Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 209

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 25. maí, var haldinn 209. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33. Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Hildur Björnsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum; Árni Jónsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Bára Katrín Jóhannsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Umbætur og skipulag leikskólastarfs, tillögur stýrihóps, dags. í maí 2021. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að skýrsla stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs verði send til umsagnar helstu hagsmunaaðila, s.s. foreldraráða og foreldrafélaga leikskóla Reykjavíkurborgar, Félags stjórnenda leikskóla, Félags leikskólakennara, Sameykis, Eflingar, Samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Jafnframt verði opið umsagnarferli. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að setja í gang vinnu við að móta áætlun um forgangsröðun og innleiðingu tillagna sem fram koma í skýrslu um umbætur og skipulag leikskólastarfs. Óskað er eftir endanlegu fjárhagsmati á tillögunum og að áætlunin feli í sér tímasetta áfanga. Innleiðingaráætlun verði lögð fyrir skóla- og frístundaráð eigi síðar en 22. júní 2021.

    Samþykkt. SFS2019100023

    Guðlaug Gísladóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum dagskrárlið. 

    -    Kl. 14:08 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum og Geir Finnsson tekur þar sæti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Bætt starfsumhverfi barna og starfsfólks er eitt mikilvægasta verkefnið í starfsemi leikskóla um þessar mundir og hafa fjölmargar aðgerðir þess efnis verið innleiddar sl. 3 ár. Tillögur stýrihópsins eru mikilvægt innlegg í þessa vinnu, þær eru til þess fallnar að draga úr álagi á börn og starfsfólk og auka gæði leikskólastarfs, samhliða því að koma til móts við þarfir foreldra með skýrum mótvægisaðgerðum. Meðal helstu tillagna má helst að nefna að skipulag faglegs starfs í leikskólum fer í fastari skorður og fer að mestu fram milli 8:30 og 14:00. Það gerir mögulegt að þétta það starf og nýta betur tíma fagstétta, ásamt því að draga úr álagi. Dvalartími barna takmarkast við 9 tíma á dag að hámarki, og 42,5 tíma á viku óháð opnunartíma en dvalartími íslenskra barna er í dag með allra lengsta móti miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Opnunartími leikskóla verður almennt til 16:30 en í samræmi við jafnréttismat verður komið til móts við þarfir foreldra sem þurfa rýmri dvalartíma með því að 1-2 leikskólar í hverju hverfi verði opnir til 17, en einnig verður langur aðlögunartími að breytingunum. Tillögurnar fara nú til umsagnar hagsmunaaðila áður en þær verða afgreiddar í næsta mánuði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast gegn varanlegri skerðingu á opnunartíma leikskóla í Reykjavík. Minnt er á niðurstöður jafnréttismats sem sýndu glöggt hvernig skert leikskólaþjónusta kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Þá kemur skerðingin ekki síst illa niður á íbúum efri byggða sem starfa fjarri heimili sínu og þurfa að ferðast langan veg til vinnu. Nú verður kallað eftir umsögnum frá helstu hagsmunaaðilum um skýrslu stýrihópsins. Þar vekur athygli að ekki er fyrirhugað að leita umsagnar frá fulltrúum atvinnulífs. Leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokks áherslu á að úr því verði bætt hið fyrsta.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra og fulltrúar leikskólastjóra í stýrihóp „Umbætur og skipulag leikskólastarfs“ fagna nýútkominni skýrslu þar sem kveðið er á um 6 aðgerðir til úrbóta fyrir leikskólastarf.  Styttri opnunartími leikskóla, skipulag dagsins, endurskoðun á úthlutunarlíkani, uppbyggingu gjaldskrár, framtíðarsýn um stærð barnahópa og leik- og heildarrými á hvert barn, og svo að lokum aðgerðir til að bregðast við nýliðunarvanda leikskólakennara og koma til móts við mönnunarvanda. Starfshópurinn var settur saman vegna neyðarákalls leikskólastjóra 2019 og var þá helsti vandinn langur opnunar- og þjónustutími leikskóla, fáir leikskólakennarar og langtíma framtíðarskortur á þeim, of lítið fjármagn og allt of mikið álag á leikskólastjóra.  Dæmi eru um að engir leikskólakennarar sæki um stjórnunarstöður eða aðrar auglýstar stöður innan leikskólans. Einkaleikskólar, styrktir af almannafé, loka 16:30 eða fyrr og framtíðarsýnin er svört og aðgerða er þörf til að bjarga leikskólanum frá hruni. Reykjavíkurborg á að vera í fararbroddi með gæðastarf leikskóla og aðlaðandi starfsumhverfi sem stendur vörð um réttindi og hag barna.  Þessar 6 aðgerðir eru settar fram til þess að styðja við leikskólann á eins mildan hátt og frekast er kostur sem um leið bæta innra starf hans og við stöndum jafnfætis öðrum um að laða til okkar kennara.  

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar því að komnar séu niðurstöður þessarar mikilvægu vinnu um umbætur á skipulagi og umhverfi leikskólastarfs Reykjavíkurborgar. Ljóst er að stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til í skýrslunni mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur. Fjölskyldur eru alls konar og þurfa mismunandi hluti á mismunandi tímum en það sem mjög margar fjölskyldur þurfa meira af er sveigjanleiki og styttri opnunartími leikskóla er ekki skref í þá átt. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður. Almennt finnst er mikilvægt í svona skýrslu að hugað sé að því að orðalag sé mjög nákvæmt og skýrt og ekki óþarflega gildishlaðið og því miður þá er stundum í þessari skýrslu bara frekar neikvætt gildishlaðið orðalag í garð foreldra og óskýrt hvort verið er að tala um þann dvalartíma sem foreldrar sækja um eða raundvalartíma barna á leikskólum. Í skýrslunni eru líka margar góðar hugmyndir um nýliðanámskeið, jákvæðar breytingar á dagsskipulag, samræming kjaramála milli leikskóla og grunnskólastigsins og fleira.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrslan Stefna um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025: Innleiðing og mat á árangri á verkefnum SFS, dags. í mars. 2021. SFS2019090313

    -    Kl. 15:00 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur þar sæti. 

    Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Guðrún Kaldal og Atli Steinn Árnason taka sæti á fundinum undir þessum dagskrárlið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Frístundastefna Reykjavíkurborgar til 2025 var samþykkt í borgarstjórn á haustmánuðum 2017 og hefur hún verið veigamikill þáttur í þeirri sókn sem einkennt hefur frístundastarfið á undanförnum árum.  Mikill árangur hefur mælst af stefnunni, t.d. ríflega tvöföldun í aðsókn barna og ungmenna í félagsmiðstöðvastarf frá 2017 og almenn ánægja með störf frístundafræðinga í grunnskólum og frístundastarfi sem stjórnendur telja hafa aukið gæði starfsins í grunnskólunum. Starfshópnum eru færðar miklar þakkir fyrir greinargóða skýrslu um innleiðingu stefnunnar og mat á árangrinum sem verður mikilvægt gagn í því samtali sem nú fer í gang milli viðeigandi sviða borgarinnar og í borgarstjórn um þá forgangsröðun sem þarf að vinna og innleiða fyrir næstu fjögur ár á gildistíma stefnunnar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2021, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2021 og umsögnum íbúaráðs Vesturbæjar, skólaráðs Melaskóla, foreldrafélags Melaskóla, skólaráðs Hagaskóla, foreldrafélags Hagaskóla og foreldraráðs Sæborgar:

    Lagt er til að samþykkt verði nýtt skólahverfi í Skerjafirði fyrir nemendur í 1.-7. bekk grunnskóla. Nýju skólahverfi tilheyri stóri, litli Skerjafjörður suður og ný íbúðabyggð, Skerjabyggð í Skerjafirði. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir 1.400 nýjum íbúðum í nýju hverfi. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir byggingu 700 íbúða. Þá er lagt til að nemendur sem búa í litla Skerjafirði norður sæki skóla í Melaskóla en geti valið að fara í skólann í Skerjafirði. Unglingar (8. – 10. bekkur) í hverfinu munu sækja Hagaskóla. Breytingin taki gildi um leið og nýr skóli í Skerjafirði er risinn. Ljóst er að þrengsli eru nú þegar í skóla- og frístundastarfi í Melaskóla og Hagaskóla. Vinna starfshópa er í gangi varðandi húsnæðisþörf og endurbætur í skólunum tveimur. Gert er ráð fyrir því að þeir starfshópar skili af sér síðar á vormánuðum 2021. Þá tekur við ákvarðanataka um framkvæmdir og í kjölfarið ferli hönnunar og framkvæmda.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021010021

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að uppbygging nýs skóla í Skerjafirði komi ekki í veg fyrir löngu tímabærar endurbætur á skólahúsnæði Melaskóla og Hagaskóla.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2021, ásamt umsögn frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar, dags. 17. maí 2021 og umsögn frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, dags. 18. maí 2021:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að skóla- og frístundaráð samþykki að frístundamiðstöðin Kringlumýri taki við rekstri sértæku félagsmiðstöðvarinnar Hofs frá frístundamiðstöðinni Tjörninni. 

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021050167

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. ágúst 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 12. maí 2021: 

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið sjái til þess að unnið verði að framkvæmdum og endurbótum við leikskólann Gullborg í samráði við fulltrúa starfsfólks og foreldra. Þá er jafnframt lagt til að foreldrar barna við leikskólann verði upplýstir hið fyrsta um verkáætlanir og tímasetningar á framkvæmdum.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þrem atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. SFS2020080231

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdir við leikskólann Gullborg standa yfir og fela í sér að gerðar eru tímabærar endurbætur á húsnæði leikskólans auk þess sem bætt verður við nýju húsnæði við leikskólann þar sem hægt verður að bjóða nýjum börnum í 27 pláss til viðbótar. Upplýsingagjöf til foreldra og starfsfólks er mikilvægur hluti af ferlinu og er á herði leikskólastjóra sem reglulega upplýsir um gang framkvæma.  Nýja húsnæðið er væntanlegt á staðinn í sumarbyrjun og endurbótum á eldra húsnæði á að ljúka í haust.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram tillöguna vegna kvartana sem sendar voru á kjörna fulltrúa í lok ágúst árið 2020 frá foreldraráði leikskólans Gullborgar, en þar sagði „í meðfylgjandi erindi foreldraráðs leikskólans Gullborgar er óskað eftir svörum frá aðalmönnum skóla- og frístundaráðs varðandi stöðu stækkunar leikskólans og viðbrögðum ráðsins við bágri stöðu leikskólamála á Grandasvæðinu sem brýnt er að bregðast við sem allra fyrst“. Það er gott að frá þeim níu mánuðum sem fyrirspurnin var lögð fram hafa samskipti á milli alla aðila batnað og eru í réttu ferli. Það verður að tryggja að svo sé ávalt.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. ágúst 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 12. maí 2021: 

    Lagt er til að komið verði fyrir færanlegum kennslustofum á lóð leikskólans Gullborgar til að brúa bilið á meðan framkvæmdir við skólann standa yfir til að hægt verði að taka inn þau börn sem hafa fengið vilyrði fyrir leikskólaplássi og áttu að hefja aðlögun nú í haust.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þrem atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. SFS2020080231

    Fylgigögn

  7. Lögð fram drög að samningi við Myndlistaskólann í Reykjavík um námskeið fyrir börn og unglinga í Reykjavík ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. maí 2021, reglum Reykjavíkurborgar um styrki, samþykktar í borgarráði 25. maí 2017 og uppgjör á samningum við Myndlistaskólann í Reykjavík fyrir skólaárin 2018-21, dags. 29. apríl 2021. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021050175

    Fylgigögn

  8. Lögð fram drög að þjónustusamningi við Myndlistaskólann í Reykjavík vegna námskeiða í leikskólum og grunnskólum fyrir börn og starfsmenn ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. maí 2021, reglum Reykjavíkurborgar um styrki, samþykktar í borgarráði 25. maí 2017 og uppgjör á samningum við Myndlistaskólann í Reykjavík fyrir skólaárin 2018-21, dags. 29. apríl 2021. SFS2021050175

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 189. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi framkvæmdir við Gullborg. SFS2020080231

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:   

    Fulltrúum Sjálfstæðisflokks finnst ótækt að það líði níu mánuðir frá því að þeir leggja fram fyrirspurn og þangað til að henni er svarað en þessi fyrirspurn var lögð fram 25. ágúst 2020. Það getur ekki talist viðunandi afgreiðslutími.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. maí 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 205. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi málefni Fossvogsskóla. SFS2018120034 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að óska eftir upplýsingum um áætlanir varðandi málefni Fossvogsskóla. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þekkja vel það ferli sem hefur verið í gangi í hartnær þrjú ár núna og hver kostnaður við þær endurbætur sem þegar hefur verið farið í er. Það sem ekki kemur fram í svarinu er það sem spurt var um: Óskað er upplýsinga um áætlanir varðandi málefni Fossvogsskóla. Hvaða áform eru um viðgerðir á mygluvandamálum í Fossvogsskóla? Hafa áætlanir verið gerðar og tímasettar? Sömuleiðis er óskað upplýsinga um hvort gerðar hafa verið aðrar áætlanir um skólahald fyrir nemendur í Fossvogsskóla, gangi áform um viðgerðir ekki eftir. Og þá í hverju þær áætlanir felast. Munu þær áætlanir verða kynntar starfsfólki, nemendum og foreldrum þeirra um leið og þær liggja fyrir? Því er ekki svarað þrátt fyrir það að í svarinu segir „Nú er unnið að frekari greiningarvinnu á Fossvogsskóla og er áætlað að þeirri vinnu ljúki í byrjun maí 2021“.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verið er að leggja lokahönd á gerð áætlana um framkvæmdir við Fossvogsskóla á grundvelli þeirrar ítarlegu úttektar sem farið hefur fram á húsnæðinu undanfarnar vikur.  Helstu niðurstöður verða kynntar á fundi með skólaráðinu á morgun og þar farið yfir valkosti sem helst koma til greina varðandi framkvæmdir.  Í kjölfarið verður kláruð framkvæmdaáætlun sem kynnt verður foreldrum og starfsfólki.

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er upplýsinga um áætlanir varðandi málefni Fossvogsskóla. Hvaða áform eru um viðgerðir á mygluvandamálum í Fossvogsskóla? Hafa áætlanir verið gerðar og tímasettar? Sömuleiðis er óskað upplýsinga um hvort gerðar hafa verið aðrar áætlanir um skólahald fyrir nemendur í Fossvogsskóla, gangi áform um viðgerðir ekki eftir. Og þá í hverju þær áætlanir felast. Munu þær áætlanir verða kynntar starfsfólki, nemendum og foreldrum þeirra um leið og þær liggja fyrir? SFS2021050201

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um áætlanir varðandi málefni leikskólans Kvistaborgar. Fannst mygla í leikskólanum Kvistaborg?  Ef svo er hvaða áform eru um viðgerðir í Kvistaborg? Hafa áætlanir verið gerðar og tímasettar? Hafa þessar áætlanir verða kynntar starfsfólki og foreldrum nemenda ? Hvað kostuðu þær viðgerðir sem farið var í árið 2017 í leikskólanum vegna myglu sem þá kom upp. Eru þær skemmdir sem núna finnast í sama rými og var tekið í gegn árið 2017 ? SFS2021050202

Fundi slitið klukkan 16:02

Skúli Helgason Alexandra Briem

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_2505.pdf