Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 231

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 24. maí, var haldinn 231. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 11.36.
Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Kolbrún Baldursdóttir (F), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Vagnsdóttir.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Rannveig Ernudóttir (P). Auk þess eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Soffía Pálsdóttir
Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að koma á formlegu samstarfi milli skóla- og frístundasviðs og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um að efla skólaheilsugæslu í grunnskólum borgarinnar. Í samstarfinu skal sérstaklega fjallað um skipulag og tilhögun skólaheilsugæslu í grunnskólum borgarinnar, samráð um innleiðingu laga um farsæld barna, heilsugæslu barna á leikskólaaldri, heilsueflingu og kynheilbrigði. Í samráðinu verði kallað eftir þátttöku fulltrúa ungmennaráða.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. 

    -    Kl. 11.48 tekur Fríða Bjarney Jónsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. SFS22050087

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna því að koma eigi á formlegu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um þá mikilvægu þjónustu sem skólahjúkrunarfræðingar sinna í grunnskólum borgarinnar. Núverandi lagaumhverfi skólaheilsugæslu og reglugerð hefur ekki verið uppfært lengi og taka því ekki mið að þeim breytingum sem hafa orðið á umgjörð skólastarfs síðustu ár. Í samráðinu skal sérstaklega fjallað um skipulag og tilhögun skólaheilsugæslu í grunnskólum borgarinnar, samráð um innleiðingu laga um farsæld barna, heilsugæslu barna á leikskólaaldri, heilsueflingu og kynheilbrigði. Mikilvægt er að ávarpa þá staðreynd að víða í borginni er viðmiðið um 650 nemendur að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings ekki uppfyllt. Í samstarfinu skal kalla eftir þátttöku fulltrúa ungmennaráða. Í lögum um grunnskóla er tekið fram að við skipulag og framkvæmd skólaheilsugæslu skal haft samráð við skólanefnd og skólastjóra. Ljóst er að vegna stærðar Reykjavíkur og fjölda grunnskóla er talið heppilegast að samráðið fari fram miðlægt milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og skóla- og frístundasviðs í samráði við skólanefndir, skólastjóra, ungmennaráð og aðra hagaðila. Það er von okkar að með því að formgera betur umgjörðina um framkvæmd skólahjúkrunar í Reykjavík, megi veita reykvískum börnum heildstæðari, samræmdari og betri þjónustu, öllum til hagsbóta.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sú tillaga sem hér liggur fyrir gengur út á að ræða með formlegum hætti um samstarf milli skóla- og frístundasviðs og heilsugæslunnar um að efla skólaheilsugæslu í grunnskólum borgarinnar. Samtal er ávallt af hinu góða. Í greinargerðinni kemur fram að margir skóla uppfylli ekki viðmið um að 650 nemendur séu að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings. Dæmi eru sögð um að rúmlega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Ef horft er til skólaþjónustunnar í grunnskólum borgarinnar er sami vandinn. Sá fjöldi stöðugilda sem þar er dugar engan veginn til að anna þörfum barna eftir fagaðstoð. Fjölga þarf stöðugildum og færa aðsetur sálfræðinga til skólanna svo hægt sé að mæta lögbundinni skyldu skóla gagnvart börnum sem þurfa aðstoð. Flokkur fólksins telur það gott að byrja á að taka til í eigin garði áður en farið er að gagnrýna órækt í garð annarra. Borgin ber ábyrgð á þeim 1800 börnum sem bíða eftir að hitta fagfólk skólaþjónustunnar. Samstarf borgarinnar við heilsugæsluna er vissulega mikilvægt og þá ekki síst að upplýsingaflæði sé markvisst. Til dæmis að skólinn fái upplýsingar um niðurstöður þroskamatslista barna úr fjögurra ára skoðun svo hægt sé að undirbúa skólagöngu barna sem þurfa á sértækum stuðningi að halda.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Tillagan er lögð fram í þeim góða anda samstarfs milli mismunandi þjónustuveitenda sem er grundvöllur verkefnis borgarinnar Betri borg fyrir börn þar sem velferðarsvið og skóla- og frístundasvið eru að vinna þéttar og betur saman í þágu barna og sömuleiðis farsældarlaganna sem leggja grunn að sambærilegu samstarfi ríkis og sveitarfélaga um þjónustu við börn. Hvort tveggja hefur það markmið að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, skerpa á því að þjónustan sé markviss og fjölga úrræðum fyrir börn sem þurfa á þjónustu að halda.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 16. maí 2022, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2022-2023.

    Samþykkt. 

    Guðrún Edda Bentsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22050086

    Fylgigögn

  3. Lögð fram tillaga úthlutunarnefnda styrkja úr B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs 2022, dags. 16. maí 2022, ásamt yfirliti yfir umsóknir um styrki úr B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs 2022 og reglur um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs vegna styrkja í B hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, Látum draumana rætast.

    Tillaga úthlutunarnefndar þróunar- og nýsköpunarstyrkja skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2022:

    1)    Umsækjandi: Grunnskólar í hverfi Austurmiðstöðvar. Heiti verkefnis: Saman komumst við lengra. Kr. 5.000.000.

    2)    Umsækjandi: Engjaborg, Funaborg, Hólaborg og Sunnufold og Háskóli Íslands. Heiti verkefnis: Þátttaka barna í leikskólastarfi. Kr. 4.000.000.

    3)    Umsækjandi: Grandaborg, Gullborg og Ægisborg í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Leikur, nám og gleði. Kr. 4.000.000.

    4)    Umsækjandi: Ævintýraborg Eggertsgötu, Gullborg, Laugasól, Vinagerði og Ævintýraborg Nauthólsvegi í samstarfi við UNICEF og Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Réttindi barna á Íslandi. Kr. 4.000.000

    5)    Umsækjandi: Leikskólar í hverfi Austurmiðstöðvar í samstarfi við Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Innra mat í leikskóla í Austri – samtal og ígrundun. Kr. 4.000.000.

    6)    Umsækjandi: Frístundamiðstöðin Tjörnin í samstarfi við Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna 78 og Tjarnarinnar, ráðgjafaþroskaþjálfa, Jafnréttisskóla Reykjavíkur og Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Kynfræðsluspjöld. Kr. 4.000.000.

    7)    Umsækjandi: Grunnskólar í Grafarvogi og Kjalarnesi í samstarfi við Háskóla Íslands og Íslenskuþorpið. Heiti verkefnis: Vertu velkomin í hverfið okkar – Viltu tala íslensku við mig? Kr. 4.000.000.

    8)    Umsækjandi: Grunnskólar í Breiðholti, skóla- og frístundaþjónusta í Breiðholti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Jigsaw Learning. Heiti verkefnis: Innleiðing á Gagnvirka samstarfslíkaninu í grunnskólum í Breiðholti. Kr. 4.000.000.

    9)    Umsækjandi: Grandaborg, Kvistaborg, Garðaborg og Austurborg í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Námssamfélag starfsmanna leikskóla undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga. Kr. 4.000.000.

    10)    Umsækjandi: Frístundamiðstöðvar og félagsmiðstöðvar í Reykjavík, í samstarfi við Samtökin 78, fagskrifstofu frístundamála, Þekkingarmiðstöðvar í málefnum fatlaðra barna og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Heiti verkefnis: Öll sem eitt. Kr. 4.000.000.

    11)    Umsækjandi: Félagsmiðstöðin Vígyn í samstarfi við frístundamiðstöðina Brúnna, félagsmiðstöðvarnar Fjörgyn, Sigyn, Fellið, Plútó, Fókus, Holtið, Ársel og Höllina, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og foreldrafélag Víkurskóla. Heiti verkefnis: Heildræn fræðslunálgun í félagsmiðstöðvastarfi. Kr. 4.000.000.

    12)    Umsækjandi: Frístundamiðstöðin Kringlumýri, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og leikskólar í Laugarnesi og skólahljómsveit Austurbæjar. Heiti verkefnis: Öll í sama liði. Kr. 5.000.000.

    Samþykkt. 

    Guðrún Edda Bentsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Hanna Halldóra Leifsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22020205

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Menntastefna Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í árslok 2018 hefur verið mikil lyftistöng fyrir metnaðarfulla skólaþróun í borginni enda hefur fjármagn til skólaþróunar tífaldast frá því sem áður var. Á hverju ári renna 200 milljónir beint til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva til innleiðingar á menntastefnunni, þar af dreifast 150 milljónir beint til hverrar starfsstöðvar og 50 milljónir í stærri samstarfsverkefni þar sem tvær eða fleiri starfsstöðvar vinna saman. Í ár fá 12 slík samstarfsverkefni styrk þar af 5 samstarfsverkefni leikskóla, 3 samstarfsverkefni grunnskóla og 3 samstarfsverkefni frístundastarfs. Þá fær 1 samstarfsverkefni leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í tilteknu hverfi styrk að þessu sinni. Þessi verkefni eru af mjög fjölbreyttum toga og er 4-5 milljónum króna varið til hvers verkefnis um sig. Meðal viðfangsefna eru að þróa frekari leiðir til að efla leikinn sem meginstefnu leikskóla, styrkja innra mat og umbætur í grunnskólum og leikskólum, efla lærdómssamfélög starfsfólks og stjórnenda, taka á vanlíðan barna og ungmenna, innleiða Barnasáttmála SÞ, fræða unglinga um kynheilbrigði og svo mætti áfram telja.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrslan Foreldrakönnun vegna sumarstarfs frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva 2021: Reykjavík, heildarskýrsla, dags. í mars 2022.

    Ásgeir Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22050088

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Almenn ánægja foreldra með sumarstarf frístundaheimila og félagsmiðstöðva er staðfest í viðhorfskönnun meðal foreldra sem kynnt var í ráðinu í dag. Þar kemur fram að yfir 94% foreldra voru ánægðir með sumarfrístundina á síðasta ári, samanborið við rúm 91% árið 2018. Í könnuninni kemur fram að foreldrum þótti dagskrá frístundastarfsins fjölbreytt og áhugaverð, samskipti barna og foreldra við starfsfólk voru afar jákvæð, könnun endurspeglar mjög jákvætt viðhorf og upplifun barna af frístundastarfinu, upplýsingamiðlun til foreldra var góð og kostnaður ásættanlegur. Þá koma fram gagnlegar upplýsingar um fyrirkomulag skráningar og upplýsingamiðlun sem nýtast við að gera gott starf enn betra í framtíðinni.

    Fylgigögn

  5. Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 243/2021.

    Ebba Schram og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. SFS22050089

  6. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. apríl 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leikskóla við Þorragötu. SFS22020152

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. maí 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um langtímaveikindi starfsfólks á skóla- og frístundasviði. SFS22020243

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í svari um langtímaveikindi starfsfólks á skóla- og frístundasviði að 745 starfsmenn voru skráðir í langtímaveikindi einhvern tíma á árinu. Veikindahlutfall var 6,8%. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort rekja megi hluta af þessum veikindum til mikils álags í vinnu, bágrar vinnuaðstæðna eða óánægju og vansæld af einhverjum ástæðum. Er ekki rétt að kanna þetta með kerfisbundnum hætti? Hér er um umtalsverðan kostnað að ræða sem hleypur á milljónum. Mest um vert er auðvitað að kanna hvort skóla- og frístundasvið geti gert einhverjar úrbætur hvort heldur er að létta á álagi eða laga vinnuaðstæður. Launamálin eru síðan annar kapítuli.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. maí 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um upphæð annars rekstrarkostnaðar frá 2009 sem ekki hefur verið verðbættur. SFS22020240

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf tónlistarskóla og leik- og grunnskóla. SFS22020259

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um samstarf tónlistarskóla og leik- og grunnskóla, hvaða skóla og hverjir eru í samstarfi við tónlistarskóla. Í svari segir að a.m.k. 20 leikskólar eru í samstarfi við tónlistarskóla. A.m.k. 15 grunnskólar eru í formlegu samstarfi við tónlistarskóla sem eru með aðstöðu í grunnskólanum. 21 grunnskóli er ekki í samstarfi við tónlistarskóla. Í a.m.k. 16 grunnskólum eru nemendur í tónlistarnámi á skólatíma. Í 6 grunnskólum er enginn nemandi í tónlistarnámi á skólatíma. 16 skólastjórar vissu ekki af samstarfi eða treystu sér ekki til að nefna fjölda nemenda sem væru í tónlistarnámi á skólatíma á vegum tónlistarskóla. Flokkur fólksins veltir því upp hverjar séu skýringar á þessu og hvers er það að ákveða um slíkt samstarf? Skólans eða skóla- og frístundasviðs? Hér er alveg ljóst að börnum er mismunað, þau sitja ekki við sama borð eftir því hvaða leikskóla/skóla þau sækja. Þetta er áhyggjuefni. Það er allt of mikið um svona hipsumhaps fyrirkomulag þegar kemur að tækifærum fyrir börn í Reykjavíkurborg. Í öllu tilliti þarf skóla- og frístundasvið að gæta þess að börn fái sömu tækifæri til tómstunda án tillits til hvar þau búa.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. mars 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um stöðu íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku. SFS22030136

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill ítreka að á meðan niðurstaða er ekki fengin í mál borgarinnar gegn Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn mega aldrei líða fyrir deilumál af neins konar tagi. Það er sannarlega með öllu óþolandi að Reykjavík nýtur ekki framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvorki til jöfnunar kostnaðar á rekstri grunnskóla né framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál vegna stærðar sinnar. Þetta er ekki síður óréttlátt þar sem langflestir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku búa í Reykjavík. Flokkur fólksins lagði fram þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að endurskoða löggjöf og regluverk með það að markmiði að öll börn njóti réttlætis óháð búsetu. Það er ekki hægt að una við að eitt sveitarfélag sé fyrirfram útilokað frá úthlutunum jöfnunarframlaga vegna reksturs grunnskóla einungis vegna stærðar. Jöfnunarframlög á að greiða eftir þörfum, samkvæmt hlutlægum reiknireglum sem byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Á meðan þarf að fylgjast grannt með þróun mála og hækka framlagið eftir því sem nauðsyn kallar svo börnin fái þá kennslu sem til þarf til að bæta árangur þeirra.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurgreiðslur vegna daggæslu. SFS22020262

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um málefni dagforeldra m.a. vegna Covid aðstæðna. Starfsöryggi dagforeldra hefur allt þetta kjörtímabil og kannski mörg ár þar áður verið í mikilli óvissu, líkt og starfað sé í rússíbana. Einhverjir náðu að fylla pláss sín í haust en aðrir hafa átt erfitt með það og það vegna þess að leikskólar eru að taka inn á öllum tímum. Covid gerði illt verra en ekki má setja allt sem miður fer í borginni á reikning faraldursins. Óskað var upplýsinga um niðurgreiðslur vegna daggæslu. Í svari má sjá að Reykjavík er langt á eftir öðrum bæjarfélögum sem hafa hækkað niðurgreiðslur verulega. Dæmi sem tekið var nýlega í aðsendri grein sýndi dæmi um hjón sem greiða í Reykjavík 82 þúsund á meðan hjón greiða í Mosfellsbæ um 30 þúsund. Þarna munar um minna ekki síst fyrir foreldra sem hafa lítið milli handanna og berjast í bökkum.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um mötuneytismál í grunnskólum Reykjavíkur. SFS22020239

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um rekstrarform/fyrirkomulag mötuneyta og í hversu mörgum skólum börn skammta sér sjálf. Einnig var spurt um fjölbreytni matar og í hversu mörgum skólum börn vigti leifar sínar? Loks var spurt um hversu miklum mat er hent í skólum? Í svari segir að flestir skólar séu með eigið eldhús eða 84%. Flokkur fólksins hefur þó hvergi almennilega séð að sá valkostur sé hagkvæmari en að kaupa mat frá fyrirtækjum að undangengnu útboði. Nemendur skammta sér sjálfir í um helming skólanna. Flokkur fólksins telur að ganga þurfi lengra og að allir nemendur án tillits til skóla eigi að fá tækifæri til að skammta sér sjálfir mat á diskinn og sýna rannsóknir að með því er dregið úr matarsóun. Fjölbreytni í mat virðist vera í lagi og er því fagnað að lagst er gegn sykruðum súpum og unnum kjötvörum. Fram kemur að ekki eru til nákvæmar tölur um matarsóun þar sem tölur innihalda einnig annan úrgang. Varðandi vigtun kemur á óvart hversu fáir skólar vigta leifar eða aðeins 11% grunnskóla vigta alltaf en um helmingur skóla vigta stundum leifar frá mötuneyti. Hér þyrfti að vera meiri nákvæmni og stöðugleiki svo hægt sé að gera alvöru samanburð. Engar magntölur liggja fyrir eftir því sem segir í svari.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. maí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um forgangsröðun fjármuna í skólum. SFS22020250

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um ráðningar vegna veikindaforfalla. SFS22030135

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um ráðningar talmeinafræðinga og annarra ráðgjafa í skólastarfi. SFS22020246

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráða þarf mun fleiri talmeinafræðinga og setja þessi mál í forgang. Börn sem glíma við talmeinavanda þurfa þjónustu sérfræðinga, ekki bara „ráðgjöf“. Ef horft er til þeirra barna sem glíma við málþroskavanda þá hafa rannsóknir sýnt að börn með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á þetta reynir sérstaklega þegar komið er inn á unglingsárin ef barn hefur ekki fengið nauðsynlega aðstoð með málþroskavandann í leik- og grunnskóla. Unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræðilega, vitsmuna-, félags- og tilfinningalega. Flokkur fólksins hefur barist fyrir því í fjögur ár að ráðnir verðir fleiri fagaðilar, sálfræðingar og talmeinafræðingar til skólaþjónustunnar og að fagaðilar hafi aðsetur út í skólunum. Hér þarf að taka á og hætta að setja börn ávallt á bið. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggir m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með væg frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga enda telst það hluti af þeirra menntun.

    Fylgigögn

  16. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS22050155

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið horfi af alvöru á verkefnið Kveikjum neistann með það að markmiði að innleiða það. Þetta verkefni er að sýna góðan árangur þó ungt sé. Kjarninn er sá í Kveikjum neistann að lagt er upp með í 1. bekk að leggja áherslu á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni. Inn á milli er staldrað við til að fullvissa sig um að helst allir nemendur séu búnir að ná öllum bókstöfum og hljóðum. Í upphafi vetrar er lögð fyrir bókstafa- og hljóðakönnun til að sjá hvaða bókstafi og hljóð nemendur kunna við upphaf skólagöngu. Aftur er gerð könnun í janúar og loks í maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er teiknaður upp með myndrænum hætti þar sem litir eru notaðir til að merkja þá bókstafi og hljóð sem börnin þekkja. Mörg börn eru farin að lesa orð á þessum tíma og stuttar setningar. Það eru mörg stolt börnin sem fara út í sumarið eftir að hafa stundað nám með árangri sem þessum. Miðja máls og læsis er að gera frábæra hluti en þarna er verkefni sem vert er að horfa til því það er alltaf hægt að gera betur.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS22050159

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 13:20

Skúli Helgason Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
231._fundargerd_skola-_og_fristundarads_fra_24._mai_2022.pdf