Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 212

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 22. júní, var haldinn 212. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt samantekt um Grænskjái:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að skerpa á vitundarvakningu um loftslagsmál og umhverfisvernd meðal nemenda og starfsfólks í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Verkefnið feli í sér fræðslu og fjölbreytta verkefnavinnu nemenda, þróun kennsluefnis og öflun gagna um kolefnisfótspor grunnskóla borgarinnar auk aðgerða til að draga úr kolefnislosun í samræmi við markmið Reykjavíkurborgar um að verða kolefnishlutlaus 2040. Veigamikill hluti vakningarinnar felst í alþjóðlega samstarfsverkefninu Grænskjám (Green Penguin) þar sem verður miðlað gögnum, þekkingu og fræðslu um kolefnislosun skólans og orsakir hennar, s.s. orkunotkun, myndun úrgangs og eldsneytisnotkun. Verkefnið fellur vel að Græna plani Reykjavíkurborgar og þeim áherslum á fræðslu sem þar er að finna og það verður unnið í takt við verkefnið Græn skref Reykjavíkurborgar og með hliðsjón af aðferðafræði í loftslagsbókhaldi Reykjavíkurborgar. Samstarfsaðilar Reykjavíkurborgar í verkefninu Grænskjáir verða Klappir-grænar lausnir, Landvernd, Sorpa, Faxaflóahafnir, grunnskólar í Ljubljana höfuðborg Slóveníu og slóvenski mælaframleiðandinn Iskraemeco auk fleiri aðila á síðari stigum. Stefnt er að því að hefja undirbúning verkefnisins haustið 2021 og það verði innleitt að fullu í grunnskólum Reykjavíkur á árinu 2022. Sett verður á fót verkefnastjórn með fulltrúum þeirra aðila sem standa að verkefninu.

    Greinargerð fylgir.

    -    Kl. 12:45 taka Soffía Vagnsdóttir og Helgi Grímsson sæti á fundinum. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021060103 

    Jón Ágúst Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum dagskrárlið með fjarfundabúnaði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Loftslagsmál eru stærsta og afdrifaríkasta viðfangsefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir og þörf á róttækum aðgerðum ef markmið alþjóðasamfélagsins eiga að ná fram að ganga. Tillaga um vitundarvakningu um loftslagsmál í grunnskólum er í góðu samræmi við Græna plan borgarinnar og felur í sér að nemendur og kennarar grunnskólanna nýti sér gögn um kolefnisfótspor skólanna til að ræða loftslagsvandann og kortleggja aðgerðir til að takast á við vandann í nærumhverfinu. Víðtækt samstarf aðila úr ólíkum áttum er lykilforsenda árangurs í loftslagsmálum og þess vegna er sérstakt fagnaðarefni að Sorpa og Faxaflóahafnir gangi til liðs við Reykjavíkurborg, Klappir og Landvernd í verkefninu auk samstarfsaðila í Ljubljana höfuðborg Slóveníu.

    -    Kl. 13.00 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 13. maí 2020, þar sem tillögu fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2021 og umsögn Miðstöðvar útivistar og útináms, dags. 15. mars 2021.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Brynjars Braga Einarssonar frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stofna starfshóp sem samanstendur af fagmönnum og ungmennum sem vinnur að því að fræða kennara í grunnskólum Reykjavíkur um loftlagsmál með það markmið að þeir muni nýta þá vitneskju í eigin kennslu. Í hópnum skulu m.a. eiga sæti fulltrúar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar en lagt er til að fræðsla verði hafin á skólaárinu 2020-2021.

    Greinargerð fylgir.

    -    Kl. 13:18 tekur Bára Katrín Jóhannsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að samþykkt verði að stofna starfshóp sem samanstendur af fagfólki í loftlagsmálum og símenntun svo og starfandi kennurum og ungmennum sem setur upp símenntunaráætlun fyrir kennara í grunnskólum Reykjavíkur varðandi loftlagsmál með það markmið að auka og gera loftlagsmálum og loftlagsvá betri skil í kennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Í hópnum skulu m.a. eiga sæti fulltrúar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar en lagt er til að fræðsla verði hafin á skólaárinu 2021-2022. Samhliða þessu skal farið í símenntunarátak í loftlagsmálum fyrir starfsfólk leikskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva auk alls starfsfólks mötuneyta í skóla- og frístundastarfi.

    Samþykkt. SFS2020050078

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    -    Kl. 13:24 víkur Brynjar Bragi Einarsson af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Unga kynslóðin á Íslandi og erlendis hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frumkvæði og skýrar kröfur um alvöru aðgerðir í loftslagsmálum, hvort sem litið er til Gretu Thunberg eða loftslagsverkfalla ungmenna á Austurvelli. Reykjavíkurráð ungmenna lætur ekki sitt eftir liggja og tillaga ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða er mjög mikilvægt innlegg í umræðuna því þar er áherslan lögð á fræðslu til kennara um loftslagsmál sem er sannarlega nauðsynleg forsenda öflugrar vinnu með málaflokkinn í grunnskólunum.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2021, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2021-2022.

    Samþykkt. SFS2020020096

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva vill vekja athygli á fjölgun langra daga í skóladagatali grunnskólanna. Í fjárhagsramma frístundaheimila Reykjavíkur er gert ráð fyrir 16 löngum dögum yfir skólaárið en á næsta skólaári eru margir skólar að gera ráð fyrir fleiri dögum. Mikilvægt er að gert sé ráð fyrir þessari fjölgun í ramma frístundaheimilanna fyrir næsta skólaár.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. júní 2021, um staðfestingu skóladagatals grunnskóla Reykjavíkur fyrir skólaárið 2022-2023.

    Samþykkt. SFS2021060105

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning og umræða um málefni Fossvogsskóla. SFS2018120034

    Kristján Sigurgeirsson, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir og Ingibjörg Ýr Pálmadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ítarleg úttekt á húsnæði Fossvogsskóla liggur fyrir og er skýr vilji til að ráðast hratt og vel í framkvæmdir til að húsnæðið geti þjónað fjölbreyttu skóla- og frístundastarfi til langrar framtíðar. Forgangsmál verður að komast fyrir allan vanda sem tengist raka og fyrirbyggja slík vandamál í náinni framtíð. Nú er unnið þétt að því að leggja lokahönd á tillögur um framkvæmdir og unnið er að því að ná góðum samhljóm um forgangsröðun framkvæmda og tilhögun skólastarfs á komandi starfsári.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að lausn finnist hið fyrsta á skólahaldi í Fossvogsskóla, bæði til skemmri og lengri tíma. Vonir standa til að rannsóknir á ástandi skólahúsnæðis leiði til fullnægjandi lausna varðandi endurbætur og lagfæringar á skólanum. Of lengi hefur dregist að koma málum í réttan farveg og betur hefði mátt standa að upplýsingagjöf til foreldra, kennara, starfsfólks og nemenda. Í alltof langan tíma hafa alltof margir nemendur og starfsfólk þurft að kljást við veikindi og óþægindi tengd slæmu ástandi skólans. Óvissa hefur verið með skólahald í Fossvogsskóla með tilheyrandi vandræðum fyrir alla aðila og stendur skipulagi skólastarfs fyrir þrifum. Heilsa og heilbrigði barna og starfsfólks verður að vera í forgrunni sem og réttur til óskerts skólahalds. Misbrestir á því eru á ábyrgð okkar borgaryfirvalda. Áréttað er að sú reynsla af málinu öllu, góð og slæm, verði nýtt til að bregðast við með farsælli hætti í framtíðinni, þegar takast þarf á við viðlíka mál. Mikilvægt er að nauðsynlegir ferlar séu til staðar. Nauðsynlegt er að hlustað sé á óskir og sjónarmið foreldra varðandi lausnir, s.s. vilji þeirra til að hafa nemendur, börn sín, í Fossvogshverfi.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra og kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjóra í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur leggja mikla áherslu á að nú þegar verði gripið inn í starfsumhverfi skólastjórnenda Fossvogsskóla á þann hátt að þeim verði unnt að leiða faglegt starf skólans á komandi skólaári. Hvert áfallið hefur rekið annað þegar kemur að húsnæðismálum skólans og ljóst að þau áföll hafa mikil áhrif inn í hóp nemenda og starfsfólks skólans. Alltof mikill tími hefur farið í það hjá kennurum og skólastjórnendum að sinna málefnum húsnæðisins og nú þarf að einbeita sér að því að orka þeirra fari í að leiða hið faglega starf og að leiðarljós þeirra verkefna sé að standa vörð um námsframvindu og heill nemenda skólans. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á því að hentugt húsnæði sé til staðar fyrir Fossvogsskóla. Skipa þarf millilið milli skóla- og frístundasviðs og húseigenda sem leiðir það starf og um leið þá umræðu sem að því snýr. Afar mikilvægt er að skólasamfélag Fossvogsskóla fái skýr skilaboð um þetta verklag og um leið þær samskiptaleiðir sem þeirri verkaskiptingu fylgir. Með því að lyfta þeim verkefnum af herðum skólastjórnenda gefst þeim tækifæri að leiða á ný innra starf Fossvogsskóla á þann hátt sem lög um grunnskóla segja til um. 

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar fyrir góða kynningu á myglu frá Eflu og hvetur Reykjavíkurborg til að fara í stóreflda vinnu við athugun á leikskólahúsnæði borgarinnar með mögulega myglu og loftgæði í huga. Ef um staðfesta myglu er að ræða og framkvæmdir raska starfsemi leikskóla að tryggt verði að hagaðilum verði boðið til samráðs, þ.e. fulltrúum starfsfólks og foreldra, því stöðugt upplýsingaflæði og gegnsæi eflir traust og stuðlar að meiri ánægju þeirra sem starfa í óheilbrigðu húsnæði.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva telur mikilvægt að flýtt verði gerð verklags um viðbrögð við grun um léleg loftgæði eða myglu í húsnæði borgarinnar. Þar er mikilvægt að hlutverk stjórnenda sé skýrt og ábyrgð umhverfis- og skipulagssviðs sömuleiðis. Alltof mikill tími stjórnenda frístundastarfs fer í húsnæðismál þar sem grunur er um léleg loftgæði eða lélegt viðhald. Mikilvægt er að gerð sé ýtarleg úttekt á loftgæðum í húsnæði þar sem frístundastarf fer fram. 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskóla leggur mikla áherslu á að aukið verði samráð í skólasamfélaginu í Fossvogsskóla strax. Það þarf að fá fleiri raddir að borðinu er koma að málefnum skólans, einnig er mikilvægt að hlusta á raddir foreldra sem eru talsmenn barna sinni. Skólinn er vinnustaður nemenda og mikilvægt að sátt sé um málefni er tengjast húsnæði skólans svo eðlilegt skólastarf geti farið fram á meðan á framkvæmdum stendur. Bæði foreldrar og starfsfólk eru á því að færa beri skólastarf sem allra fyrst í Fossvoginn og alger einhugur er um að stíga ekki fæti inn í núverandi skólabyggingar fyrr en framkvæmdum er að fullu lokið. 

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. júní 2021: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að unnið verði með foreldrum í Fossvogi að ásættanlegri lausn í hverfinu vegna þess vanda sem skapast hefur vegna Fossvogsskóla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Skóla- og frístundaráð leggur áherslu á að unnið verði með skólaráði Fossvogsskóla og fulltrúum foreldra, stjórnenda, starfsfólks og nemenda að ásættanlegri lausn vegna þess húsnæðisvanda sem skapast hefur vegna Fossvogsskóla.

    Samþykkt. SFS2021060055

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga um samvinnu við foreldra varðandi aðgerðir í húsnæðismálum Fossvogsskóla er jákvætt innlegg í umræðuna því miklu skiptir að skapa sem breiðasta sátt um þá leið sem verður farin. Þar er rödd foreldra mikilvæg og sömuleiðis sjónarmið skólastjórnenda, kennara, annars starfsfólks og nemenda eins og kemur fram í breytingartillögu meirihlutans.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. júní 2022, um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur auk umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. júní 2021: 

    Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda nemenda með lögheimili í Reykjavík sem heimilt er að greiða framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur skólaárið 2021 - 2022 verði eftirfarandi: 

    Waldorfskólinn Lækjarbotnum; 70 reykvískir nemendur. 

    Alþjóðaskólinn á Íslandi; 30 reykvískir nemendur. 

    Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ; 5 reykvískir nemendur. 

    Grunnskólinn NÚ, Framsýn; 20 reykvískir nemendur. 

    Ákvörðun um viðmið er tímabundin og gildir til 1. júlí 2022, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu. Með samþykkt viðmiða um hámarksfjölda er ekki fallið frá óskilyrtum rétti sveitarfélagsins til að synja einstaka umsóknum foreldra um skólavist í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags. Gerður er fyrirvari af hálfu Reykjavíkurborgar um að fjárveitingar skóla- og frístundasviðs eru gerðar með fyrirvara um fjárheimildir skv. fjárhagsáætlun á hverju ári. 

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2019050183

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2021, um skólavist barna á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2020-2021. SFS2021020018 

    -    Kl. 15.08 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram skýrslan Umbætur og skipulag leikskólastarfs, tillögur stýrihóps, dags. í maí 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. júní 2021, um umsagnir vegna skýrslu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskóla. SFS2019100023 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að sjá hve margar umsagnir bárust og enn ánægjulegra hve jákvæðar þær eru á heildina litið. Hér er um að ræða mikilvægar aðgerðir til að bæta umhverfi barna og starfsfólks á leikskólum, nýta tíma og mannauð með markvissari hætti og skilgreina betur fyrirkomulag starfsins. Eins má vekja athygli á boðuðum sveigjanleika á dvalartíma innan vikunnar, og þeim mótvægisaðgerðum sem boðaðar eru til að koma til móts við þá foreldra sem þurfa á lengri viðverutíma að halda. Tilgangur þessara aðgerða er að bæta leikskólastarfið, líðan barna og gera leikskóla borgarinnar að meira aðlaðandi vinnustað.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast gegn varanlegri skerðingu á opnunartíma leikskóla í Reykjavík. Andstaða meðal foreldra birtist glöggt í fyrirliggjandi umsögnum við tillöguna. Minnt er á niðurstöður jafnréttismats sem sýndu glöggt hvernig skert leikskólaþjónusta kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Þá kemur skerðingin ekki síst illa niður á íbúum efri byggða sem starfa fjarri heimili sínu og þurfa að ferðast langan veg til vinnu. Mikilvægt er að tryggja óskerta leikskólaþjónustu í Reykjavík. Það er mikilvægt jafnréttismál.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna tekur undir athugasemdir frá fagaðilum, Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, sálfræðideild, við tillögurnar. Það vantar faglegan og fræðilegan rökstuðning fyrir breyttu dagskipulagi. Allar meiriháttar breytingar á faglegu starfi leikskólanna þurfa að byggja á tryggum fræðilegum grunni. Í mörgum umsögnum frá foreldrum kemur skýrt fram að margir foreldrar óttast skerðinguna á þjónustu og hvaða áhrif hún kann að hafa. Foreldrar vilja gjarnan stytta dvalartíma barna sinna á leikskólum en geta ekki öll gert það vegna atvinnu sinnar.

    -    Kl. 15.58 víkur Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. júní 2021, um sumaropnun leikskóla 2021. SFS2021010121

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar fyrir kynningu á sumaropnun leikskóla 2021, staðan við upphaf sumars. Gott hefði verið að sjá hvernig barnafjöldinn raðast niður á vikur í hverjum leikskóla fyrir sig. Það getur skýrt betur kostnað sem skólar verða fyrir því eins og taflan sýnir þá er ekki samræmi á milli starfsstaða. Rétt er að benda á að leikskólastjóri sem situr alla sumaropnun er fjarverandi 6 vikur á öðrum aðal starfstíma síns skóla og ekkert er aukið við í stjórnun skóla í þeim skólum. Aðstoðarleikskólastjóri er oft í skertu stjórnunarhlutfalli og nauðsynlegt er að gera ráð fyrir aukinni stjórnun í samræmi við það. 

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 11. febrúar 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2021, um aðstöðu félagsmiðstöðvar við Sæmundarskóla:

    Lagt er til að farið verði í úrbætur á aðstöðu fyrir félagsmiðstöð við Sæmundarskóla en bæði foreldrar og starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar hafa ítrekað kallað eftir því að aðstaðan verði bætt. Gert var ráð fyrir við hönnun skólans að aðstaða væri fyrir félagsmiðstöð innan hans en sú aðstaða hefur nánast frá upphafi verði nýtt í skólastofur. Bent hefur verið á að ákjósanlegast sé að koma upp varanlegri aðstöðu fyrir félagsmiðstöðina austan megin við Sæmundarskóla til framtíðar. Á meðan slíkri aðstöðu hefur ekki verið komið upp er mikilvægt að farið verði í bráðabirgðaaðgerðir til að mynda með færanlegum kennslustofum.

    Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2020020040

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva vill lýsa yfir ánægju með að félagsmiðstöðvastarf við Sæmundarskóla fái aðstöðu í skólanum, sem gert var ráð fyrir í hönnun skólans á sínum tíma. Mikilvægt er að félagsmiðstöðvarstarf fari fram í nærumhverfi unglinganna.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi aðstöðu félagsmiðstöðvar við Sæmundarskóla. SFS2020020040

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 210. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi leikskóla í Staðahverfi. SFS2021060052

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 210. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi uppsagnir starfsmanna Fossvogsskóla 2021. SFS2021060053

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 207. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi opnunartíma leikskóla. SFS2021040160

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. apríl 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 199. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi grunnskólanemendur sem stunda fjarnám á framhaldsskólastigi 2018-2021. SFS2021010170

    Fylgigögn

  17. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að Reykjavíkurborg verði í fararbroddi í menntamálum og heildstæð náms- og starfsráðgjafaráætlun verði mörkuð fyrir árin 2020-2030. Lagt er til að Reykjavíkurborg setji í forgang að marka heildstæða náms- og starfsráðgjafaráætlun og efla náms- og starfsfræðslu í grunnskólum borgarinnar fyrir 1. – 10. bekk sem lið í að framfylgja nýrri menntastefnu fyrir árin 2020-2030. Með slíku frumkvæði væri Reykjavíkurborg að sýna ákveðið fordæmi í menntamálum. Ekkert sveitarfélag hefur markað sér stefnu í náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu með þessum hætti.

    Greinargerð fylgir. 

    Frestað. SFS2021060210

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:24

Skúli Helgason Alexandra Briem

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_2206.pdf