Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 203

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 23. mars, var haldinn 203. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.31.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Geir Finnsson (C), Hildur Björnsdóttir (D) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Árni Jónsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtalinn starfsmaður skóla- og frístundasviðs: Soffía Pálsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. mars 2021, um að Hildur Björnsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Mörtu Guðjónsdóttur. Jafnframt að Marta Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í stað Egils Þór Jónssonar. SFS2019060216

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 13. maí 2020, þar sem tillögu fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2021, um tillöguna. 

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Sögu Maríu Sæþórsdóttur frá ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að veita auknu fjármagni til grunnskóla og félagsmiðstöðva til þess að hægt sé að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að fríum tíðavörum frá og með hausti 2020.

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið veiti auknu fjármagni til grunnskóla og félagsmiðstöðva til þess að hægt sé að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að fríum tíðavörum frá og með hausti 2021.

    Samþykkt. SFS2020050080

    Saga María Sæþórsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúarnir vilja þakka fulltrúum ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða fyrir góða og mikilvæga tillögu. Ungmenni sem fara á blæðingar hafa ekki val um hvort og hvenær blæðingar hefjast og því mikilvægt að auðvelda aðgengi að tíðarvörum á salernum í skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar. Það getur aukið verulega á kvíða og streitu ungmenna að óttast að byrja á blæðingum á skólatíma eða þurfa að fara á salernið án þess að hafa tíðarvörur meðferðis. Haustið 2018 hófst tilraunaverkefni um aukna markvissa kynfræðslu í tveimur skólum. Samhliða fræðslunni hefur verið boðið upp á fríar tíðarvörur í skólunum. Reynslan af verkefninu hefur verið afar jákvæð og þykir þeim nemendum sem hafa blæðingar öryggi felast í því að geta gengið að tíðarvörunum vísum ef á þarf að halda og hefur starfsfólk viðkomandi skóla tekið undir þá skoðun. Í ljósi þessa er samþykkt að fríar tíðarvörur verði aðgengilegar í öllum grunnskólum og félagsmiðstöðvum borgarinnar frá og með haustinu 2021.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þátttaka ungs fólks í stjórnmálum er afar mikilvægur þáttur í virku lýðræði og þróun þess. Reglulegir fundir borgarstjórnar með ungmennaráðum borgarinnar er öflugur samráðsvettvangur og því nauðsynlegt að taka vel á móti tillögum sem þar eru lagðar fram. Tillögur ungmennaráða eru vandaðar, málefnalegar og vel ígrundaðar. Tafir á afgreiðslu og löng málsmeðferð er ekki til þess fallin að auka áhuga ungmenna á þátttöku í stjórnmálum. Þess vegna harma skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks að tillaga ungmennaráðs hafi dagað uppi innan stjórnkerfis borgarinnar. Tillögunni sjálfri er fagnað og tekið undir með þeirri greinargerð sem tillögunni fylgir. Tillagan er því samþykkt. En um leið er hvatt til þess að tillögur ungmennaráða í framtíðinni fái vandaða málsmeðferð án óþarfa tafa og dráttar.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 13. maí 2020, þar sem tillögu fulltrúa ungmennaráðs Grafarvogs er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. mars 2021, um tillöguna. 

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Emblu Maríu Möller Atladóttur frá ungmennaráði Grafarvogs:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að hefja vinnu við innleiðingu skyldunáms í fjármálalæsi í samstarfi við grunnskóla borgarinnar. Miða skal við að kennsla hefjist í öllum grunnskólum eigi síðar en á haustmisseri 2021.

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið hvetji skólastjórnendur og kennara í grunnskólum til að efla kennslu í fjármálalæsi á öllum stigum grunnskóla frá og með haustönn 2021 og nýta öll þau tækifæri sem gefast í skólastarfinu til að sinna þessum mikilvæga þætti til að búa nemendur undir líf og starf.

    Samþykkt. SFS2020050079

    Embla María Möller Atladóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Eitt af lykilhlutverkum grunnskóla er að undirbúa börn fyrir þátttöku í samfélaginu. Að vera læs á fjármál og þekkja grundvallaratriði sem þeim tengjast er óneitanlega stór hluti af því, og samkvæmt minnisblaði sem lagt er fram með tillögunni er Fjármálalæsi þegar kennd sem sérstakt fag í sex grunnskólum, en sem hluti af stærðfræði eða samfélagsfræði í fleiri skólum. Það er mikilvægt að annars fræðileg menntun í stærðfræði og samfélagsfræði sé sett í samhengi sem nýtist nemendum beint og þar sem það er beinlínis markmiðið að skilja þau áhrif sem peningar, vextir og fjárfesting hafa á líf fólks. Það er því vel við hæfi að hvetja alla skóla til þess að efla kennslu í fjármálalæsi og til að tryggja að hún gleymist ekki innan um aðrar áherslur.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þátttaka ungs fólks í stjórnmálum er afar mikilvægur þáttur í virku lýðræði og þróun þess. Reglulegir fundir borgarstjórnar með ungmennaráðum borgarinnar er öflugur samráðsvettvangur og því nauðsynlegt að taka vel á móti tillögum sem þar eru lagðar fram. Tillögur ungmennaráða eru vandaðar, málefnalegar og vel ígrundaðar. Tafir á afgreiðslu og löng málsmeðferð er ekki til þess fallin að auka áhuga ungmenna á þátttöku í stjórnmálum. Þess vegna harma skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks að tillaga ungmennaráðs hafi dagað uppi innan stjórnkerfis borgarinnar. Tillögunni sjálfri er fagnað og tekið undir með þeirri greinargerð sem tillögunni fylgir. Tillagan er því samþykkt. En um leið er hvatt til þess að tillögur ungmennaráða í framtíðinni fái vandaða málsmeðferð án óþarfa tafa og dráttar.

    -    Kl. 13.10 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að hefja formlegan undirbúning að stofnun leikskóla að Bríetartúni 11. Miðað er við að leikskólinn verði fjögurra deilda ungbarnaleikskóli fyrir 60 börn frá 12 mánaða aldri til þriggja ára. Stefnt er að því að leikskólinn taki til starfa fyrir lok árs 2021.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021030188 

    Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eitt helsta forgangsverkefni meirihlutans um þessar mundir er að fjölga leikskólarýmum svo bjóða megi yngri börnum leikskólavist, allt niður í 12 mánaða fyrir lok árs 2024. Með tillögunni er lagt til að hefja formlegan undirbúning að stofnun nýs ungbarnaleikskóla miðsvæðis í borginni, nánar tiltekið við Bríetartún. Leikskólinn mun rúma 60 börn frá 12 mánaða aldri miðsvæðis í borginni og er stefnt að opnun hans fyrir lok þessa árs. Verkefnið er liður í Brúum bilið aðgerðaáætluninni þar sem fjölgað verður um meira en þúsund leikskólarými á komandi árum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölgun leikskólarýma í Reykjavík er mikilvægur liður í því að brúa bilið og bæta þjónustu við fjölskyldufólk í Reykjavík. Nýr ungbarnaleikskóli við Bríetartún verður því fagnaðarefni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma þó hve seinlega hefur gengið að svara eftirspurn eftir leikskólarýmum í Reykjavík en samkvæmt stöðu biðlista þann 9. febrúar sl. eru nú 737 börn 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í borginni. Núverandi meirihluta hefur tekist illa að standa við gefin loforð um tryggt leikskólapláss fyrir öll 12-18 mánaða börn. Eins hefur ekki lánast að standa við meirihlutasáttmála sem getur þess að brúa skuli bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Betur má ef duga skal!

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Rétt er að halda til haga að Brúum bilið áætlunin fól í sér að fjölgað yrði leikskólarýmum um 700-750 til ársins 2023 með byggingu nýrra leikskóla, viðbygginga, færanlegra deilda o.fl. Áætlunin var samþykkt sem 4-5 ára verkefni og hefur í stórum dráttum staðist en þó hefur verið bætt við fleiri nýjum leikskólum og verður leikskólarýmum fjölgað helmingi meira en upphaflega var gert ráð fyrir. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Foreldrar leikskólabarna geta ekki beðið í 4-5 ár eftir úrræðum. Þegar hafa hundruð fjölskyldna orðið fyrir áhrifum af skorti á leikskólaplássum í Reykjavík.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar stofnun 60 barna ungbarnaleikskóla við Bríetartún sem svara mun brýnni þörf fyrir fleiri leikskólapláss í borginni og tryggja aðgengi að dagvistun þegar fæðingarorlofi líkur. Mikilvægt er að undirbúningur hefjist sem fyrst svo hægt sé að standa við fyrirhugaðan opnunartíma og til þess að tryggja að frá upphafi sé vandað faglegt starf í hinum nýja leikskóla.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. mars 2021:

    Lagt er til að opnunartími leikskóla borgarinnar verði óbreyttur eða frá kl. 7.30 til 16.30 til 15. ágúst 2021. Tillagan tekur mið af þeim kröfum sem gerðar eru til þrifa í leikskólunum vegna COVID faraldursins og þess starfsumhverfis sem einkennt hefur leikskólastarf borgarinnar í heilt ár með aukinni vinnu vegna þrifa og sóttvarna auk hliðrunar á bæði dvalartíma barna og vinnutíma starfsfólks. 

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frísundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2019100023

    Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Leikskólar borgarinnar hafa verið opnir til kl. 16.30 undanfarið ár vegna aukins álags á starfsemina í tengslum við COVID-19 faraldurinn sem m.a. hefur þýtt stórauknar kröfur um þrif í lok hvers dags. Þær kröfur munu verða í gildi út þetta starfsár og þegar við bætist óvissa vegna mögulegrar aukningar smita í samfélaginu er skynsamlegt til að stuðla að stöðugleika í starfsemi leikskólanna að gefa út skýr fyrirmæli um að opnunartíminn verði óbreyttur þangað til eftir sumarleyfi leikskóla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í ársbyrjun 2020 kynnti meirihluti borgarstjórnar fyrirhugaða skerðingu á opnunartíma leikskólanna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðust gegn skerðingunni enda kæmi hún verst niður á viðkvæmum hópum og yrði afturför í jafnréttisbaráttunni. Breytingunni var frestað meðan framkvæmt yrði jafnréttismat, en niðurstöður matsins sýndu glöggt hvernig skerðingar á leikskólaþjónustu kæmu verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hefðu lítinn sveigjanleika í starfi. Þrátt fyrir niðurstöður matsins var á haustdögum ákveðið að skerða opnunartímann, að þessu sinni undir yfirskini sóttvarna. Engin sannfærandi rök voru færð fyrir breytingunni né heldur þeirri fullyrðingu að ekki mætti tryggja viðeigandi sóttvarnir innan hefðbundins opnunartíma. Til samanburðar hefur frístundaheimilum borgarinnar tekist að tryggja óskertan opnunartíma þrátt fyrir auknar kröfur um sóttvarnir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka nú andstöðu sína við áformaða þjónustuskerðingu og hvetja til lausnamiðaðrar nálgunar á viðfangsefnið. Til að mynda mætti ljúka leikskóladegi á leiksvæði utandyra, meðan þrifum og sótthreinsun er sinnt innandyra. Eðlilegast er að samræma þjónustustig frístundaheimila og leikskóla - og tryggja aukinn sveigjanleika fyrir fjölskyldur í Reykjavík.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar meirihlutans benda á að stýrihópur um bætt starfsumhverfi leikskóla er ennþá að störfum og mun leggja fram tillögur þegar starfi hans er lokið. Sú tillaga sem nú hefur verið samþykkt er vegna þeirra ráðstafana sem sóttvarnaryfirvöld hafa gert kröfu um vegna þrifa í leikskólum og gilda tímabundið.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna gerir athugasemdir við framlengingu á styttum opnunartíma leikskóla í Reykjavík vegna Covid19. Allar breytingar á þjónustu leikskóla hafa mikil áhrif á börn og foreldra/forráðafólk og geta aukið mjög álag á fjölskyldur. Um verulega skerðingu á opnunartíma er að ræða og jafnréttismat frá júní 2020 sýnir skýrt að opnunartími til kl. 17 er mikilvæg þjónusta fyrir margar fjölskyldur í borginni. Ekki má nota viðbrögð við Covid19 sem afsökun fyrir svo langvarandi skerðingu á þjónustu. Fækkun barna með vistunartíma til kl. 17 undanfarið ár er ekki marktæk enda hefur vistun bara verið í boði til 16.30 allan þann tíma. Eðlilegra hefði verið að mæta auknu álagi við þrif með fjölgun starfsfólks eða aukinni ræstingu eftir lokunartíma skólanna frekar en að starfsfólk leikskólanna þurfi að sinna þessu á opnunartíma leikskólanna.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi leikskólastjóra fagnar þeirri ákvörðun skóla- og frístundaráðs að framlengja skertan opnunartíma leikskóla 07:30-16:30 til 15. ágúst á Covid tímum og skapa þannig lágmarks aðstæður fyrir starfsmenn leikskóla til að sinna þeim þrifum og frágangi sem lagt eru til af hálfu almannavarna.

    -    Kl. 13:50 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2021, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins frá 199. fundi skóla- og frístundaráðs um breyttan opnunartíma leikskóla vegna Covid-19.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi skóla- og frístundaráðs 26. janúar 2021:

    Lagt er til að leikskólar Reykjavíkur færi þegar í stað opnunartíma sinn til fyrra horfs. Samþykkt var á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst sl. að breyta opnunartímanum þannig að leikskólar yrðu ekki opnir lengur en til kl. 16:30 í stað til kl. 17:00. Um var að ræða tímabundna ráðstöfun vegna Covid 19 og samþykktin átti að gilda til 31. desember 2020. Engin samþykkt er því lengur í gildi sem heimilar þennan breytta opnunartíma og því nauðsynlegt að breyta honum til fyrra horfs sem fyrst.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020080077

    Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. febrúar 2021, ásamt umsögn skólaráðs Réttarholtsskóla, dags. 13. janúar 2021, umsögn foreldrafélags Réttarholtsskóla, dags. 14. janúar 2021 og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. mars 2021:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að stofnuð verði ný sérdeild fyrir einhverfa nemendur á unglingastigi grunnskóla. Deildin verði staðsett í Réttarholtsskóla og taki til starfa 1. ágúst 2021.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021010082 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi skóla- og frístundaráðs 12. janúar 2021:

    Lagt er til að gerð verði könnun á því hjá þeim nemendum sem ekki eru í mataráskrift grunnskólanna hvaða ástæður séu fyrir því. Mikilvægt er að slík könnun fari fram til að greina hvort um sé að ræða efnahagslegar ástæður foreldra, að máltíðirnar uppfylli ekki gæðakröfur eða enn aðrar ástæður. Könnunin verði nýtt til þess að gera viðeigandi úrbætur til að fleiri nemendur nýti sér mataráskrift og tryggja að öllum nemendum standi til boða máltíðir óháð efnahag foreldra. 

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að taka saman fyrir grunnskóla Reykjavíkur þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi í Skólapúlsinum frá nemendum sem ekki eru í mataráskrift grunnskólanna og um ástæður þess. Jafnframt verði teknar saman upplýsingar úr öðrum könnunum varðandi mataráskriftir og matseðla í grunnskólum. Samantekt og mat á gögnunum með tilliti til úrbóta verði lagt fyrir skóla- og frístundaráð ekki síðar en í maí 2021.

    Samþykkt. SFS2021010076

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Þessi tillaga er góð og það getur bara verið til að bæta ákvarðanatöku að hafa nánari upplýsingar um þær ástæður sem eru fyrir því að börn séu ekki skráð í mataráskrift. Þær upplýsingar liggja nú þegar fyrir að miklu leyti í Skólapúlsi og því liggur beint við að þær séu teknar saman þaðan og lagðar fram, enda tekur það mun minni tíma en að fara í nýja könnun. Hugmyndin er samt sem áður góð og því lögð fram með þessari breytingu.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 5. september 2019 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. ágúst 2020, um tillöguna:

    Lagt er til að fundnar verði leiðir til að tryggja að börn sem eru af erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem oftast til að auka líkur þeirra á að tileinka sér íslenskt mál sem fyrst. Þátttaka þeirra í umhverfi þar sem töluð er íslenska skiptir sköpum. Fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjármagns til grunnskóla að börn af erlendu bergi sem eru fædd á Íslandi komu ekki nógu vel út úr prófi sem ætlað er að greina færni þeirra í íslensku. Fjármagni er úthlutað sérstaklega til grunnskóla vegna kennslu fjöltyngdra barna. Stuðst er við niðurstöður Milli mála málkönnunarprófs sem mælir færni þeirra í íslensku. Úthlutunin byggir á tveimur breytum; annars vegar hlutfalli nemenda með annað móðurmál en íslensku af heildar nemendafjölda skólans og hins vegar af fjölda nemenda sem fá kennslu í íslensku sem öðru máli í skólanum. Samkvæmt niðurstöðum Milli mála málkönnunarprófs síðastliðinna ára eru um 45% barna sem fædd eru á Íslandi af erlendum foreldrum sem þurfa mjög mikinn stuðning í íslensku. Það er sláandi hvað mörg börn sem fædd eru á Íslandi og hafa alist upp í leik- og grunnskólakerfinu séu engu að síður svo illa stödd í íslensku. Þetta þarf sérstaklega að leggjast yfir. Finna þarf leiðir til að tryggja að þessi börn heyri íslensku nægjanlega oft og vel til að geta meðtekið hana sem sitt fyrsta mál.

    Greinargerð fylgir. 

    -    Kl. 14.18 tekur Diljá Ámundadóttir Zoëga sæti á fundinum með fjarfundabúnaði og Geir Finnsson víkur af fundinum

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2019090056

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Eins og fram kemur í ítarlegu minnisblaði sviðsins er nú þegar lagður mikill metnaður í íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál, þar ber að nefna brúarsmiði, lestrarvini og starf miðju máls og læsis. Þar að auki hefur skóla- og frístundaráð nýlega samþykkt aðgerðir til að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku m.a. með opnun íslenskuvera sem byggja á aukafjárveitingu upp á 143 milljónir sem samþykkt var í desember sl.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 3. september 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. febrúar 2021, um tillöguna:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð í samvinnu við mannréttinda-, lýðræðis- og nýsköpunarráð, Mannréttindaskrifstofu og velferðarráð beiti sér sérstaklega fyrir hagsmunum erlendra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Huga þarf að þessum hópi út frá stöðu þeirra í skóla- og frístundakerfinu, félagslega og ekki síst námslega s.s. námsgreinar sem snúa að lestrar- og íslenskukennslu. Skortur er á almennum úrræðum og fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum. Staða margra þessara barna er slæm og hætta er á að þau einangrist. Árið 2014 var settur af stað hópur af skóla- og frístundaráði sem hafði það hlutverk að móta stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf. Í Stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf eru ýmsar tillögur og ábendingar en óljóst er hvað af þessum tillögum/ábendingum hafa komist í framkvæmd. Lagt er því til að fagráð borgarinnar sameinist um að beita sér í málaflokknum til að bæta líðan, aðstöðu og utanumhald erlendra barna í leik- og grunnskólum borgarinnar.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2020090085

    Fylgigögn

  11. Fram fer skipan fulltrúa í valnefnd vegna hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs.
    Samþykkt að skipa í valnefndina Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur í stað Kolbrúnar Baldursdóttur. 

  12. Fram fer umræða um málefni Fossvogsskóla. Lögð fram kynning á tímalínu framkvæmda og sýnatökum 2019-2021 í Fossvogsskóla. SFS2018120034 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæðismál Fossvogsskóla hafa tekið nýja stefnu með ákvörðun sviðsstjóra í samráði við skólastjóra um að flytja starfsemi skólans meðan leitað verður að uppruna þess vanda sem leitt hefur til vanda í húsnæði skólans. Starfsemin flyst tímabundið í Korpuskóla meðan nýtt teymi sérfræðinga með aðkomu ráðgjafa foreldra frá verkfræðistofunni EFLU fer vandlega yfir allar framkvæmdir, sýnatökur og gögn og leggur í kjölfarið fram tillögur að frekari aðgerðum í Fossvogsskóla. Þá verður boðið upp á þjónustu trúnaðarlækna barna og foreldra þeirra á vegum Barnaspítala Hringsins í þeim tilgangi að fá heildarmynd með aðkomu fagaðila af heilsufari þeirra barna sem fundið hafa fyrir einkennum og veikindum og leggja til úrlausnir. Eftir stendur að ráðist hefur verið í afar umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu, svo hann hefur verið endurbyggður að stórum hluta. Meirihlutinn leggur áherslu á að mikilvægt er að halda vel utan um og styðja faglega starfið í skólunum, styðja við bakið á starfsfólkinu og nemendum í nýju umhverfi og skapa grundvöll fyrir góðri samstöðu um næstu skref og farsæla lausn málsins. Fulltrúarnir vilja þakka skólasamfélaginu, foreldrum, kennurum og börnum fyrir sitt mikla framlag við að tryggja áframhaldandi skólastarf við krefjandi aðstæður meðan nýskipað teymi vinnur að framtíðarlausn í húsnæðismálum skólans.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks senda þakkir til skólasamfélagsins, foreldra, nemenda, og starfsfólks Fossvogsskóla, auk starfsmanna framkvæmdasviðs Reykjavíkuborgar sem öll hafa lagt sitt af mörkum við lausn húsnæðisvanda skólans. Næstu misseri verður sérlega mikilvægt að veita starfsfólki og nemendum nauðsynlega aðstoð svo styðja megi við faglegt starf í óhefðbundnu ástandi. Er það sérstaklega harmað hve langan tíma hefur tekið borgaryfirvöld að koma málum í farveg og hve illa hefur verið staðið að upplýsingagjöf. Í tæplega þrjú ár hafa nemendur skólans þurft að kljást við veikindi og óvissu með skólahald. Heilsa barnanna verður að fá að njóta vafans og réttur þeirra til óskerts skólahalds verður að vera í forgrunni. Þessir misbrestir eru á ábyrgð borgaryfirvalda. Mikilvægt verður að nýta reynsluna svo bregðast megi við með farsælli hætti þegar/ef viðlíka mál koma upp í framtíðinni.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skólastarf í Fossvogsskóla hefur mátt þola mikil áföll vegna ástands í húsnæðismálum skólans allt frá vori 2019. Áheyrnarfulltrúar skólastjórnenda og kennara treysta því að unnið sé af fullum krafti og af heilindum til að leysa þann vanda en vilja sérstaklega árétta það við skóla- og frístundaráð að staðinn verði öflugur vörður um faglegt starf skólans meðan á þeirri vinnu stendur. Skóli stendur og fellur með öflugu faglegu starfi og mannauður er þar lykillinn að öllu. Mikilvægt er að friður ríki um nám nemenda skólans og að stjórnendur og kennarar fái það næði sem þeim er nauðsynlegt til að árangur náist. Til að svo megi verða þurfa allir sem að skólanum standa að sameinast um aðgerðir sem miða að vinnufrið nemenda og starfsfólks. Friður þarf að ríkja um hið faglega starf ef árangur á að nást. Áheyrnarfulltrúar skólastjórnenda og kennara skora á kjörna fulltrúa að beita sér af krafti fyrir því að sá friður skapist nú þegar, nóg er komið!

    -    Kl. 14:58 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

    -    Kl. 15:04 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2021, um yfirlit starfshópa og erindisbréf skóla- og frístundasviðs, september 2020 til febrúar 2021. SFS2019100018

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. febrúar 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 183. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjölda eineltismála í leik- og grunnskólum og frístundastarfi á árunum 2017-2020 og meðferð þeirra. SFS2020050062

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. mars 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 195. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi útborgun launahækkana vegna kjarasamnings grunnskólakennara. SFS2020110056

    Fylgigögn

  16. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

    -    Kl. 15.28 víkur Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum. 

    -    Kl. 15.35 víkur Árni Jónsson af fundinum.

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvort að tilkynnt hafi verið um veikindi barna sem hugsanlega megi rekja til myglu í leik- eða grunnskólum Reykjavíkurborgar. Ef svo er hversu margir leik- eða grunnskólar eru það sem grunur leikur á að veikindi vegna myglu eru og hversu mörg börn eru þetta?

Fundi slitið klukkan 15:57

Skúli Helgason Alexandra Briem

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_2303.pdf