Skóla- og frístundaráð
Ár 2020, 10. nóvember, var haldinn 195. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði og hófst kl. 12.35. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Stefán Geir Hermannsson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. nóvember 2020, um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, um notkun fjarfundabúnaðar og fleira. SFS2020040074
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. nóvember 2020, um stöðu útbreiðslu Covid-19 innan starfsemi skóla- og frístundasviðs og þróun útbreiðslunnar í bylgju 2 og 3. Fram fer kynning og umræða um skóla- og frístundastarf í Reykjavík á tímum Covid-19. SFS2020010206
Sigfríður Björnsdóttir, Jón Pétur Zimsen, Hanna Halldóra Leifsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð þakkar kynninguna. Starfsfólk og embættisfólk sviðsins eiga hrós skilið fyrir útsjónarsemi og snör viðbrögð við innleiðingu nýrrar reglugerðar um sóttvarnir. Það sem er fyrir öllu er að aðgerðirnar sem ráðist var í virðast vera að skila árangri og smitum fer fækkandi. Það ber að þakka traustum og öruggum viðbrögðum sviðsins og borgarinnar allrar í traustu samstarfi við sóttvarnaryfirvöld og ráðuneyti. Nú liggur á að missa ekki móðinn og halda þetta út þangað til sigurinn á þessari bylgju er í höfn, en fara þá á það viðbúnaðarstig sem dugar til að koma í veg fyrir að upp komi ný bylgja.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 27. október 2020:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð fundi vikulega meðan neyðarstig ríkir vegna Kórónuveirufaraldursins. Mikilvægt er að ráðið fylgist vel með stöðu mála hvað varðar skólana og allar þær starfsstöðvar sem undir ráðið heyra. Skóla- og frístundaráð ber ábyrgð á rekstri og skólastarfi í borginni og undir ráðið heyra samtals 27.560 einstaklingar eða 6.200 börn í leikskólum, 500 börn sem dvelja hjá dagforeldrum, 15.100 nemendur í grunnskólum, 250 manns sem stunda nám hjá Námsflokkum Reykjavíkur og 5.510 starfsmenn sem heyra undir sviðið. Með þessa umfangsmiklu starfsemi í huga er nauðsynlegt að ráðið fundi vikulega til að fylgjast með framvindu mála og geti brugðist hratt við þeim aðstæðum sem geta komið upp vegna farsóttarinnar.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðs:
Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að boða til reglulegra óformlegra upplýsingafunda með þeim kjörnu fulltrúum sem sæti eiga í skóla- og frístundaráði á meðan neyðarstig almannavarna stendur yfir. Fundirnir skulu haldnir í fjarfundabúnaði og á þeim skal fara yfir viðbúnað skóla- og frístundasviðs vegna COVID-19 faraldursins, svara spurningum og ræða um næstu skref, helstu álitamál og viðfangsefni. Upplýsingafundina skal halda í þeirri viku þar sem ekki er reglulegur fundur skóla- og frístundaráðs.
Samþykkt. SFS2020100186
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Virkt og náið samtal stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa er lykilatriði á tímum sem þessum þegar við erum á neyðarstigi almannavarna vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Þess vegna sameinast skóla- og frístundaráð um að efna til reglulegra upplýsingafunda sviðsstjóra með kjörnum fulltrúum þar sem farið er yfir stöðu, álitamál og ákvarðanatöku í tengslum við skóla- og frístundastarf á tímum COVID-19.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. október 2020, um viðurkenningar fyrir meistaraverkefni í kennslu- og tómstundafræðum.
Lagt er til að eftirtaldir aðilar hljóti viðurkenningar fyrir meistaraverkefni árið 2020:
1) Helga Þórdís Guðmundsdóttir fyrir verkefnið Hljómleikur.
2) Ingunn Elísabet Hreinsdóttir fyrir verkefnið Skapandi dans – Mótun handbókar fyrir danskennara í grunnskólum.
3) Linda Rún Traustadóttir fyrir verkefnið Áskoranir í starfi leikskólastjóra - Dagarnir eru aldrei eins en alltaf uppfullir af einhverju!
4) Melkorka Kjartansdóttir fyrir verkefnið Velkomin til starfa í leikskóla - Stafrænt fræðsluefni fyrir leiðbeinendur við upphaf starfs.
5) Rakel Guðmundsdóttir fyrir verkefnið Undir Regnboganum – Fyrstu skref trans barns í nýju kynhlutverki innan grunnskólans.
6) Rut Ingvarsdóttir fyrir verkefnið Kraftaverkið ég – Námsefni í kynfræðslu fyrir yngsta stig grunnskóla
7) Steinunn E. Benediktsdóttir fyrir verkefnið Ferðalag nýliða í heimilisfræðikennslu – ÞroskasagaSamþykkt. SFS2020050003
Hulda Valdís Valdimarsdóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð þakkar kynningu á meistaraverkefnum í kennslu- og tómstundafræðum sem fá viðurkenningu að þessu sinni. Það er til mikils að vinna að fræðasamfélagið líti á Reykjavíkurborg sem vænlegan vettvang fræðastarfs og rannsókna, það er bæði lyftistöng fyrir fræðastarfið, og gefur borginni mikilvæg gögn sem geta hjálpað við ákvarðanatöku og forgangsröðun. Ráðið óskar þeim sem hljóta viðurkenningu innilega til hamingju og þakkar þeim fyrir sitt framlag.
Fylgigögn
-
Lagður fram samstarfs- og styrktarsamningur skóla- og frístundasviðs við Ríkisútvarpið ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. nóvember 2020 og reglum Reykjavíkurborgar um styrki.
- Kl. 14:53 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.
Tillagan er samþykkt og vísað til borgarráðs með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2020110032
Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur sæti á fundinum í fjarfundabúnaði undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Góðu heilli er meiri áhersla lögð á að láta raddir barna og ungmenna heyrast og taka mark á því sem þau hafa fram að færa í skólasamfélaginu. Áherslu nýrrar menntastefnu á sjálfseflingu og sköpun er liður í þessari þróun. Samstarfssamningur við Ríkisútvarpið um UngRÚV er skemmtilegt og þarft verkefni í þessum anda sem nú er endurnýjaður og tryggir ungmennum í Reykjavík m.a. tækifæri til að sækja sér fræðslu og starfsreynslu við fjölmiðlun og dagskrárgerð auk þess sem samningurinn stuðlar að auknum sýnileika reykvískra ungmenna í dagskrá RÚV. Markmið samstarfs RÚV og SFS er að unglingar í 8., 9. og 10. bekk í Reykjavík fái tækifæri til að þróa og taka þátt í verkefnum UngRÚV þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika og mismunandi hæfileika ungmenna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ánægjulegt er að RÚV sýni þessu verkefni áhuga og sinni fræðsluhlutverki sínu vel. Hins vegar hefði verið rétt að fara í verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 189. fundi skóla- og frístundaráðs, um aðgerðaáætlun um nám og kennslu ef skóla er lokað eða skólahald skert vegna kórónuveirusmits. SFS2020080233
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að nýju rekstrarleyfi fyrir leikskólann Krílasel ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. nóvember 2020.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020100064
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. nóvember 2020, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. október 2020 og samningi um framlag skóla- og frístundasviðs við sjálfstætt starfandi leikskólann Krílasel fyrir börn frá 6/9 mánaða til 36 mánaða, dags. 10. febrúar 2019:
Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. nóvember 2020, að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til leikskólans Krílasels verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að greiða framlag vegna 25 reykvískra barna í stað 20 nú frá 6/9 mánaða til 36 mánaða og að framlag vegna barnanna verði til samræmis við samninga við sjálfstætt rekna ungbarnaleikskóla. Breytingin taki gildi 1. desember 2020. Fyrirvari er gerður um að komið geti til breytinga vegna aldursviðmiðs í tengslum við breytingar á lögum um fæðingarorlof. Sviðstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að gera viðauka við núgildandi samning leikskólans Krílasels, dags. 10. febrúar 2019, vegna framlagsins.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs. SFS2020100064- Kl. 15:28 víkja Diljá Ámundadóttir Zoëga, Kristján Gunnarsson og Anna Metta Norðdahl af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvers vegna komu launahækkanir vegna síðustu kjarasamninga grunnskólakennara ekki til útborgunar um síðustu mánaðamót? Hvenær verða þær greiddar út?
SFS2020110056
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi ástandsins vegna Covid-19 má búast við aukinni þörf fyrir kennara og starfsfólk til afleysinga og aðstoðar í skólum borgarinnar. Ein af þeim leiðum til að tryggja nægjanlega mönnun í skólunum gæti verið að koma á fót bakvarðasveit. Því er lagt til að komið verði upp bakvarðasveit kennara, leikskólakennara, tómstundafræðinga og almennra starfsmanna sem grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili geta leitað til ef á þarf að halda vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrirmynd slíkrar bakvarðarsveitar er sótt til velferðarsviðs og heilbrigðisstofnana í landinu. Til að tryggja að hægt verði að halda sem mest óskertu skólastarfi ef forföll verða vegna faraldursins og til að mæta þörfum skólanna vegna sóttvarnaraðgerða er mikilvægt að bakvarðasveit sé til staðar. Hvetja má alla kennaranema, kennaramenntaða einstaklinga sem hafa sinnt öðrum störfum en kennslu, þá sem eru án atvinnu og eins þá sem komnir eru á eftirlaunaaldur til að skrá sig í bakvarðasveitina til að sinna tímabundið afleysingum, hvort heldur er í fullu starfi, hlutastarfi eða tímavinnu eða eftir aðstæðum hverju sinni. Þá má hvetja fólk sem hefur reynslu af öðrum störfum sem tengjast skólastarfinu jafnframt til að skrá sig í bakvarðasveitina. Mikil þekking og reynsla felst í þessum mannauði sem gæti nýst vel á þessum erfiðu tímum. Samstaða og skilningur á þessum breytilegu tímum skiptir öllu máli og leita verður allra lausna til að halda skólastarfi gangandi og óskertu með hagsmuni og velferð nemenda að leiðarljósi.Frestað. SFS2020110057
PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_1011.pdf