Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 213

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 17. ágúst, var haldinn 213. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S) og Dóra Björt Guðjónsdóttir (P). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Hildur Björnsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Eygló Traustadóttir og Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. ágúst 2021, um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, um notkun fjarfundabúnaðar og fleira. SFS2020040074

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um upphaf starfsárs í skóla- og frístundastarfi og áhrif Covid-19. SFS2021080065

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna hvetur til þess að komið verði til móts við starfsfólk leikskólanna með aukagreiðslum vegna aukins álags tengdu Covid-19. Starfsfólk leikskólanna hefur staðið sig frábærlega í mjög erfiðu ástandi, tekið á sig þrif á leikskólunum og unnið í hólfaskiptum leikskólum sem eykur álag og breytir starfsanda innan leikskólanna. Nándin í leikskólastarfinu er líka mikil og ekki er hægt að tryggja sóttvarnir með sama hætti á leikskólum og á vinnustöðum þar sem eingöngu eru eldri börn eða fullorðnir. Eðlilegt er að starfsfólk fái umbun fyrir að hafa starfað í þessu erfiða umhverfi síðan snemma árs 2020 og líklegt að þetta ástand verði mögulega allan þennan vetur.

  3. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 22. júlí 2021, um tilhögun skólastarfs í Fossvogsskóla skólaárið 2021-2022 ásamt tilkynningu, dags. 9. ágúst 2021, um skólaárið framundan í Fossvogsskóla. SFS2021040022

    -    kl. 13.19 tekur Bára Katrín Jóhannsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga um tilhögun skólastarfs Fossvogsskóla á komandi skólaári liggur nú fyrir og felur í sér að að nemendur í 1.-4. bekk munu stunda nám í nýjum færanlegum húsum á lóð Fossvogsskóla meðan framkvæmdir standa yfir við aðalbyggingar skólans en nemendur í 5.-7. bekk munu stunda nám í Korpuskóla og njóta þeirrar fullbúnu aðstöðu til fjölbreytts skólahalds sem þar er til staðar. Þessi tillaga nýtur stuðnings skólaráðs Fossvogsskóla þar sem eiga sæti fulltrúar starfsfólks, nemenda og foreldra, en skólasamfélagið lagði ríka áherslu á að yngstu árgangarnir gætu stundað nám nærri heimilum þeirra. Fyrstu vikurnar munu nemendur í 2.- 4. bekk stunda nám í Víkinni í Fossvogsdalnum en færast svo í nýju húsin á lóð Fossvogsskóla um miðjan september. Fullur vilji er til að ráðast hratt og vel í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru skv. niðurstöðum ítarlegrar úttektar EFLU samhliða því að búa nemendum og starfsfólki eins góð skilyrði og kostur er á næsta skólaári meðan unnið verður að endurbótum í skólahúsnæðinu í Fossvogi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma það að ekki hafi fundist húsnæði sem tekið getur á móti nemendum í 5. til 7. bekk Fossvogsskóla í þeirra nærumhverfi. Langur ferðatími frá Fossvogi upp í Grafarvog reyndist mörgum börnum erfiður. Aðstaða fyrir nemendur í 1. til 4. bekk verður ekki sett upp í Fossvogi fyrr en í september og því verða nemendur og starfsfólk á hrakhólum þangað til. Mikilvægt er að nemendur fá kennslu samkvæmt aðalnámskrá. Ekki auðvelt að sjá hvernig hægt er að uppfylla það við þessar aðstæður. Hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks áhyggjur af líðan starfsfólks ekki síður en barna í öllu þessu róti sem hefur verið síðustu 3 ár í Fossvogsskóla, róti sem ekki sér fyrir endann á. Huga þarf mun betur að viðhaldi skólahúsnæðis hjá Reykjavíkurborg þar sem sinnuleysi á viðhaldi hefur alvarlegar afleiðingar líkt og sjá má í málefnum Fossvogsskóla.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. ágúst 2021, um tímabundinn flutning leikskólans Kvistaborgar í Safamýri 5 í Reykjavík. SFS2021080064

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eftir ítarlega úttekt á ástandi húsnæðis leikskólans Kvistaborgar liggur fyrir að ráðast þarf í verulegar endurbætur á húsnæðinu. Unnið er að gerð áætlana um umfang þeirra og kostnað sem munu liggja fyrir fljótlega. Á meðan hefur verið ákveðið að flytja starfsemina í Safamýrarskóla til bráðabirgða til að skapa gott athafnarými fyrir nauðsynlegar framkvæmdir á lóð Kvistaborgar. Samhliða verður unnið að tillögum um framtíðarskipulag Kvistaborgar þar með talið um stækkun leikskólans og fjölgun barna í þessu blómlega hverfi þar sem þörf fyrir leikskólapláss er mikil.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú hefur aftur komið upp mygla í húsnæði Kvistaborgar. Húsnæðið var tekið í gegn að hluta árið 2017, eftir að mygla kom upp í því. Í maí 2020 var gerð loftgæðamæling og eitt myglusýni tekið sem staðfesti myglu, en ekki var brugðist við þeirri staðreynd þegar skýrslan var gefin út í júlí 2020. Fulltrúar skólans fengu skýrsluna í hendurnar 8 mánuðum síðar eða mars 2021. Vegna dræmra undirtekta Reykjavíkurborgar um mögulega myglu í húsnæði skólans pantaði stjórnandi sjálfur sýnatöku í mars 2021. Þessi vinnubrögð eru með öllu óásættanleg og voru börn og starfsfólk í óheilnæmu umhverfi sem ekki er boðlegt. Mikilvægt er að farið verði í ítarlega úttekt á húsnæði Kvistaborgar og metið sé hvort að húsnæðið sé hæft til endurbóta eða hvort að ekki sé skynsamlegra að byggja nýtt húsnæði undir starfsemi leikskólans. Í skýrslu sem Innri endurskoðun gaf út árið 2019 segir að tryggja þurfti betra viðhald í skólunum. Það er ljóst að viðhaldsleysi er byrjað að hafa gríðarleg áhrif á heilsu og velferð nemenda og starfsfólks leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sú staðreynd að færa þarf starfsemi Kvistaborgar tímabundið í Safamýri er töluverð áskorun fyrir alla. Áskorunin felst ekki hvað síst í því að halda faglegri starfsemi gangandi við erfiðar aðstæður og að viðhalda starfsmannaánægju á breytingatímum. Mikilvægt er að styðja vel við skóla sem standa frammi fyrir svo miklum breytingum og aðstoða þá við að viðhalda þeim gildum og viðmiðum sem þeir standa fyrir og telja mikilvæg fyrir starfsemina. Óvissa grefur undan stöðugleika og veldur óánægju í starfi. Mikilvægt er að hafa upplýsingagjöf góða og óskað er eftir því að settur verði á teymishópur, með fulltrúum foreldra og starfsmanna, um framvindu Kvistaborgar og að allir hagaðilar verði upplýstir um niðurstöður greiningar Eflu á húsnæði Kvistaborgar. Það er ósk starfsmanna að fá skála „ævintýraborgir“ sem fyrst staðsettan í dalinn svo að við getum flutt aftur heim og hugað verði að álagsgreiðslum, aftur í tímann, til jafns á við það sem gerist í grunnskólaumhverfinu.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna hvetur skóla- og frístundasvið til þess að styðja vel við börn, foreldra og starfsfólk leikskólans Kvistaborgar vegna húsnæðisvanda skólans. Sérstaklega þarf að huga að nokkrum atriðum við tímabundinn flutning leikskólans í Safamýri 5. Á Kvistaborg hefur verið matráður og allur matur eldaður á staðnum en ekki er aðstaða til þess í Safamýri 5. Matur er stór hluti af menningu hvers leikskóla og mikilvægur þáttur í góðum starfsanda. Eðlilegt er að þegar slíkt rask eins og nú er að verða í Kvistaborg að vel sé hugað að gæðum og ferskleika matarins sem í boði er og eðlilegt að gott samráð sé haft við stjórnendur og starfsfólk um val á þjónustuaðila. Annað atriði er akstur barna á leikskólann úr Fossvogi í Safamýri. Ljóst er að það verður mikil aukning á umferð í Safamýri við það að þar verði nú leikskóli með yfir 70 börnum sem ekki eiga heima í þægilegri göngufjarlægð við leikskólann. Eðlilegt væri að skoða hvort hægt væri að bjóða upp á rútuakstur úr Fossvogi í Safamýri 5 til að koma til móts við foreldra og minnka umferð í Safamýri.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. maí 2021, um viðhorf foreldra til starfsemi frístundaheimila Reykjavíkurborgar 2021. SFS2021060011

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Það er ánægjulegt að sjá jákvætt viðhorf foreldra til starfsemi frístundaheimila. Á heildina litið eru foreldrar ánægðari og jákvæðari með starfsemi frístundaheimilanna en fyrir tveimur árum þegar síðasta könnun var gerð. 94% foreldra barna í sértæku frístundastarfi telja að barninu sínu líði vel í frístundaheimilinu og eru ánægð með húsnæði og leiksvæði. Gjaldskráin er sá þáttur sem foreldrar eru síst ánægðir með en í þeim hópi sem eru óánægðastir með gjaldskrá hefur þó fækkað frá 16,5% 2017 í 10% sem nú er. Innleiðing frístundastefnu virðist hafa haft jákvæð áhrif á störf frístundaheimila. Þetta er flottur árangur á erfiðum tímum og er starfsfólkinu þakkað kærlega vel fyrir unnin störf.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2021, um viðhorf foreldra til starfsemi leikskóla í Reykjavík 2021. SFS2021070021

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það vekur ánægju að á heildina litið séu foreldrar ánægðir með leikskólann, telja að barninu sínu líði vel og sé öruggt. Það er gleðilegt að 97% foreldra leikskólabarna telja að börnum þeirra líði vel í leikskólanum og 95,5% að í skólunum ríki notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft. Þetta er aukning frá síðustu könnun. Það er gagnlegt að foreldrar óski eftir að fá meiri hvatningu um þátttöku í leikskólastarfinu og hvetjum við leikskólana til að bregðast við því. Þetta eru góðar niðurstöður á þessum flóknu tímum og sýnir hve vel þessi starfsemi hefur staðist aukið álag vegna Covid. Starfsfólki er kærlega þakkað fyrir vel unnin störf.

    Lögð fram svohljóðandi bókun skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Það er ánægjulegt að sjá almenna ánægju foreldra með starf leikskólanna í Reykjavík. Ætla má að óánægja sé mest meðal þeirra foreldra sem eiga börn á biðlistum og hafa ekki fengið leikskólaþjónustu fljótlega í kjölfar fæðingarorlofs. Niðurstöður könnunarinnar sýna jafnframt að bæta þarf upplýsingaflæði og samstarf við foreldra og undirstrika fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægi úrbóta hvað foreldrasamstarf og upplýsingamiðlun varðar.

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram skýrslan Talnalykill 2020, niðurstöður úr stærðfræðiskimun í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur, dags. í maí 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2021. SFS2020110105

    Ásgeir Björgvinsson og Guðrún Edda Bentsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmið stærðfræðiskimunarprófsins Talnalykils er að finna þá nemendur sem eru líklegir til að lenda í vanda í stærðfræðinámi og bregðast fljótt við með einstaklingsáætlun og/eða sérstökum stuðningi. Um 73% nemenda náðu settu viðmiði í þrepi I og eru því ólíklegir til að þurfa á sérstökum stuðningi í stærðfræði að halda og er hlutfallið hærra en árin 2018-2019 og er það merkilegt í ljósi röskunar sem orðið hefur á skólastarfi vegna Covid. Þakkað er fyrir ötult starf, sveigjanleika og dugnað kennara og starfsfólks.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. maí 2021, um leyfi til daggæslu barna í Reykjavík árið 2020. SFS2021060102 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa verulegar áhyggjur af árlegri fækkun starfandi dagforeldra í Reykjavík, samhliða viðvarandi skorti á leikskólarýmum. Ekki hefur tekist að standa við loforð um að tryggja öllum börnum 12-18 mánaða leikskólapláss í borginni. Þörf fyrir dagforeldra fer því sannarlega ekki minnkandi. Foreldrar eiga að hafa skýra valkosti um ólíka dagvistunarkosti, en stöðuga fækkun dagforeldra má rekja til ákvarðana meirihlutans um að gera starfsumhverfi dagforeldra sífellt minna aðlaðandi. Í kjölfarið dregur úr nýliðun í stéttinni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að niðurgreiðslur vegna barna, 18 mánaða og eldri sem dvelja hjá dagforeldrum, verði hækkaðar svo greiðslur foreldra verði þær sömu og ef börn þeirra væru í leikskóla. Það er eðlilegt réttlætismál þegar borginni hefur ekki tekist að tryggja barnafjölskyldum þá þjónustu sem þeim var lofað.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. júní 2021, um eftirlit með daggæslu barna í heimahúsum á árinu 2020. Jafnframt lagðar fram skýrslurnar Viðhorf foreldra barna hjá dagforeldrum 2019-2020, dags. í maí 2021 og Viðhorf dagforeldra 2019-2020, dags. í maí 2021. SFS2021060099 

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi borgarráðs 16. janúar 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. ágúst 2021, og skýrslan reglur um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, greinargerð og tillögur starfshóps um endurskoðun reglnanna, dags. í nóvember 2015: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að reglur um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar verði endurskoðaðar.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þrem atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020010106

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil og góð vinna var lögð í endurskoðun á reglum um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla og frístundastarfi fyrir nokkrum árum og hafa þær reynst mjög farsælar og staðist vel tímans tönn. Engar óskir hafa borist frá vettvangi um breytingar á reglunum og telur meirihlutinn enga þörf á endurskoðun þeirra að svo stöddu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðismenn óskuðu eftir því að reglur um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar yrðu opnari, skýrari og ákvörðun myndi vera í höndum hvers skóla frekar en eftir miðlægu regluverki. Þar sem ekki stendur til að breyta reglunum þá er mikilvægt að kynningar íþróttafélaga og annarra félaga sem sinna félagslega uppbyggilegu starfi fyrir börn og unglinga verði settar inn í reglurnar með skýrum hætti. Enda mikilvægt að íþróttafélög og félög sem sinna félagslega uppbyggilegu starfi fyrir börn og unglinga fái að koma inn í skóla og kynna sitt starf enda lýðheilsumál að t.d íþróttastarf sé kynnt fyrir nemendum á grunnskólaaldri. Eins þá er dapurt að ekki sé hægt að koma inn í skóla og gefa t.d teiknimyndablöð sem höfða til drengja og geta eflt þá í lestrarkunnáttu vegna auglýsinga í þessum blöðum.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram drög að umsögn um lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar til 2030. 

    Samþykkt. SFS2021050222

    Fylgigögn

  12. Svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um veikindi barna í Korpuskóla vegna myglu 2016-2019. 

    Frestað. SFS2021060054 

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. júní 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu innleiðingar frístundastefnu. SFS2020020126

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júlí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um stoðdeild í Háaleitisskóla. SFS2021050188

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. júlí 2021, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2019020033

    -    kl. 15:45 víkur Skúli Helgason af fundinum

    Fylgigögn

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_1708.pdf