Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 197

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 8. desember, var haldinn 197. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði og hófst kl. 12.33. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Kolbrún Baldursdóttir (F), Marta Guðjónsdóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Þórarna Ólafsdóttir.
Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning frá tveimur verðlaunahöfum Íslensku menntaverðlaunanna 2020, Dalskóla fyrir framúrskarandi skólastarf og menntaumbætur og Langholtsskóla fyrir framúrskarandi þróunarverkefni. SFS2020120017

    Hildur Jóhannesdóttir, Björgvin Ívar Guðbrandsson, Hreiðar Sigtryggsson og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13.30 tekur Stefán Geir Hermannsson sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið fagnaðarefni að tveir af grunnskólum Reykjavíkurborgar hafi hlotið Íslensku menntaverðlaunin á dögunum. Dalskóli fékk verðlaunin fyrir framúrskarandi skólastarf með áherslu á þróun þverfaglegra kennsluhátta og Langholtsskóli fyrir framúrskarandi þróunarverkefni þar sem nokkrum námsgreinum hefur verið fléttað saman í smiðjur með áherslu á sköpun, lykilhæfni nemenda og nýtingu upplýsingatækni. Verðlaunin undirstrika frábært starf sem unnið er í þessum skólum og er öðrum skólum til eftirbreytni. Skóla- og frístundaráð óskar stjórnendum og starfsfólki Dalskóla og Langholtsskóla innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2020 um niðurstöður stærðfræðiskimunar í 3. bekk 2019 og skýrslan Stærðfræðiskimun, 3. bekkur í nóvember 2019. SFS2019110023

    Ásgeir Björgvinsson, Guðrún Edda Bentsdóttir og Soffía Vagnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt þeirri skimun sem hér er lögð fram þurfa 8,5% nemenda í þriðja bekk á stuðningi að halda í stærðfræði. Ekki er um að ræða teljandi breytingu milli ára, sé það tekið með í reikninginn að einn skóli þar sem árangur í stærðfræði mælist iðulega góður var ekki með í mælingu þessa árs. Því ber að halda til haga að eigi samanburður milli ára að vera nothæft gagn til ákvarðanatöku þarf að vera skýrt hvað er mælt og það mengi sem er prófað annað hvort óbreytt, eða tekið tillit til þess við framsetningu niðurstaðna. Nauðsynlegt er að mælitæki sem þessi séu uppfærð og hefur skóla- og frístundaráð sent erindi þess efnis til Menntamálastofnunar, sem nú er ítrekað.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það vekur athygli að í niðurstöðum Talnalykils skimunarprófs í stærðfræði í 3. bekk 2019 að hærra hlutfall barna þarf á stuðningi að halda í stærðfræði og að drengir eru með hærra meðaltal en stúlkur í fyrstu tveimur þrepunum og er munurinn í þrepi II tölfræðilega marktækur. Hlutfall drengja sem þarf líklega á sérstökum stuðningi að halda er 6,8% á meðan hlutfall stúlkna er 10,2%. Hlutfallið í ár er tæpu prósentustigi hærra hjá báðum kynjum miðað við árið 2018. Mikilvægt er að niðurstöðurnar verði nýttar til að styðja enn frekar við nemendur sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda og greina enn frekar þann mun sem er á getu kynjanna. Rýna þarf hvort breyta þarf um kennsluaðferðir eða áherslur í kennslunni. Niðurstöðurnar eru mikilvægar hverjum skóla fyrir sig og mikilvægt að þeir nýti niðurstöðurnar til að greina hvað hefur gefist vel í stærðifræðikennslunni og hvað þarfnast úrbóta.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í niðurstöðum segir að um 111 nemendur árið 2019 þurfi á sérstökum stuðningi að halda. Vissulega liggur stærðfræði misvel fyrir börnum og ekki er efast um að kennarar kenni af metnaði og fagmennsku. Kennarar munu án efa nýta þessar niðurstöður til að gera áætlun um stærðfræðikennslu út frá stöðu hvers nemanda ásamt því að nýta þær til að breyta þeim áherslum í kennslu sem þeir telja vera mikilvægt að gera. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einmitt mikla áherslu á einstaklinginn og að bæði kennsluefni og aðferðir taki beint mið af sértækum þörfum hvers og eins.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem var á fundi borgarráðs 10. október 2019 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. nóvember 2020, um tillöguna: 

    Flokkur fólksins leggur til að farið verði í sérstakt átak til að tryggja starfsöryggi dagforeldra og beiti til þess öllum þeim úrræðum sem borgin hefur upp á að bjóða. Byrja þarf á að skilgreina nánar þann stofnstyrk sem nýjum dagforeldrum hefur verið lofað, hvernig hann er útfærður og hvenær hann verður greiddur út. Nefndur hefur einnig verið aðstöðustyrkur til að hjálpa þeim dagforeldrum sem að ekki hafa náð að fylla í plássin sín. Lagt er til að skoðað verði að fleiri styrkir verði veittir til dagforeldra þegar verst árar. Skoða mætti t.d. leigustyrk til þeirra sem að leigja dýra gæsluvelli á vegum borgarinnar eins og nefnt hefur verið. Skoða þarf hvort hægt sé að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu til áramóta. Þetta er brot af hugmyndum sem nefndar hafa verið til að tryggja starfsöryggi dagforelda á meðan verið er að brúa bilið. Þetta haust hefur verið einstaklega slæmt. Ekki hafa fengist börn í vistun sem þýðir að einhverjir dagforeldrar hætta störfum. Í vor mun hins vegar verða vöntun á dagforeldrum. Hvernig á að bregðast við þeim aðstæðum sem þá myndast, þegar stór hópur af börnum fær ekki vistun og foreldrar komast ekki til vinnu? 

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. SFS2019100075

    Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í kjölfar skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík voru á haustmánuðum 2018 samþykktar til innleiðingar 9 tillögur af 11. Þeirra á meðal var veruleg hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra, tillaga um öryggishnapp og tillaga um stofnstyrk. Dagforeldraþjónustan hefur um árabil verið mikilvægur tengiliður milli fæðingarorlofs og leikskóla og mikilvægur valkostur fyrir foreldra yngstu barnanna. Það sem stendur nú helst fyrir þrifum er endurskoðun á skráningu og upplýsingagjöf um biðlista og laus pláss hjá dagforeldrum, svo foreldrar fái betri upplýsingar um þau pláss sem í boði eru.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að farið yrði í að gera átak til að tryggja starfsöryggi dagforeldra og beitt verði greiðslu stofnstyrks og/eða aðstöðustyrks til að hjálpa þeim sem ekki ná að fylla í plássin sín. Tillögunni er vísað frá. Dagforeldrar eru um þessar mundir að finna fyrir nokkurri uppgjöf því svo virðist sem allt sé fellt sem þeir biðja um. Ekkert hefur í raun breyst annað en það að allt í einu eru fleiri pláss á leikskólunum í byrjun árs. Þegar talað er um niðurgreiðslu þá skal á það minnt að hækkun niðurgreiðslu er ekki bara fyrir dagforeldra heldur einnig foreldra barnanna svo ekki hækki þeirra greiðsla. Fulltrúi Flokks fólksins vill halda áfram að leggja til að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15%. Um er að ræða leigustyrk, styrk vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrk. Aðstöðustyrkur myndi hjálpa þeim dagforeldrum sem ekki hafa náð að fylla í plássin sín. Einnig mætti skoða að lengja bilið á milli þess sem heilbrigðiseftirlitið heimsækir þá sem starfa tveir saman með tilheyrandi kostnaði (ca. 60 þúsund hver heimsókn) eða lækka þau gjöld í þessu millibilsástandi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það skal ítrekað að niðurgreiðsla til dagforeldra var hækkuð um 15% árið 2018, ásamt því að tekinn var upp stofnstyrkur og fleiri breytingar innleiddar til að styðja við það mikilvæga starf. Ekki fer vel á því að halda fram rangfærslum um svo mikilvægt mál. Því má að auki bæta við að engum tillögum frá dagforeldrum hefur verið hafnað í ráðinu á undanförnum árum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við dagforeldra og finnst þeim sem margt vanti upp á til að tryggja betur starfsöryggi þeirra. Eftir að Brúum bilið hófst hafa komið tímar sem ekki hefur tekist að fylla pláss og foreldrar fá oft pláss á leikskóla með stuttum fyrirvara. Á öðrum tíma eru öll pláss full og sumir foreldrar í stökustu vandræðum. Spyrja má hvort meirihlutinn hafi sinnt þessari stétt nægjanlega vel á þessum umbyltingatímum.

    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2020, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva 2020-2021. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2020-2021. 

    Samþykkt. SFS2020110125

    Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2020, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva 2020-2021. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2020-2021. 

    Samþykkt. SFS2020110125

    Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. febrúar 2020, um staðfestingu skóladagatals grunnskóla Reykjavíkur fyrir skólaárið 2021-2022 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2020 og bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. september 2020, um kosningar í húsnæði skóla skólaárið 2021-2022. 

    Samþykkt. SFS2020020096

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. nóvember 2020, um staðfestingu starfsáætlana grunnskóla 2020-2021. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir allra grunnskóla í Reykjavík fyrir starfsárið 2020-2021. 

    Samþykkt. SFS2019030055

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. nóvember 2020, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla 2020-2021. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir allra leikskóla í Reykjavík fyrir starfsárið 2020-2021. 

    Samþykkt. SFS2020060070

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. desember 2020, um samstarfssamning við Útilífsmiðstöð skáta, samstarfssamningur við Útilífsmiðstöð skáta og reglur Reykjavíkurborgar um styrki. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020120019

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð fagnar því að gerður er framhaldssamningur við Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Um er að ræða viðbót við hefðbundið skólastarf þar sem lögð er áhersla á útinám sem nýtist vel í hópefli, lífsleikni o.fl. námsgreinum. Mikilvægt er að kynna skólunum vel þessar skólabúðir til að auka áhuga skólanna á að nýta sér þær.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs fyrir árið 2021. SFS2019110026

    Fylgigögn

  10. Lögð fram embættisafgreiðsla sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. desember 2020. Eitt mál. SFS2019020033 

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að bilið milli heimsókna heilbrigðiseftirlitsins til dagforeldra sem starfa tveir saman verði annað hvort lengt eða að kostnaður við heimsóknir sem eru um 60 þúsund krónur verði annað hvort felldur niður eða lækkaður umtalsvert í því millibilsástandi sem nú ríkir. Dagforeldrar berjast í bökkum um þessar mundir. Starfsöryggi þeirra er í uppnámi og ekki hefur verið komið nægjanlega á móts við stéttina á meðan verkefnið Brúum bilið er í vinnslu og nú þegar COVID er í algleymingi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur viljað sjá átak gert til að styrkja stéttina t.d. með því að veita stofnstyrki og/eða aðstöðustyrki. Taka þarf betur utan um þessa stétt. Ekkert okkar vill vera án dagforeldra. Dagforeldrar eru um þessar mundir að finna fyrir nokkurri uppgjöf því svo virðist sem allt sé fellt sem þeir biðja um.

    Frestað. SFS2020120041

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að gera úttekt á því hvort skert skólahald í kórónuveirufaraldrinum hafi haft áhrif á námsárangur nemenda. Skoðaðar verði niðurstöður samræmdra prófa og skólaprófa milli ára.

    Frestað. SFS2020120042

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það séu dæmi um það að börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili vegna þess að foreldrar hafi ekki haft efni á að greiða gjöldin og af einhverjum ástæðum ekki fengið aðstoð með greiðslur? Ef svo er, hvað eru þau börn mörg? Einnig er spurt hvort það séu dæmi þess að foreldrar hafi valið að láta barn sitt hætta á frístundaheimili vegna skuldar frekar en að láta frístundakort barnsins ganga upp í skuld frístundaheimilis? Fulltrúi Flokks fólksins spyr að þessu þar sem hann telur að það ætti að vera hægt að sjá hvort fólk hafi ekki fengið áframhaldandi vist fyrir börn vegna skuldar og það ætti að vera hægt að nálgast upplýsingar um hvort sömu börn hafi haft aðgang að ónýttu frístundakorti. 

    SFS2020120043

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hversu margir nemendur eru í mataráskrift í grunnskólum Reykjavíkur. Óskað er upplýsinga sundurliðað eftir skólum hvert hlutfall nemenda er í mataráskrift hvers skóla.

    SFS2020120044

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvaða skólar nýta sér útikennslustofur, hvernig þeir nýta þær, hvort þær eru nýttar skipulega í tilteknum námsgreinum og þá hvaða?

    SFS2020120045

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvernig veikindaforföll hafa verið leyst í leik- og grunnskólum í kórónuveirufaraldrinum. 

    SFS2020120046

Fundi slitið klukkan 16:00

Skúli Helgason Alexandra Briem

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_0812.pdf