Kr. 300.000.
- Umsækjandi: Muhammed Emin Kizilkaya. Heiti verkefnis: Pangea stærðfræðikeppnin 2023. Kr. 250.000.
- Umsækjandi: Rithöfundasamband Íslands. Heiti verkefnis: Skáld í skólum. Kr. 500.000.
- Umsækjandi: Sigurður Sigurðsson. Heiti verkefnis: Útgáfa á Netbæ (kennslubók í stafrænni borgaravitund). Kr. 150.000.
- Umsækjandi: Stertabenda – leikhópur. Heiti verkefnis: Góðan daginn faggi – fræðsluviðburðir. Kr. 400.000.
- Umsækjandi: Tónskóli Sigursveins. Heiti verkefnis: Lögin hennar Röggu Gísla. Kr. 700.000.
Samþykkt. SFS23010017
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2022 ásamt skýrslunum Öryggismál í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, dags. í mars 2022 og Öryggismál í skóla- og frístundastarfi, dags. 26. maí 2020. SFS22060281
Gísli Ólafsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Öryggismál í skólum hafa hlotið umfjöllun og athygli undanfarið. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar þakkar þeim sem staðið hafa að því að fara ítarlega yfir stöðu öryggismála í borginni. Í skólum borgarinnar þarf að vera tryggt að börn og starfsfólk upplifi eins mikið öryggi og mögulegt er í starfsumhverfi sínu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar eru hugsi yfir tillögum um að setja upp öryggismyndavélar við grunnskóla í borginni. Engin gögn sýna fram á að ofbeldi eða önnur brot við skóla og frístundaheimili hafi aukist á síðustu árum. Því virðist ótti hafi gripið um sig, sem er kannski í takt við þá þróun sem við höfum séð í okkar heimshluta síðasta áratuginn. Samfélagið og okkar heimshluti virðist stýrast í æ meira mæli út frá ótta, en ekki því hvernig við getum horft til framtíðar með von í brjósti. Réttara væri að auka fræðslu um rætur ofbeldis og auka samfélagskennd í Reykjavík. Það væri borg þar sem allir hjálpist að við að byggja upp frjálst samfélag með öllum þeim afleiðingum sem það getur haft í för með sér, bæði góðum og slæmum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. desember 2022:
Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla og frístundaráði að vinna að því, í samráði við skólasamfélagið að gera úttekt á öryggisvörnum í skólum þegar kemur að verklagi og viðbrögðum ef ytri vá steðjar að s.s. utanaðkomandi hættuástands eða ógn/hótun um að skaða börn og starfsmenn. Mikilvægt er að fyrir liggi skýrar reglur og verklagsferlar sem allir starfsmenn séu meðvitaðir um og þekki í þaula. Hver og einn þarf að vera með sitt hlutverk á hreinu standi fyrir dyrum ógn, hótun um skaða eða önnur ytri vá sem steðjar að börnunum og starfsfólki.
Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS22100129
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skola- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. desember 2022:
Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla og frístundasviði að vinna að, í samráði við skólasamfélagið, að komið verði upp öryggismyndavélum á leikvöllum barna á vegum borgarinnar.
Greinargerð fylgir.
Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. MSS22100128
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvæg vinna var unninn árið 2020 af starfshópi um öryggismál í skóla- og frístundastarfi og gerð var úttekt á þörf starfsstaða skóla- og frístundasviðs á auknum öryggisbúnaði og búið að kortleggja þörf og stöðu öryggismála í skóla- og frístundastarfi. Hins vegar eru leikvellir barna í borginni mun víðar að finna en við lóðir eða húsnæði á vegum skóla- og frístundasviðs og þurfa því önnur svið að svara fyrir aðra leikvelli borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 19. desember 2022:
Lagt er til að skólamáltíðir verði með öllu gjaldfrjálsar í grunnskólum Reykjavíkur.
Greinargerð fylgir.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS22120096
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Afar mikilvægt er að börn hafi aðgang að næringu við hæfi í gegnum allan skóladaginn. Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði vilja minna á þær þjónustugreiðslur sem samþykkar voru samhliða aðgerðaáætlun gegn sárafátækt í mars 2021. Það er verkefni Betri borgar fyrir börn að grípa þau börn sem búa við fátækt og tryggja tekjulægri heimilum viðeigandi stuðning, einmitt til að koma í veg fyrir að ekkert barn sé skilið eftir þegar kemur að skólamáltíðum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Með gjaldfrjálsum máltíðum í grunnskólum hefði verið hægt að tryggja öllum börnum óháð stétt og stöðu þá grunnþörf sem matur er. Það er skólaskylda á Íslandi og því ætti borgin sem rekur grunnskóla að útvega börnunum gjaldfrjálsar máltíðir, alveg eins og gert er með skólabækur, salernisaðstöðu og kennsluna sjálfa. Með því að skilja matinn út undan eru skilaboðin þau að ekki sé litið á hann sem sömu grunnþörf og allt hitt sem skólar bjóða upp á. Sósíalistar munu halda áfram að tala fyrir því að börn borgi ekki.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2022:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði í samvinnu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að fara kerfisbundið yfir ferla grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti og ofbeldi. Markmiðið er að kanna hvernig skólar sinna forvörnum og hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Í framhaldi er óskað eftir yfirliti um stöðu mála.
Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. MSS22100130
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2023, um breytingar á reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð og drögum að reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar sem gildi frá 20. febrúar 2023 og núgildandi reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23010162
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2023, um breytingar á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð og drögum að reglum um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar sem gildi frá 20. febrúar 2023 og núgildandi reglum um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23010164
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum frá fundi skóla- og frístundaráðs 16. janúar 2023:
Hversu mörg skammtíma- og langtímahjólastæði hafa verið gerð við nýlegar endurgerðir á leikskólum t.d. stækkun á Múlaborg með endurgerð á húsnæði við Ármúla og endurgert húsnæði við Kleppsveg fyrir Brákarborg. Hafa foreldrar/forráðafólk og starfsfólk gott aðgengi að yfirbyggðum hjóla- og vagnageymslum í endurgerðu leikskólahúsnæði? Hversu mörg skammtíma- og langtímahjólastæði eru við húsnæði þeirra Ævintýraborga sem tóku til starfa 2022 og þeirra sem fyrirhugað er að taki til starfa 2023? Samræmist fjöldi skammtíma- og langtímahjólastæða við leikskóla Reykjavíkur við það sem stefnt er að í hjólreiðaáætlun, Grænu plani og gildandi reglum um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík?
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. SFS23010093
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. desember 2022, um samþykkt borgarráðs á erindi um framlengingu þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi leikskóla. SFS22060176
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. desember 2022, um samþykkt borgarráðs á erindi um framlengingu þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla. SFS22060177
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs, júlí – september 2022, dags. 18. janúar 2023. SFS22100121
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla 2011-2022, sbr. 27. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022. SFS22090036
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla og sjálfstætt rekna leikskóla, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. júní 2022. SFS22060091
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu mála varðandi leikskólann Bakka, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 21. nóvember 2022. SFS22110185
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar í skóla- og frístundaráði vilja brýna mikilvægi þess að línur skýrist fljótt og vel varðandi framtíð leiksskólastarfs á Bakka til að tryggja bæði samfellu í þjónustu við foreldra og festu í lífi þeirra barna sem um ræðir.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lausn á veikindaforföllum í leik- og grunnskólum í kórónuveirufaraldri, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. desember 2020. SFS22020258
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það ber ekki vott um góða, gagnsæja og skilvirka stjórnsýslu að mikilvægri fyrirspurn skuli ekki verið svarað fyrr en rúmum tveimur árum eftir að hún var lögð fram. Með slíkum drætti á svörum er komið í veg fyrir að kjörnir fulltrúar séu upplýstir um mál og geti brugðist við.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. janúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði um álagsgreiðslur til starfsfólks í leik- og grunnskólum vegna Covid, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar 2022. MSS22020235
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kostnað við innheimtu gjalda vegna skóla- og frístundastarfs, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 19. desember 2022. SFS22120097
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um uppsagnir leikskólastarfsmanna, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. nóvember 2022. MSS22110081
Kl. 15.55 víkur Rannveig Ernudóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð felur skóla- og frístundasviði að byrja að formlega skrá rasísk atvik og rasíska orðræðu sem fer fram innan skóla borgarinnar. Mikilvægt er að vel sé haldið utan um umfang og tíðni slíkra atvika svo að hægt sé að bregðast við.
Greinargerð fylgir.
Frestað. SFS23020036
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að koma fyrir loftgæðamæli við þá leikskóla sem standa við eða nærri stofnbrautum í Reykjavík til að tryggja að börn andi ekki að sér heilsuspillandi svifryki þegar svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk.
Greinargerð fylgir.
Frestað. SFS23020045
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Grunnskólakennarar hafa kallað eftir því að kennsluskylda verði lækkuð úr 26 tímum í 24 tíma á viku. Hvað þarf að eiga sér stað til þess að skyldan verði lækkuð sem því nemur? Hvernig er hægt að búa þannig um hnútana að slíkt verði gert? Hefur Reykjavíkurborg heimild til þess að stytta kennsluskyldu?
SFS23020037
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er kostnaður skóla í Reykjavík vegna fræðslu til að sporna við rasisma í skólakerfinu ásamt umfangi, þ.e. kostnaður vegna fræðslu til starfsfólks, kostnaður vegna fræðslu til nemenda, kostnaður vegna fræðslu til foreldra og hlutfall skóla sem buðu upp á ofangreindar fræðslur. Hvaða skólar buðu upp á ofangreindar fræðslur? Óskað er eftir upplýsingum fyrir árið 2022.
SFS23020038
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvað þarf marga stuðningsfulltrúa inn í grunnskóla Reykjavíkurborgar til að mæta þeirri þörf sem nú er uppi? Hversu margir stuðningsfulltrúar sinna nú þeim störfum?
SFS23020039
Fundi slitið kl. 15:58
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sabine Leskopf
Sara Björg Sigurðardóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023