Skóla- og frístundaráð
Ár 2022, 8. mars, var haldinn 226. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.36.
Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Kolbrún Baldursdóttir (D), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Geir Finnsson (C). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Eygló Traustadóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 1. mars 2022, um tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla ásamt fylgiskjölum. MSS22010084
- Kl. 12.54 tekur Jökull Jónsson sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Hrönn Pétursdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ný endurskoðuð aðgerðaáætlun stýrihópsins Brúum bilið felur í sér að 14 nýir leikskólar opna í borginni á næstu árum þar af 8 á þessu ári. Þar er um að ræða fjórar Ævintýraborgir og þar fyrir utan leikskóla í Bríetartúni, Ármúla, á Kleppsvegi og í Safamýri. Þar fyrir utan rísa 6 viðbyggingar við leikskólana Hof, Kvistaborg, Sæborg, Funaborg og Laugasól auk þess sem nýjar leikskóladeildir opna við 8 leikskóla og fjölgað er plássum í sjálfstætt starfandi leikskólum. Byggt er á nýjum spám um barnafjölda sem brugðist er við með því að taka í notkun tvöfalt fleiri ný leikskólapláss en gert var ráð fyrir 2018. Þau verða alls 1680 þar af 850 á þessu ári og það þýðir að byrjað verður að taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla borgarinnar í haust, einu ári fyrr en áætlað var þegar aðgerðaáætlunin var samþykkt í lok árs 2018.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar góða kynningu. Mikilvægt er að draga fram hið fyrsta nákvæmar upplýsingar um hvenær umræddir leikskólar opna. Þannig að þeir foreldrar sem enn bíða eftir plássum fyrir börn sín fái sem nákvæmastar dagsetningar um hvenær börn þeirra fái inni. Sömuleiðis er öflug upplýsingagjöf mikilvæg fyrir stjórnendur á leikskólunum til gera farið strax í að undirbúa aðgerðir til að ráða starfsfólk, sem er ein helsta þungamiðja átaksins að fjölga leikskólaplássum. Áréttað er mikilvægi þess að sem allra nákvæmastar upplýsingar liggi fyrir sem allra fyrst.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Minnt er á að eitt af helstu kosningaloforðum Samfylkingarinnar 2018 var að taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri á leikskóla borgarinnar. Á kjörtímabilinu hefur ríkt mikil óvissa í þessum málum sem hefur haft neikvæð áhrif á foreldra og börn. Nú á að spýta í lófana og er því fagnað mjög. Lögð er fram endurskoðuð heildaráætlun um fjölgun leikskólarýma til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sá vandi sem ríkt hefur í þessum málum, sem er skortur á leikskólarýmum er rakið m.a. til erfiðleika með að spá fyrir um mannfjölda. Það er sérkennilegt hvað illa hefur gengið að gera nákvæmari spá t.d. áætlun um hvað mörg börn muni fæðast. Það hlýtur að vera hægt að gera nákvæmari spá um það. Í endurskoðaðri heildaráætlun er ekki orði minnst á dagforeldra og hvernig sú stétt kemur inn í þessar tillögur. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega hverju skrefi sem er í átt að bættari hag barna. Ekki er um neinn hugmyndafræðilegan ágreining að ræða en fulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir biðlista, seinagang verkefnisins og mannekluvanda leikskólanna. Almennt líður börnum vel í leikskólum sínum og er starfsfólk að vinna þar frábært starf.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að samningi um samstarf menntavísindasviðs Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um starfsþróun, rannsóknir og nýsköpun í menntun og drög að samningi sömu aðila um stofnun og rekstur nýsköpunarstofu auk minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. mars 2022. SFS22030087
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrsla og tillögur starfshóps um stöðu kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, dags. í nóvember 2021, ásamt kostnaðarmati, ódags.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Tillögum starfshóps um stöðu kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi er vísað til fjárhagsáætlunargerðar.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá. SFS22020189
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
- Kl. 14:30 víkur Fríða Bjarney Jónsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru mörg tækifæri í kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar, en Reykjavíkurborg hefur til margra ára verið í samstarfi við Samtökin 78 um fræðslu til fagfólks og nemenda í skólum borgarinnar og tillögur stýrihópsins snúa að því að bæta við stöðugildum í jafnréttisskóla Reykjavíkur og á mannréttinda- og lýðræðisskriftstofu, ásamt því að kanna líðan hinsegin nemenda, tilraunaverkefni um kynja- og hinseginfræðslu í leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð í einu hverfi, og að málefni hinsegin félagsmiðstöðvar heyri alfarið undir skóla- og frístundasvið. Hér er um að ræða mjög góðar tillögur og starfshópnum er þakkað fyrir góða vinnu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Börn og ungmenni eru að biðja um meiri fræðslu t.d. hinseginfræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum. Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram í þessari bókun Viðauka 2 bls. 27 sem er tillaga frá Flokki fólksins um „að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi“. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Nú hefur komið í ljós sbr. upplýsingar frá starfshópnum að námsefni og innleiðing (t.d. samþætting og skipulag) á kynja– og hinseginfræði er af skornum skammti sem er með öllu óásættanlegt. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum, þannig að kynja- og hinseginfræði snerti á öllu starfi með börnum og ungmennum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir mikilvægi þess að auka kynja- og hinseginfræðslu í frístundastarfi borgarinnar. Mikið og gott starf er nú þegar unnið í málaflokknum á þeim vettvangi. Ástæða er til skoða aðrar útfærslur af aukinni kynningu en hér eru lagðar fram, s.s. að fela félagasamtökum sem láta sig þessi mál varða og hafa náð árangri, um kynningar og fræðslustarfið, í stað þess að fjölga stöðugildum innan borgarkerfisins. Sambærileg fjárveiting til umræddra félagasamtaka gæti skilað betri árangri og stutt um leið betur við það mikilvæga starf sem þar er unnið.
Fylgigögn
-
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í grunn- og leikskólum borgarinnar.
Frestað.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um aðgerðaráætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar.
Frestað.
- Kl. 15:14 víkur Jökull Jónsson af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram stefna Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. mars 2022 og umsögnum um stefnuna.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS22020312
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Stefna Reykjavíkur um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf tekur mið af menntastefnu borgarinnar og Græna planinu en í henni birtast viðmið fyrir nýbyggingar, viðbyggingar og breytingar á húsnæði fyrir leikskóla, frístundaheimili, grunnskóla, skólahljómsveitir og félagsmiðstöðvar. Sérstök áhersla er lögð á breiða þátttöku hagsmunaaðila í vinnunni. Það er sérstakt fagnaðarefni og til fyrirmyndar hve mikil rækt er lögð við að ávarpa hvernig laga þurfi húsnæði skóla og frístundastarfs að hinum fimm hæfniþáttum menntastefnunnar: félagsfærni, sjálfseflingu, heilbrigði, læsi og sköpun.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins er umhugað um aðgengi og þátttöku fatlaðra barna og foreldra í skólastarfi enda eitt af baráttumálum Flokks fólksins. Í stefnu borgarinnar er hvergi lýst hvernig gera á ráð fyrir fötluðu fólki i skólastarfi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er víða í skólastarfinu ekki virtur. Tekið er undir ábendingu um að í drögum er tilvist fatlaðra barna í skólastarfi dregin saman í kafla aftarlega í skjalinu sem kallaður er Menntun án aðgreiningar – allir með. Það er einfaldlega ekki þannig að „allir séu með“ í „Skóla Reykjavíkur án aðgreiningar“. Margir tjá sig um algilda hönnun. Algild hönnun á að vera fyrir alla, á að tryggja sjálfstæði og reisn allra. Að breyta byggingum yfir í “algilda hönnun” er einfaldlega erfitt og varla hægt í mörgu grónu skólahúsnæði sem er löngu sprungið vegna fjölgunar nemenda. Nefna má þó Múlaborg en þar tókst ágætlega að gera breytingar sem stuðla að samnýtingu og samkennslu. Verulegar áhyggjur eru af framtíð skólamála í hverfum þar sem þétting er mest og mikil. Sama má segja um húsnæði fyrir íþróttakennslu eins og t.d. í Laugardal. Í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla sem hafa sérstöðu vegna skiptingu árganga eru þrengsl óviðunandi og ekki sést glitta í lausnir.
Fylgigögn
-
Lagður fram samningur um samstarf og verkaskiptingu milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs vegna innleiðingar og framkvæmdar verkefnisins Betri borg fyrir börn, dags. 3. mars 2022. SFS22020219
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagður er fram samningur um samstarf og verkaskiptingu milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs vegna verkefnisins Betri borg fyrir börn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi tvö svið ættu að sameinast í eitt enda skarast verkefni þeirra mikið. Það er t.d. sérkennilegt að sálfræðingar skóla heyri undir velferðarsvið en ekki skóla- og frístundasvið. Þessi svið hafa lengst af ekki unnið mikið saman en eru engu að síður að vasast í sömu málum með sömu einstaklingana, foreldra og nemendur. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til í borgarráði 30. janúar 2020 að sálfræðingar í skólum færðust undir skóla- og frístundarsvið. Með því kæmust sálfræðingarnir í betri tengingu við skólasamfélagið. Tillögunni var hafnað. Skólasálfræðingar heyra undir þjónustumiðstöðvar borgarinnar þar sem þeir hafa aðsetur. Í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019, kom fram skýrt ákall skólastjórnenda að sálfræðingar kæmu inn í skólana. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Í raun má segja að það séu engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólana. Með því að sálfræðingar heyri undir skóla- og frístundasvið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt og veitir sannarlega ekki af því í ljósi langs biðlista til skólasálfræðinga.Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur skilgreint fjögur þjónustusvæði en þau voru áður fimm. Markmið þessa samnings er að kveða skýrt á um verkaskiptingu og samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs til að stuðla að farsælli innleiðingu á verkefninu Betri borg fyrir börn í Reykjavík. Betri borg fyrir börn miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi og færa hana í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins. Fulltrúi sósíalista styður slíka nálgun en leggur áherslu á að nægt fjármagn sé til staðar svo að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Mikilvægt er að þjónustan sé í nærumhverfi barnanna, líkt og að sálfræðingar og talmeinafræðingar séu inni í skólum og að skólastarfsfólk fái þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta veitt sem bestu starfsaðstæður fyrir sig og börnin.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. febrúar 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda leikskólakennara í apríl 2021. SFS22020188
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag þegar trúnaðarmenn starfsfólks senda inn ábendingar og kvartanir. SFS22020155
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mikilvægar spurningar. Spurt er hvernig er verklagið og aðgerðaráætlunin varðandi það þegar trúnaðarmenn starfsfólks á leik- og grunnskólum senda inn ábendingar eða kvartanir inn til skóla- og frístundasviðs og hvernig er unnið úr þeim? Hér gæti verið um að ræða alls konar kvartanir. Kvörtun yfir níðingsskap, einelti, áreitni þ.m.t. kynferðislega áreitni eða ofbeldi af hvers lags tagi. Í svari segir að ekki sé neitt formlegt verklag til og finnst fulltrúa Flokks fólksins það mikið áhyggjuefni. Sérfræðingar á skrifstofu skóla- og frístundasviðs rannsaki hins vegar ábendingar og kvartanir sem berast. Fulltrúi Flokks fólksins spyr nú hverjir þessir „sérfræðingar“ eru, eru það fagmenn sem lært hafa til verka að rannsaka mál af þessu tagi? Eins skyldi maður halda að fjarlægð sé ekki næg ef sérfræðingar sviðsins eru að vasast í þessum málum. Ættu málin ekki að fara til mannauðsstjóra og/eða til teymis innan borgarinnar sem ekki væri með tengsl við skólasamfélagið? Með þessu fyrirkomulagi er óhæði rannsakandans alls ekki tryggt. “Sérfræðingur á sviðinu” gæti vel verið innvinklaður í mál eða kann að hafa sterkar skoðanir á því.Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs.
- Kl. 15.52 víkur Albína Hulda Pálsdóttir af fundinum.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Langstærstur meirihluti innflytjenda er undir viðmiði þegar kemur að íslenskukunnáttu. Fram hefur komið að í janúar voru 36% 15 ára nemenda undir lágmarksviðmiði í lestri. Niðurstöður PISA- könnunarinnar fyrir 2018 sýndu að einn þriðji hluti drengja hafði ekki lágmarksfærni í lesskilningi og helmingur nemenda af erlendum uppruna. Þá voru 92.5% innflytjenda á rauðu eða gulu viðmiði þegar kemur að íslenskukunnáttu og þurfa aðstoð með íslenskunámið. Stór hópur af þessum börnum eru fædd á Íslandi. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig Reykjavíkurborg og skóla- og frístundasvið hyggist bregðast við þessu? Reykjavík nýtur ekki framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvorki til jöfnunar kostnaðar á rekstri grunnskóla né framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál vegna stærðar sinnar. Samt búa langflestir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða löggjöf og regluverk með það að markmiði að öll börn njóti sanngirni og réttlætis hvar svo sem þau búa. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í málið þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn mega aldrei líða fyrir deilumál af þessu tagi.
SFS22030136
-
Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í tengslum við skýrslu stýrihópsins um bætt vinnuumhverfi og nýliðun í leikskólum sem skilaði af sér 2018 var ákveðið að borgin myndi skoða og bæta hljóðvist í þeim leikskólum þar sem hljóðvist væri bágborin. Hversu margir skólar voru skoðaðir og hvað er búið að bregðast við í mörgum skólum/deildum t.d. ef í 4 deilda skóla er slæm hljóðvist er búið að bæta allan skólann eða aðeins hluta?
SFS22030132
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um fjölda leikskóladeilda hjá leikskólum Reykjavíkur í febrúar 2022, hversu margir leikskólakennarar starfa á leikskólum Reykjavíkur í febrúar 2022 og hversu margar deildir eru með starfandi leikskólakennara. Hversu margir starfsmenn eru á leikskólum Reykjavíkur?
SFS22030134
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hafa skólar borgarinnar leyfi til að ráða inn stöðugildi t.d. í stuðning þegar að starfsfólk sem var ráðið inn til að sinna þeim störfum hefur verið fjarverandi til lengdar vegna leyfa og veikinda? Fer það eftir fjárveitingum til leik- og grunnskóla hverju sinni?
SFS22030135
Fundi slitið klukkan 16:00
Skúli Helgason Alexandra Briem
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
226._fundargerd_skola-_og_fristundarads_fra_8._mars_2022.pdf