Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 244

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 16. janúar, var haldinn 244. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (S), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Sandra Hlíf Ocares (D), Sara Björg Sigurðardóttir (S), Trausti Breiðfjörð Magnússon (J) og Unnur Þöll Benediktsdóttir (B). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Áslaug Björk Eggertsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Edda Bentsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. janúar 2023, þar sem tilkynnt er að Rannveig Ernudóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur. MSS22060048

    -    Kl. 13.19 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum. 
    -    Kl. 13.23 tekur Guðrún Jóna Thorarensen sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. janúar 2023, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla skólaárið 2022-2023 ásamt starfsáætlunum eftirtalinna leikskóla: Austurborg, Álftaborg, Árborg, Bakkaborg, Bjartahlíð, Blásalir, Borg, Brekkuborg, Drafnarsteinn, Engjaborg, Fífuborg, Funaborg, Furuskógur, Garðaborg, Geislabaugur, Grandaborg, Grænaborg, Gullborg, Hagaborg, Hálsaskógur, Heiðarborg, Hlíð, Hof, Holt, Hólaborg, Hraunborg, Hulduheimar, Jöklaborg, Jörfi, Klambrar, Klettaborg, Kvistaborg, Langholt, Laufskálar, Laugasól, Lyngheimar, Maríuborg, Miðborg, Múlaborg, Nes, Nóaborg, Rauðaborg, Rauðhóll, Reynisholt, Rofaborg, Seljaborg, Seljakot, Sólborg, Stakkaborg, Steinahlíð, Suðurborg, Sunnuás, Sunnufold, Sæborg, Tjörn, Vesturborg, Vinagerði, Ægisborg, Ösp, Dalskóli, Klébergsskóli, Ártúnsskóli, Askja, Ársól, Barnaheimilið Ós, Fossakot og Korpukot, Krílasel, Laufásborg, Leikgarður og Sólgarður, Lundur, Mánagarður, Regnboginn, Skerjagarður, Sælukot, Vinagarður, Vinaminni og Waldorfleikskólinn Sólstafir.

    Samþykkt. SFS22040128

    Gyða Guðmundsdóttir, Ingibjörg Kristleifsdóttir og Valborg Hlín Guðlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfsáætlanir leikskólanna bera vott um sérþekkingu og áhuga fyrir fjölbreyttu starfi og verkefnum leikskólanna í borginni. Stórar áskoranir liggja fyrir starfsumhverfi leikskólanna eftir heimsfaraldur og þá sérstaklega til að geta þjónustað fjöltyngd börn og börn með áfallasögu vegna stríðsátaka. Stjórnendum og starfsfólki leikskólanna er þakkað fyrir vel unnin störf og skýra framtíðarsýn í vinnu við starfsáætlanirnar og afburða vinnu á krefjandi tímum í þágu barnanna í borginni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Starfsáætlanir leikskóla liggja nú fyrir. Mikilvægt er að hlustað sé á raddir leikskólakennara og starfsfólks um hvað eigi að bæta. Það liggur fyrir stæk óánægja þeirra vegna framkomu borgarinnar. Í samtölum okkar við starfsfólk heyrist að framkoma borgaryfirvalda sé yfirlætisleg og gaslýsing einkenni samskiptin. Sósíalistar taka undir með leikskólastjórum og kennurum um að fulltrúar í ráðinu eigi að fá upplýsingar um það sem starfsfólk og kennarar kalla eftir. Borgaryfirvöld ættu að sýna þakklæti til starfsfólks í verki með því að hlusta, sinna viðhaldi og gefa út að þau séu reiðubúin til þess að bæta kjörin til muna. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Árið 2022 var mikil áskorun fyrir stjórnendur og starfsfólk leikskólanna í borginni. Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði taka ekki undir orð fulltrúa Sósalistaflokksins um að framkoma starfsfólks borgarinnar sé yfirlætisleg og að gaslýsing einkenni samskiptin. Starfsfólk leikskólaskrifstofunnar og tengdra fagsviða hefur unnið hratt og vel í mjög flóknum og fordæmalausum aðstæðum til að leysa úr þeim bráðavanda sem upp hefur komið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Því miður hefur upplifun leikskólastarfsfólks verið á þá leið sem fulltrúi Sósíalista nefndi í bókuninni. Við erum að miðla röddum og athugasemdum starfsfólksins inn í ráðið. Það er mikilvægt að það sem það hefur að segja komist til skila.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. janúar 2023, um staðfestingu starfsáætlana grunnskóla skólaárið 2022-2023 ásamt starfsáætlunum eftirtalinna grunnskóla: Árbæjarskóli, Ártúnsskóli, Borgaskóli, Dalskóli, Engjaskóli, Foldaskóli, Hamraskóli, Húsaskóli, Ingunnarskóli, Klébergsskóli, Norðlingaskóli, Rimaskóli, Selásskóli, Sæmundarskóli, Austurbæjarskóli, Barnaskóli Hjallastefnunnar, Grandaskóli, Hagaskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Landakotsskóli, Melaskóli, Skóli Ísaks Jónssonar, Suðurhlíðarskóli, Tjarnarskóli, Vesturbæjarskóli, Waldorfskólinn Sólstafir, Breiðholtsskóli, Fellaskóli, Seljaskóli, Hólabrekkuskóli, Ölduselsskóli, Álftamýrarskóli, Breiðagerðisskóli, Brúarskóli, Fossvogsskóli, Hvassaleitisskóli, Laugarnesskóli, Langholtsskóli, Klettaskóli, Réttarholtsskóli og Vogaskóli

    Samþykkt. SFS22100122

    Bára Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfsáætlanir grunnskólanna í borginni bera vott um fagmennsku og mikinn áhuga fyrir fjölbreyttu starfi og verkefnum grunnskólanna í borginni í þágu námskrár og menntastefnunnar. Gaman er sjá mismunandi áherslur skólanna. Stjórnendum og starfsfólki grunnskólanna er þakkað fyrir vel unnin störf og skýra framtíðarsýn í vinnu við starfsáætlanirnar og afburða vinnu á krefjandi tímum í þágu barnanna í borginni.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning og umræða um viðmið um stærð leikskólabygginga. 

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að stýrihópur um uppbyggingu leikskóla fái kynningu um stærð leikskóla og veiti skóla- og frístundaráði umsögn um þær upplýsingar sem fram hafa komið. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS22110228

    Anna María Benediktsdóttir, Ásdís Olga Sigurðardóttir og Ósk Soffía Valtýsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggur kynning á viðmiðum á stærðum í leikskóla þar sem fram kemur að þau viðmið sem Reykjavíkurborg notar fyrir húsnæði leikskóla er ekki í samræmi við raunstærðir, og er jafnvel töluvert undir raunstærð. Samkvæmt þeim upplýsingum má gera ráð fyrir að þau viðmið sem miðað er við núna við uppbyggingu á nýjum leikskólum séu röng. Væntanlega má þá gera ráð fyrir að kostnaðaráætlanir og fjármunir sem úthlutað er til uppbyggingar húsnæðis séu röng þar sem viðmið eru ekki í samræmi við raunstærð. Ástæða væri því til að grípa strax til ráðstafana. Þess í stað á stýrihópurinn sem í daglegu tali hefur verið nefndur „Brúum bilið “ að fá „kynningu um stærð leikskóla og veiti skóla- og frístundaráði umsögn um þær upplýsingar sem fram hafa komið“, svo sem fram kemur í málsmeðferðartillögu meirihluta fulltrúa í skóla- og frístundaráði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að stækka leikrými barna og tryggja að slík viðmið séu í reglum Reykjavíkur. 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna vill þakka fyrir góða kynningu á viðmiðum um fermetrafjölda á hvert barn við hönnun á leikskólahúsnæði. Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á byggingarreglugerðum, dvalartíma barna á leikskólum, kröfum um betri aðstöðu fyrir starfsfólk, loftræstingu og svo framvegis er ljóst að stækka þarf til muna þá fermetratölu sem miðað er við fyrir hvert barn við hönnun á leikskólahúsnæði. Brýnt er að það pláss sem reiknað er á hvert barn stækki og færist nær raunþörf og því sem miðað er við í grunnskólum og í leikskólum á Norðurlöndunum.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva óskar eftir því að unnin verði sambærileg viðmið um stærð húsnæðis frístundaheimila og félagsmiðstöðva og unnin hafa verið fyrir leikskóla.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2023 ásamt drögum að viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi grunnskóla vegna reksturs frístundaheimilis og drög að þjónustusamningi um framlag vegna barna í Suðurhlíðarskóla sem nýta frístundaheimili skólans:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að heimilt verði að framlengja þegar gerða samninga sem giltu til 10. júní 2021 um framlag til sjálfstætt starfandi grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila þeirra þannig að þeir gildi til 7. júní 2023. Við bætast því skólaárin 2021 – 2022 og 2022 – 2023 en uppgjör hefur nú þegar farið fram vegna skólaársins 2021 – 2022. Um er að ræða sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík með börn með lögheimili í Reykjavík í 1. til 4. bekk en þetta eru Barnaskóli Hjallastefnunnar, Landakotsskóli, Skóli Ísaks Jónssonar og Waldorfskólinn Sólstafir. Jafnframt er lagt til að samþykkt verði að gera samning um framlag vegna reksturs frístundaheimilis Suðurhlíðarskóla vegna barna í 1. til 4. bekk vegna skólaáranna 2021 - 2022 og 2022 -2023. Í öllum tilvikum er gerður fyrirvari um að uppfyllt séu skilyrði sem fram koma í þjónustusamningi vegna reksturs frístundaheimila og að til staðar sé viðurkenndur þjónustusamningur um rekstur grunnskóla í Reykjavík.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23010047

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. desember 2022: 

    Lagt er til að Hjallastefnunni Grunnskólum ehf. verði áfram heimilað skólastarf í nýju húsnæði skólans að Skógarhlíð 6, Reykjavík og að gildistími þjónustusamnings frá 13. maí 2019 vegna 1. til 5. bekkjar, og viðauka skv. honum, dags. 7. nóvember 2022, verði framlengdur til 31. desember 2023. Einnig er lagt til að Hjallastefnunni Grunnskólum ehf. verði veitt tímabundið leyfi, til 31. desember 2023, til kennslu í 6. og 7. bekk og að greitt verði framlag vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík til samræmis við framangreindan gildistíma þjónustusamnings til 31. desember 2023. Ekki verði gerð breyting á þjónustusamningi um 150 nemenda hámarksfjölda sem heimilt er að greiða framlag vegna. Sviðsstjóra verði falið að gera viðauka við samning aðila, dags. 13. maí 2019, sem kveður á um framangreint sem gildi til 31. desember 2023 og að heimilt sé að greiða framlag vegna allt að 150 nemenda með lögheimili í Reykjavík. Gerður er fyrirvari um að skólahúsnæði uppfylli skilyrði 20. gr., sbr. 43. gr. d. laga um grunnskóla nr. 91/2008, sbr. einnig reglugerð nr. 657/2009, um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða, með síðari breytingum og að staðfesting Menntamálastofnunar fáist.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS22080026

    Fylgigögn

  7. Lögð fram skýrsla starfshóps um framtíð skóla- og frístundastarfs við Ingunnar-, Dals- og Sæmundarskóla, dags. í september 2022. 

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að vísa máli varðandi framtíð skóla- og frístundastarfs við Ingunnar-, Dals- og Sæmundarskóla til sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs til nánari umfjöllunar, kynningar og umsagnarvinnu með grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólaráðum og foreldrafélögum sem málið varðar ásamt íbúaráði og ungmennaráði. Jafnframt verði haldnar vinnusmiðjur með börnum í 1.-10. bekk í hverfunum. 

    Samþykkt. SFS22040092

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er vilji meirihluta Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar að farsæl lausn finnist á framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Ingunnarskóla, Dalskóla og Sæmundarskóla. Um nokkurra ára skeið hefur verið ljóst að nemendaþróun í þessum þremur skólahverfum hefur verið ólík, annars vegar mikil fjölgun og hins vegar viðvarandi fækkun. Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað af hálfu starfshópsins sem leggur til þrjár sviðsmyndir út frá þeirri nemendaþróun sem unnið er útfrá. Leggja fulltrúar meirihlutans áherslu á mikilvægi samtals við skólasamfélagið varðandi slíkar breytingar. Því verður farið í ítarlegar kynningar og umsagnarvinnu á þeim sviðsmyndum sem liggja til grundvallar með nemendum í gegnum vinnusmiðjur, starfsfólki grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva, skólaráða og foreldrafélaga ásamt íbúaráði og ungmennaráði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 5. desember 2022 ásamt umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. desember 2022:

    Lagt er til að frá og með 1. janúar 2023 taki til starfa starfshópur þriggja kjörinna fulltrúa í skóla- og frístundaráði, tveir frá meirihluta og einn frá minnihluta. Verkefni starfshópsins er að tryggja að allar upplýsingar sem berast skóla- og frístundasviði um húsnæði, þar sem starfsemi fer fram á þess vegum, og telja verður óviðunandi, svo sem vegna myglu, verði eins skjótt og kostur er, komið til starfshópsins. Starfshópurinn setur sér nánari starfsreglur, m.a. með hvaða hætti upplýsingum verði miðlað til annarra fulltrúa skóla- og frístundaráðs.

    Greinargerð fylgir.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. SFS22120009

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í umsögn skóla- og frístundasviðs er vísað í ýmis ákvæði í samþykktum fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkur til að færa rök fyrir þeirri afstöðu að hafna eigi fyrirliggjandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Slík nálgun er þarflaus þar eð tillagan var pólitísk og laut að nýju verklagi sem átti að bæta upplýsingaflæði til kjörinna fulltrúa ráðsins um óviðunandi húsnæði þar sem starfsemi fer fram á þess vegum. Til viðbótar skal þess getið að skóla- og frístundasvið, þrátt fyrir margvísleg ákvæði um hið gagnstæða í áðurnefndum samþykktum, sá enga meinbugi á því að skóla- og frístundaráð hefði enga aðkomu að gerð skýrslu og öðru efni frá starfshópi um mótun stefnu Reykjavíkurborgar um aðkomu að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, sbr. t.d. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs dags. 21. nóvember 2022. Miðað við alla forsögu málsins er því harmað að tillagan nái ekki fram að ganga.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fullur hugur er hjá fulltrúum meirihlutans að skóla- og frístundaráð verði, líkt og að undanförnu, upplýst reglulega á fundum ráðsins um öll þau óvæntu viðhaldsmál sem upp kunna að koma og áhrif þeirra á starfsemina. Skóla- og frístundasvið vinnur eftir verklagsferlum í nánu samstarfi annarra fagsviða auk heilbrigðiseftirlits. Í kringum hvert tilvik koma til funda fulltrúi eignaskrifstofu, umhverfis- og skipulagssviðs, tveir frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs, einn frá heilbrigðiseftirliti, fagstjóri úr borgarmiðstöð, stjórnandi viðkomandi borgarmiðstöðvar og fulltrúi verkfræðistofu sem vinnur úttekt. Um verkefni og ábyrgð kjörinna fulltrúa skóla- og frístundaráðs segir í 4. tölulið 3. greinar samþykkta: „Fylgist með framkvæmd náms og kennslu í Reykjavík og gerir tillögur til skólastjóra og/eða borgarráðs um umbætur í skólastarfi.“ Það er ekki í verkahring kjörinna fulltrúa að annast viðhaldsmál heldur er það á borði umhverfis- og skipulagssviðs í samráði við skóla- og frístundasvið. Vilja fulltrúar meirihlutans leggja þunga áherslu á mikilvægi upplýsingagjafar þegar breytingar verða á stöðunni eða nýjar vendingar verða. 

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í leikskólum lýsa yfir vonbrigðum með að tillaga um stofnun starfshóps kjörinna fulltrúa vegna óviðunandi húsnæðis skóla- og frístundastarfs hafi ekki verið samþykkt. Það er ljóst að upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa skóla- og frístundaráðs varðandi ástand skólahúsnæðis í Reykjavík hefur ekki verið góð. Kjörnir fulltrúar eiga að standa vörð um reykvíska skóla. Það er ekki verið að tala um að kjörnir fulltrúar eigi að annast viðhaldsmál heldur sé þetta leið fyrir kjörna fulltrúa til að styðja við skólastarf í Reykjavík.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum Reykjavíkur lýsir einnig yfir vonbrigðum með að tillaga um stofnun starfshóps kjörinna fulltrúa vegna óviðunandi húsnæðis skóla- og frístundastarfs var ekki samþykkt. 
     

    Fylgigögn

  9. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar – september 2022. SFS23010029

    -    Kl. 15.38 taka Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Umtalsverðar áskoranir og sviptingar einkenna síðasta rekstrarár skóla- og frístundasviðs. Hækkun varð á verðlagi og aðföngum vegna stríðsrekstrar og heimsfaraldurs. Fyrstu níu mánuði ársins hafa verið óvenju mikil veikindaforföll sem rekja má til smita vegna heimsfaraldurs hjá miklum fjölda starfsmanna, sérstaklega eftir afléttingu á takmörkunum skólahalds. Fordæmalausar áskoranir vegna mygluvandamála og vinnu þeim tengdum kölluðu á aukin útgjöld. Stríðsrekstur í Úkraínu hefur líka haft ófyrirsjáanlega aukningu á móttöku flóttabarna í för með sér vegna ákvörðunar ríkisstjórnar að veita fólki frá Úkraínu dvalarleyfi hér. Það er því mikilvægt að samræmd móttaka flóttafólks fái framlag með menntun barna á flótta samhliða að leiðrétta þarf í eitt skipti fyrir öll þá mismunun sem viðgengst af hálfu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þar eru börn í borginni hlunnfarin um framlag til grunnskóla og framlags ætluð fjöltyngdum börnum á meðan öll önnur sveitarfélög á landinu njóta sambærilegra framlaga. Mikil greiningarvinna hefur farið fram á sviðinu til að ná hagræðingu og aðhaldi í rekstri meðal annars í nýjum samningum sem og frestun á kaupum á búnaði og tækni. Mikilvægt er síðast en ekki síst að koma á jafnvægi í rekstri leikskóla og klára útfærslu á nýju fjárhagslíkani leikskóla sem fyrst.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit yfir innkaup yfir 1 m.kr. á skóla- og frístundasviði, júlí – september 2022. SFS22100120

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2023. SFS22030261 

    Lögð fram svohljóðandi bókun Sósíalistaflokks Íslands sem færð var í trúnaðarbók 17. október 2022:

    Í drögum að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2023 er talað um “hagræðingu” í rekstri. Þetta orð kann að hljóma betur en “niðurskurður”, en niðurskurður er þetta samt, sem bitnar á þjónustu við börnin. Í umræðunni er talað um að aðilar í leik- og grunnskólum verði að stilla væntingum sínum í hóf. Það er ósanngjarnt að senda kennurum, leikskólakennurum og starfsfólki frístundaheimila þessi skilaboð eftir að hafa brunnið út í heimsfaraldri við að sinna börnunum okkar. Afleiðingar skertrar þjónustu fyrir börn mun koma til með að kosta okkur mun meiri fjármuni til lengri tíma litið heldur en að veita fullnægjandi þjónustu nú þegar. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2023 endurspeglar ábyrg viðbrögð í afar flóknum aðstæðum í efnahagsumhverfi borgarinnar og annarra sveitarfélaga. Fjárheimildir skóla- og frístundasviðs eru lækkaðar um 232,1 m.kr. á árinu 2023 vegna hagræðingar sem sviðinu er ætlað að ná og nemur 1% af launakostnaði nema hjá almennum borgarreknum grunnskólum. Covid tíminn einkenndist af víðtækum umbótum og fjárfestingum en í þenslu og verðbólgu þarf að draga verulega úr útgjöldum en á sama tíma standa vörð um grunnþjónustu fyrir börn og fjölskyldur, ekki síst þau sem eru í viðkvæmri stöðu. Innleiðing nýja grunnskólalíkansins og nýtt leikskólalíkan munu einkenna næsta starfsárið með áherslu á stefnu borgarinnar í málaflokknum með metnað, framsækni og jöfnuð sem leiðarljós í samræmi við Menntastefnu Reykjavíkurborgar. Mat fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar eins og það kemur fram í umsögn um frumvarp til fjárlaga 2023 á vangreidd framlög annars vegar til grunnskólans, nemi um 5.418 milljónum króna, og hinsvegar framlags með fjöltyngdum börnum nemi um 412 milljónum króna. Samtals um 6 milljarðar króna sem skólakerfið í borginni verður af bara á þessu ári.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2023 um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi, 10. janúar 2023. SFS22080136

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla 2011-2022, sbr. 27. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022. SFS22090036

    Frestað.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðalaldur barna við inngöngu í borgarrekna leikskóla og sjálfstætt rekna leikskóla, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. júní 2022. SFS22060091

    Frestað. 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. desember 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kostnað vegna afleiðinga niðurskurðar í skólakerfinu, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 19. desember 2022. SFS22120098

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um starfsánægjukannanir í Austurbæjarskóla, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september 2022. MSS22090102

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. desember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um meðalnámstíma barna í Birtu, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. desember 2022. MSS22120005

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um afdrif tillögu um að börn í grunnskólum komi að mótun matseðla sbr. 26. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. nóvember 2022. SFS22110037

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. janúar 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um inntöku 12 mánaða gamalla barna í leikskóla borgarinnar, sbr. 25. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. nóvember 2022. SFS22110036

    Fylgigögn

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvert er umfang, eðli og skipulag stoðþjónustu borgarrekinna leikskóla með tilliti til verkefna sem að öðru jöfnu falla undir starfssvið umsjónarmanna fasteigna? Þessi fyrirspurn er lögð fram í kjölfar samtala sem kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa átt við stjórnendur töluverðs fjölda borgarrekinna leikskóla þar sem fram hafa komið ábendingar um að of mikill tími og orka hjá þeim fari í að sinna verkefnum sem öðru jöfnu er á verksviði þeirra sem sinna störfum umsjónarmanna fasteigna.

    SFS23010089

  21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hvernig er verklagið í kringum niðurfellingu skulda hjá skóla- og frístundasviði? Þarna er um að ræða gjöld eins og reikninga fyrir skólamáltíðir og aðra gjaldtöku hjá borginni. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs fær mál sem varða niðurfellingu skulda inn á sitt borð. Sé það samþykkt er svo mælt með niðurfellingu skulda hjá skóla- og frístundasviði. Hversu oft á ári eru þessir ferlar settir í gang? Hefur verið skoðað að gera það oftar á ári? Ef svarið er nei, hvers vegna ekki? Hvað verður um skuldina þegar búið er að fella hana niður? Er foreldrið/foreldrar þá komið/n í skjól?

    SFS23010090

  22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Borgarstjórn samþykkti breytingartillögu um að byrja að fylgjast með kostnaði vegna viðburða, skemmtana og ferða á vegum grunnskóla Reykjavíkur. Er vinnan hafin? Hvenær munu þessar upplýsingar liggja fyrir? Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar viti hver kostnaðurinn er skiptur eftir skólum. 

    SFS23010091

  23. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Spara á 100 milljónir með breytingum á innkaupum á matvælum í leikskólum með útboðum en fyrirkomulag er óljóst. Í tillögum frá 28. nóvember 2022 kemur fram að matur var eldaður á staðnum í 47 leikskólum og skv. Matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018-2022 er aðkeyptur matur í 15 leikskólum. Hefur verið skoðað hvernig þessi stóra breyting á fyrirkomulagi samræmist Matarstefnunni? Hvernig verður tryggt að niðurskurður komi ekki niður á gæðum matar sem í boði er á leikskólum, næringarinnihaldi og magni? Hvernig er eftirliti með gæðum aðkeypts matar og að hann samræmist næringarfyrirmælum Landlæknisembættisins háttað? Á hve mörgum leikskólum eru starfandi matráðar? Á hve mörgum leikskólum er aðsendur matur? Eru fyrirhugaðar uppsagnir á starfsfólki vegna þessa niðurskurðar? Geta leikskólar keypt auka mat þar sem er aðsendur matur? Hefur verið skoðað hvernig áhrif aukning á aðkeyptum mat hefur á börn með matarofnæmi, óþol eða sérstakar þarfir þegar kemur að mataræði af öðrum ástæðum (t.d. trúarlegum)? Á þeim leikskólum þar sem eru starfandi matráðar hafa leikskólastjórar oft getað notað gæði matar sem sérstakan kost við ráðningu starfsfólks og matur hefur mikil áhrif á starfsánægju starfsfólks og vellíðan barna. Hafa börn verði spurð á kerfisbundinn hátt hvort þeim líka betur matur eldaður á staðnum eða aðsendur matur?

    SFS2301009

  24. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu mörg skammtíma- og langtímahjólastæði hafa verið gerð við nýlegar endurgerðir á leikskólum t.d. stækkun á Múlaborg með endurgerð á húsnæði við Ármúla og endurgert húsnæði við Kleppsveg fyrir Brákarborg. Hafa foreldrar/forráðafólk og starfsfólk gott aðgengi að yfirbyggðum hjóla- og vagnageymslum í endurgerðu leikskólahúsnæði? Hversu mörg skammtíma- og langtímahjólastæði eru við húsnæði þeirra Ævintýraborga sem tóku til starfa 2022 og þeirra sem fyrirhugað er að taki til starfa 2023? Samræmist fjöldi skammtíma- og langtímahjólastæða við leikskóla Reykjavíkur við það sem stefnt er að í hjólreiðaáætlun, Grænu plani og gildandi reglum um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík?

    SFS23010093

    -    Kl. 16.24 víkur Sandra Hlíf Ocares af fundinum. 

Fundi slitið kl. 16:25

Sabine Leskopf Ásta Björg Björgvinsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Sara Björg Sigurðardóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon Unnur Þöll Benediktsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 16. janúar 2023