Skóla- og frístundaráð
Ár 2021, 12. janúar, var haldinn 198. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði og hófst kl. 12.34.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Eygló Traustadóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. janúar 2021, um stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030 ásamt stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030 og skýrslu stýrihóps, dags. í janúar 2021.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð leggur til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að senda stefnu um framtíð tónlistarnáms til 2030, ásamt skýrslu stýrihópsins, til umsagnar helstu hagsmunaaðila. Í framhaldi af umsagnarferli setji sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs í gang vinnu við að móta áætlun um forgangsröðun og innleiðingu stefnu um framtíð tónlistarnáms til 2030 ásamt þeim forgangsáherslum og tillögum sem fram koma í skýrslu og vinnugögnum stýrihópsins. Þær skulu vera kostnaðarmetnar og þeim raðað í tímasetta áfanga. Innleiðingaráætlun verði lögð fyrir skóla- og frístundaráð til afgreiðslu eigi síðar en 15. apríl 2021.
Samþykkt. SFS2018120032
Eyþór Laxdal Arnalds og Sigfríður Björnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Staða tónlistar á Íslandi í dag er almennt mjög sterk, og margir íslenskir tónlistarmenn skara fram úr á alþjóðavettvangi, það ber að þakka öflugum menntastofnunum og gróskumiklu menningarlífi, ásamt markvissum opinberum stuðningi. Unnið hefur verið á grundvelli stefnu frá 2011 en með þessari nýju stefnu sem hér er lögð fram til kynningar er mótuð metnaðarfull og heildstæð framtíðarsýn til næstu ára sem er sérstakt fagnaðarefni. Í henni er lögð áhersla á að halda í þann styrk sem fyrir er, en lögð áhersla á jöfnun tækifæra og meiri nýtingu framboðs tónlistarnáms í þeim borgarhverfum þar sem hún er í dag lítil, og að draga úr þeim kostnaði sem leggst á foreldra. Skóla- og frístundaráð vonast til þess að með þessari stefnu verði öflugt tónlistarlíf borgarinnar enn öflugra, en hvetur um leið Alþingi og Menntamálaráðuneytið til að endurskoða lög um tónlistarskóla, en þau eru um margt óljós og gefa óskýrar væntingar um rekstur tónlistarskóla sem ekki eru á forræði sveitarfélaga.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. október 2020, um niðurstöður á viðhorfum foreldra grunnskólabarna til skóla, félagsmiðstöðva og skólaþjónustu 2020. SFS2020110120
Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er afar ánægjulegt að sjá niðurstöður könnunar meðal foreldra á viðhorfum til skóla, frístundar og skólaþjónustu. Rúmlega 80% foreldra eru ánægðir með skóla barna sinna. Um 83% foreldra telja að börnum þeirra líði vel í skólanum, 78% að þau séu áhugasöm um að læra í skólanum og 90% að þau taki stöðugum framförum í náminu. Um 76% foreldra eru sammála því að skólanum sé vel stjórnað og 77% segjast geta mælt með skólanum við aðra foreldra. Rúmlega 85% foreldra eru frekar eða mjög ánægðir með félagsmiðstöðina sem barnið þeirra sækir og tæp 85% eru frekar eða mjög sammála því að þátttaka í félagsmiðstöðvarstarfinu hafi jákvæð félagsleg áhrif á barn sitt. Víða endurspegla niðurstöður framfarir frá síðustu könnun en ef horft er til þátta sem má bæta er áhyggjuefni að áhugi stráka á náminu dvínar þegar komið er á unglingastig og sömuleiðis sýna niðurstöðurnar þörf á úrbótum varðandi samstarf skóla og skólaþjónustu þjónustumiðstöðvanna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ánægjulegt að sjá hversu jákvætt viðhorf foreldrar reykvískra nemenda hafa í garð skólastarfs almennt. Engu að síður er nauðsynlegt að horfa til neikvæðra vísbendinga í könnunni í þeim tilgangi að bregðast við. Mikilvægt er að skólastjórnendur hafi tækifæri til að nýta könnunina sem tæki til að bæta skólastarf. Sérstakt áhyggjuefni er að vísbendingar eru um að drengir í grunnskólum koma talsvert verr út úr könnuninni og eru síður áhugasamir um að læra en stúlkur. Þessu þarf að bregðast hratt við.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt verklagi vegna umsókna í sjálfstætt rekna sérskólann Arnarskóla og minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. janúar 2021 um samþykkt verklagsins og ákvörðun um greiðslu framlags til sjálfstætt rekna sérskólans Arnarskóla:
Skóla- og frístundaráð samþykkir með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra, dags. 5. janúar 2021, verklag um meðferð umsókna foreldra reykvískra nemenda í sjálfstætt rekna sérskólann Arnarskóla vegna skólaársins 2020 – 2021.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Valgerður Sigurðardóttir situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2018110109
Hrund Logadóttir, Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. janúar 2021, um umsókn um leyfi fyrir skólastarfi á miðstigi, 6. og 7. bekk, í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík út skólaárið 2020 - 2021, merkt trúnaðarmál, auk umsagna fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 14. maí 2020 og 8. janúar 2021, merktar trúnaðarmál, þjónustusamnings dags. 13. maí 2019 og umsögn skólaráðs Barnaskóla Hjallastefnunnar, dags. 17. desember 2020.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Hjallastefnunni Grunnskólum ehf. verði veitt leyfi til kennslu þeirra sextán reykvísku nemenda sem nú þegar eru í 6. og 7. bekk skólans frá samþykkt þessari til loka skólaársins 2020 – 2021. Ekki verði um frekari fjölgun nemenda að ræða þar sem húsrúm í samþykktu húsnæði leyfir ekki frekari fjölgun. Greitt verði framlag vegna framangreindra 16 nemenda frá 1. febrúar 2021 til loka skólaársins 2020 – 2021. Þrátt fyrir framangreint verði ekki gerð breyting á þjónustusamningi um hámarksfjölda nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núgildandi samning Reykjavíkurborgar við Hjallastefnan Grunnskólar ehf., dags. 13. maí 2019, sem kveður á um framangreint. Gerður er fyrirvari um að skólahúsnæði uppfylli skilyrði 20. gr., sbr. 43. gr. d. laga um grunnskóla nr. 91/2008, sbr. einnig reglugerð nr. 657/2009, um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða, með síðari breytingum og að staðfesting Menntamálastofnunar fáist.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020040012
Guðrún Edda Bentsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 7. janúar 2021, dags. 12. janúar 2021. SFS2020050139
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 28. maí 2020 um sameiningar grunnskóla í Grafarvogi. SFS2020060011
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi borgarráðs 27. nóvember 2020 um samning við UngRúv. SFS2020110032
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er ánægjulegt að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni þannig fræðsluhlutverki sínu. Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins samanber greinar 1.2. og 2.1.3. Hér hefði verið rétt að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 197. fundi skóla- og frístundaráðs um nýtingu útikennslustofa. SFS2020120045
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þrátt fyrir að aðeins 21 skóli af 38 hafi aðgang að skilgreindum útikennslustofum, er það ánægjulegt að sjá að allir skólarnir nema einn nýti útikennslu og samþætti hinum ýmsu námsgreinum hvort heldur með skilgreindum útivistartímum eða föstum tímum á viku í stundatöflu. Af svarinu má sjá að engin útikennslustofa er í nokkrum hverfum og því mikilvægt að komið verði á samvinnu milli skóla í nærliggjandi hverfum um samnýtingu útikennslustofanna þar sem því verður við komið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 197. fundi skóla- og frístundaráðs um fjölda nemenda í mataráskrift. SFS2020120044
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þrátt fyrir að hlutfall nemenda í mataráskrift í borgarreknum grunnskólum sé 87% er það áhyggjuefni að í 9 grunnskólum í borginni fer hlutfallið í og undir 80% og alveg niður í 66% prósent í einum skólanna. Ljóst er að gera þarf könnun á því hvaða ástæður liggi að baki því að þeir nemendur sem ekki eru í mataráskrift þiggi hana ekki.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins frá 197. fundi skóla- og frístundaráðs um frístundaheimili og vanskil. SFS2020120043
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 19. nóvember 2020 um biðlista í sérskólaúrræði. SFS2020110153
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228
- Kl. 15:40 víkja Haraldur Sigurðsson, Ragnheiður Davíðsdóttir og Anna Metta Norðdahl af fundinum.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að gerð verði könnun á því hjá þeim nemendum sem ekki eru í mataráskrift grunnskólanna hvaða ástæður séu fyrir því. Mikilvægt er að slík könnun fari fram til að greina hvort um sé að ræða efnahagslegar ástæður foreldra, að máltíðirnar uppfylli ekki gæðakröfur eða enn aðrar ástæður. Könnunin verði nýtt til þess að gera viðeigandi úrbætur til að fleiri nemendur nýti sér mataráskrift og tryggja að öllum nemendum standi til boða máltíðir óháð efnahag foreldra.
Frestað. SFS2021010076
Fundi slitið klukkan 15:47
Skúli Helgason Alexandra Briem
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_1201.pdf