Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 196

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 24. nóvember, var haldinn 196. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði og hófst kl. 12.35. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir og Soffía Vagnsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla- og frístundaráð leggur til að sett verði á fót þróunarverkefni um inntöku ungbarna í leikskóla borgarinnar. Verkefnið felst í að veita þeim leikskólum heimild sem annars vegar hafa laus leikskólarými og hins vegar hafa boðið öllum eldri börnum rými sem eru með umsókn í viðkomandi leikskóla, heimild til að innrita börn allt niður í 12 mánaða gömul. Miðað er við að þeir leikskólar sem taka þátt í verkefninu starfræki nú að lágmarki eina ungbarnadeild. Leikskólarnir skulu leggja sig fram um að þróa starf sitt með svo ungum börnum með hliðsjón af nýjustu rannsóknum um velferð, nám og getu barna frá 12 mánaða aldri. Huga þarf vel að þörfum barnanna varðandi leik- og hvíldarrými, deildar- og útiaðstöðu ásamt dagskipulagi og leikefni. Aldursröð barna skal eftir sem áður ráða þegar kemur að inntöku barna í viðkomandi leikskóla, þau elstu fyrst. Markmið verkefnisins verði að fjölga börnum frá 12 mánaða aldri í leikskólum borgarinnar og mæta þörfum þeirra með námi sem taki mið af þroska þeirra og aldri, leik- og hvíldarrými, deildar- og útiaðstöðu við hæfi, dagskipulag og leikefni. Í fyrsta áfanga taki eftirtaldir leikskólar þátt í verkefninu: Dalskóli í Úlfarsárdal, Nes/Bakki í Staðahverfi og Blásalir í Seláshverfi. Lagt er til að verkefnið verði metið árlega og endurskoðað að þremur árum liðnum.

    Greinargerð fylgir. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020110119

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eitt stærsta hagsmunamál foreldra með ung börn er að koma þeim að í þeim frábæru leikskólum sem starfa innan borgarinnar. Um það snýst Brúum bilið aðgerðaáætlunin sem felur í sér að opna 700-750 ný leikskólarými á komandi árum. Þau opna jafnt og þétt eftir því sem nýir leikskólar opna og viðbyggingar rísa en með þróunarverkefni um inntöku yngstu barna er stigið stærsta skrefið til þessa í að opna fyrir inntöku barna allt niður í 12 mánaða aldur í þeim leikskólum sem hafa klárað sína biðlista og eiga enn laus rými. Byrjað verður á Dalskóla, Nes/Bakka í Staðahverfi og Blásölum í Seláshverfi en fleiri leikskólar munu svo fylgja í kjölfarið á allra næstu mánuðum. Markmið verkefnisins verður að fjölga börnum frá 12 mánaða aldri í leikskólum borgarinnar og mæta þörfum þeirra með námi sem tekur mið af þroska þeirra og aldri auk aðstöðu sem hæfir þessum aldri. Áfram mun aldursröð ráða við inntöku barna á hverjum stað en foreldrar fá nú tækifæri til að sækja um leikskóla á fleiri stöðum en verið hefur. Meirihlutinn leggur áherslu á að einfalda innritunarferlið í leikskóla, gera það gagnsærra og bæta þannig þjónustu við foreldra.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Farið er að síga á seinnihluta kjörtímabilsins og ljóst að áætlanir um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla hafa ekki gengið eftir þrátt fyrir loforð flokkanna fyrir kosningar og ákvæði þar um í meirihlutasáttmálanum. Enn er langt í land að hægt verði að efna loforð í þeim efnum. Það skref sem tekið er í dag hefði þurft að taka miklu fyrr og vera miklu stærra til að geta lækkað inntökualdurinn þannig að öllum börnum í Reykjavík bjóðist leikskólavist frá 12 mánaða aldri. Þá hefði átt miklu fyrr að veita leikskólunum heimild til að nýta laus pláss til að taka inn yngri börn. Vandinn vex með hverjum mánuði eins og staða biðlista gefur til kynna og nauðsynlegt að farið verði í stærra átak í að stytta biðlista eftir leikskóladvöl en til þess að ná því markmiði að öllum börnum 12 mánaða og eldri bjóðist leikskóladvöl þarf að fara í víðtækari aðgerðir en lagðar eru til hér í dag.

    Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla- og frístundaráð leggur til að hafinn verði formlegur undirbúningur að opnun nýs leikskóla í Safamýri 5. Miðað er við að leikskólinn verði fjögurra til fimm deilda þar sem verði að minnsta kosti tvær ungbarnadeildir. Stefnt er að því að leikskólinn verði hluti af þróunarverkefni um inntöku yngstu barnanna og fái heimild til að innrita börn strax frá 12 mánaða aldri. Miðað er við að leikskólinn rúmi um 85-90 börn. Stefnt er að því að leikskólinn taki til starfa á haustmánuðum 2021.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020110124

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölgun plássa í leikskólum borgarinnar er mikilvægt hagsmunamál barna, foreldra og íbúa almennt. Í stað þess að byggja húsnæði frá grunni í hvert skipti hefur einnig verið leitast við að finna hús sem hægt er að breyta þannig að þar sé hægt að hefja skólastarf. Sú leið er umhverfisvæn, en jákvætt er að nýta það sem fyrir er, þar sem það er heilt og nothæft, frekar en rífa og byggja nýtt, og þar að auki ódýrara og fljótlegra, en hér eru um að ræða leikskóla sem rúmar 85-90 börn, sem munar um. Safamýrarskóli er bæði heppilega staðsettur og bæði húsnæði og lóð henta vel fyrir rekstur leikskóla. Þá þarf að halda því til haga að til þess að þessar áætlanir gangi eftir þarf að vera tryggt að ástand húsnæðisins sé fullnægjandi og gera fulltrúar meirihlutans ráð fyrir því að í skoðun og undirbúningi hússins verði farið í allar nauðsynlegar kannanir á ástandi og ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur.

    Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning og umræða um Birtu, stoðdeild í Álftamýrarskóla fyrir börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. SFS2020110121

    Aðalheiður Diego Hjálmarsdóttir, Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Hanna Guðbjörg Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verkefnið Birta er metnaðarfullt verkefni til að hjálpa þeim börnum sem koma til Íslands að sækja um alþjóðlega vernd. Þau börn eru oft með brotna, eða jafnvel enga, skólagöngu og gífurlega mikilvægt að móttaka þeirra sé öflug og komi til móts við þeirra þarfir. Mjög mikilvægt er að þeirra hæfileikar fái notið sín, og þeim sé gert mögulegt að njóta allra þeirra kosta sem það býður upp á að búa á Íslandi. Þó er ljóst að sá tími sem börnin hafa í Birtu er í mörgum tilfellum ekki nægur, í einhverjum tilfellum er skólagangan svo brotin að erfitt er að vinna það upp og ljóst er að ráðast þarf í stefnumótun á sviðinu til þess að útfæra hvernig þessi börn eru studd áfram í skólakerfinu þegar viðveru í Birtu lýkur, sem gerist þegar umsókn þeirra hefur verið afgreidd. Einnig þarf að útfæra móttöku annarra barna sem þurfa aukinn stuðning til að læra íslensku við komuna til Íslands. Þá þarf að tryggja öllum börnum af erlendum uppruna viðeigandi stuðning í skóla. Þau börn sem hafa búið við hverskonar ógn og öryggisleysi áður en þau koma til Íslands eru oftar en ekki að kljást við áfallastreitu og getur það reynst þeim erfitt að aðlagast skólakerfinu vegna þess. Það þyrfti að kanna hvort sá hópur geti gengið að sálrænum stuðningi vísum meðfram kennslunni í Birtu.

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. nóvember 2020, um matarþjónustu í grunnskólum við takmarkanir vegna Covid-19 í nóvember 2020. 

    Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa skólastjóra grunnskóla, skóla- og frístundaráðs og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:

    Lagt er til að grunnskólar borgarinnar bjóði upp á heitar máltíðir eins og verið hefur í öllum þeim tilvikum þar sem húsnæði og sóttvarnarreglur bjóða uppá. Ef einungis hluti nemenda í skóla getur fengið mat í ljósi þessara atriða skal það gert og þá byrjað á yngstu nemendunum. Í þeim tilvikum sem að ekki er hægt að bjóða upp á heitan mat í matsal skal boðið upp á nestis- eða matarpakka sem hægt er að neyta í stofum. Skal máltíðin vera í samræmi við manneldismarkmið og af þeim gæðum að nemandi hafi næga næringu og orku fyrir allan skóladaginn.

    Samþykkt. SFS2020110122

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Grunnskólarnir í Reykjavik hafa staðið sig afburða vel við að halda uppi skólastarfi við oft og tíðum afar krefjandi aðstæður út af þeim sóttvarnaraðgerðum sem fylgt hafa kórónuveirufaraldrinum. Það hefur m.a. leitt til breytinga á matarþjónustu fyrir eldri börnin. Öll börn á yngsta stigi grunnskólans hafa fengið hádegismat eins og verið hefur og víða hefur tekist að bjóða mið- og unglingastigi hádegisverð en á sumum stöðum hafa aðstæður hamlað. Vilji allra stendur þó til þess að bjóða öllum börnum mat á skólatíma og þess vegna sameinast skóla- og frístundaráð, sviðsstjóri og fulltrúi skólastjóra um tillögu þess efnis að öllum börnum sem á þurfa að halda standi til boða hádegismatur þó útfærslan verði mismunandi eftir skólum og aðstæðum á hverjum stað. Skólastjórnendur, kennarar og starfsfólk skólanna rýni áfram sérstaklega í mismunandi aðstæður skólabarna og séu á varðbergi gagnvart því að ekkert barn þurfi að fara á mis við að matast á skóladögum.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna og SAMFOK hafa verið að heyra af áhyggjum foreldra barna í grunnskólum borgarinnar og eru mörg mjög ósátt með það úrval sem börnum hefur verið boðið upp á í stað heitrar máltíðar. Það verður að teljast vafasamt að kalla jógúrtdós, ostaslaufu eða skyrdós létta máltíð og er það ekki mikil næring fyrir stækkandi börn. 
    Fyrir sum börn er þetta jafnvel eina máltíð dagsins og teljum við það sýna ákveðið metnaðarleysi að ekki hafi verið hægt að leysa matarmálin á annan hátt en með næringarsnauðum kolvetnum. Það er líka undarlegt að í sumum skólum má bjóða upp á ávexti án þess að það brjóti reglugerð en hjá öðrum ekki. Við vonum að unnið verði í þessum málum, gæði matarins bætt og komið verði í veg fyrir þá mismunun sem nú er í gangi innan borgarinnar. Við fögnum hinsvegar nýrri tillögu skólastjórnenda, sem unnin var með pólitískum fulltrúum. Vonum að hún komi fram sem fyrst.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. ágúst 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2020, um tillöguna:

    Lagt er til að kostnaðarmat verði fengið vegna kaupa á hugbúnaði og vélbúnaði handa öllum kennurum sem starfa hjá Reykjavíkurborg og ekki hafa viðeigandi hugbúnað og vélbúnað til þess að sinna starfi sínu utan skólanna.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020080230

    Haukur Þór Haraldsson og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú þegar er í vinnslu á skóla- og frístundasviði, í samstarfi við svið þjónustu og nýsköpunar, áætlun um það hvernig bæta megi tækjakost í skólum borgarinnar. Sérstaklega má líka nefna að síðan 2017 hefur verið unnið markvisst að því að bæta tölvukost kennara. En eins og sjá má í minnisblaði sviðsins hefur eftirspurn eftir fartölvum aukist ár frá ári. Eftir innkaup á um 200 fartölvum haustið 2020 og útskiptingu á 300 borðtölvum í ársbyrjun 2021 mun öllum hafa boðist fartölva sem eigin vinnutæki.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2020, um íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík 2020. SFS2020100105

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 189. fundi skóla- og frístundaráðs um tæknibúnað fyrir nemendur og kennara í Víkurskóla, Borgaskóla og Engjaskóla. SFS2020080236

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að skólar í Reykjavík séu ekki vanbúnir þegar kemur að tækjabúnaði. Samkvæmt svarinu þá vantar upp á búnað í alla þrjá skólana. Því þarf að gera ráð fyrir þegar fjárhagsáætlun verður afgreidd og tryggja að skólarnir verði ekki vanbúnir á næsta skólaári.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. nóvember 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs um samstarf tónlistarskóla og leik- og grunnskóla. SFS2019100056

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli tónlistarskóla og leik- og grunnskóla til að auka aðgengi barna að tónlistarnámi. Slíkt samstarf getur aukið áhuga barnanna á tónlistarnámi og stuðlað að því að tónlistarnámið geti orðið hluti af skóladeginum og dregið úr skutli. Einnig er rétt að benda á að sýnt hefur verið fram á að tónlistarnám barna stuðli að bættum árangri þeirra í öðru námi, sem undirstrikar enn frekar mikilvægi tónlistarnáms skólabarna.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. nóvember 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs um skólahald í norðanverðum Grafarvogi og gangbrautarvörslu. SFS2020080118 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nauðsynlegar úrbætur á samgöngum hafa ekki klárast í norðanverðum Grafarvogi líkt og lofað var að myndi klárast áður en skólar hæfust, það er dapurlegt að ekki hafi verið staðið við þau loforð sem foreldrum og börnum voru gefin.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 194. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi aðlögun barna í leikskóla. SFS2019090106

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 194. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi stöðu biðlista eftir leikskóladvöl. SFS2020080234

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Vel hefur gengið að fjölga börnum í leikskólum borgarinnar á undanförnum vikum og mánuðum og er nú svo komið að einungis er eftir að taka á móti 35 börnum sem voru 18 mánaða og eldri 1. september. Þeim verður öllum boðið leikskólapláss á komandi vikum og í kjölfarið verður hægt að bjóða yngri börnum leikskólarými í þeim leikskólum borgarinnar sem hafa laus rými og hafa tæmt sína biðlista af börnum frá 18 mánaða aldri. Sterkari staða mönnunarmála á þessu hausti er ein meginskýring þess að betur gengur að fylla laus rými í leikskólunum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Staða biðlista eftir leikskóladvöl í borginni er afar slæm og fer stöðugt versnandi. Nú eru 510 börn 12 mánaða og eldri sem eru á biðlista eftir leikskóladvöl þrátt fyrir loforð flokkana í meirihlutasáttmálanum um að brúa eigi bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þá sýnir staða biðlista 18 mánaða og eldri að börnum á þeim aldri fer fjölgandi milli mánaða því nú eru 73 börn á biðlista en voru 35 í september. Þessar tölur og sá fjöldi barna sýnir að þar sem ekki er hægt að veita öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskóladvöl þá er enn lengra í land að hægt verði að tryggja börnum frá 12 mánaða aldri leikskóladvöl og brúa þannig bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Kjörtímabilið er rúmlega hálfnað og ætli meirihlutinn að efna loforð sín verður að ráðast í stórátak í leikskólamálum svo það takist. Mikilvægt er að tekin verði stærri skref í þá átt að fjölga leikskólarýmum og koma til móts við barnafjölskyldur í borginni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Brúum bilið er 5 ára verkefni og eru ekki liðin nema 2 ár frá því það var samþykkt í borgarstjórn. Fjölgun nýrra plássa er á áætlun og stefnir reyndar í að fjölgað verði um enn fleiri pláss en þau 700-750 sem lagt var upp með í nóvember 2018 þegar borgarstjórn samþykkti verkefnið.

    Fylgigögn

  12. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. Lagt fram á fundinum minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 24. nóvember 2020, varðandi stöðu útbreiðslu Covid-19 innan starfsemi SFS og þróun útbreiðslunnar í bylgju 2 og 3. SFS2020080228

    Fylgigögn

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er sundurliðaðra upplýsinga eftir leik- og grunnskólum og hverfum hvaða skólar eru í samstarfi við tónlistarskóla. Jafnframt er óskað upplýsinga um hversu margir nemendur nýta sér tónlistarnám á vegum tónlistarskólanna á skólatíma. 

    SFS2019100056

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að farið verði í átak í að efla og laða fleiri tónlistarskóla til samstarfs við leik- og grunnskóla í þeim tilgangi að tónlistarnám barna verði hluti af skóladegi þeirra. Sýnt hefur verið fram á að tónlistarnám barna stuðli að bættum árangri þeirra í öðru námi, sem undirstrikar enn frekar mikilvægi tónlistarnáms skólabarna. Þá er lagt til að skoðað verði hvort útvíkka megi samstarfið þannig að tónlistarskólarnir sinni jafnframt tónmenntakennslu í þeim grunnskólum þar sem tónlistarkennslu er ekki sinnt í samræmi við aðalnámskrá og sumir árgangar fá enga tónmenntakennslu.

    Frestað. SFS2020110146

    -    Kl. 16.03 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

    -    Kl. 16.10 víkja Jón Ingi Gíslason, Ragnheiður Davíðsdóttir og Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum.

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2411.pdf