Skóla- og frístundaráð
Ár 2022, 22. mars, var haldinn 228. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32.
Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Ólafur Kr. Guðmundsson (D), Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri og Eygló Traustadóttir.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Alexandra Briem (P) og Jórunn Pála Jónasdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Guðrún Sigtryggsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á heilsuvernd barna í grunnskólum. SFS22030242
- Kl. 13.02 tekur Magnús Jónsson sæti á fundinum með rafrænum hætti.
- Kl. 13:11 tekur Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sæti á fundinum.
Ása Sjöfn Lórensdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Fulltrúarnir þakka fyrir greinargóða kynningu á heilsuvernd barna í skólum. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar sinna mikilvægri þjónustu við nemendur í grunnskólum borgarinnar en þeir starfa á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem er á ábyrgð ríkisins. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007 er tiltekið að þjónusta skólahjúkrunarfræðinga sé á ábyrgð heilsugæslunnar á hverjum stað, en þó er mikilvægt að eiga gott samstarf við skólana um þessa mikilvægu þjónustu. Ljóst er af tölum frá mars 2019 að viðmiðum um nemendafjölda að baki hverju stöðugildi skólahjúkrunarfræðings er viða ábótavant. Þó staðan hafi batnað er ljóst að fjölmargir skólar í Reykjavík uppfylla ekki viðmið um að 650 nemendur séu að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings en dæmi eru um að ríflega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Auk þess virðist vera algengt að skólahjúkrunarfræðingar séu kallaðir til annarra starfa innan heilsugæslunnar vegna álagstoppa. Fulltrúarnir ítreka þá tillögu sem samþykkt var í skóla- og frístundaráði þann 22. september 2020 um mikilvægi þess að skóla- og frístundasvið veki athygli Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins á þessari stöðu svo grípa megi til aðgerða til úrbóta.
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 22. desember 2021, þar sem tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs auk minnisblaðs sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. febrúar 2022:
Skóla- og frístundasviði er falið að útbúa aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Hún verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að skýrir verkferlar séu til staðar um hvernig skuli bregðast við rasískum atvikum svo það lendi ekki á börnum eða foreldrum þeirra að bregðast við kynþáttafordómum og kynþáttahyggju í skólaumhverfinu. Þegar slík atvik eiga sér stað er mikilvægt að skólasamfélagið bregðist skjótt og vel við. Aðgerðaáætlunin þarf einnig að vera sýnileg. Þar sem ekki er hægt að sjá fyrir um öll atvik sem geta átt sér stað eða undir hvaða kringumstæðum rasismi getur komið fram, er mikilvægt að samtal og fræðsla fari reglulega fram og að úrbætur verði gerðar á því sem þarf að laga. Aðgerðaáætlunin fari yfir skóla- og frístundastarf og starf í félagsmiðstöðvum og tryggi að ekkert í starfinu sé útilokandi fyrir börn og ungmenni með dökkan húðlit. Aðgerðir tryggi að allt starfsfólk og stjórnendur fái reglulega fræðslu. Lagt er til að skóla- og frístundasvið leiti til aðila með reynslu á þessu sviði, t.a.m. aktívista og þeirra sem hafa séð um fræðslu á þessu sviði, og óski eftir liðsinni þeirra við mótun aðgerðaáætlunarinnar. Þau sem komi að vinnunni fái greidda þóknun fyrir starfsframlag sitt. Kostnaðarauki verði samþykktur með viðauka við fjárhagsáætlun. SFS22020156
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Skóla- og frístundasviði er falið að vinna aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Hún verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að skýrir verkferlar séu til staðar um hvernig skuli bregðast við rasískum atvikum svo það lendi ekki á börnum eða foreldrum þeirra að bregðast við kynþáttafordómum og kynþáttahyggju í skólaumhverfinu. Aðgerðaáætlunin nái til skóla- og frístundastarfs í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og tryggi að ekkert í starfinu sé útilokandi fyrir börn og ungmenni sem t.d. eru með dökkan húðlit. Tryggt verði að allt starfsfólk og stjórnendur fái reglulega fræðslu um þessi málefni. Lagt er til að skóla- og frístundasvið leiti til aðila sem hafa beitt sér í þessum málaflokki, s.s. til aðgerðasinna eins og Antirasistarnir og umsjónarmanna fræðsluverkefnisins „Hvaðan ertu?“ og óski eftir liðsinni þeirra við mótun aðgerðaáætlunarinnar. Lagt er til að stofnaður verði starfshópur um aðgerðir gegn rasisma sem hafi m.a. það hlutverk að: 1. Vinna að verklagsreglum um viðbrögð við rasískum ummælum, skrifum og/eða hegðun hjá börnum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi. 2. Koma með tillögur að fræðsluefni og verkfærum fyrir öll skólastig og í frístundastarfi fyrir börn og ungmenni. 3. Koma með tillögur að fræðsluefni fyrir starfsfólk skóla- og frístundasviðs um hugtakanotkun, orðræðu og fræðslu um fjölbreyttan hóp fólks með ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn. Starfshópurinn verði skipaður verkefnastjóra fjölmenningar í grunnskóla- og frístundastarfi, verkefnastjóra fjölmenningar í leikskólastarfi, fulltrúa úr leikskóla, fulltrúa úr grunnskóla og fulltrúa úr frístundastarfi, fulltrúa frá alþjóðateymi velferðarsviðs, fulltrúa frá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna. Starfshópnum er ætlað að funda í 8–10 skipti og hafa samráð við mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, fjölmenningarráð og ofbeldisvarnarnefnd. Stefnt verði að því að starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. júlí 2022.
Samþykkt.
- Kl. 13:40 tekur Ólafur Brynjar Bjarkason sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Ráðið leggur áherslu á að unnið sé kröftuglega gegn kynþáttahyggju og fordómum í öllu skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Lagt er til að skipaður verði starfshópur til að vinna að verklagsreglum um viðbrögð við rasískum ummælum, skrifum og/eða hegðun hjá börnum og starfsfólki í skóla og frístundastarfi sem nýtt verði þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu líkt og kemur fram í upphaflegri tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins. Auk verklagsreglna verði komið með tillögur að fræðsluefni og verkfærum fyrir öll skólastig og í frístundastarfi fyrir börn og ungmenni auk þess að koma með tillögur að fræðsluefni fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum um hugtakanotkun, orðræðu og fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins og ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn. Tekið er undir efni tillögunnar að fræðsla og samtal sé mikilvægt til að tryggja úrbætur og öruggt skólaumhverfi fyrir öll börn. Fulltrúarnir þakka góða tillögu frá borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og farsælu samstarfi við málshefjanda um breytingatillöguna. Það er sérstakt ánægjuefni að ráðið stendur einhuga að breytingatillögunni og samþykkt hennar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til skóla- og frístundaráðs af borgarstjórn þann 20. október 2020 ásamt minnisblaði sviðstjóra, dags. 23. febrúar 2022:
Borgarstjórn samþykkir að gerð verði úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í grunn- og leikskólum borgarinnar. Skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að úttekt í samstarfi við fræðimenn á þessu sviði og koma í framhaldi með tillögur til úrbóta. Í þessari vinnu verði ný menntastefna Reykjavíkurborgar höfð til hliðsjónar en þar segir að góð læsisfærni á íslensku sé „lykill að þekkingaröflun og skilningi á umhverfi og samfélagi.“
Greinargerð fylgir.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS22020235.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. mars 2022, um Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík 2021 ásamt lista yfir verðlaunahafa. SFS22020021
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. mars 2022 , um skólavist barna á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2021-2022. SFS22020247
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Fulltrúarnir þakka fyrir þá miklu vinnu sem hefur verið unnin á sviðinu við að greina og skrá skólavist barna á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2021-2022. Fulltrúarnir vona einnig að sú vinna ráðuneytisins við að koma upp miðlægu skráningarkerfi fyrir grunnskólanemendur verði að veruleika sem fyrst. Mun slíkt m.a nýtast við innleiðingu á lögum um velferð og farsæld barna.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um börn með lögheimili í Reykjavík sem ekki er vitað hvar stunda nám. SFS22020247
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði um endurgreiðslu vegna skólamáltíða. MSS22020129
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra varðandi fjölda leikskólastjóra og fleira. SFS22020129
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um innleiðingu verkefnisins Kveikjum neistann. MSS22020239
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi málefni Fossvogsskóla. SFS22040192
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. mars 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um stöðu innleiðingar rafrænna lausna. SFS22020123
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs.
-
Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvað eru margir starfsmenn í námsleyfi í leikskólum á vegum Reykjavíkurborgar?
1. Heildartala þeirra sem hafa fengið námsleyfi frá því að þau voru tekinn upp aftur? 2. Hversu margir leiðbeinendur í B.ed. námi eru í námsleyfi? 3. Hversu margir leikskólakennarar eru í námsleyfi vegna meistaranáms? 4. Hversu margir með aðra háskólamenntun eru í námsleyfi vegna kennsluréttinda? 5. Hversu mikið fjármagn er sett í þetta verkefni og hvað margir starfsmenn leikskóla eiga kost á námsleyfi?
Fundi slitið klukkan 14:47
Skúli Helgason Alexandra Briem
Sara Björg Sigurðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
228._fundargerd_skola-_og_fristundarads_fra_22._mars_2022.pdf