Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 201

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 1. mars, var haldinn sameiginlegur fundur skóla- og frístundaráðs (201. fundur) og fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs (49. fundur). Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 11.02.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason (formaður skóla- og frístundaráðs), Sabine Leskopf, Ellen Jacqueline Calmon, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Alexandra Briem, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason, Egill Þór Jónsson og Baldur Borgþórsson.

Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar skóla- og frístundaráðs: Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs sátu fundinn: Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sigurjóna Guðnadóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Niðurstaða skoðana í Fossvogsskóla, minnisblað Verkís kynnt         Mál nr. SFS2018120034 

    Lagt fram minnisblað Verkís dags. 17. desember 2020 ásamt upplýsingum á framkvæmdasjá um  sem er að finna á https://reykjavik.is/framkvaemdasjain/fossvogsskoli-endurbaetur

    -    Kl. 11.27 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri græna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Húsnæðismál Fossvogsskóla hafa verið í umræðunni vegna myglu sem fannst í skólanum og hefur mikil vinna verið lögð í að gera upp þá hluta skólans þar sem voru skemmdir vegna raka. Nýjasta sýnataka frá því í desember sem kynnt var á dögunum leiðir í ljós að ekki fannst mygluvöxtur en hins vegar sveppagró sem kallaði á frekari aðgerðir varðandi hreinsun og þrif. Þegar hefur verið gripið til þeirra aðgerða og er þeim að mestu lokið. Næstu skref verða að taka frekari sýni til að ganga úr skugga um að þær hafi skilað tilætluðum árangri. Samhliða þarf að huga að líðan þeirra barna sem hafa fundið fyrir einkennum og fara í gegnum leiðir til að mæta sem best þeirra þörfum í samstarfi við forráðamenn þeirra. Þau samskipti standa yfir og verður fram haldið þar til viðeigandi lausnir liggja fyrir í hverju tilviki. Fulltrúar meirihlutans leggja áherslu á að áfram verði unnið að því að komast til botns í þessu máli þangað til þetta mál er leitt til lykta með velferð barna og starfsfólks að leiðarljósi.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þegar skólanum var lokað var það meðal annars vegna tveggja hættulegar tegunda af myglu, kúlustrýnebba og litafrugga sem getur valdið alvarlegum veikindum. Við síðustu sýnatöku kom í ljós að þessi mygla er enn til staðar í skólanum. Það voru tekin sýni á fjórtán stöðum og það fannst kúlustrýnebba á ellefu stöðum og litafrugga á fimm stöðum ásamt fjölda annarra tegunda af myglu. Í skólanum fannst ekki mikið af myglu sem er að koma utan frá, heldur er þessi hættulega mygla að grassera innan skólans í því byggingarefni sem þar hefur verið notað. Almennt séð telst vöxtur myglusveppa innanhúss vera heilsuspillandi eins og staðfest er í leiðbeinandi reglum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um inniloft í sambandi við raka og myglu.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri græna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Eins og fram kom í kynningu var í þessari mælingu ekki um mygluvöxt að ræða heldur einungis gró, en einnig kom fram að gróin þurfa á raka að halda til að vaxa og verða hættuleg, og framkvæmdir hafa að miðað að því að koma í veg fyrir að þau skilyrði myndist.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er verulega ámælisvert að sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hafi ekki sent kjörnum fulltrúum í skóla- og frístundaráði skýrslu sem barst Reykjavíkurborg 5. febrúar síðastliðinn frá Verkís með niðurstöðum úr sýnatökum og ábendingum til hvaða úrbóta þarf að ráðast í vegna myglu í Fossvogsskóla. Það er einnig ámælisvert að   ráðið hafi ekki verið kallað saman til fundar strax vegna málsins til að fara yfir niðurstöðurnar. Þrátt fyrir að skýrslan hafi borist 5. febrúar síðastliðinn var málið ekki sett á dagskrá fundar skóla- og frístundaráðs 9. febrúar  og ekki minnst einu orði á að skýrslan um Fossvogsskóla væri tilbúin. Það er engan veginn viðunandi að kjörnir fulltrúar fái  upplýsingar um jafn alvarlegt mál  fyrst í fjölmiðlum og mál sem þolir enga bið að bregðast við. Skóla- og frístundaráð fer með skólamál í borginni  samkvæmt lögum og hefur ríka eftirlitsskyldu með því, það er því ábyrgðarhlutur að þeim berist ekki upplýsingar strax sem varða skólahúsnæði sem talið er vera heilsuspillandi fyrir nemendur og starfsfólk. Gera þarf ráðstafanir í fullu samráði við foreldra um lausnir til að tryggja að nemendur fái kennslu í heilsusamlegu húsnæði meðan á endanlegum endurbótum stendur og húsnæðið tekið út af þeim loknum af fagaðilum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði gera athugasemdir við það að úttektarskýrsla um Fossvogsskóla hafi ekki verið kynnt um leið og hún lá fyrir. Í ljósi forsögu þessa máls verður það að teljast ámælisverð vinnubrögð af hálfu borgarinnar. Heilbrigðiseftirlitið starfar eftir lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Undir það fellur eftirlit til dæmis með loftgæðum og raka- og lekaskemmdum. Í nýjustu úttekt verkfræðistofunnar Verkís og eftir greiningar Náttúrufræðistofnunnar Íslands fundust sveppir sem geta framleitt sveppaeitur og geta haft mjög slæm áhrif á heilsu einstaklinga. Því er þeirri spurningu velt upp hvort rétt hefði verið að bregðast við þessum niðurstöðum af hálfu heilbrigðiseftirlitsins um leið og upplýsingarnar lágu fyrir. Málefni Fossvogsskóla eru flókin og eiga sér langa sögu inn í borgarkerfinu. Í alvarlegum málum sem þessu skilar mun betri árangri að góð samvinna og samstarf séu höfð að leiðarljósi en því miður er það hvorki upplifun skólasamfélagsins né minnihlutaflokkana í borgarstjórn.  

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra lýsir yfir vantrausti á Verkís, Umhverfis og skipulagssvið og skóla og frístundasvið vegna framkvæmda við Fossvogsskóla. Eins og sjá má á yfirlýsingu frá foreldrum barna í Fossvogsskóla sem glímt hafa við veikindi vegna myglu,  er  traust foreldra til borgarinnar brostið. Frá upphafi þessa ferlis hefur verið gert lítið úr áhyggjum foreldra og borgin ekki viljað láta taka sýni til að tryggja að viðgerðir hafi tekist. Nú er það orðið ljóst að viðgerðir hafa aldrei tekist. Börnin eru ennþá veik, þriðja skólaveturinn í röð enda finnast þar ennþá hættulegar myglutegundir sem m.a. geta valdið krabbameini.  Áheyrnarfulltrúi foreldra telur að þann vanda sem blasir við í Fossvogsskóla sé einungis hægt að leysa með því að finna upptökin og grípa til alvöru aðgerða út frá því hversu alvarleg upptök vandans eru. Við förum fram á að tekin verði fleiri sýni, víðar um skólann, og haldið áfram að leita að rót vandans því ekki liggur fyrir hvaðan vandinn kemur. Þá verði lögð fram verkáætlun um til hvaða aðgerða eigi að grípa. Að foreldrar verði upplýstir um hvert skref sem tekið er í þeirri framkvæmd og að börnunum verði fundin annar staður til að stunda sitt nám meðan á viðgerðum stendur og þangað til það hefur verið tryggt að börnunum stafi ekki hætta af því að sækja skólann. 

    Ámundi Brynjólfsson skrifstofustjóri, Agnar Guðlaugsson deildarstjóri, Kristján Sigurgeirsson verkefnastjóri og Ingibjörg Ýr Pálmadóttir skólastjóri Fossvogsskóla taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  2. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins í umhverfis- og heilbrigðisráði         Mál nr. SFS2018120034 

    1. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði óska eftir upplýsingum um hversu oft heilbrigðiseftirlitið hafi farið í sérstakt eftirlit vegna myglu í Fossvogsskóla. 2. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði óska eftir öllum niðurstöðum frá Heilbrigðiseftirlitinu úr þeim sérstöku eftirlitsferðum sem farnar hafa verið í Fossvogsskóla vegna mygluvandans. 3. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði óska eftir skýringum á því hvers vegna ekki var boðað strax til fundar í ráðinu eftir að skýrsla Verkís var tilbúin og send Reykjavíkurborg 3. febrúar síðastliðinn. 4. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks óska skýringa á því hvers vegna sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs og sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs sendu ekki strax skýrslu Verkís vegna Fossvogsskóla sem barst Reykjavíkurborg 3. febrúar síðastliðinn ráðsmönnum til upplýsingar.

  3. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði
             Mál nr. SFS2018120034 
    Skóla og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir samantekt á öllum stöðuskýrslum sem varða viðhaldsmál vegna myglu í Fossvogsskóla. Þá er jafnframt óskað eftir öllum minnisblöðum sem snúa að málefnum Fossvogsskóla er varða mygluvandamálið. Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um hversu margir samráðsfundir hafi verið haldnir með skólaráði Fossvogsskóla vegna málsins og hvenær þeir fundir hafi verið haldnir og hvaða aðilar hafi setið þá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska skýringa á því hvers vegna sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs upplýsti ekki ráðið strax um skýrslu Verkís  um leið og hún barst Reykjavíkurborg 5. febrúar síðastliðinn. Skóla- og frístundaráðfulltrúar óska eftir skýringum á því hvers vegna ekki var boðað strax til fundar í ráðinu eftir að skýrsla Verkís var tilbúin og send Reykjavíkurborg. 

    -    Kl. 12:00 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundi.
    -    Kl. 12:04 víkur Kristján Gunnarsson af fundi.
    -    Kl. 12:09 víkur Sabine Leskopf af fundi.

Fundi slitið klukkan 12:50

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_0103.pdf