Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 215

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 14. september, var haldinn 215. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.31.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P) og Diljá Ámundadóttir Zoëga (C). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Sanna Magdalena Mörtudóttir (J), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Soffía Pálsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Kristján Gunnarsson.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um framkvæmdir við húsnæði og lóðir skóla- og frístundasviðs 2021. SFS2021090121

    -    Kl. 12:37 tekur Elín Oddný Sigurðardóttir sæti á fundinum. 

    -    Kl. 12:40 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.

    Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

        Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það fjármagn sem fer til viðhalds húsnæðis á sviðinu hefur aukist úr 600 milljónum árið 2016 í 2120 milljónir í ár. Einnig ber að fagna kraftmikilli fjárfestingaráætlun, en í henni má finna endurbyggingu skólalóða, viðbyggingu við Vesturbæjarskóla, og endurbætur í skólum í Laugardal og Vesturbæ. Þá má nefna endurnýjun mötuneyta, færanlegar stofur og svo nýja grunnskóla í Vogabyggð og Skerjafirði, sem útfærðir verða í hönnunarsamkeppni. Það er lögð mikil áhersla á endurbyggingu og endurnýjun leikskólalóða, og 2,7 milljarðar í verkefninu brúum bilið, en þar hefur einnig verið ráðist í meiriháttar viðhald og bætur á aðstöðu starfsfólks. Nú skiptir miklu máli að nýta húsnæði á sviðinu vel, og samnýta rými frístundar, grunnskóla og eftir atvikum leikskóla og annarrar starfsemi, svo sem skólahljómsveita. Gott væri að sjá uppbyggingu á skýlum fyrir hjól og kerrur við leikskóla í borginni sem hvetur foreldra til að nýta sér annan ferðamáta en bílinn. Slíkt talar vel inn í stefnu borgarinnar um að auka fjölbreyttari ferðamáta.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað óskað eftir því að fá svokallaða fimm skóla skýrslu sem er skýrsla yfir þá skóla sem helst þarf að fara í framkvæmdir við. Þeirri óska hefur ávalt verið neitað. Það er undarlegt þegar viðhaldsmálum er jafn mikið ábótavant líkt og raun ber vitni með t.d. Fossvogsskóla og Kvistaborg sem báðir standa tómir vegna myglu að verið sé að halda upplýsingum frá kjörnum fulltrúum. Mikilvægt er að fara í úttekt á öllu húsnæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar og heildarviðhaldsþörf metin og forgangsraðað eftir þeirri úttekt.

        Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er misskilningur að skýrsla um endurbætur húsnæðis í fimm grunnskólum gefi einhvers konar heildarmynd af þörf fyrir viðhald og endurbætur grunnskóla í borginni. Svo er ekki en hins vegar er nú verið að ljúka heildarúttekt á viðhaldsþörf grunnskóla í borginni sem verður kynnt innan fárra vikna.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva óskar eftir að fá sundurliðun á viðhalds- og fjárfestingaráætlun grunnskóla og frístundastarfs. Það húsnæði sem frístundastarf nýtir fyrir sitt starf er allt of oft í lélegu ástandi og því er mikilvægt að hægt sé að greina á milli þess fjármagns sem fer í grunnskóla annarsvegar og frístundastarf hins vegar. Okkar tilfinning er sú að fjármagn í viðhald og endurbætur á húsnæði frístundastarfs sé af skornum skammti. Einnig er mikilvægt að stjórnendur frístundastarfs fái sem fyrst kynningu á niðurstöðum úttektar á húsnæði frístundastarfs sem farið var í síðastliðið vor.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna hvetur til þess að sérstaklega verði hugað að því að koma upp vönduðum hjólastæðum við þá leikskóla borgarinnar þar sem farið er í stærri endurbætur á lóðum eða húsnæði í samræmi við gildandi hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og markmið Grænna skrefa. Í það minnsta ætti að setja upp góða hjólaboga við alla leikskóla en helst yfirbyggðar og lokaðar geymslur sem henta til þess að geyma hjól, hjólavagna, sleða, vagna og kerrur foreldra, barna og starfsfólks á öruggan hátt. Góð aðstaða hvetur til notkunar virkra ferðamáta fyrir starfsfólk, foreldra og börn.

  2. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs til borgarráðs, dags. 7. september 2021, um meðhöndlun á fjárheimildum grunnskóla og grunnskólalíkanið Eddu. SFS2021090144

        Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla hefur verið lengi í smíðum og er mikið fagnaðarefni að það sé nú loks tilbúið. Það lagfærir til muna annmarka sem verið hafa á úthlutun fjármuna til grunnskólanna undanfarin ár sem ekki hefur endurspeglað nægilega vel þann veruleika sem mætir stjórnendum í rekstri grunnskólanna. Nýja líkanið skapar forsendur fyrir raunhæfari og betri fjármögnun grunnskólanna og jafnframt betri rekstri og fjármálastjórn. Mikilvægt nýmæli er tilkoma rekstrarstjóra sem munu sérhæfa sig í rekstri og umsjón fasteigna sem skapar svigrúm fyrir skólastjóra að einbeita sér að því að sinna faglegu leiðtogahlutverki í skólasamfélaginu. Þá er mikil framför í því fólgin að með breytingunum verður meira tillit tekið til félagslegra og lýðfræðilegra þátta í úthlutun fjármagns til grunnskólanna sem er liður í því að auka jöfnuð barnanna í borginni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Kostnaður við rekstur grunnskóla hefur ítrekað farið fram úr fjárheimildum. Það er því ljóst að breyta þarf áætlanagerð og valdefla skólastjórnendur. Það er því jákvætt að nú hafi verið farið í ítarlega vinnu við að stokka upp núverandi kerfi. Gæta þarf að því að skólahúsnæði sé heilsusamlegt og viðhaldi sé sinnt. Þá er mikilvægt að grípa snemma inn og reglulega svo sem vegna ÍSAT nemenda. Ef rétt er á innleiðingu haldið á áætlanagerð að vera áreiðanlegri og með því ætti að vera hægt að vinna að raunverulegri hagræðingu í rekstri og bættri meðferð fjármuna sem nýtast þá betur í þjónustu við nemendur. 

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra og kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum lýsa ánægju með framlögn grunnskólalíkansins Eddu enda langþráðum áfanga náð. Komið er til móts við mjög margt af því sem áheyrnarfulltrúarnir hafa farið yfir undanfarin ár og snúa að fjárframlögum til reykvískra grunnskóla og því eru væntingar um að úthlutun byggð á líkaninu geti styrkt skólastarf í borginni. Nýmæli er að finna í líkaninu, annars vegar sem snýr að félagslegum aðstæðum í skólahverfi og hins vegar endurskoðun úthlutunar til sértækrar sérkennslu. Horfa þarf sérstaklega til þessara nýjunga í úthlutunarlíkani og fylgjast grannt með hvernig þær koma til móts við kröfur sem gerðar eru til grunnskólanna í lögum og reglugerðum. Stefna er eitt og innleiðing er annað. Til að sú innleiðing verði eins farsæl og mögulegt er þurfa kennarar og skólastjórnendur að eiga virka aðkomu að innleiðingar- og rýniferli úthlutunarlíkansins.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram drög að aðgerðaáætlun Menntastefnu Reykjavíkur 2022-2024. SFS2021090143

    -    Kl. 14:45 tekur Hanna Halldóra Leifsdóttir sæti á fundinum. 

    Hjörtur Ágústsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  4. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2021, yfirliti yfir samninga við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík, bréfi Samtaka sjálfstæðra skóla, dags. 7. september 2021 og reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið fyrir börn 18 mánaða til 6 ára og börn 6/9 mánaða til 36 mánaða: 

    Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að gera viðauka við samning Reykjavíkurborgar við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík með þjónustusamning við skóla- og frístundasvið þar sem gildistími samninga og viðauka samkvæmt honum verða framlengdir til 30. júní 2022. Í þeim tilfellum þar sem gildistími er til lengri tíma en 30. júní 2022 verði gerð sú breyting gagnvart viðsemjendum að samningar fái gildistíma til 30. júní 2022. Jafnframt er lagt til að sviðsstjóra verði falið að leggja fram drög að nýjum þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við sjálfstætt rekna leikskóla með þjónustusamning við Reykjavíkurborg með gildistöku frá 1. júlí 2022 til þriggja ára. Skal hann leita eftir samráði við fyrirsvarsmenn sjálfstætt rekinna leikskóla vegna nýs samnings. 

    -    Kl. 15:10 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018100234

    Fylgigögn

  5. Lagt fram breytt rekstrarleyfi fyrir leikskólann Vinaminni ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2021 og rekstrarleyfi leikskólans Vinaminnis, dags. 22. febrúar 2012. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2021010037

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2021, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. mars 2021, bréfi leikskólans Vinaminnis, dags. 18. desember 2020, samningi skóla- og frístundasviðs við Vinaminni um framlag fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, dags. 18. desember 2018 og reglur um rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið:

    Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2021, að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til leikskólans Vinaminnis verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að greiða framlag vegna 16 barna frá 12 mánaða til 18 mánaða og að framlag vegna barnanna verði til samræmis við samninga við sjálfstætt rekna ungbarnaleikskóla vegna barna á aldrinum 12-18 mánaða. Jafnframt verði heimilt að greiða framlag vegna 70 barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára. Þannig verði hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna í heild 86. Breytingin taki gildi 1. október 2021. Sviðstjóra er falið að gera samninga við leikskólann Vinaminni vegna framlagsins sem taki mið af tímalengd núgildandi samnings vegna barna á aldrinum 18 mánaða til sex ára sem gildir til 31. september 2021 sem lagt hefur verið til að verði framlengdur til 30. júní 2022. Gerður er fyrirvari um að samþykkt verði að framlengja samning leikskólans vegna barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára til 30. júní 2022. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2021010037

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík til borgarráðs, dags. 6. september 2021, um tillögu um ungbarnaleikskóla við Vörðuskóla. SFS2021090145

        Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Framundan er vetur þar sem mikill fjöldi nýrra leikskólaplássa verður í boði fyrir foreldra ungra barna. Nýir leikskólar opna á næstu mánuðum og í þeim hópi verður ungbarnaleikskóli í formi Ævintýraborgar sem reist verður á lóð Vörðuskóla sem borgin keypti nýlega af ríkinu. Þar verður rými fyrir 60 börn á aldrinum 12-30 mánaða og er stefnt að því að leikskólinn taki til starfa á fyrsta ársfjórðungi nýs árs. Þessi leikskóli mun gagnast vel í að mæta mikilli eftirspurn ungbarnaforeldra miðsvæðis í borginni eftir leikskólarými fyrir börn sín.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um mjög dýrt tímabundið úrræði að ræða þar sem stofnkostnaðurinn er 95 milljónir og árleg leiga 32,4 milljónir. Gert er ráð fyrir því að þetta verði í tvö til þrjú ár. Þriggja ára kostnaður er því um 200 milljónir eða 65 milljónir króna á ári fyrir 60 börn. Því miður hefur borgin trassað uppbyggingu á leikskólarýmum og því þarf að grípa til mjög dýrra bráðabirgðaúrræða á kosningavetri til að „brúa bilið“ milli kosningaloforða og raunveruleikans. Samkvæmt síðustu tölum voru 740 börn á biðlista en þess utan er fjöldi barna sem sækja leikskóla í öðru hverfi en sínu eigin.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2021, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 9. september 2021. SFS2021080305

    -    Kl. 15:25 víkur Hanna Halldóra Leifsdóttir af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Árleg mannekla blasir við á leikskólum og frístundaheimilum og enn hefur ekki verið ráðið í allar stöður í grunnskólum. Á frístundaheimilin og sértækar frístundamiðstöðvar vantar að ráða í 68 stöður. 888 börn eru á biðlista eftir plássi á frístundaheimilin eða hafa aðeins komist inn í hlutavistum. Þetta skapar vanda margra fjölskyldna og þurfa foreldrar því að standa í alls konar reddingum og skutli þangað til að börn þeirra fái þá vistun sem sótt var um. Í leikskólunum á svo enn eftir að ráða í 93,3 stöður en sú tala miðast eingöngu við þau börn sem þegar hafa fengið pláss þannig að talan er hærri ef miðað er við þau börn sem eftir á að taka inn. Athygli vekur að staða ráðninga í leikskóla var betri á sama tíma í fyrra. Í grunnskóla á eftir að ráða í 24,7 stöðugildi. Brýnt er að leitað verði allra leiða til að manna þessar stöður sem fyrst og finna verður varanlega lausn þannig að þetta ástand sé ekki viðvarandi ár eftir ár.

        Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Staða ráðninga er mjög svipuð því sem var í fyrrahaust, á leikskólum hefur verið ráðið í 95% stöðugilda miðað við þann fjölda barna sem búið er að bjóða pláss samanborið við 96% í september 2020. Í frístund er meiri hreyfing á starfsfólki og hefur gengið verr, en ráðið hefur verið í 87% stöðugilda miðað við fulla mönnun samanborið við 95% í september 2020. Mikið er að gerast í ráðningum þar þessa dagana og aukinn kraftur settur í auglýsingar eftir starfsfólki.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir starfandi starfs- og stýrihópa og erindisbréf starfs- og stýrihópa skóla- og frístundasviðs, dags. 9. september 2021. SFS2019100018 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2021, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2019020033

  11. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík.

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Á borgarstjórnarfundi í lok árs 2018 (18.12.2018) var samþykkt tillaga þess efnis að kanna umfang þess kostnaðar sem börn og forráðamenn þeirra þurfa að greiða vegna skemmtana, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar. Tillagan fól í sér að óskað yrði eftir upplýsingum um þátttöku barna og kostnað þeirra af slíkum viðburðum, sundurliðað eftir skólum og hverfum borgarinnar. Tillagan var sett fram af Sósíalistaflokki Íslands en þar sem þær upplýsingar höfðu ekki verið skráðar var samþykkt breytingartillaga um að byrja að skrá þær upplýsingar. Þann 27. ágúst 2020 óskaði fulltrúi Sósíalista eftir upplýsingum um hvar þetta verkefni væri statt og fékk svör í borgarráði 17. september 2020 frá skóla- og frístundasviði þar sem fjallað var almennt um kostnaðarskiptingu eftir skólum, þ.e.a.s. hvort hún væri hjá skólum, foreldrum eða að nemendur safni fyrir greiðslum. Í svarinu var vísað til fyrirspurnar Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalista spyr því hvort að upplýsingar liggi fyrir um það sem ákveðið var að safna í umræddri tillögu sem samþykkt var í lok árs 2018? Ef svo er, er þá hægt að sjá þær niðurstöður?

    SFS2021090189

  13. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 segir: “Byggð verði upp langtíma- og skammtímastæði við endurnýjun byggðar og nýbyggingar í samræmi við kröfur í bíla- og hjólastæðareglum Reykjavíkurborgar. Áhersla er lögð á að hjólastæði verði á jarðhæðum sem næst inngöngum, yfirbyggð og örugg.” Nú stendur yfir mikil uppbygging í leikskólakerfinu í Reykjavík með opnun nýrra leikskóla, stækkun eldri leikskóla og umfangsmiklum endurbótum á eldri leikskólabyggingum til stækkunar. Væntanlega er samhliða þessu verið að útfæra hjólageymslur- og stæði á hverjum stað. Æskilegt að um sé að ræða lokaðar eða jafnvel læstar geymslur þar sem hægt er að geyma á öruggan hátt jafnvægis- og hlaupahjól leikskólabarna, kerrur og vagna, sleða og hjólavagna þannig að foreldrar sem ganga eða hjóla með börnum sínum í leikskólann geti geymt hluti á öruggan hátt við leikskólann á meðan foreldrar og forráðafólk eru í vinnu og/eða skóla. Mikilvægt er líka að starfsfólk geti geymt hjól á öruggan hátt við leikskóla. Góð aðstaða er hvetjandi fyrir börn, foreldra og starfsfólk til þess að nýta virka ferðamáta og eiga gæðastundir með börnum sínum á leið í og úr leikskóla. Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna óskar eftir upplýsingum um hvernig geymslur fyrir hjól, vagna, kerrur og sleða verða útfærðar á hverjum þeirra leikskóla sem verið er að opna, byggja og/eða fara í umfangsmiklar endurbætur á, t.d. nýjum leikskóla í Bríetartúni, Safamýri 5, endurbótum á Kvistaborg og stækkun Brákarborgar, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hvernig er ákveðið hversu mörg hjólastæði verða á hverjum stað?

    SFS2021090190

Fundi slitið klukkan 16:12

Skúli Helgason Alexandra Briem

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_1409.pdf