Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 199

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 26. janúar, var haldinn 199. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.35.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S). Auk hans eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri og Eygló Traustadóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Geir Finnsson (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Rannveig Ernudóttir (P), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Bára Katrín Jóhannsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Guðrún Sigtryggsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps: 

    Lagt er til að samþykkt verði að setja af stað starfshóp sem hefur það hlutverk að rýna stöðuna í Laugarnes- og Langholtshverfi með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum grunnskóla og frístundastarfs og koma með tillögur um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í hverfunum. Starfshópurinn skili af sér eigi síðar en í lok febrúar 2021.

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. SFS2021010119

    Soffía Vagnsdóttir og Soffía Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 12:45 taka Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps: 

    Lagt er til að samþykkt verði að setja af stað starfshóp sem hefur það hlutverk að rýna stöðuna í skólahverfum Hlíðaskóla, Háteigsskóla og Austurbæjarskóla og nýjum unglingaskóla í Vörðuskóla og koma með tillögur um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í hverfunum. Starfshópurinn skili af sér eigi síðar en í lok mars 2021.

    Greinargerð fylgir. 
    Samþykkt. SFS2021010120

    Soffía Vagnsdóttir og Soffía Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 12:55 tekur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla- og frístundaráð leggur til að nýr leikskóli við Kleppsveg 150-152 tilheyri leikskólanum Brákarborg og að stjórnanda Brákarborgar verði falið að stýra stækkandi leikskóla.

    Greinargerð fylgir. 

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðs:

    Lagt er til að tillaga um stjórnun og rekstur nýs leikskólahúsnæðis að Kleppsvegi verði send til umsagnar foreldraráðs og foreldrafélags leikskólans Brákarborgar, starfsfólks Brákarborgar og íbúaráðs Laugardals.

    Samþykkt. SFS2020120132    

    Lögð fram svohljóðandi bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Nýtt leikskólahúsnæði við Kleppsveg verður tekið í notkun í byrjun næsta árs en það er í næsta nágrenni við leikskólann Brákarborg sem er einn fámennasti en jafnframt eftirsóttasti leikskóli borgarinnar. Mikil þörf er á nýjum leikskólarýmum í þessu hverfi og með nýja húsnæðinu verður hægt að bjóða velkomin 120 börn til viðbótar. Með tillögunni er lagt til að nýja húsið verði hluti af Brákarborg undir sömu stjórn en það býður upp á þá verkaskiptingu að boðið verði upp á ungbarnaleikskóla í Brákarborg en eldri börnin verði í húsnæðinu á Kleppsvegi. Stefnt er að því að gerðar verði endurbætur á núverandi húsnæði Brákarborgar til að það henti vel fyrir yngstu börnin en endurbætur á húsnæðinu við Kleppsveg verða gerðar á þessu ári. Tillagan fer nú til umsagnar foreldra, starfsfólks og íbúaráðs Laugardal áður en hún verður tekin til afgreiðslu.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. janúar 2021, um leikskóla í Safamýri ásamt minnisblaði umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. janúar 2021. SFS2020110124

    -    Kl. 13:25 víkur Rannveig Ernudóttir af fundinum og Alexandra Briem tekur þar sæti. 

    Elías Bjarnason og Ásdís Olga Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Undirbúningur að stofnun nýs leikskóla í Safamýri er í fullum gangi og liggur nú fyrir vönduð ástandsskoðun með kostnaðarmati á þeim endurbótum sem þarf að ráðast í svo opna megi fullbúinn leikskóla þar í byrjun næsta árs. Tryggt er fjármagn til að ráðast í endurbætur á þaki, innra byrði húsnæðis, skólplögnum og útisvæðum og er kostnaður við endurbætur áætlaður 410 m. kr. Nýr leikskóli í Safamýri mun geta tekið á móti 90-95 börnum í tveimur áföngum, leikskólinn verður fimm deilda með tveimur ungbarnadeildum og verður mikil búbót fyrir foreldra barna á leikskólaaldri miðsvæðis í borginni.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram skýrslan Sumaropnun leikskóla 2020, samantekt á tilraunaverkefni, dags. í nóvember 2020. SFS2020040076 

    Sigrún Harpa Magnúsdóttir, Hanna Halldóra Leifsdóttir og Helga Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gott er að sjá hvað tilraunaverkefni um sumaropnun leikskóla miðar vel. Ábendingar frá 2019 voru teknar til greina og endurspeglast það í aukinni nýtingu og mikilli ánægju með þjónustuna sumarið 2020. Um 97% foreldra lýstu yfir ánægju með sumaropnun leikskóla, sér í lagi vegna þess að það bauð fjölskyldum upp á að samræma sumarfríið sitt, auk þess að það jók sveigjanleika og val fyrir þau. Árið litaðist af miklum erfiðleikum vegna verkfalla og COVID-19, en þrátt fyrir það var hægt að skipuleggja sumaropnun af stakri prýði. Líkt og leikskólastjórar benda á er mikilvægt að nýta þá reynslu og þekkingu sem myndast hefur síðastliðin tvö sumur, sem felst meðal annars í því að veita þeim svigrúm og fyrirvara til að undirbúa það betur. Gögnin benda meðal annars til að flestir notendur séu foreldrar með erlendan bakgrunn og því er mikilvægt að beina spjótum í auknum mæli að kynningu á þjónustunni á fjölbreyttari vettvangi á fleiri tungumálum. Aukin kynning mun þannig auka nýtingu með tíð og tíma.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að foreldrum leikskólabarna standi til boða sveigjanleiki og val um sumarleyfi fyrir börn sín þannig að fjölskyldan geti verið í sumarfríi á sama tíma. Því til staðfestingar er að fram kom í viðhorfskönnun að 97% foreldra voru mjög eða frekar ánægðir með að einn leikskóli í hverjum borgarhluta var opinn sl. sumar. Góð reynsla og viðhorf foreldra styðja við það að þetta úrræði ætti að standa foreldrum áfram til boða og tryggt verði að það verði kynnt öllum foreldrum.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samtals 187 börn nýttu sér sumaropnunina 2020. Af þeim voru 104 börn í sínum heimaleikskólum en 83 frá öðrum, sem er töluverð aukning frá árinu áður en þá voru þau 28. Aukninguna má m.a. rekja til afsláttar/tilslökunar á sumarfríi barna sem gefinn var í maí vegna Covid og verkfalls, en þá bættust við 48 börn. 18% foreldra barna óskuðu eftir sumaropnunarskóla vegna þess að þeir þurftu þess, sem gerir um 34 börn. 82% völdu sumarleikskóla af því að það hentaði betur og vegna annars. 13,6% barna leið ekki vel með að fara í sumarleikskóla. Hér togast á þjónusta eða menntastofnun og það eru mikil vonbrigði að ekki sé hlustað betur á raddir leikskólastjóra. Að hafa 6 leikskóla opna fyrir þetta verkefni er vel í lagt og fjármagni sóað sem betur færi á að nýta í annan rekstur leikskóla sem er vanfjármagnaður. Við teljum frelsi við sumarorlof barna alltof dýru verði keypt, matarsóun, sóun á fjármagni og aukið álag á stjórnendur sem er ekki á bætandi þegar skólastigið býr við kennaraskort og mikla starfsmannaveltu.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. janúar 2021, varðandi sumaropnanir leikskóla 2021. SFS2021010121

    Hanna Halldóra Leifsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2021, um nýtingu á niðurfellingu gjalda í leikskólum milli jóla og nýárs 2020. SFS2021010122 

    -    Kl. 14:30 víkur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var á fundi borgarráðs 16. janúar 2020 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2020, um tillöguna og skýrslunni Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi, dags. í október 2019:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að tillögur sem starfshópur á vegum landlæknis setti fram verði skoðaðar og kostnaðarmetnar og síðan innleiddar í leik- og grunnskóla. Í tillögunum segir „Niðurstöður könnunarinnar undirstrika mikilvægi þess að styrkja umgjörð, skipulag og innviði skólakerfisins til að sinna geðrækt, forvörnum og stuðningi við nemendur með farsælum hætti, nýta gögn og árangursmælingar með markvissari hætti til að efla geðræktarstarf og skólabrag, og koma á fót árangursríkri kennslu í félags- og tilfinningafærni á öllum skólastigum. Jafnframt þarf að tryggja mun betur en gert er í dag að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og félagsfærni, og að starfsfólk í skólum fái þann stuðning sem þau þurfa til að sinna hegðun, líðan og samskiptum barna og ungmenna með farsælum hætti. Ákvæði í lögum og reglugerðum virðast ekki duga til að tryggja að framkvæmd verði með þeim hætti sem gert er ráð fyrir heldur þarf heildarskipulag, aðföng, þjálfun og handleiðsla starfsfólks, samstarf stofnana og skilgreind hlutverk aðila skólasamfélagsins að styðja við framkvæmdina.“ Tillögur starfshópsins eru þessar: 1. Geðræktarkennsla á öllum skólastigum. 2. Þrepaskiptur stuðningur í skólastarfi. 3. Samstarf kerfa í þágu barna og ungmenna. 4. Skólaumhverfi sem styður við vellíðan. 5. Þekking og færni til að vinna með hegðun, líðan og samskipti barna og ungmenna. 6. Gagnreynd nálgun að hegðun í skólakerfinu. 7. Skólatengsl og samstarf við foreldra. 8. Réttur til gæðamenntunar og gagnreyndra stuðningsúrræða.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð styður þær tillögur sem fram koma í skýrslunni Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi og leggur áherslu á að skóla- og frístundasvið eigi gott samstarf við hlutaðeigandi aðila um innleiðingu þeirra tillagna sem snúa að leik- og grunnskólum. 

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. SFS2020010151 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Styrkja þarf umgjörð, skipulag og innviði skólakerfisins til að sinna geðrækt, forvörnum og stuðningi við nemendur með farsælum hætti, nýta gögn og árangursmælingar með markvissari hætti til að efla geðræktarstarf og skólabrag og koma á fót árangursríkri kennslu í félags- og tilfinningafærni á öllum skólastigum. Jafnframt þarf að tryggja mun betur en gert er í dag að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og félagsfærni og að starfsfólk í skólum fái þann stuðning sem þau þurfa til að sinna hegðun, líðan og samskiptum barna og ungmenna með farsælum hætti. Tillögur starfshópsins eru 1. Geðræktarkennsla á öllum skólastigum. 2. Þrepaskiptur stuðningur í skólastarfi. 3. Samstarf kerfa í þágu barna og ungmenna. 4. Skólaumhverfi sem styður við vellíðan. 5. Þekking og færni til að vinna með hegðun, líðan og samskipti barna og ungmenna. 6. Gagnreynd nálgun að hegðun í skólakerfinu. 7. Skólatengsl og samstarf við foreldra. 8. Réttur til gæðamenntunar og gagnreyndra stuðningsúrræða. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi við innleiðinguna og pressi á mennta- og menningarmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og Embætti landlæknis um að tillögurnar hljóti brautargengi á öllum skólastigum.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram drög að samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs og SAMFOK ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. janúar 2021, bréfi SAMFOK, dags. 9. desember 2020 og reglum Reykjavíkurborgar um styrki, dags. 25. maí 2017. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020120049

    Ragnheiður Davíðsdóttir víkur af fundinum undir þessum dagskrárlið vegna vanhæfis.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs árið 2021, dags. 12. janúar 2021, yfirlit yfir umsóknir um almenna styrki skóla- og frístundaráðs árið 2021 og reglur um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs. Lögð er fram svohljóðandi tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki skóla- og frístundaráðs 2021, í þeim tilfellum þar sem lagt er til að veittur verði styrkur að hluta er skilyrt að styrkupphæð verði varið í tilgreinda þætti sem fram koma í minnisblaði sviðsstjóra, dags. 12. janúar 2021:

    1)    Umsækjandi: ADHD samtökin. Heiti verkefnis: Nám og tómstundir með ADHD Kr. 400.000.
    2)    Umsækjandi: Alexía Björg Jóhannesdóttir. Heiti verkefnis: Kynfræðsla Pörupilta. Kr. 500.000.
    3)    Umsækjandi: Arnar H. Önnuson. Heiti verkefnis: Myndasögunámskeið í félagsmiðstöðvum. Kr. 280.000.
    4)    Umsækjandi: Daníel Sigríðarson. Heiti verkefnis: Smá sirkus. Kr. 500.000.
    5)    Umsækjandi: Dansgarðurinn. Heiti verkefnis: Dansað við enda regnbogans. Kr. 310.000.
    6)    Umsækjandi: Helga Hreiðarsdóttir. Heiti verkefnis: Gróðurhús sem námsumhverfi. Kr. 200.000.
    7)    Umsækjandi: Hrafnaspark ehf. Heiti verkefnis: Bambahús. Kr. 500.000.
    8)    Umsækjandi: Julia Hantschel. Heiti verkefnis: Hviða í borginni. Kr. 400.000.
    9)    Umsækjandi: Landssamband slökkviliðsmanna. Heiti verkefnis: Eldvarnarátak 2021. Kr. 300.000.
    10)    Umsækjandi: Móðurmál – samtök um tvítyngi. Heiti verkefnis: Hýsing gagna í Gegni. Kr. 210.000.
    11)    Umsækjandi: Móðurmál – samtök um tvítyngi. Heiti verkefnis: Stuðningur við móðurmálshópa. Kr. 150.000.
    12)    Umsækjandi: Ólafur B. Ólafsson. Heiti verkefnis: Fuglasöngleikur. Kr. 200.000
    13)    Umsækjandi: Heimili og skóli. Heiti verkefnis: 6. bekkjar fræðsla SAFT. Kr. 250.000.
    14)    Umsækjandi: Rithöfundasamband Íslands. Heiti verkefnis: Skáld í skólum. Kr. 500.000.

    Samþykkt. SFS2020110115

    Guðrún Edda Bentsdóttir, Hanna Halldóra Leifsdóttir og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að gagnsæi sé tryggt við úthlutun styrkja og að úthlutunarreglurnar séu skýrar og lýsandi. Þá er nauðsynlegt að hlutlausir utanaðkomandi fagaðilar sitji í úthlutunarnefndinni til að tryggja að jafnræðis sé gætt við úthlutunina og enn fremur til að tryggja fjölbreytni þeirra verkefna sem hljóta styrk.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á styttingu vinnuvikunnar á skóla- og frístundasviði. SFS2021010123 

    Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Harpa Ólafsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stytting vinnuvikunnar hefur verið baráttumál stéttarfélaga um árabil og Reykjavíkurborg hefur tekið forystu í að koma til móts við þær óskir með tilraunaverkefni á mörgum starfsstöðvum undanfarin 5 ár og í undirritun kjarasamninga á síðasta ári þar sem styttingin var veigamikill þáttur. Þetta er mikilvægt samfélagsverkefni sem miðar að því að bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma, fjölga gæðastundum fjölskyldna og skapa betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Útfærslan á einstökum starfsstöðvum hefur verið í höndum starfsmanna sjálfra í eins konar lýðræðisverkefni þar sem kosið hefur verið milli valkosta. Niðurstaðan er sú að langflestar starfsstöðvar velja fulla styttingu vinnutíma í 36 stundir, þar af yfir 85% leikskóla, allir grunnskólar að tveimur undanskildum og allt frístundastarf. Borgin mun fylgjast vel með innleiðingunni en ánægjulegt er að sjá hve vel hefur verið staðið að undirbúningi og útfærslu á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að tryggja að stytting vinnuviku leiði ekki til þjónustuskerðingar á leikskólum Reykjavíkurborgar. Tryggja þarf leikskólunum nauðsynlegan stuðning svo útfæra megi styttri vinnuviku með farsælum hætti fyrir starfsmenn leikskóla og fjölskyldur. Fjölskyldufólk hefur verið undir gríðarlegu álagi síðastliðið ár. Verkföll á leikskólum, skertur opnunartími vegna COVID-19 og biðlistavandi í tilteknum borgarhverfum hafa valdið miklu álagi. Jafnframt rann samþykkt um þjónustuskerðingar vegna COVID-19 út þann 31. desember 2020. Nú eru þrjár vikur liðnar af nýju ári og meirihlutinn hefur ekkert aðhafst til að færa þjónustu leikskólanna aftur í fyrra horf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á óskerta leikskólaþjónustu í Reykjavík enda koma skerðingar verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki með lítinn sveigjanleika í starfi og fólki af erlendum uppruna.

    Áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum fagnar styttingu vinnuvikunnar sem er skref í átt að fjölskylduvænna samfélagi. Hins vegar er ljóst að án aukins fjármagns er erfitt að halda uppi óskertri menntun í leikskólum. Sem dæmi má nefna að deild með 20 þriggja ára gömlum börnum hefur þrjú stöðugildi sem þurfa að manna opnunartíma leikskólans frá kl. 07:30-16:30. Starfsmenn vinna 8 klst. á dag á meðan flestir nemendur eru með 8,5 klst. viðveru. Þrjá daga vikunnar eru aðeins tveir starfsmenn með 20 3ja ára gömul börn í 4 klst. Það gefur auga leið að álag á börn og starfsmenn eykst við þessar aðstæður. Við skorum á skóla- og frístundaráð að leggja til það fjármagn sem til þarf til að halda uppi óskertri menntun í leikskólum borgarinnar, svo ekki sé minnst á öryggi leikskólabarna. 

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. janúar 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 182. fundi skóla- og frístundaráðs um leikskólann Nes/Bakka. SFS2020040150

    Fylgigögn

  13. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

    -    Kl. 16:20 víkja Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Haraldur Sigurðsson, Magnús Þór Jónsson og Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum.

    14.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að leikskólar Reykjavíkur færi þegar í stað opnunartíma sinn til fyrra horfs. Samþykkt var á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst sl. að breyta opnunartímanum þannig að leikskólar yrðu ekki opnir lengur en til kl. 16:30 í stað til kl. 17:00. Um var að ræða tímabundna ráðstöfun vegna Covid 19 og samþykktin átti að gilda til 31. desember 2020. Engin samþykkt er því lengur í gildi sem heimilar þennan breytta opnunartíma og því nauðsynlegt að breyta honum til fyrra horfs sem fyrst.

    Frestað. SFS2020080077

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst 2020 voru lagðar til breytingar á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar tímabundið vegna Covid-19. Samþykkt var að almennur opnunartími leikskóla Reykjavíkurborgar yrði frá kl. 07:30 til 16:30 og ætti breytingin að standa til 31. desember 2020. Nú er janúarmánuður senn á enda og samþykktin löngu fallin úr gildi án þess að opnunartíma leikskólanna hafi verið breytt til fyrra horfs. Hver er ástæða þess að opnunartími leikskólanna hefur ekki verið breytt í samræmi við samþykktina og hvar og af hverjum hefur sú ákvörðun verið tekin?

    SFS2020080077

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð beinir því til samgöngu- og skiplagssviðs/ráðs að gerðar verði ráðstafanir og úrbætur sem fyrst til að tryggja betur umferðaröryggi gangandi vegfarenda við Álmgerði sem er gönguleið barna í skóla sem búa við Furugerði, Hlyngerði, Seljugerði og Viðjugerði. Mikill umferðarhraði er við götuna og samkvæmt mælingum lögreglu er brotahlutfall þar hátt. Ekki er forsvaranlegt að hvetja börn til að ganga eða hjóla í skóla ef umferðaröryggi þeirra verður ekki tryggt eins og best verður á kosið.
     
    Frestað. SFS2021010169

    -    Kl. 16:25 víkur Örn Þórðarson af fundinum.

    -    Kl. 16:35 víkja Helgi Grímsson, Jón Ingi Gíslason, Anna Metta Norðdahl og Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir upplýsingum um þróun fjölda nemenda í grunnskólum Reykjavíkur sem stunda fjarnám á framhaldsskólastigi skólaárin 2018-2021, hvort þeim er að fjölga eða fækka. Þá er óskað eftir sundurgreindum upplýsingum í hvaða framhaldsskólum þeir stunda fjarnám og í hvaða námsgreinum. Fjarnám á framhaldsskólastigi fyrir grunnskólanemendur er mikilvægur valkostur í að auka fjölbreytni í námi og hentar vel áherslum í einstaklingsmiðuðu námi og því mikilvægt að fylgst sé vel með hver þátttakan er í slíku námi.

    SFS2021010170

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Óskað er eftir upplýsingum um hvaða grunn- og leikskólar hafi komið upp öryggismyndavélum við skólahúsnæðið og við leiksvæði skólanna. Ástæða er til að taka saman þessar upplýsingar í ljósi alvarlegra atvika sem hafa átt sér stað í skólum og nágrenni skóla í borginni. Hversu margir skólar hafa tekið upp sérstaka aðgangsstýringu inn í skólahúsnæðið?

    SFS2021010172

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hvenær var síðast farið í aðalskoðun leiksvæða í samræmi við reglugerð á lóðum og leiksvæðum skóla- og frístundasviðs? Fram hefur komið í fréttum að reglulegri skoðun hafi ekki verið sinnt eins og reglugerð kveður á um. Óskað er svara við því hvort það sé rétt og ef svo er þá er óskað skýringa við því hvers vegna svo hafi ekki verið.

    SFS2021010173

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Framkvæmdum við að bæta umferðaröryggi við Dalskóla og á göngu- og hjólaleiðum nemenda til og frá skóla- og frístundastarfi í Úlfarsárdal átti að vera lokið við upphaf skóla í haust en þeim er enn ekki að fullu lokið. Óskað er eftir að samgöngu- og skipulagssvið svari skóla- og frístundaráði því hvenær sé áætlað að umræddum framkvæmdum verði lokið?

    SFS2019100042

Fundi slitið klukkan 16:50

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_2601.pdf