Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 218

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 9. nóvember, var haldinn 218. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34.

Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Unnur Lárusdóttir.

Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum, Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. nóvember 2021, um breytingu á skipurit skóla- og frístundasviðs samhliða innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn. Greinargerð fylgir. 

    -    Kl. 12:48 taka Magnús Þór Jónsson og Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2021110029

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýtt skipurit skóla- og frístundasviðs er afurð mikillar vinnu sem byggist á reynslu af tilraunaverkefninu Betri borg fyrir börn og tengist markmiðum menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. Með þessari breytingu er stigið stórt skref í átt til dreifstýringar og styrkingar þjónustustigs í borgarhlutunum með því að skrifstofa skóla- og frístundasviðs verður í hverjum borgarhluta, þar sem fagleg ábyrgð á starfi leikskóla, grunnskóla, skólahljómsveita, frístundaheimila og félagsmiðstöðva í borgarhlutanum verður staðsett. Þannig er bein þjónusta við börn og foreldra færð inn í samfélagið, nær vettvangi barnsins og jafnframt styrkist samráð við þjónustu velferðarsviðs sem veitt er gegnum þjónustumiðstöðvarnar, en með þessari aðgreiningu verður ábyrgð á verkefnum, fjármunum og mannauði skýrari, sem einfaldar boðleiðir og auðveldar nánara samstarf milli skólaþjónustu og félagsþjónustu á vegum velferðarsviðs.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025 kemur fram að frístundamiðstöðvar verði starfræktar í hverjum borgarhluta og sjái um félags- og tómstundastarf sem hafi forvarnar-, menntunar- og afþreyingargildi í samræmi við Starfsskrá frístundamiðstöðva SFS. Frístundamiðstöðvar verði vettvangur fyrir fólkið í borgarhlutanum, með aðstöðu fyrir menningarviðburði, námskeið, smiðjur, fræðslu og hverfishátíðir og aðstöðu fyrir ungmenni, svo fátt eitt sé talið. Þótt færa eigi stjórnun frístundamiðstöðva inn á skrifstofu skóla- og frístundaþjónustu samkvæmt nýju skipuriti er mikilvægt að huga að hlutverki frístundamiðstöðva út frá starfsemi sem bundin er stefnu um frístundaþjónustu til ársins 2025. Samkvæmt reglum um þjónustu frístundaheimila og félagsmiðstöðva hafa frístundamiðstöðvarnar margþætt hlutverk, s.s. að bjóða upp á dagskrá fyrir alla fjölskylduna í vetrarfríum og halda utan um ýmsa skráningu, auk þess sem frístundamiðstöðvarnar halda utan um ungmennaráð hverfisins. Lögð var fyrir skóla- og frístundaráð skýrsla starfshóps um frekari innleiðingu frístundastefnu. Þar er lögð fram tillaga um stofnun stýrihóps sem hefði það hlutverk að skilgreina hlutverk frístundamiðstöðva í borgarhlutum í samræmi við Græna planið, hverfisskipulagið, menntastefnuna, frístundastefnuna og áherslur á lýðheilsu og félagsauð. Óskað er eftir því að tekið verð mið af ofangreindum hlutverkum frístundamiðstöðva við innleiðingu á verkefninu Betri borg fyrir börn.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram Almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkurborgar 2022-2024 ásamt Menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. SFS2021090143

    Almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkurborgar 2022-2024 samþykktar. Vísað til borgarráðs. 

    Hjörtur Ágústsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framtíðarhópur í menntamálum sem ráðið skipaði fyrir rúmu ári hefur unnið að tillögum að almennum aðgerðum menntastefnunnar fyrir næstu þrjú ár og liggja þær nú fyrir til afgreiðslu. Aðgerðirnar skiptast í tíu liði sem saman mynda ákveðna forgangsröðun varðandi innleiðingu menntastefnunnar á komandi árum. Þar er jöfnum höndum að finna ný áhersluatriði eins og loftslagsmál, sem stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir en líka heilbrigði með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál sem verða enn veigameiri þáttur í kjölfar heimsfaraldursins sem hefur að vonum aukið andlegt og líkamlegt álag á bæði börn og starfsfólk. Tillagan um almennu aðgerðirnar var send til umsagnar í öll foreldra- og skólaráð borgarinnar sem og til helstu haghafa um formlega og óformlega menntun í Reykjavíkurborg. Á grunni þessara aðgerða verður lögð fram útfærð aðgerðaráætlun með skilgreindum verkþáttum sem verður um leið kjarninn í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2022 - 2024. Aðgerðirnar eru tengdar beint við áherslur stefnunnar og eru liður í innleiðingu menntastefnunnar sem gildir til 2030.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. nóvember 2021, um viðurkenningar skóla- og frístundaráðs fyrir meistaraverkefni í kennslu- og tómstundafræðum ásamt umsögnum um verkefni. 

    Lagt er til að eftirfarandi verkefni hljóti viðurkenningu skóla- og frístundaráðs 2021:

    1)    Aðalheiður Stefánsdóttir fyrir verkefnið Helstu verkefni leikskólastjóra í Reykjavík.
    2)    Anna Gréta Guðmundsdóttir fyrir verkefnið Minningarbrot úr leikskóla – Viðhorf barna til uppeldisfræðilegrar skráninga úr leikskólanámi þeirra.
    3)    Auður Valdimarsdóttir fyrir verkefnið Allir á sömu vegferð.
    4)    Ásrún Ágústsdóttir fyrir verkefnið Textíll líðandi stundar: Samræður í textílmennt um mikilvæg álitamál í samtímanum.
    5)    Elín Freyja Eggertsdóttir fyrir verkefnið Af einu orði fæðast fleiri – Áhrif markvissrar hlustunar á íslenskan orðaforða tvítyngds leikskólabarns.
    6)    Hanna Gréta Pálsdóttir fyrir verkefnið Snertifletir náttúruvísinda og myndlistar – Þverfaglegt námskeið í grunnskóla.
    7)    Íunn Eir Gunnarsdóttir fyrir verkefnið Félagsfærnifjör - Kennslubók fyrir fagfólk.
    8)    Jóna Guðrún Jónsdóttir fyrir verkefnið Að vekja listina í sjálfum sér – Ávinningur nemenda af þátttöku í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar.
    9)    Kristján Sturla Bjarnason fyrir verkefnið Gildi þess að efla félags- og tilfinningahæfni nemenda (SEL) fyrir skólastarf á Íslandi.
    10)    Sandra Ómarsdóttir fyrir verkefnið Möguleikar dansins í kennslu – Danskennsla í grunnskólum landsins.
    11)    Sandra Óskarsdóttir fyrir verkefnið Betur sjá augu en auga – Áskoranir við innleiðingu teymiskennslu í unglingaskóla.
    12)    Sóley Bjarnadóttir fyrir verkefnið Stærðfræðihugsun barna – Bekkjarmenning og stærðfræðileg orðræða.

    Samþykkt. SFS2021050223 

    Bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla-og frístundaráð hefur veitt árlega viðurkenningu fyrir meistaraverkefni í leikskólakennara-, grunnskólakennara- og tómstundafræðum sem eru unnin á vettvangi skóla- og frístundastarfs Reykjavíkurborgar. Veittar eru tólf viðurkenningar að þessu sinni og eru verðlaun fyrir hvert verkefni 250.000 kr. Markmið verðlaunanna er að auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum í borginni og stuðla að aukinni nýliðun og fjölbreyttum rannsóknum á sviðinu. Skóla- og frístundaráð óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2021, umsögn skólaráðs Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, dags. 24. júní 2021, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. október 2021 og þjónustusamningi vegna Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, dags. 13. maí 2019: 

    Lagt er til að Hjallastefnunni Grunnskólum ehf. verði veitt leyfi til kennslu í 6. og 7. bekk skólans tímabundið skólaárið 2021 til 2022 og að greitt verði framlag vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík í 6. og 7. bekk frá upphafi skólaársins þann 23. ágúst 2021 til loka skólaársins sem verður þann 8. júní 2022. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við samning aðila, dags. 13. maí 2019, sem kveður á um framangreint og að heimilt sé að greiða framlag vegna allt að 153 nemenda með lögheimili í Reykjavík. Gerður er fyrirvari um að skólahúsnæði uppfylli skilyrði 20. gr., sbr. 43. gr. d. laga um grunnskóla nr. 91/2008, sbr. einnig reglugerð nr. 657/2009, um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða, með síðari breytingum og að staðfesting Menntamálastofnunar fáist.

    Greinargerð fylgir. 
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021030075 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna tillögunni enda hefur Barnaskóli Hjallastefnunnar gefið góða raun fyrir nemendur sína og fjölskyldur þeirra í borginni. Ítreka fulltrúarnir þá afstöðu Sjálfstæðisflokks að styðja eigi betur við sjálfstætt starfandi skóla í borginni, þannig að jöfn opinber framlög fylgi öllum börnum í skólakerfinu, óháð rekstrarformi skólanna sem þau sækja. Þannig gætu sjálfstætt starfandi skólar látið hjá líða að innheimta skólagjöld svo öll börn ættu jöfn tækifæri á að sækja skólana, óháð efnahag foreldra. Jafnframt skora fulltrúar Sjálfstæðisflokks á meirihlutaflokkana að klára lóðamál með Hjallastefnunni, ásamt tilheyrandi stuðningi við flutning skólahúsnæðis, án tafar svo skólahald geti haldið áfram óraskað næstu ár.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík til borgarráðs, dags. 1. nóvember 2021, um stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf ásamt drögum að stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf verði vísað til umsagnar skólaráða grunnskóla, foreldraráða leikskóla, foreldrafélaga leikskóla og grunnskóla, stjórnenda í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar, Samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík, mannréttinda- og lýðræðisráðs, aðgengisnefndar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

    Samþykkt. SFS2021110030

    -    Kl. 14:15 tekur Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir sæti á fundinum. 

    -    Kl. 14:20 víkur Helgi Grímsson af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stefna Reykjavíkur um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf er í anda Menntastefnu borgarinnar. Þá tekur stefnan mið af Græna planinu sem er framtíðarsýn um borgarsamfélag sem einkennist af heilnæmu umhverfi, jöfnum tækifærum og öflugu atvinnulífi sem gengur ekki á náttúruauðlindir. Í stefnunni eru sett fram viðmið fyrir nýbyggingar, viðbyggingar og breytingar á húsnæði fyrir leikskóla, frístundaheimili, grunnskóla, skólahljómsveitir og félagsmiðstöðvar og lögð áhersla á breiða þátttöku hagsmunaaðila í undirbúningi slíkrar vinnu. Sérstök athygli er vakin á því að stefnan ávarpar hvernig laga þurfi húsnæði skóla og frístundastarfs að hinum fimm hæfniþáttum menntastefnunnar: félagsfærni, sjálfseflingu, heilbrigðu, læsi og sköpun og er það til fyrirmyndar.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram skýrslan Stoðþjónusta við nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar, úttekt gerð fyrir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar á skipulagi og framkvæmd stoðþjónustu í 9 grunnskólum Reykjavíkurborgar skólaárið 2019-2020, dags. í janúar 2021. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

    Lagt er til að skýrslunni Stoðþjónusta við nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar verði vísað til verkefnisstjórnar Betri borg fyrir börn með það að markmiði að tillögur sem fram koma í skýrslunni nýtist til umbóta í sérkennslu og stuðningi í starfi grunnskóla. 

    Samþykkt. SFS2021050063

    Hrund Logadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúarnir þakka fyrir ítarlega úttekt á stoðþjónustu við nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Í henni eru fjölmargar mikilvægar ábendingar. Bent er á mikilvægi þess að fram fari markviss hugmyndafræðivinna um stefnu skólanna vegna stoðþjónustu og að sameiginlegur skilningur og sátt ríki um stoðþjónustu innan skólans. Því þarf að tryggja aðkomu starfsfólks að skipulagi hennar. Sérstaklega þarf að bregðast við skýrum vísbendingum skýrslunnar um að ekki sé nægilega markvisst mat á árangri af inngripum og sérkennslu fyrir nemendur. Það er grundvallaratriði að slíkar mælingar og mat fari fram svo tryggja megi að sú mikla vinna og fjármagn sem varið er til sérkennslu og stuðnings skili sér í skýrum framförum þeirra barna sem njóta stuðningsins. Í lok skýrslunnar koma fram mikilvægar áherslur til að tryggja skilvirka og öfluga stoðþjónustu í grunnskólum borgarinnar. Þess ber að geta að mörg af þeim atriðum sem hér eru nefnd eru ávörpuð í nýju úthlutunarlíkani grunnskóla, og í aðgerðaáætlun um innleiðingu menntastefnu, og verður spennandi að sjá þau koma til framkvæmdar. Skýrslunni er vísað til verkefnisstjórnar Betri borg fyrir börn með það að markmiði að þær tillögur sem fram koma í skýrslunni nýtist til umbóta í stuðningsþjónustu grunnskóla.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skýrslan fer vel yfir þær áskoranir sem málaflokkurinn býr við og hversu víðtækur snertiflötur stoðþjónustu er við ólíka þætti skólastarfs. Horfa þarf til þess að komið sé til móts við óskir kennara um viðbrögð „á gólfinu“ þegar kemur að stoðþjónustu í þeirra bekkjum og hópum. Stjórnir Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur lögðu fyrir allnokkru fram hugmyndir félaganna sem miðast að því að áherslur um þörf á stoðþjónustu verði ekki í formi greininga heldur þeirra aðgerða sem sérfræðingar skólana, kennararnir, telja að myndu nýtast hverjum nemanda sem best. Þær áherslur er að finna í nærumhverfi nemandans þar sem kennarar leiða lausnamiðað samtal við aðra sérfræðinga sem og forráðamenn og meta árangur af vinnunni jafnóðum. Gæði kennslu er best gætt af skólunum sjálfum og þeim sem þar vinna, að sjálfsögðu með stuðningi og aðstoð sérfræðinga sem kalla má til ef þarf.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs til borgarráðs, dags. 2. nóvember 2021, varðandi ástandsúttektir á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar ásamt ástandsúttekt á fasteignum skóla- og frístundasviðs og bréfi borgarstjórans í Reykjavík til borgarráðs, dags. 3. nóvember 2021, um viðhaldsátak á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar. SFS2021110064

    Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð samþykkti sl. fimmtudag tillögu borgarstjóra um að ráðist verði í myndarlegt átak til að hraða og auka viðhaldsframkvæmdir á skólahúsnæði í borginni. Á árunum eftir hrun var borginni nauðugur sá kostur vegna fjárskorts að spara í viðhaldi og leggja frekar áherslu á að verja störf og standa gegn fjöldauppsögnum og atvinnuleysi. Síðar var áherslan lögð á að hækka laun starfsfólks í skólastarfi. Undanfarin 4-5 ár hefur fjármagn til viðhalds markvisst verið aukið, nánar tiltekið þrefaldað frá árinu 2017. Nú liggur fyrir heildarúttekt á ástandi skólamannvirkja og á grundvelli hennar verður nú ráðist í viðamikið viðhaldsátak í skólabyggingum sem alls eru 136 talsins til að hraða framkvæmdum og vinna upp mögru árin frá því eftir hrun og fram til 2017 þegar ekki var fjárhagslegt svigrúm til að mæta viðhaldsþörf að fullu. Varið verður til átaksins 25-30 milljörðum á næstu 5-7 árum eða 4-5 milljörðum króna á hverju ári. Þessar upphæðir ná aðeins til viðhalds, ekki til nýrra viðbygginga eða nýrra skólabygginga, sem einnig verður ráðist í.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að loks sé meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að horfast í augu við vandann. Viðhaldsleysi skólahúsnæðis hefur verið viðvarandi og haft alvarlegar afleiðingar á skólastarf í borginni. Sjálfstæðisflokkur hefur margsinnis kallað eftir allsherjar úttekt og lagfæringum á skólahúsnæði á yfirstandandi kjörtímabili. Má sem dæmi nefna Fossvogsskóla, Kvistaborg, Korpuskóla og fleiri byggingar. Þykir fulltrúunum tímasetning þessara áforma sæta nokkurri furðu enda þola mál sem þessi enga bið, betur hefði farið á því að hefja vinnuna í upphafi kjörtímabils en ekki stuttu fyrir kosningar, ekki síst vegna þess að börn og starfsfólk dvelja í skólahúsnæði löngum stundum og þeirra velferð skal alltaf njóta vafans.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs til borgarráðs, dags. 1. nóvember 2021, um útboð vegna framkvæmda við lagfæringar og endurbætur Fossvogsskóla. SFS2021070022 

    Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að boðnar verði út framkvæmdir í Fossvogsskóla upp á 1,6 milljarða króna. Framkvæmdirnar eru byggðar á úttektarskýrslum EFLU en framkvæmdin er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða aðgerðir til að bæta innivist m.a. bætt raka- og loftgæði þar sem fyrri lagfæringar hafa ekki skilað fullnægjandi árangri. Byggingarefni þar sem greinst hefur mygla verða fjarlægð. Hins vegar er um að ræða aðgerðir til að færa skólahúsnæðið í nútímalegt horf hvað varðar byggingatækni, kennsluhætti og innra skipulag húsnæðisins. Einangrun innan á útveggjum allra bygginga verður fjarlægð. Þá verða útveggir einangraðir að utan og klæddir með álklæðningu. Allir gluggar og útihurðir verða endurnýjaðar og lokið við að endurnýja öll þök. Ennfremur verða innveggir fjarlægðir og endurbyggðir í samræmi við gildandi eldvarnarkröfur, raflagnir og pípulagnir verða endurnýjaðar sem og loftaefni og gólfefni. Loftræsting allra húsa verður yfirfarin og virkni breytt með tilliti til bættrar innivistar. Þá verða skriðkjallarar undir byggingunum lagfærðir og þéttir, jafnframt verða brunnar sem nú eru inni í byggingunum færðir út úr húsum. Með þessum aðgerðum verður húsnæði Fossvogsskóla endurbætt til mikilla muna sem fullnægjandi umgjörð um metnaðarfullt skóla- og frístundastarf til næstu áratuga.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú eru átta mánuðir frá því að skólastarf var flutt úr Fossvogsskóla eftir að mygla greindist þar aftur. Það er ótrúlegt að það hafi tekið átta mánuði að komast á þann stað að hægt sé að fara í útboð vegna þessa máls. Lítið annað hefur verið gert allt kjörtímabilið en að fara yfir húsnæði Fossvogsskóla og endurbæta það fyrir hundruð milljóna. Fyrri viðgerðir tókust þó ekki betur en svo að nú er áætlað að viðgerðir kosti 1.641 m.kr. Það er því ljóst að fyrri viðgerðir hafa misheppnast og orðið til þess að húsnæði Fossvogsskóla verður ekki tilbúið til kennslu fyrr en langt er liðið á næsta kjörtímabil eða í ágúst 2023. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa frá upphafi þessa máls staðið með skólasamfélaginu í Fossvogi og það hefur verið sárt að sjá hvernig tekið hefur verið á málinu innan borgarkerfisins. Ef málið hefði verið tekið alvarlega í upphafi og hlustað hefði verið á foreldra veikra barna og veikt starfsfólk þá værum við ekki á þessum stað í dag.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík til borgarráðs, dags. 1. nóvember 2021, varðandi samkeppni um viðbyggingu við Melaskóla og útfærslu Hagatorgs ásamt fylgiskjölum. SFS2021110065 

    Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarráð hefur samþykkt tillögu um að ráðist verði í hönnunarsamkeppni um stækkun Melaskóla með viðbyggingu og jafnframt hvernig nýta megi Hagatorg sem grænan almenningsgarð með fjölbreyttum notkunarmöguleikum fyrir börn í skólum hverfisins og íbúa. Þetta er mikið fagnaðarefni sem mun hafa veruleg jákvæð áhrif á aðstöðumál Melaskóla en jafnframt fjölga tækifærum nemenda í Hagaskóla og barna í leikskólanum Hagaborg til fjölbreyttrar útiveru og hreyfingar í nærumhverfinu. Hagatorg er eitthvert stærsta hringtorg landsins, um 5600 fermetrar og sú hugmynd hefur notið mikils fylgis í hverfiskosningum undanfarin ár að nýta það til fjölbreytts og skemmtilegs mannlífs fyrir íbúa og nemendur í hverfinu. Nú hyllir undir að það verði að veruleika en stefnt er að því að samkeppni verði haldin á fyrri hluta næsta árs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er löngu tímabært að bæta húsnæði Melaskóla með fjölda nemenda og aðgengi í huga og hefur sú staða legið fyrir í áratug. Þessi hönnunarsamkeppni hefði átt að vinnast í upphafi kjörtímabils en ekki lok þess enda er skólinn löngu sprunginn og hefur meirihlutinn haft fjölda ára til að bæta úr þeirri stöðu.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík til borgarráðs, dags. 1. nóvember 2021, um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi ásamt skýrslu um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi, dags. í apríl 2021. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að vísa máli varðandi framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi til sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs til nánari umfjöllunar, kynningar og umsagnarvinnu með grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum skólaráðum og foreldrafélögum sem málið varðar. 

    Samþykkt. SFS2021010119 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða sviðsmyndagreiningu um framtíðarskipan skólastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi. Um skeið hefur legið fyrir að vegna viðvarandi fjölgunar nemenda er farið að þrengja að í skóla- og frístundahúsnæði Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Starfshópur hafði það hlutverk að rýna stöðuna í hverfinu með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum skóla- og frístundastarfs. Þrjár sviðsmyndir liggja nú fyrir en tillögur starfshópsins verða áfram til vinnslu innan hópsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í umræðum um húsnæðisuppbyggingu í borginni hefur borgarstjóri látið hafa eftir sér að innviðir verði að koma fyrst, uppbyggingin fylgi í kjölfarið. Ummælin eru í töluverðri mótsögn við stöðu skólamála í Laugarnes- og Langholtshverfi. Í skólunum er pláss fyrir 1314 börn en engu að síður eru 1648 börn í skólunum. Samt sem áður er skipulögð umfangsmikil uppbygging í hverfinu, áður en innviðir hafa verið styrktir og byggðir. Samhliða uppbyggingunni er fyrirséð áframhaldandi fjölgun barna í hverfinu. Hér stendur borgarstjóri ekki við þá forgangsröðun sem hann boðar sjálfur, að byggja skólana fyrst og ráðast svo í uppbyggingu. Það er löngu tímabært að skapa aukið rými fyrir skólastarf í hverfinu. Málið þolir enga bið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík til borgarráðs, dags. 1. nóvember 2021, um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Hlíðaskóla, Háteigsskóla, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla ásamt skýrslu starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Hlíðaskóla, Háteigsskóla, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að vísa máli varðandi framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Hlíðaskóla, Háteigsskóla, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla til sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs til nánari umfjöllunar, kynningar og umsagnarvinnu með grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólaráðum og foreldrafélögum sem málið varðar. 

    Samþykkt. SFS2021010120

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kaup borgarinnar á Vörðuskóla í fyrra opna mörg tækifæri til umbóta á aðstöðumálum grunnskóla í hverfinu. Sérstakur starfshópur hefur unnið að því að kortleggja þessi tækifæri og leggur nú fram tillögu að sviðsmyndum sem eru allrar athygli verðar. Þrjár af fimm tillögum gera ráð fyrir að Vörðuskóli verði unglingaskóli, ýmist fyrir unglinga úr tveimur af þremur grunnskólum hverfisins: Austurbæjarskóla, Hlíðaskóla og Háteigsskóla eða þeim öllum. Hinar tvær tillögurnar lúta að sérstöku samstarfi Austurbæjarskóla og Vörðuskóla, ýmist með því að Austurbæjarskóli verði unglingaskóli en Vörðuskóli taki við nemendum 1-7. bekkjar Austurbæjarskóla eða skólarnir tveir verði reknir sem einn heildstæður skóli en taki við unglingum úr hinum skólunum tveimur að auki. Þessar tillögur fara nú til frekari vinnu og síðan umsagnar grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva í hverfinu auk skólaráða og foreldrafélaga skólanna sem um ræðir.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. SFS2020090365

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda leikskólaplássa árin 2018-2021. SFS2021050140 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um tímasetningar á aðlögun leikskólabarna. SFS2021060294 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um upplýsingagjöf til foreldra barna sem eru að byrja í leikskóla. SFS2021060294 

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. október 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda barna á biðlista eftir leikskólaplássi. SFS2021080303 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Illa hefur gengið að stytta biðlista í leikskólum Reykjavíkurborgar á kjörtímabilinu. Enn eru 706 börn, 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi. Þá eru ótalin þau börn sem ekki hafa fengið leikskólapláss innan hverfis. Að auki hafa 56 börn sem boðin var leikskólavist í haust, ekki enn boðist að hefja aðlögun á leikskóla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mikilvægt að þau börn sem enn bíða eftir að fá úthlutuðu leikskólaplássi fái þau sem fyrst, en það er gaman að segja frá því að í tengslum við verkefnið Brúum bilið er verið að opna marga nýja leikskóla, fjölga leikskólaplássum með viðbyggingum og nýjum leikskóladeildum og fjölga plássum hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Alls stefnir í að leikskólaplássum fjölgi um 600 í borginni á árinu 2022 sem mun bæta stöðuna til mikilla muna varðandi inntöku yngri barna í leikskóla.

    Fylgigögn

  17. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs. 

    -    Kl. 16:09 víkja Valgerður Sigurðardóttir og Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum. 

Fundi slitið klukkan 16:22

Skúli Helgason Alexandra Briem

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_0911.pdf