Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 239

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 17. október, var haldinn 239. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.30.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Áslaug Björk Eggertsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Linda Heiðarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Una Dögg Guðmundsdóttir, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Þórarna Ólafsdóttir.

Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2022, trúnaðarmál. 

    Staðfest að drög að starfs- og fjárhagsáætlun eru í samræmi við ákvarðanir skóla- og frístundaráðs um áherslur og forgangsröðun og markaða stefnu í málaflokknum. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS22030261

    Frans Páll Sigurðsson og Guðmundur G. Guðbjörnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 13.38 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók. 

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem var á fundi borgarráðs 31. mars 2022 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. ágúst 2022: 

    Tillaga um að hætt verði að framkvæma hin svokölluðu píp-próf í íþróttakennslu. Dæmi eru um að börn hafi ofreynt sig í ákafa um að reyna að standa sig vel á svokölluðum píp-prófum í íþróttakennslu í grunnskólum. Mörg börn upplifa vanlíðan og kvíða fyrir umræddum prófum og á meðan á þeim stendur. Þá upplifa mörg börn það sem niðurlægingu þegar þau detta út úr píp-prófunum í viðurvist skólafélaga sinna. Um þetta hefur umboðsmaður barna tjáð sig, m.a. í bréfi til mennta- og barnamálaráðherra. Píp-próf eru þol- og hlaupapróf sem framkvæmd eru þannig að nemendur hlaupa fram og til baka í íþróttasal skólans þar sem tíminn milli lota er stöðugt styttur. Þeir sem ekki ná að hlaupa salinn á enda á tilskildum tíma verða að setjast niður og fylgjast með þar til aðeins einn stendur eftir. Það skal nefnt að próf þessi eru ekki notuð í öllum skólum. Þessi próf valda mörgum börnum kvíða og eru letjandi í stað hvetjandi. Börn eiga að fá tækifæri til að stunda hreyfingu á eigin forsendum. Í þessu máli verður Reykjavíkurborg og skóla- og frístundasvið að beita sér enda skal ávallt hafa hagsmuni barna að leiðarljósi í hvívetna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið hvetji skólastjórnendur og kennara í grunnskólum til að nýta það svigrúm sem aðalnámskrá grunnskóla veitir til fjölbreytilegs námsmats í skólaíþróttum. Jafnframt að minnt sé á að koma til móts við nemendur sem líður illa eða geta ekki fylgt hópnum í skólaíþróttum með því að finna þeim verkefni við hæfi. Við útfærslu og fyrirkomulag slíkra prófa sé tekið tillit til þess að próf geta haft áhrif á líðan nemenda og það svigrúm sem aðalnámskrá grunnskóla og lög um grunnskóla veita sé nýtt til fullnustu.

    Samþykkt. MSS22030283 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram skýrslan Klettaskóli: Greining á starfsemi Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu og Öskju, dags. í ágúst 2022. 

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

    Lagt er til að vísa skýrslu sem kynnt var á fundi skóla- og frístundaráðs 3. október sl. um greiningu á starfsemi Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu og Öskju til sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs til nánari kynningar fyrir hagaðilum Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu, Öskju, skólaráði og foreldrafélagi, starfsfólki, sérfræðingum Norðurmiðstöðvar og hagsmunasamtökum foreldra s.s. Þroskahjálp. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs skipi verkefnishóp sem vinnur í framhaldinu tillögur um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu og Öskju sem lagðar verði fyrir skóla- og frístundaráð. 

    Samþykkt. SFS22090172 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs: 

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að stoðdeildin Birta sem starfrækt hefur verið við Álftamýrarskóla færist til Seljaskóla frá upphafi skólaársins 2022 - 2023.   

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. SFS22100067

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning og umræða um framkvæmdir á húsnæði skóla- og frístundasviðs á árinu 2022. SFS22100078

    Ámundi V. Brynjólfsson og Rúnar Ingi Guðjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa um langt árabil bent á viðhaldsþörf grunn- og leikskólahúsnæðis í borginni án þess að brugðist hafi verið við fyrr en í óefni var komið. Enn er langt í land að hægt verði að mæta viðhaldsþörfinni því samkvæmt áætlun mun það taka fjögur til sex ár. Það er ljóst að borgin hefur sparað sér hér til tjóns sem því miður hefur komið niður á leik- og grunnskólastarfi í borginni eins og nýleg dæmi sanna, sbr. t.d. Fossvogsskóla, Hagaskóla, Kvistaborg og Grandaborg. Það er einnig fyllsta ástæða fyrir Reykjavíkurborg að bæta ferla við að koma upplýsingum á framfæri við kjörna fulltrúa, hagaðila og almenning þegar röskun verður á grunn- og leikskólastarfi vegna slæms ástands húsnæðis.

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Undanfarið hafa margir leikskólar þurft að loka vegna myglu sem haft hefur slæm áhrif á líðan og líf bæði starfsfólks og barna. Í of mörgum tilfellum hefur ástandið verið slæmt í mörg ár og þrátt fyrir að skólastjórnendur og starfsfólk hafi kallað eftir athugunum og úrlausnum t.d. vegna viðhalds þá hefur því ekki verið sinnt. Þetta er ólíðandi, við krefjumst þess að skóla- og frístundaráð skoði hvernig stendur á því að ekki hefur verið hlustað á skólastjórnendur og starfsfólk sem starfar í þessum húsnæðum og setji fram skýra verkferla sem virka svo hægt verði að komast hjá því ástandi sem er í allt of mörgum leikskólum í dag.

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundum skóla- og frístundaráðs 12. maí 2020 og 5. september 2022 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. apríl 2022:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði leggja til að gerður verði listi yfir fyrirhugaðar framkvæmdir og viðhaldsverkefni á starfstöðum skóla- og frístundaráðs sem samþykktar hafa verið á vegum borgarinnar. Yfirlitið verði sundurliðað eftir starfstöðvum og framkvæmdatíma. Þannig gæti starfsfólk skólanna, foreldrar og íbúar í nágrenni þeirra glöggvað sig á því með einföldum hætti hvaða framkvæmdir og viðhaldsverkefni eru framundan í sínu umhverfi. Gott væri að þau verkefni sem skilgreind eru sem sérstök átaksverkefni í tengslum við viðbrögð við Covid-19 ástandinu séu merkt sérstaklega.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla- og frístundaráð leggur til að gerður verði listi yfir fyrirhugaðar framkvæmdir og viðhaldsverkefni á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs sem samþykktar hafa verið á vegum borgarinnar. Yfirlitið verði sundurliðað eftir starfsstöðvum og framkvæmdatíma. Þannig gæti starfsfólk, foreldrar og íbúar í nágrenninu glöggvað sig á því með einföldum hætti hvaða framkvæmdir og viðhaldsverkefni eru framundan í þeirra umhverfi.

    Samþykkt. SFS22020273

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 30. september 2022, varðandi tillögur um uppbyggingu leikskóla í borginni. MSS22010084

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að bregðast af krafti við leikskólavandanum í borginni. Af biðlistum að dæma og þeim áætlunum sem hér eru kynntar er ljóst að enn er langt í land þar til hægt verður að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla eins lofað var fyrir síðustu kosningar. Vandinn snýr ekki aðeins að biðlistavanda, en áralöng viðhaldsþörf á skólahúsnæði leik- og grunnskóla borgarinnar hefur komið skólastarfi í uppnám víða um borg. Fjöldi foreldra í borginni standa frammi fyrir miklum vanda þar sem engin dagvistunarúrræði standa til boða fyrir börn þeirra. Ljóst er að þessi vandi verður ekki leystur með einni lausn heldur fjölbreyttum lausnum s.s. að fjölga sjálfstætt starfandi leikskólum og styrkja dagforeldrakerfið.

    -    Kl. 15.30 víkur Atli Steinn Árnason af fundinum. 
    -    Kl. 15.36 víkur Linda Heiðarsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. október 2022, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi, 11. október 2022. SFS22080136

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Staða mannaráðninga á leikskólum og á frístundaheimilum er mikið áhyggjuefni. Staðan versnar milli ára sem er mikið áhyggjuefni. Brýnt er að brugðist verði við þeirri stöðu og leitað allra leiða til að fullmanna þessa starfstaði. Nauðsynlegt er að rýna ástæður þess hvers vegna staða mannaráðninga versnar milli ára.  Sömuleiðis þyrfti að rýna ástæður mikillar starfsmannaveltu einstakra leikskóla svo hægt verði að gera viðeigandi ráðstafanir. Afleiðingar þessarar stöðu kemur m.a. fram í því að hægt gengur að stytta biðlista á leikskólum og þegar komið er fram yfir miðjan október enn langt í land að hægt verði að tryggja öllum börnum í 3. og 4. bekk vistun á frístundaheimilum.

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fækkun kennara innan leikskólans er mikill milli ára vegna álags og lélegra vinnuaðstæðna. Í dag er Félag leikskólastjórnenda að gera 4 starfslokasamninga við leikskólastjórnendur  og nú þegar búið að gera einn starfslokasamning. Félagið hefur aldrei gert eins marga starfslokasamninga við stjórnendur. Reykjavíkurborg nær ekki að ráða í allar stjórnunarstöður leikskólans, það er áhyggjuefni.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um staðsetningu skólamunasafns, sbr. 29. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022. SFS22090038

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það kemur spánskt fyrir sjónir að í svari við fyrirspurn okkar er gert ráð fyrir að skólamunasafnið eigi að fara úr húsnæði sínu í Austurbæjarskóla án undangenginnar skoðunar á því hvort og þá hvar væri hægt að koma því fyrir í samráði við Hollvinafélagið. Fram kom á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs að skóla- og frístundasvið hefði ekki með húsnæðið að gera heldur einungis innra starfið. Það vekur því enn meiri furðu að sviðið tilkynni um brotthvarf safnsins og meðhöndlun þess. Vísa hefði átt málinu til borgarráðs með beiðni um að tryggja framtíð safnsins.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um skólamunasafn í Austurbæjarskóla, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september 2022. SFS22060127

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. september 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um vöntun á leikskólaplássi og móttöku barna frá Úkraínu, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. mars 2022. MSS22030165

    Fylgigögn

  12. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS22050155

Fundi slitið kl. 16:15

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
239. Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 17. október 2022.pdf