Skóla- og frístundaráð
Ár 2021, 9. mars, var haldinn 202. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33.
Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Alexandra Briem (P), Geir Finnsson (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Marta Guðjónsdóttir (D) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Bára Katrín Jóhannsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtalinn starfsmaður skóla- og frístundasviðs: Soffía Pálsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. febrúar 2021, um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, um notkun fjarfundabúnaðar o.fl. SFS2020040074
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. mars 2021, um raddir barna og kannanir á líðan og högum barna. SFS2021030057
- Kl. 13.23 tekur Áslaug Björk Eggertsdóttir sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.
Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kristján Ketill Stefánsson, Margrét Lilja Guðmundsdóttir og Jón Sigfússon taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir ítarlega kynningu á niðurstöðum rannsókna á líðan og högum barna á grunnskólaaldri í Reykjavík. Ánægjulegt er að sjá að meiri áhersla er lögð á að laða fram sjónarmið barna um ýmsa þætti sem tengjast námi og skóla- og frístundastarfinu almennt. Þar er t.d. í fyrsta sinn lögð fyrir könnun á viðhorfum barna í 1.-5. bekk. Það kemur fram í niðurstöðunum að áhrif COVID faraldursins eru skýr, ekki síst varðandi þætti eins og stjórn á eigin lífi, sjálfsálit og vellíðan, Unglingadrykkja er áfram lítil og reykingar sömuleiðis, VAPE notkun minnkar milli ára en notkun nikótínpúða og orkudrykkja er mikil meðal unglinga og þarf að efla verulega forvarnir og fræðslu gagnvart hvoru tveggja. Áhyggjuefni er að unglingar sofa of lítið og skjánotkun er mikil. Mikilvægt er að draga skýran lærdóm af niðurstöðunum og skerpa enn frekar á hæfniþáttum menntastefnunnar um sjálfseflingu, félagsfærni og heilbrigði sem tengjast beint þeim þáttum sem þarf að styrkja. Starfsstöðvar og skrifstofa sviðsins með aðkomu skóla- og frístundaráðs þurfa að taka höndum saman um að bregðast við þessum niðurstöðum en mikilvæg forsenda árangurs er að styrkja samstarf skóla, félagsmiðstöðva, frístundaheimila, foreldra og nemenda.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir kynningar á rannsóknum á líðan nemenda í grunnskólum. Það er mikilvægt að unnið sé markvisst með þessar niðurstöður þar sem virkni, líðan og skóla- og bekkjarandi nemenda í Reykjavík hefur dalað almennt mikið á undanförnum 5 árum. Enn fremur eru niðurstöður um töluvert dalandi sjálfsálit og aukningu í einelti hjá börnum sem er áhyggjuefni. Þessi uggvænlega þróun hefur verið viðvarandi síðustu árin. Við þessu þarf að sporna, nauðsynlegt er að nýta niðurstöður kannana og bregðast strax við með umbótaáætlun, sérstaklega í þeim skólum sem koma verr út en aðrir.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur þakka fulltrúum Skólapúlsins og Rannsókna&Greiningar fyrir kynningu á niðurstöðum kannana þeirra í grunnskólum borgarinnar nú í vetur. Í niðurstöðum þeirra rannsókna er að finna mjög greinargóðar upplýsingar um líðan nemenda skólanna sem mikilvægt er að unnið sé með áfram. Þar þarf að horfa til ólíkra niðurstaðna hvers skóla og rýna þarf í þær á þann hátt að ráðstafanir sem leiða eiga til betri niðurstöðu verði gerðar í samráði við skólana og nærsamfélög þeirra hvert og eitt. Sú leið er langvænlegust til árangurs og skora fulltrúar félaganna á kjörna fulltrúa skóla- og frístundaráðs að styðja við þær aðgerðir sem hvert skólasamfélag hyggst ráðast í sem viðbrögð við þeim öflugu rannsóknum sem fyrirtækin tvö hafa sinnt undanfarin ár og niðurstöðum þeirra. Þar þarf að horfa til ólíkra lausna enda um ólík viðfangsefni milli skóla að ræða. Horfa þarf til viðbragða innan hvers skóla sem og kerfislægra viðbragða í tilvikum þeirra einstaklinga sem þurfa aukna aðstoð en almennir skólar ráða við að sinna auk þess sem sérstaklega þarf að horfa til orðræðu um skólastarf og hefja hana upp á jákvæðari stall en verið hefur, börnunum til heilla.
- Kl. 14:05 tekur Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2021, um endurskoðun á innritunarferlum leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs. SFS2021020014
Gísli Ólafsson, Guðrún Edda Bentsdóttir, Helga Gunnarsdóttir og Halla María Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans fagna þessari yfirferð og taka undir að mikil þörf er á að taka í gegn innritunarferli í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, en einnig má samhliða yfirfara innritunarferli í skólahljómsveitir. Nú þegar ákveðið hefur verið að ráðast í stafræna umbyltingu í þjónustu borgarinnar liggur beint við að þessi skráningarkerfi séu tekin í gegn, gerð stafræn, aðgengileg og notendavæn í gegnum einfalt notendaviðmót á vefnum. Við leggjum áherslu á að þau verði endurhönnuð með notendamiðaða hönnun og gegnsæi að leiðarljósi og að í því viðmóti verði upplýsingar um valmöguleika og mismunandi skóla í boði. Mikilvægt er að ferli við innritun séu einföld og gegnsæ og komi í veg fyrir að biðlistar myndist, sérstaklega ef það gerist vegna þess að upplýsingar um biðlista og hvar kunni að vera laus pláss eru ekki augljós og leita skal leiða til að einfalda umsóknarferlið. Meirihlutinn leggur sérstaka áherslu á að tryggt verði að upplýsingar um laus pláss í leikskólum á hverjum tíma séu birtar með aðgengilegum hætti á vef borgarinnar til hægðarauka fyrir foreldra.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framlögð kynning ber með sér að upplýsingagjöf hefur verið verulega ábótavant til foreldra leik- og grunnskólabarna um þá þjónustu sem í boði er. Umsóknarferli í leikskóla, frístundaheimili og aðra þjónustu hefur verið flókið og ógagnsætt. Jákvætt er að vinna sé hafin í að auka gagnsæið og einfalda umsóknarferlið. Það eru hins vegar vonbrigði að ekki verði tekin inn í þá vinnu tillaga okkar, fulltrúa Sjálfstæðisflokks, um að staða biðlista á hverjum tíma verði sett sundurgreind eftir leikskólum og hverfum inn á mæliborð Reykjavíkur. Benda má á að í mörgum tilvikum má bæta verulega upplýsingagjöf með einföldum og skjótvirkum hætti, óþarft er að áríðandi upplýsingar fyrir foreldra séu látnar dragast á meðan leitað er tæknilega flókinna leiða.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar því að verið sé að bæta ferli við innritun barna í leikskóla borgarinnar. Ferlið þarf að vera gagnsætt og einfalt og það eru greinilega jákvæðar breytingar í gangi í þessum efnum hjá skóla- og frístundasviði. Skráningarupplýsingar barna ættu að flytjast milli skólastiga sjálfkrafa. Mikilvægt er að sviðið fái pólitískan stuðning til að gera nauðsynlegar umbætur að forgangsverkefni hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Gera þarf upplýsingar um á hvaða leikskólum í borginni eru laus pláss auðveldlega aðgengilegar fyrir foreldra/forráðafólk, það er mikið misræmi að það séu 74 laus pláss á leikskólum borgarinnar en mörg börn enn á biðlistum og sum þeirra hafa enga dagvistun með tilheyrandi álagi, tekjutapi og kostnaði fyrir börnin og foreldra/forráðafólk. Þegar haft er samband við foreldra/forráðafólk barna sem eru efst á biðlistum þarf að vera skýrt að þó að þegið sé pláss á leikskóla geti barnið áfram verið efst á biðlista í þeim leikskóla sem efstur var á óskalista foreldra/forráðafólks. Bjóða þyrfti upp á möguleikann að skrá börn á biðlista á alla leikskóla innan ákveðins hverfis auk þess að geta valið þá þrjá leikskóla sem foreldrar/forráðafólk vill helst að barnið fari á.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi tillögu ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2021, umsögn foreldraráðs Brákarborgar, dags. 8. febrúar 2021, umsögn stjórnar foreldrafélags Brákarborgar, dags. 10. febrúar 2021 og umsögn starfsfólks Brákarborgar, ódags.:
Skóla- og frístundaráð leggur til að nýr leikskóli við Kleppsveg 150-152 tilheyri leikskólanum Brákarborg og að stjórnanda Brákarborgar verði falið að stýra stækkandi leikskóla. Stofnaður verði samráðshópur sem hefur það hlutverk að vinna að stækkun leikskólans með áherslu á innra starf og stækkandi starfsmannahóp og að tryggja gott upplýsingaflæði og samráð við starfsfólk og foreldra. Leikskólastjóra Brákarborgar ásamt fulltrúa fagskrifstofu leikskólamála skóla- og frístundasviðs verði falið að stýra vinnu hópsins og fulltrúi mannauðsþjónustu skóla- og frístundasviðs verði starfsmaður hópsins. Í hópnum sitji fulltrúi millistjórnenda leikskólans, fulltrúi annars starfsfólks og fulltrúi foreldra. Fulltrúi fagskrifstofu leikskólamála verði jafnframt tengiliður vegna framkvæmdahluta verkefnisins.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020120132Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um nýjan leikskóla við Kleppsveg sem tilheyri leikskólanum Brákarborg fær almennt góðar viðtökur í umsögnum foreldra og starfsfólks enda um að ræða myndarlega viðbót við flóru leikskóla í borginni og rými fyrir rúmlega 120 börn til viðbótar í hverfi þar sem eru hvað flestar umsóknir um leikskólapláss. Ýmsar gagnlegar ábendingar koma fram í umsagnarferlinu þar með talið um mikilvægi þess að áfangaskipta inntöku barna til að tryggja faglegt starf, standa vörð um hinn góða „Brákarborgaranda“, huga vel að tímanlegri ráðningu starfsfólks, góðu upplýsingastreymi um framkvæmdina o.s.frv. Með hliðsjón af umsögnum verður nú settur á fót samráðshópur með aðkomu starfsfólks, stjórnenda og foreldra sem fær það hlutverk að vinna að stækkun leikskólans með áherslu á innra starf, starfsmannamál, gott upplýsingaflæði og samráð við starfsfólk og foreldra.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2021:
Lagt er til að samþykkt verði nýtt skólahverfi í Skerjafirði fyrir nemendur í 1.-7. bekk grunnskóla. Nýju skólahverfi tilheyri stóri, litli Skerjafjörður suður og ný íbúabyggð, Skerjabyggð í Skerjafirði. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir 1.400 nýjum íbúðum í nýju hverfi. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir byggingu 700 íbúða. Þá er lagt til að nemendur sem búa í litla Skerjafirði norður sæki skóla í Melaskóla en geti valið að fara í skólann í Skerjafirði. Unglingar (8. – 10. bekkur) í hverfinu munu sækja Hagaskóla. Breytingin taki gildi um leið og nýr skóli í Skerjafirði er risinn. Ljóst er að þrengsli eru nú þegar í skóla- og frístundastarfi í Melaskóla og Hagaskóla. Vinna starfshópa er í gangi varðandi húsnæðisþörf og endurbætur í skólunum tveimur. Gert er ráð fyrir því að þeir starfshópar skili af sér síðar á vormánuðum 2021. Þá tekur við ákvarðanataka um framkvæmdir og í kjölfarið ferli hönnunar og framkvæmda.
Greinargerð fylgir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að tillaga um skilgreiningu skólahverfis fyrir nýjan skóla í Skerjafirði verði send til umsagnar skólaráða og foreldrafélaga Melaskóla og Hagaskóla, foreldraráðs Sæborgar, íbúaráðs Vesturbæjar og Prýðifélagsins Skjaldar, íbúasamtaka Skerjafjarðar sunnan flugvallar.
Samþykkt. SFS2021010021
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru spennandi tímar í menntamálum í borginni og framundan mesta uppbyggingartímabil í áratugi þegar kemur að byggingu nýrra skóla, bæði á leikskóla- og grunnskólastigi. Nýr skóli í Skerjafirði er í undirbúningi í tengslum við nýtt hverfi sem þar mun risa með allt að 1300 íbúðum. Með tillögunni er skilgreint nýtt skólahverfi í Skerjafirði og afmörkuð mörk skólahverfa Melaskóla, Hagaskóla og væntanlegs Skerjafjarðarskóla. Samhliða uppbyggingu hins nýja skóla þarf að ráðast í endurbætur á Melaskóla og Hagaskóla og von á tillögum í þá veru á vormánuðum. Tillagan er hér lögð fram og send til umsagnar skólaráða og foreldrafélaga Melaskóla og Hagaskóla, leikskólans Sæborgar, íbúaráðs Vesturbæjar og Prýðifélagsins Skjaldar, íbúasamtaka Skerjafjarðar sunnan flugvallarins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar samþykkja málsmeðferðartillöguna í ljósi þess að orðið var við ábendingum okkar um að íbúasamtök Skerjafjarðar, Prýðifélagið Skjöldur, fái tillöguna senda til umsagnar en ekki einungis leikskólum, grunnskólum og íbúaráði Vesturbæjar eins og lagt var upp með í upphafi. Áréttað er að ótímabært og óraunhæft er að skilgreina Nýja Skerjafjörð sem nýtt skólahverfi þar sem fjölmargar opinberar stofnanir og fagaðilar hafa gert athugasemdir við fyrirhugaða byggð á þessu svæði. Þá er ýmsum rannsóknum og álitamálum ólokið. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gert fjölmargar athugasemdir við skipulagið m.a. athugasemdir við mengaðan jarðveg og staðfest að talsverður hluti svæðisins sem skipulagið nær til sé mengaður. Sérstaklega er bent á að gert sé ráð fyrir skóla á svæðinu þar sem olíumengaður jarðvegur er, þar sem tvö jarðvegssýni voru tekin og eru í ástandsflokknum ,,mjög slæmt”. Áformaðar landfyllingar eru í umhverfismati sem er ólokið og því alger óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa þannig að ekki verði um sjálfbært skólahverfi að ræða. Það er einkennilegt að hefja þessa vegferð með ofangreind atriði í huga og óskiljanlegt að verið sé að eyða fjármunum og tíma í þessa vinnu þegar uppbyggingaráform gætu orðið í uppnámi ef landfylling verði ekki heimiluð.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. febrúar 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi fylgd úr frístundaheimilinu Neðstalandi í íþróttastarf. SFS2021020076
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar. SFS2020100187
Fylgigögn
-
Lagðar fram embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. mars 2021. Fjögur mál. SFS2019020033
- Kl. 15.50 víkja Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Haraldur Sigurðsson, Anna Metta Norðdahl, Bára Katrín Jóhannsdóttir og Áslaug Björk Eggertsdóttir af fundinum.
- Kl. 16:03 víkur Albína Hulda Pálsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur harma þær aðstæður sem upp komu við töku samræmdra prófa mánudaginn 8. mars. Það er virðingarleysi við skólastarf þegar svo stór viðburður og prófin eru lendi í algeru uppnámi vegna tæknilegra vandamála, hvað þá þar sem slíkt er nú að koma upp í annað skiptið á fjórum árum. Ljóst er að framkvæmd samræmdra prófa beið mikinn hnekki í gær og afar mikilvægt að menntamálayfirvöld læri af þeim mistökum sem þarna urðu. Horfa þarf sérstaklega til þess að rask á dagsetningum þessara prófa hefur mismunandi áhrif á skólastarf og því mikilvægt að próftaka samræmdra prófa nú verði skoðuð gaumgæfilega og verði undir öllum kringumstæðum valkvæð fyrir nemendur og eftir atvikum skóla. Í kjölfarið þarf svo að taka upp umræðu um tilhögun og framkvæmd samræmdra prófa og allt verði gert til að sú staða sem kom upp hjá nemendum í 9. bekk í borginni í gær hendi ekki aftur.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að skoðað verði hvort hægt verði að nýta Spennistöðina fyrir móttökudeild fyrir erlenda nemendur.
Frestað. SFS2021030124
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið að bregðast strax við þeim vanköntum sem er á prófakerfi samræmdu prófanna til að tryggja að hægt verði að leggja prófin fyrir hnökralaust framvegis. Jafnframt er lagt til að ríkið leggi fram nægt fjármagn þannig að tryggt verði að allir vankantar séu sniðnir af samræmdum prófum Menntamálastofnunar. Ekki verður við það unað að sífellt komi upp vandamál í samræmdum prófum hjá reykvískum grunnskólabörnum. Slíkt skemmir ekki bara fyrir nemendum, heldur hefur áhrif á allt skólastarf.
Frestað. SFS2021030125
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu hátt hlutfall starfsfólks skóla- og frístundasviðs var skráð í langtímaveikindi árið 2019 og árið 2020? Hver var kostnaðurinn vegna langtímaveikinda hjá sviðinu? Eins hver var kostnaður sviðsins vegna veikinda í heild þá bæði langtímaveikinda og veikinda á árunum 2019 og 2020?
SFS2021030126
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nýverið kom upp töluverður leki í Dalskóla. Er það rétt að flytja hefur orðið hluta af starfsemi skólans í Korpuskóla? Hver var ástæðan fyrir þessum leka og hefur hann verið lagfærður?
SFS2021030127
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um hvenær grunnskólar borgarinnar leggja fyrir leshæfnipróf Menntamálastofnunnar fyrir 2. bekk og hvenær megi vænta niðurstöðu úr þeim.
SFS2021030128
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um hvort tekin hafi verið ákvörðun um að skólamunasafnið sem staðsett er í risi Austurbæjarskóla verði gert að flytja úr húsnæðinu? Ef svo er hefur verið boðið upp á annað húsnæði af hálfu borgarinnar til að koma safninu fyrir og þá hvar? Hafi slíkar ákvarðanir verið teknar er óskað upplýsinga um hver hafi tekið þær og hvers vegna þær hafi ekki verið ræddar í skóla- og frístundaráði. Ennfremur er óskað upplýsinga um hvort samráð hafi verið haft við hollvinasamtök skólamunasafnsins um hugmyndir um brottflutning safnsins úr Austurbæjarskóla. SFS22090038
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um hversu margir reykvískir skólar og hversu margir reykvískir nemendur lentu í vandræðum þegar upp kom vandamál með prófkerfi samræmdu prófanna í gær. Þá er óskað upplýsinga frá Menntamálastofnun um hvort vankantarnir og fyrirhugað breytt fyrirkomulag ásamt frestun prófanna geti haft áhrif á áreiðanleika prófanna eða skekkt niðurstöðuna og þannig skemmt fyrir samanburði niðurstaða prófanna milli ára. Sá samanburður er ákaflega mikilvægur vegvísir til umbóta í skólastarfi, fyrir nemendur jafnt sem kennara, skólastjórnendur og starfsfólk skólanna.
SFS2021030130
Fundi slitið klukkan 16:10
Skúli Helgason Alexandra Briem
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_0903.pdf