Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 235

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 22. ágúst, var haldinn 235. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.33. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Stein Olav Romslo (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum, Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Heiðarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar, dags. í mars 2022, ásamt bréfi innri endurskoðanda, dags. 24. mars 2022.

    Hallur Símonarson, Ingunn Ólafsdóttir og Guðjón Hlynur Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. SFS22040135

    -    Kl. 13.43 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 13.45 tekur Ásta Björg Björgvinsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að fagna skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla, m.a. vegna þess að hún veitir vissa yfirsýn yfir fjárhagslega stöðu þessara stofnana. Þörf er á að árétta að margir sjálfstætt starfandi leikskólar eru tiltölulega fámennir vinnustaðir og eru þá jafnan í eigu eins eða tveggja fagaðila, svo sem fram kemur í skýrslunni (bls. 29). Með hliðsjón af eðli lítils atvinnurekstrar af þessu tagi getur það átt við málefnaleg rök að styðjast að stjórnendur afli sér tekna í formi arðs. Fyllsta ástæða er til að standa vörð um fjölbreytt rekstrarform leikskóla og engin þörf á að gera það tortryggilegt að eigendur hagi rekstrinum að þessu leyti með þeim hætti sem þeir telja heppilegast.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistum þykir óboðlegt að sjálfstætt reknir leikskólar með samninga við borgina hafi heimildir til að greiða sér út arð án skilyrða. Eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Arðgreiðslur úr einkareknum leikskólum í borginni eru engum skilyrðum háð af hálfu Reykjavíkurborgar. Þá er bent á að sviksemisáhætta sé nokkur í rekstri leikskóla, einkum sú áhætta að blanda persónulegum kostnaði eigenda við rekstur. Meginhlutverk barna hjá þessum skólum virðist vera að skila eigendum sjálfstætt rekinna leikskóla sem mestum arði. Með slíku fyrirkomulagi, eru börnin sett í annað sæti, ef skóli hefur það að leiðarljósi að skila arði. Leikskólastarf á fyrst og fremst að byggjast á þörfum barnanna. Það er ekki hægt að hámarka arðgreiðslur og halda bestu mögulegum gæðum á leikskólastarfi samtímis. Reykjavíkurborg þarf að ákveða hvort þeirra hún telur vera forgang. Að mati sósíalista eiga skólar að vera gjaldfrjálsir og reknir á félagslegum grunni, allt auka fé sem verður til á að fara beint í skólastarfið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrslan Eftirfylgni með skýrslu: Grunnskólar Reykjavíkur, úthlutun fjárhagsramma og rekstur, dags. 6. apríl 2022, ásamt bréfi innri endurskoðanda, dags. 6. apríl 2022.

    Hallur Símonarson, Ingunn Ólafsdóttir og Guðjón Hlynur Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. SFS22040039

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að eftirfylgni miðar vel með skýrslu um úthlutun fjárhagsramma og rekstur sem gefin var út í júlí 2019. Sérstaklega er því fagnað að ábendingar séu í vinnslu um að tryggja að viðhald skólahúsnæðis sé fullnægjandi. Það sama á við um þær ábendingar að skoðað verði að færa þjónustu sálfræðinga, félagsfræðinga og hegðunarráðgjafa nær skólastarfinu þannig að hægt verði að mæta slíkri þjónustu innan grunnskólanna og greina þurfi hvaða ástæður séu fyrir framúrkeyrslu grunnskóla í fjárhagsáætlun.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning og umræða um ráðningar á skóla- og frístundasviði og aðgerðir til að bæta mönnun.

    Guðlaug Gísladóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SFS22080136

    -    Kl. 15.38 víkja Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Góð mönnun á skóla- og frístundasviði er gífurlega mikilvæg. Á síðustu árum hefur þurft að auka mikið mönnun á starfsstöðvum sviðsins, bæði vegna fjölgunar á starfsstöðvum og fjölgunar barna almennt. Sérstaklega kölluðu breytingar á fjölda barna á hvern starfskraft á aukna mönnun á síðustu árum og hefur gengið vel að fylgja því eftir. Nú þegar verið er að fjölga leikskólaplássum mjög hratt er það sérstaklega mikilvægt að hægt sé að manna allar stöður í leikskólum. Til þess þarf að halda áfram að bæta starfsaðstöðu, en líka ráðast í kynningarstarf og aðgerðir til að auka áhuga ungs fólks á að starfa með börnum og sækja nám í þeim fræðum. Hér er farið yfir margar góðar aðgerðir sem er vonandi að muni skila árangri. Eins er mikilvægt hvernig við tökum á móti starfsfólki, að hægt sé að læra meðfram starfi og öðlast réttindi og mikilvægt er að nýta þær umsóknir sem berast. Fólk af erlendum uppruna sem hefur reynslu og menntun af störfum við skóla eða frístund ætti að fá tækifæri til að koma til starfa þar sem þekkingin nýtist og því gefist þá kostur á að læra íslensku um leið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fólk forðast að ræða launahækkanir og bætt kjör leikskólastarfsfólks eins og kettir í kringum heitan graut. Það er talað um að láta gamla fólkið vinna, koma með betri auglýsingaherferðir og bæta umsóknarsíðurnar, en ekki að launakjörin skipti fólk máli í atvinnuleit. 

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. desember 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2022:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að bilið milli heimsókna heilbrigðiseftirlitsins til dagforeldra sem starfa tveir saman verði annað hvort lengt eða að kostnaður við heimsóknir sem eru um 60 þúsund krónur verði annað hvort felldur niður eða lækkaður umtalsvert í því millibilsástandi sem nú ríkir. Dagforeldrar berjast í bökkum um þessar mundir. Starfsöryggi þeirra er í uppnámi og ekki hefur verið komið nægjanlega á móts við stéttina á meðan verkefnið Brúum bilið er í vinnslu og nú þegar COVID er í algleymingi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur viljað sjá átak gert til að styrkja stéttina t.d. með því að veita stofnstyrki og/eða aðstöðustyrki. Taka þarf betur utan um þessa stétt. Ekkert okkar vill vera án dagforeldra. Dagforeldrar eru um þessar mundir að finna fyrir nokkurri uppgjöf því svo virðist sem allt sé fellt sem þeir biðja um.

    Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. SFS22020270

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. ágúst 2022:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið, faðir gengst ekki við barninu eða er óþekktur. Ef einstaklingur sem bent er á að sé foreldri/faðir gengst ekki við faðerni getur tekið marga mánuði og jafnvel mörg ár að fá dómsúrskurð um slíkt og enn lengur ef viðkomandi neitar að fara í faðernispróf. Ef fleiri en einn koma til greina sem faðir barns getur tekið óratíma að fá úr því skorið. Ef ekki er um “annað” foreldri að ræða sem deilir ábyrgð s.s. tekur fæðingarorlof vegna þessara ástæðna þarf móðir að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella þ.e. þegar barnið er 9 mánaða. Lagt er til að móðir sem er í þessari stöðu fái forgang með barn sitt á leikskóla.

    Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. MSS22040062

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. apríl 2022 og minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2021:

    Lagt er til að við undirbúning og þarfagreiningu fyrir Dans- og fimleikahús í Efra Breiðholti verði teknar upp viðræður við skóla- og frístundasvið um að leik- og grunnskólar í hverfinu bjóði upp á danstengt nám sem og valáfanga í dansi á unglingastigi sem myndi auka fjölbreytni á grunnskólastiginu. Það myndi auk þess skapa samfellu í námi á þessu sviði þar sem fyrirhugað er að taka upp viðræður við Fjölbrautaskólann í Breiðholti um danstengt nám.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð hvetur til þess að við þarfagreiningu og hönnun dans- og fimleikahúss í Efra-Breiðholti verði hugað að því að aðstaðan í húsinu nýtist fyrir danskennslu leik- og grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva.

    Samþykkt. SFS22030081

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að nýr meirihluti í skóla- og frístundaráði taki jákvætt í tillögu okkar Sjálfstæðismanna sem lögð var fram í borgarráði í fyrra, 10. júní 2021, um að við þarfagreiningu fyrir dans- og fimleikahús í Efra Breiðholti verði hugað að því að húsið nýtist fyrir danskennslu leik- og grunnskóla.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf, dags. 21. júlí 2022, um samþykkt borgarráðs á erindi um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til sjálfstætt starfandi grunnskóla utan Reykjavíkur ásamt fylgiskjölum. SFS22040100

    Fylgigögn

  8. Lögð fram bréf, dags. 7. júlí 2022 og 21. júlí 2022, um samþykkt borgarráðs um breytingu á rekstrarleyfi Hjallastefnunnar vegna leikskólans Öskju. SFS22060161

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf, dags. 5. júlí 2022, um samþykkt á breytingu á framlagi til Hjallastefnunnar ehf. vegna leikskólans Öskju. SFS22060161

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2022,  við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingagjöf til dagforeldra. SFS22020150

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. ágúst 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um svartíma fyrirspurna minnihlutans kjörtímabilið 2018-2022. SFS22060096

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sérhver sveitarstjórnarmaður á rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn, sbr. 1. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Það ber því ekki vitni um vandaða og skilvirka stjórnsýslu að á síðasta kjörtímabili hafi meðalsvartími fyrirspurna verið 159 dagar og aðeins 30% fyrirspurna hafi verið svarað innan 60 daga. Einnig liggur fyrir að ekki hafi tekist að svara öllum fyrirspurnum minnihlutans fyrir lok síðasta kjörtímabils. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. ágúst 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stöðu mála varðandi aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi. SFS22060270

    Fylgigögn

  13. Lagt fram yfirlit yfir embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. ágúst 2022, níu mál. SFS22080009

    -    Kl. 15.55 víkur Frans Páll Sigurðsson af fundinum. 

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Umsögn skóla- og frístundasviðs er villandi og sýnir ekki kjarna þeirra breytinga sem ætlunin er að ná, þ.e. að ákvörðunarvald um fjölda barna í leikskólum er tekið af æðsta stjórnanda leikskóla, sem þó skal bera fulla ábyrgð á rekstrinum. Um verulega breytingu er að ræða sem vegur illilega að sjálfstæði og ábyrgð leikskólastjóra hjá Reykjavíkurborg, og er ekki rökstudd.  Hvernig má það vera að þeir einu sem hafa þekkingu og getu til að meta stöðuna eigi ekki lengur að hafa það vald sem þeim er nauðsynlegt til þess að stýra leikskóla sínum af ábyrgð. Fer virkilega vel á því að miðlæg stofnun eigi að vita og ákvarða um svo veigamikinn þátt í daglegum rekstri allra leikskóla borgarinnar? Auk þess er breytingartillagan í andstöðu við mikilvægt hlutverk leikskólastjóra skv.  5. gr. laga um leikskóla. Það vald verður trauðla tekið af leikskólastjóra án þess að það teljist brot á 5. gr. laganna. Tillaga um viðbótargrein er svo óljós að erfitt er að tjá sig um hana annað en að það er varla stætt á því að sveitastjórn verði gefið frítt spil til að ákvarða fjölda barna í leikskóla hverju sinni, án þess að í því felist að „trompa“ allar núverandi reglur.   

    Fylgigögn

  14. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS22050155

    -    Kl. 16.05 víkja Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu biðlista á frístundaheimili sundurgreint eftir skólum og hverfum borgarinnar. SFS22080190

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu ráðninga starfsmanna og tómstundafræðinga á frístundaheimili borgarinnar. SFS22080191

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um tilhögun frístundaaksturs frá frístundaheimili í íþróttir og tómstundastarf. Óskað er eftir að fá upplýsingarnar sundurgreindar eftir skólum. SFS22080192

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Leikskólanum Kvistaborg var lokað í aprílbyrjun árið 2021 vegna mygluskemmda. Enn er framkvæmdum ekki lokið við skólann og því óskað eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda og hvenær verklok séu áætluð. SFS22080193

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Afsláttur af leikskólagjöldum er veittur af ýmsum ástæðum, t.d. til einstæðra foreldra, ef foreldri er öryrki og þegar giftir foreldrar eða í sambúð eru í fullu námi. Hversu mörg börn eru skráð í afsláttarflokk í leikskóla hjá Reykjavík? SFS22080186

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hversu margir reikningar frá skóla - og frístundasviði hafa verið sendir í innheimtu, skipt eftir þjónustu (grunnskólamáltíðir, frístundir og önnur gjöld), það sem af er ári? SFS22080187