Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 222

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 11. janúar, var haldinn 222. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fjarfundi kl. 12.32.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Skúli Helgason formaður (S), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Rannveig Ernudóttir (P), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum, Jökull Jónsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Jóhanna Marteinsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um stöðu mála í skóla- og frístundastarfi varðandi Covid-19. SFS2021080065

    Þórólfur Guðnason, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir og Jón Viðar Matthíasson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikið álag er á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs um þessar mundir út af mikilli fjölgun COVID smita í samfélaginu. Mikil vinna fer í endurskipulagningu daglegra starfa út af sóttvarnarfyrirmælum stjórnvalda og stjórnendur þurfa að verja miklum tíma í smitrakningu með sínu fólki og jafnvel ítrekað á stuttum tíma. Skóla- og frístundaráð vill koma á framfæri miklum þökkum til starfsfólks sviðsins sem sýnt hefur mikil þolgæði, úthald og útsjónarsemi við afar krefjandi aðstæður undanfarin tvö ár. Foreldrum er sömuleiðis þakkað fyrir þolinmæði og skilning á því að grípa hefur þurft til tímabundinna breytinga á tilhögun skóla- og frístundastarfs vegna þessara óvenjulegu aðstæðna. Við horfum fram á bjartari tíð með hækkandi sól reynslunni ríkari þar sem við höfum fengið staðfestingu á þeim mikla styrk sem býr í skólasamfélaginu í Reykjavík.

  2. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs. 

    -    Kl. 13:38 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

  3. Lögð fram skýrslan Fagleg staða stjórnenda í skóla- og frístundastarfi, skýrsla og tillögur um umbætur ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. desember 2021, um innleiðingaráætlun og kostnaðarmat vegna tillagna í skýrslu starfshóps um faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir eftirfarandi 16 tillögur úr skýrslunni Fagleg staða stjórnenda í skóla- og frístundastarfi. Tillögurnar eru ýmist án kostnaðarauka eða rúmast innan fjárheimilda skóla- og frístundasviðs. 

    1.    Skýra verkaskiptingu, umboð og ábyrgð á milli leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra samhliða auknu starfshlutfalli aðstoðarleikskólastjóra.
    2.    Starfsþróun með áherslu á faglega leiðtoga, farsæla stjórnendur og heilsusamlegt vinnuumhverfi. 
    3.    Stöðugildi rekstrarstjóra í öllum grunnskólum.
    4.    Skilgreint fjárframlag til stjórnunar sérkennslu/ stoðþjónustu í grunnskólum.
    5.    Fjölga deildarstjórum með leikskólakennaramenntun.
    6.    Bæta húsnæði, aðbúnað og starfsaðstæður í skóla- og frístundastarfi.
    7.    Betri nýting á húsnæði SFS fyrir fjölbreytta þjónustu við borgarbúa.
    8.    Skýrari ferlar og yfirfærsla verkefna.
    9.    Námskeið fyrir nýliða og stjórnendur. Móta og skýra verkferla vegna mannauðsmála o.fl.
    10.    Stofna gæðateymi vegna innleiðingar Hlöðunnar.
    11.    Innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn í alla borgarhluta.
    12.    Skapa vettvang sem tryggir að þekking og lærdómur flæði á milli starfseininga.
    13.    Skilgreina launaferil sem lýsir ábyrgð, umfangi og hlutverki ólíkra aðila sem tengjast launavinnslu starfsmanna. Tryggja að hugbúnaður og tæknilegt umhverfi styðji við skilvirkni í ferlinu og sé notendavænt.
    14.    Gæðamál og ferlar í mannauðsþjónustu.
    15.    Afleysingastofa.
    16.    Aukin samhæfing þjónustu SFS og VEL vegna hegðunarvanda barna og unglinga.
    Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tveimur eftirfarandi tillögum úr skýrslunni Fagleg staða stjórnenda í skóla- og frístundastarfi til fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2023. 

    1.    Aukið stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra til að leiða störf ófaglærðra sem starfa við uppeldi og menntun barna.
    2.    Fleiri fagmenntaðir starfsmenn í heilsársstörfum á vettvangi frístundastarfsins.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018010139

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ánægjulegt er að sjá að skýrsla starfshóps um faglega stöðu stjórnenda fær almennt jákvæðar umsagnir frá fagfélögum í málaflokknum. Umsagnaraðilar lýsa yfir almennri ánægju með skýrsluna og þær tillögur um umbætur sem þar eru settar fram. Jafnframt er tekið fram að tillögur rími vel við ný farsældarlög, markmið séu metnaðarfull sem skili sér í betra náms- og starfsumhverfi fyrir börn í skóla- og frístundastarfi og áhugavert sé að færa skóla- og frístundaþjónustu í nærumhverfið. Nú liggur fyrir skýr innleiðingaráætlun sem skóla- og frístundaráð afgreiðir nú fyrir sitt leyti þar sem 16 tillögur af 18 eru samþykktar en tveimur vísað áfram til fjárhagsáætlunargerðar þar sem þær kalla á viðbótarfjármagn.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnafulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva vill lýsa yfir ánægju með þær tillögur um að ráða frístundafræðinga til starfa, einn á hvert frístundaheimili og félagsmiðstöð, á næstu árum. Þetta er mikilvægt skref til að auka enn frekar faglegt frístundastarf og samstarf grunnskóla og frístundastarfs um velferð barna og unglinga. Fleiri fagmenntaðir starfsmenn í frístundastarfi er í anda Betri borg fyrir börn verkefnisins og mun auka á fjölbreytilegri nálgun í stuðningi við börn og unglinga í Reykjavík. Með það í huga erum við vongóð um að þessi tillaga verði samþykkt af Reykjavíkurborg.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Takk fyrir góða kynningu á tillögu verkefnastjórnar um faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi og innleiðingaráætlun. Stærstu málin í dag eru að fjölga leikskólakennurum og auka stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra sem er mjög aðkallandi verkefni og þolir illa bið. Reykjavíkurborg ætti að sinna fasteignaumsjón í skólum með sama hætti á öllum skólastigum, en þar hallar verulega á leikskólastigið og er einn af álagþáttum stjórnenda leikskóla sem vert er að draga úr.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. janúar 2022, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 6. janúar 2022. SFS2021080305

    -    Kl. 14:40 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýjar tölur um stöðu ráðninga sýna að búið er að ráða í 96% stöðugilda í leikskólum, 99% í grunnskólum og rúm 92% í frístundastarfinu. Verið er að fjölga verulega störfum í leikskólum svo þar er viðfangsefnið umfangsmeira en áður. Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að sviðið styðji vel við bakið á leikskólastjórnendum varðandi ráðningarmálin eins og kveðið er á um í samþykkt borgarráðs frá síðasta fundi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Illa gengur að manna leikskóla Reykjavíkurborgar. Mönnunarvandinn gerir að verkum að illa gengur að stytta biðlista eftir leikskólaplássum í Reykjavík. Jafnframt hafa tafir á opnun nýrra leikskóla komið fjölmörgum fjölskyldum í þrönga stöðu. Þó nokkrar fjölskyldur fengu boð um leikskólavist á svokölluðum ævintýraborgum, sem hefjast átti í október en mun nú tefjast um minnst hálft ár. Þar hafa áhrif tafir á afhendingu húsnæðis, tafir á afgreiðslu skipulags og mönnunarvandi. Betur þarf að standa að leikskólamálum í Reykjavík svo stytta megi biðlista og tryggja öllum börnum leikskólapláss eða daggæslu að loknu fæðingarorlofi.

    -    Kl. 15.01 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. janúar 2022, um tillögur um aukinn stuðning við leikskóla varðandi ráðningar- og mannauðsmál. SFS2022010033 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil fjölgun leikskólaplássa á næstunni kallar eðlilega á fjölgun starfsfólks og er áætlað að ráða 250-300 nýja starfsmenn á næstu 3-5 árum. Mikilvægt er að styðja sérstaklega við stjórnendur leikskóla og samþykkti borgarráð á síðasta fundi að verja 20 milljónum króna í stuðningsaðgerðir vegna ráðninga í leikskólum. Ráðið verður í nýjar stöður mannauðsráðgjafa sem munu helga sig ráðningum í leikskólum. Hugmynd um launaauka til starfsmanna sem hafa milligöngu um ráðningar verður lögð til hliðar en áhersla lögð á aðrar aðgerðir sem útfærðar verða í samráði við stjórnendur og fagfélög. Þá verður unnið áfram með hugmyndir um eflingu íslenskukennslu, bætta móttöku nýliða o.s.frv. Reykjavíkurborg hefur lagt mikla áherslu á aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskóla og varið til þess meira en 4 milljörðum króna á undanförnum árum, m.a. í að fjölga starfsfólki á elstu deildum til að minnka álag, lengja undirbúningstíma, auka fjármagn í fagleg starf, bæta húsakost, fækka börnum á hvern starfsmann og síðast en ekki síst bæta kjör starfsfólks. Áfram verður eitt brýnasta verkefni leikskólamála á Íslandi að fjölga leikskólakennurum og halda þarf áfram samstarfi ríkis, borgar, sveitarfélaga og háskóla um aðgerðir sem hefur skilað góðum árangri við að fjölga kennaranemum undanfarin ár.

    Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mjög alvarleg staða blasir við leikskólum borgarinnar þegar á eftir að ráða í 55,6 stöðugildi miðað við grunnstöðugildi á deildum, sérkennslu og stjórnun auk þess á eftir að ráða í samtals 12,3 stöðugildi vegna afleysinga t.d. varðandi undirbúning og veikindaafleysingu. Það er ljóst að ástandið hefur áhrif á faglegt starf leikskólanna. Ekki er endalaust hægt að krefjast þess að starfsfólk hlaupi hraðar. Það þarf að hlú að því starfsfólki sem er í leikskólanum og bæta hag þeirra og vinnuaðstæður. Skóla- og frístundaráð hefur síðan 2018 unnið að því að bæta aðstæður í leikskólum en það hefur ekki verið nóg. Skóla- og frístundaráð verður að leggja metnað sinn í að bæta hag starfsmanna og þannig vera í forystu annarra sveitarfélaga.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mjög erfitt er að full manna leikskóla og hefur svo verið um langa hríð. Með fjölgun og stækkun leikskóla og áætlun um að taka sífellt yngri börn í þá þjónustu má gera ráð fyrir að vandinn verði viðvarandi næstu ár. Við fögnum aðgerðum sem Reykjavíkurborg ætlar nú að fara í, en leggjum áherslu á að rót vandans er fyrst og fremst launakjör og starfsaðstæður sem við búum við og enn er töluvert langt í land samanborið við jafningja innan skólakerfisins. Við fordæmum þá „Vertu með“, hugmynd, sem nú hefur sem betur verið fallið frá, þar sem umbuna átti starfsmönnum fyrir að laða að vini og ættingja til starfa. Illa hugsuð framkvæmd og alger skortur á samráði og samtali við stjórnendur leikskólans, og sýnir bara vanvirðingu og úrelt viðhorf til leikskólans þrátt fyrir fögur orð um annað, fyrir utan lágan bónus. Nær hefði verið að leita eftir leikskólakennurum og hækka bónusinn. Við þurfum leikskólakennara til að mynda stöðugleika, minnka starfsmannaveltu og tryggja gæðastarf og það gerum við með betri launakjörum og bættum starfsaðstæðum. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 16. júní 2021, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. desember 2021: 

    Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundaráði að gera sund að valfagi á unglingastigi að því gefnu að nemandi hafi staðist stöðupróf um grunnhæfniviðmið skólasunds. Lagt er til að breytingin taki gildi í byrjun skólaárs 2021-2022.

    Greinargerð fylgir. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að frá og með skólaárinu 2022 – 2023 verði nemendum í 8. bekk kynntur sá möguleiki að þeir geti haft val um að ljúka hæfniviðmiðum skólasunds í 9. bekk. Þeim nemendum sem ljúka hæfniviðmiðum skólasunds í 9. bekk verði boðið upp á að dýpka þekkingu sína og færni í öðrum greinum skólaíþrótta og jafnframt tryggt að nemendur fái þann tíma til hreyfingar sem viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár segir til um.
    Greinargerð fylgir.

    -    Kl. 15:45 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur þar sæti með rafrænum hætti. 

    Samþykkt. SFS2021060159

    Elísabet Lára Gunnarsdóttir, Hulda Valdís Valdimarsdóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn fagnar tillögu ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um að skólasund verði gert að valfagi á unglingastigi í grunnskólum. Fulltrúar meirihlutans telja mikilvægt að auka valfrelsi ungmenna þar sem því er við komið og mikilvægt að leggja áherslu á fög og hreyfingu sem liggja á áhugasviði hvers og eins. Þessi tillaga er líka til þess fallin að vinna gegn kvíða ungmenna og vanlíðan sem getur fylgt því að sækja skólasund með tilheyrandi sundklæðnaði og sturtuferðum. Tillagan þjóni því vel markmiðum um bætta geðheilsu ungmenna í Reykjavík. Meirihlutinn tekur undir meginefni tillögunnar með þeirri breytingartillögu að frá og með næsta skólaári verði nemendum í 8. bekk kynntur sá möguleiki að þeir geti haft val um að ljúka hæfniviðmiðum skólasunds í 9. bekk í stað 10. bekkjar. Þeim nemendum sem ljúki hæfniviðmiðum skólasunds í 9. bekk verði boðið upp á að dýpka þekkingu sína og færni í öðrum greinum skólaíþrótta og jafnframt tryggt að nemendur fái þann tíma til hreyfingar sem viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár segir til um. Samhliða auknu vali nemenda er mikilvægt að vinna áfram með jákvæða líkamsímynd barna og stuðla að aukinni vellíðan þeirra í skólastarfi.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum varðandi skólastarf Fossvogsskóla. SFS2021090310 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leka í Fossvogsskóla. SFS2020010179

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. desember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um sviðsmyndir um framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi. SFS2021110073

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:13

Skúli Helgason Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
222._fundargerd_skola-_og_fristundarads_fra_11._januar_2022.pdf