Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 207

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 27. apríl, var haldinn 207. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst kl. 12.31.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á tillögu um fjölgun leikskólaplássa í tengslum við endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar Brúum bilið. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 27. apríl 2021, merkt trúnaðarmál. SFS2021040145

    Gréta Þórsdóttir Björnsson, Halldóra Guðmundsdóttir og Edda Lydia Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    -    Kl. 12.56 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum. 
    -    Kl. 13:10 taka Soffía Pálsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Haraldur Sigurðsson sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók. 

  2. Lögð fram skýrslan Fagleg staða stjórnenda í skóla- og frístundastarfi, skýrsla og tillögur um umbætur, dags. í mars 2021.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að skýrsla um faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi verði send til umsagnar helstu hagsmunaaðila, s.s. forystu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi, kennara og foreldra. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að setja í gang vinnu við að móta áætlun um forgangsröðun og innleiðingu tillagna sem fram koma í skýrslu um faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Óskað er eftir endanlegu fjárhagsmati á tillögunum og að áætlunin feli í sér tímasetta áfanga. Innleiðingaráætlun verði lögð fyrir skóla- og frístundaráð eigi síðar en 22. júní 2021.

    Samþykkt. SFS2018010139 

    Guðlaug Gísladóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn þakkar fyrir góðar kynningar á vinnu um faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi. Þessi vinna er lokahnykkurinn í kortlagningu og umbótum á vinnuumhverfi kennara og annars starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundar sem hefur verið í brennidepli undanfarin ár. Hér er lagður grunnur að því að styrkja stjórnendur sem faglega leiðtoga og skerpa á því að verkefni sem hafa verið fyrirferðarmikil í starfi stjórnenda eins og rekstur og umsjón húsnæðis verði í auknum mæli í höndum fagfólks á viðkomandi sviðum. Næstu skref eru að vinna vandaða innleiðingaráætlun með forgangsröðun og kostnaðarmati.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka góða kynningu á skýrslu og tillögum um umbætur á faglegri stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi. Þar er að finna margar jákvæðar og vel ígrundaðar tillögur, aðrar þurfa nánari skoðun og því mikilvægt að skýrslan fari í frekari kynningu og kallað verði eftir umsögnum hagaðila. Margar þessara tillagna hafa margoft komið fram á síðustu kjörtímabilum, út úr fjölda vinnuhópa og samráðsnefnda, án þess að þeim hafi verið fylgt eftir af neinni alvöru. Nýleg skýrsla innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar varpaði skýru ljósi á erfiða stöðu í skólamálum vegna vanfjármögnunar. Því er rétt að spyrja í upphafi þessarar vegferðar, hvort það sé raunverulegur pólitískur vilji til að forgangsraða með þarfir og hagsmuni skólastarfs í borginni í fyrirrúmi.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík fagnar framkomnum hugmyndum um bætt starfsumhverfi fyrir skólastjórnendur í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi en vill árétta þær átta megintillögur sem grunnskólastjórnendur lögðu fram í þessa vinnu. Mikil vinna liggur að baki þeirri vinnu og fangar algerlega óskir okkar um starfsumhverfi. Tillögurnar eru: Fjárframlag verði aukið til að draga úr álagi á stjórnendur grunnskóla. Skýra starfslýsingar um hlutverk skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra og styðja þannig við skýrari verkaskiptingu. Stutt verði við starfsþróun stjórnenda með áherslu á þá þætti sem reynst hafa farsælastir í hæfni stjórnenda samkvæmt nýrri könnun meðal skólastjórnenda í Reykjavík. Styrkt verði úrræði sem stjórnendur hafa til þess að tryggja að dagleg starfsemi skólans gangi upp. Kennslu- og hegðunarráðgjöf verði leidd af skóla- og frístundasviði í stað velferðarsviðs. Flýtt verði gerð nýs úthlutunarlíkans vegna reksturs grunnskóla. Tryggt verði að réttur ábyrgðaraðili hafi umsjón og eftirlit með framkvæmdum og endurbótum á húsnæði sem teljast utan hefðbundins viðhalds. Rammi verði settur utan um yfirvinnu fastlaunasamninga. Við treystum því að skóla- og frístundasvið beiti sér í þágu þess að skólastjórnendum verði búið það starfsumhverfi sem sæmir metnaðarfullum markmiðum skólastarfs í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar fyrir góða kynningu og þá mikilvægu vinnu sem gerð hefur verið til að greina faglega stöðu stjórnenda í skóla- og frístundastarfi. Margt hefur áunnist í starfsumhverfi leikskóla síðustu misseri og fyrir það erum við þakklát. Stærstu málin í dag eru að fjölga leikskólakennurum og auka stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra sem er mjög aðkallandi verkefni og þolir illa bið. Reykjavíkurborg ætti að sinna fasteignaumsjón í skólum með sama hætti á öllum skólastigum, en þar hallar verulega á leikskólastigið. Umræðan er gríðarstór og mikilvægt er að nýta niðurstöður skýrslunnar og tillögur um umbætur og láta verkin tala.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra í frístundamiðstöðvum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva vilja skora á skóla- og frístundaráð og borgaryfirvöld í Reykjavík að tryggja fjármagn fyrir starfi frístundafræðinga í frístundastarfi borgarinnar eins og áætlanir stóðu til um. Góð reynsla er af starfi frístundafræðinga í frístundaheimilum borgarinnar sem hefur skilað skilvirkari vinnu með börnum sem þurfa félagslegan stuðning ásamt því að sýna fram á að þeim fylgir meiri stöðugleiki í starfsmannahópi frístundastarfsins. 

    -    Kl. 14:45 víkja Kristján Gunnarsson og Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram stefna Draumaskólans Fellaskóla. SFS2021040132

    Helgi Gíslason og Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Hér er um að ræða öflugt samstarfsverkefni sem bæði skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og ráðuneyti mennta- og velferðarmála koma að saman. Tilgangur þess er að efla tækifæri nemenda og efla málþroska og læsi, en hlutfall nemenda með annað móðurmál en íslensku er sérstaklega hátt í Fellaskóla og það býr til sérstakar aðstæður fyrir þá kennslu. Öflugt samstarf er við leikskóla á svæðinu, tónlistarskóla og fleiri aðila og lögð er áhersla á leiðsagnarnám, tónlist og íslenskukennslu í öllum fögum. Þarna er um að ræða brautryðjandi starf sem er til mikillar fyrirmyndar.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. júní 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. febrúar 2021:

    Lagt er til að eftirfarandi málsgrein bætist við samþykkt um skóla- og frístundaráð. Við ráðningu í stöðu skólastjóra og leikskólastjóra skal skóla- og frístundasvið gefa foreldrafélagi/foreldraráði og skólaráði viðkomandi skóla kost á virku samráði um málið. Þar sem ráðning skólastjóra eða leikskólastjóra stendur fyrir dyrum, skal gefa stjórn viðkomandi foreldrafélags, foreldraráði og skólaráði kost á að hitta umsækjendur, sem metnir hafa verið hæfastir, til að kynnast sýn þeirra á starfið. Heimilt er að hafa slíkan fund opinn öllum foreldrum viðkomandi skóla. Að undangengnu slíku samráði er þessum aðilum þ.e. stjórn foreldrafélags og skólaráði heimilt að skila umsögn til skóla- og frístundasviðs með áliti um hvaða umsækjandi sé áhugaverðasti kosturinn með hliðsjón af metnaðarfullri framtíðarsýn að þeirra mati til að gegna starfinu.

    Tillagan er dregin til baka. SFS2020060059

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eins og fram kemur í minnisblaði eru ráðningar skólastjórnenda stjórnvaldsákvarðanir og gilda um það leiðbeiningar frá Menntamálastofnun. Almennt er ekki heimilt að taka önnur sjónarmið til greina en það sem kemur fram í auglýsingu, og er ábyrgð á því á hendi umboðshafa, sem er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs. Hins vegar er í viðmiðum skóla- og frístundaráðs um ráðningar kveðið á um að foreldrar hafi ákveðið hlutverk í ráðningarferli stjórnenda með því að gefinn er kostur á því að foreldraráð eða skólaráð hafi tækifæri til að koma með tillögur að hæfniskröfum eða einstaka áhersluþáttum áður en gengið er frá auglýsingu um viðkomandi starf. Þannig getur skólaráð og foreldrasamfélagið haft áhrif á ráðninguna, en ekki er hægt að fallast á að vel færi á því að þeir aðilar hafi aðkomu að viðtölum, eða beri ábyrgð á endanlegri ákvörðun um ráðningu sem er stjórnvaldsákvörðun og þar með á ábyrgð sviðsstjóra. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 11. júní 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. janúar 2021: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf. Það hefur sýnt sig í rannsóknum að bekkjastærð skiptir miklu máli fyrir flesta nemendur. Nemendur í of stórum bekkjum ná ekki sama námsárangri og aðrir nemendur. Þá hefur bekkjastærð einnig mikil áhrif á kennara. Álagið sem fylgir því að vera með 20-30 börn í „krefjandi“ bekk er slíkt að það stuðlar að kulnun og brottfalli úr starfi. Í tilfellum þar sem ekki er ráðið við að fækka nemendum í bekk þar sem þess er þörf skiptir sköpum að kennari hafi aðstoðarmann. Með slíku fyrirkomulagi er einnig spornað að einhverju leyti við vandamálinu sem fylgir því að börn með dulda námsörðugleika og vanlíðan fari í gegnum skólakerfið án eftirtektar. Þegar rekstur grunnskóla var færður yfir til sveitarfélaganna árið 1996 var ákveðið að veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm í að útfæra rekstur þeirra. Allt frá árinu 1996 hafa því ekki verið í gildi reglur um stærð bekkja á vegum Menntamálaráðuneytisins. Það er því hlutverk Reykjavíkurborgar að tryggja að bekkjastærðir séu innan skynsamlegra marka og bitni ekki á velferð nemenda og kennara. 

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2020060142

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Breytingar á bekkjarstærðum ættu að vera ákveðnar í heildrænu samhengi, að fengnu samráði við skólasamfélagið og sérfræðinga, og taka mið af aðstæðum sem uppi eru, bæði með tilliti til heildarfjölda nemenda í hverjum árgangi í hverjum skóla og eftir möguleikum á bæði ráðningum og skólastofum. Þó tillagan sé lögð fram af góðum hug er ekki rétt að taka slíka ákvörðun án þess að hafa heildarsamhengi hlutanna í huga. Þá er rétt að halda til haga að bekkjarstærð í skólum í Reykjavík er í takt við það sem gengur og gerist í Evrópu og fjöldi nemenda á hvern kennara í grunnskólum borgarinnar hefur ekki aukist svo neinu nemur á undanförnum árum. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að öðrum starfsmönnum í grunnskólum borgarinnar hefur fjölgað til muna sem á að auðvelda kennurum og öðrum starfsmönnum skólanna að fylgjast með líðan og velferð nemenda og auka stuðning við börn með námsörðugleika og fjölþættan vanda.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 11. júní 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. janúar 2021:

    Flokkur fólksins leggur til að í stærri bekkjum séu ávallt tveir, kennari og aðstoðarmaður. Styðja þarf kennara enn frekar en gert er nú. Mikið álag er á marga kennara sem kenna stórum bekkjum þar sem margir nemendur þurfa e.t.v. sértæka aðstoð. Í slíkum bekk er auðvelt fyrir barn sem hefur sig ekki í frammi að týnast og erfiðara er að uppgötva mögulega námserfiðleika og kortleggja aðstoðina sem börnin kunna að þarfnast. Einkenni eru oft falin. Kennari sem er undir miklu álagi og hefur í mörg horn að líta getur ekki tekið eftir öllu í skólastofunni. Að hafa tvo inni í bekk, kennara og annan honum til aðstoðar er mikill kostur og léttir á álagi. Betur sjá augu en auga, auðveldara er að fylgjast með líðan og hegðun nemenda og þeir fá meiri athygli og aðstoð á einstaklingsgrunni.

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2020060141

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breytingar sem þessar ætti að ákveða í heildrænu samhengi, að fengnu samráði við skólasamfélagið og sérfræðinga, og taka mið af aðstæðum sem uppi eru.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. apríl 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi skóla- og frístundaráðs 9. mars 2021, um fyrirlögn og niðurstöður úr prófinu Lesmál sem lagt er fyrir 2. bekk. SFS2021030128

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. apríl 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi skóla- og frístundaráðs 9. mars 2021, um samræmd próf. SFS2021030130

    Fylgigögn

  9. Lögð fram embættisafgreiðsla sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. apríl 2021, eitt mál, merkt trúnaðarmál. SFS2019020033

  10. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

    -    Kl. 15:41 víkur Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu mörg pláss eru laus í leikskólum Reykjavíkur í apríl 2021.

    SFS2021040158

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um fjölda leikskóladeilda hjá leikskólum Reykjavíkur í apríl 2021, hversu margir leikskólakennarar starfa á leikskólum Reykjavíkur í apríl 2021 og hversu margar deildir eru með starfandi leikskólakennara. Árið 2019 voru leikskóladeildir í Reykjavík 284, þar af voru 184 deildir með starfandi leikskólakennurum en 100 deildir án leikskólakennara.

    SFS2021040159

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Ríkisstjórnin hefur nú kynnt afléttingaáætlun vegna samkomutakmarkana í kórónuveirufaraldrinum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um það hvort skóla- og frístundasvið hafi sett sér afléttingaáætlun hvað varðar afléttingar á þeim takmörkunum sem nú gilda um opnunartíma leikskóla í Reykjavík?

    SFS2021040160

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um meðalaldur barna við inngöngu (ekki innritun) á leikskóla í Reykjavík.

    SFS2021040161

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um uppsafnaða upphæð á öðrum rekstrarkostnaði grunnskóla Reykjavíkur sem ekki hefur verið verðbættur frá árinu 2009.

    SFS2021040162

Fundi slitið klukkan 16:20

Skúli Helgason Alexandra Briem

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_2704.pdf