Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 194

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 27. október, var haldinn 194. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði og hófst kl. 12.33.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Kolbrún Baldursdóttir (F), Marta Guðjónsdóttir (D) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Anna Garðarsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Lesskimun 2019. Jafnframt fer fram umræða um læsi grunnskólabarna í Reykjavík. SFS2020100143 

    Dröfn Rafnsdóttir, Þóra Sæunn Úlfsdóttir, Sigrún Jónína Baldursdóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12:40 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Læsi er forgangsmál í menntastefnu Reykjavíkurborgar og því skal haldið til haga að reykvískir nemendur hafa staðið sig vel í innlendum samanburði og sýndu framfarir í öllum þremur greinum PISA í síðustu mælingu 2018. Eins og rætt var á 184. fundi skóla- og frístundaráðs 26. maí, þá er lesskimunarpróf sem hér er til umræðu orðið 20 ára gamalt og byggt á norsku prófi sem hefur ekki verið uppfært, auk þess sem lesskimun af þessu tagi er ekki upphaflegur tilgangur þess. Prófið þykir úrelt sem mælitæki sem var forsenda þess að skóla- og frístundaráð ákvað í vor að leggja það af en taka upp nýtt próf sem Menntamálastofnun hefur látið hanna. Það próf verður lagt fyrir nemendur í 2. bekk næsta vor, en rétt mat á stöðunni er nauðsynlegt til þess að ákvarðanataka og viðbrögð geti verið rétt. Varðandi úrbætur þá þarf að auka enn frekar áherslu á íslenskukennslu fyrir börn af erlendum uppruna, efla lesskilning, auka áhuga barna og ungmenna á bóklestri með fjölbreyttu lesefni, styrkja samstarfið við heimilin varðandi lesþjálfun og auka áherslu á gagnreyndar lestrarkennsluaðferðir sem skilað hafa börnum árangri.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Niðurstaða lesskimunar vorið 2019 sýnir alvarlega stöðu hvað varðar lestrargetu barna í 2. bekk og að mikið vantar upp á að nemendur í 2. bekk geti lesið sér til gagns en hlutfallið er það næstlægsta í sögu skimunarinnar. Þeir nemendur sem teljast geta lesið sér til gangs þurfa að ná 65% árangri í prófinu en ekki nema 61% nemenda náði því viðmiði. Bregðast þarf strax við vanda þeirra 530 eða rúmlega 39% nemenda af 1350 nemendum 2. bekkjar sem ekki geta lesið sér til gagns. Þessar mælingar verður að taka alvarlega og bregðast miklu fyrr við því lestrargeta hefur áhrif á námsframvindu barna. Greina þarf vandann strax við upphaf skólagöngunnar og skima reglulega til að ná til þeirra barna sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Það er afar mikilvægt því snemmtæk íhlutun getur komið í veg fyrir lestrarerfiðleika og fjárfreka sérkennslu seinna á skólagöngunni. Það þarf að blása til sóknar með öflugu samstilltu átaki til úrbóta til að ná árangri. Þetta er sérstaklega áríðandi í ljósi þess að vandinn fer stöðugt vaxandi, en lesskilningi barna hrakar á hverju ári.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lesskimun sýnir að árið 2019 er marktækt síðra en síðasta ár. Tæp 61% nemenda les sér til gagns en rúm 39% geta það ekki. Árið 2018 gátu 65% stúlkna lesið sér til gagns og 64% drengja og munar um 4 prósentustigum milli ára. Hlutfallið 2019 er það næstlægsta í sögu skimunar. Fram kemur að allir skólar noti hljóðaaðferðina. Aðrar aðferðir eru notaðar með í bland og allar sagðar gagnreyndar. Það er fullyrt af sumum fræðingum að Byrjendalæsi sem slík eigi sér ekki stoð í ritrýndum rannsóknum. Stutt er í næstu PISA könnun. Bregðast verður við versnandi árangri barna í lestri. Á vakt þessa og síðasta meirihluta hefur ekki tekist að greina nákvæmlega þessa þróun. Um 2-4% barna eiga í vandamálum með lestur út frá lífeðlisfræðilegum ástæðum. Um 20-30% af börnum fá ekki hjálp heima og verða því að fá hjálp í skólanum. Styðja þarf skólana og styrkja til að sinna þessu hlutverki í meiri mæli. Ekki er hægt að sætta sig við neitt minna en að 80-90% barna séu læs eftir 2 ár í skóla. Í sérkennslumálin vantar heildstæða stefnu og betri yfirsýn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að Innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum.

    Fylgigögn

  2. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Skóla- og frístundaráð leggur til að haldin verði Barnabókamessa í fjórða sinn í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Félag íslenskra bókaútgefenda í þeim tilgangi að auka áhuga barna og ungmenna á lestri bóka. Á messunni verður lögð áhersla á að kynna nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur fyrir fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla borgarinnar og þeim tryggt viðbótarfjármagn til að kaupa nýjar bækur að eigin vali á messunni fyrir bókasöfn starfsstöðva sinna á sérstöku kynningarverði. Lagt er til að sérstök fjárveiting til grunnskóla og leikskóla vegna Barnabókamessunnar verði alls 9 milljónir, sem rúmast innan fjárheimilda skóla- og frístundasviðs. 

    Greinargerð fylgir. 
    Samþykkt. SFS2019080088

    Bryndís Loftsdóttir og Margrét Björnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Barnabókamessan er samstarfsverkefni skóla- og frístundaráðs, Félags íslenskra bókaútgefenda og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO sem hefur þann tilgang að auka áhuga barna og ungmenna á lestri íslenskra barna- og unglingabóka. Messan verður haldin í fjórða sinn í nóvember en hún hefur haft verulega þýðingu og skilað sér í stórbættum bókakosti bæði leikskóla og grunnskóla. Bókakaup þessara aðila hafa nærri tvöfaldast frá árinu 2018 sem skilar sér í mun betra úrvali fyrir börnin af nýjum íslenskum titlum í bókasöfnum skólanna. Þá gefa tölur um útlán sömuleiðis til kynna að aðdráttarafl bókasafnanna hafi aukist verulega á undanförnum árum. Lestur bóka er ekki lengur sjálfsagt mál fyrir æsku þessa lands á tímum samfélagsmiðla og tölvuleikja og því er mikilvægt að vera vakandi fyrir nýjum leiðum eins og þessum til að örva bóklestur ungu kynslóðarinnar. Í ljósi aðstæðna verður gripið til sérstakra aðgerða á sviði sóttvarna til að tryggja að hægt sé að fylgja öllum tilmælum á því sviði og þær aðstæður metnar þegar nær dregur með tilliti til þess hvernig staða faraldursins þróast.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 13. október 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2020: 

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að óskað verði eftir því með formlegum hætti að formaður ráðsins taki sæti í Neyðarstjórn borgarinnar f.h. ráðsins.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. SFS2020080229

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er rétt að starfsemi skóla- og frístundasviðs varðar sérstaklega störf neyðarstjórnar um þessar mundir og góðra gjalda vert að vilja hafa öfluga upplýsingagjöf á milli skóla- og frístundaráðs og neyðarstjórnar, sérstaklega þar sem viðkemur smitvörnum í skólum. Þó ber að halda því til haga að neyðarstjórn er ekki pólitískur vettvangur, heldur er henni ætlað að vera framkvæmdaaðili sem getur brugðist hratt við þegar hættulegt ástand myndast. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs er nú þegar í neyðarstjórn og hefur staðið sig vel í upplýsingagjöf til og frá ráðinu og njóta hann og neyðarstjórn borgarinnar fulls trausts fulltrúa meirihlutans í skóla- og frístundaráði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í ljósi þeirrar umfangsmiklu starfsemi og þess mikla fjölda nemenda og starfsmanna sem heyra undir sviðið hefði verið eðlilegt og nauðsynlegt að kjörinn fulltrúi skóla- og frístundaráðs ætti sæti í Neyðarstjórninni til að fylgjast með framvindu mála, til að koma á framfæri ábendingum og geta brugðist hratt og örugglega við aðstæðum sem kunna að koma upp. Enda segir í samþykkt fyrir ráðið: Skóla- og frístundaráð tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs á verksviði sínu. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun borgarinnar í mennta- og frístundamálum sé fylgt og fylgist með gæðum skólastarfs og annars starfs á verksviði þess. Þá fer ráðið með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður. Þá hefur skóla- og frístundaráð ennfremur með höndum eftirfarandi: Fylgist með framkvæmd náms og kennslu í Reykjavík og gerir tillögur til skólastjóra og/eða borgarráðs um umbætur í skólastarfi. Staðfestir starfsáætlanir leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva ár hvert og skólanámskrá einstakra leik- og grunnskóla. Hvorki skóla- og frístundaráð né borgarráð hefur framselt heimildir sínar til Neyðarstjórnar. Þá berast skóla- og frístundaráði ekki fundargerðir Neyðarstjórnir sem snúa að skólamálum. Taka skal fram að Reykjavík er fjölskipað stjórnvald og umgangast verður allar valdheimildir með það í huga. Í ljósi ofangreinds verður það teljast ansi veikburða ákvörðun meirihluta ráðsins að falast ekki eftir því að kjörinn fulltrúi eigi sæti í Neyðarstjórninni.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs á fundi borgarráðs 27. ágúst 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. október 2020: 

    Á hverju hausti er sami vandinn uppi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður. Enn er óráðið í 76 grunnstöðugildi í 63 leikskólum borgarinnar og um fjörutíu stöðugildi í 36 grunnskólum. Flokkur fólksins leggur til að skólayfirvöld breyti um aðferðarfræði þegar kemur að ráðningu kennara. Byrja á mikið fyrr að auglýsa og kynna laus stöðugildi. Sú vinna á að fara fram að vori. Reynslan hefur sýnt að breyta þarf um taktík þar sem sami vandinn er á hverju ári. Hér er spurning um að læra af reynslu. Ef eitthvað virkar ekki þá þarf að endurskoða aðferðarfræðina og gera á henni breytingar. Það er ekki nóg að vona og vona. Nú blasir við sú staða að ekki er hægt að ráða inn í tiltekna leikskóla, getur það hægt á innritun í þá skóla. Erfiðleikar við að fá fólk í þessi störf eru ákveðnar upplýsingar um störfin og líðan fólks í þeim. Meira að segja nú þegar atvinnuástandið er slæmt er erfitt að fá fólk til starfa í skólana. Skoða þyrfti hvað það er við þessi störf annað en álag og lág laun sem hefur svo mikinn fælingarmátt. Ekki er ósennilegt að mygluvandi í skólum sé hluti af vandamálinu. 

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. 

    SFS2020080317

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vinna við nýráðningar starfsfólks hefur verið forgangsverkefni skóla- og frístundasviðs undanfarin ár og hefur verið beitt fjölmörgum leiðum til að kynna þau mikilvægu og spennandi störf sem unnin eru í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Frá árinu 2017 hefur á hverju ári verið farið í öflugt kynningarátak í fjölmiðlum, markpósti og samfélagsmiðlum með sérhönnuðu auglýsingaefni til að manna störfin og hvetja ungt fólk til þess að velja uppeldisstarf sem framtíðarstarfsvettvang. Þá hefur Reykjavíkurborg sett á laggirnar sérstaka afleysingastofu til þess að hjálpa til við mönnun starfa. Þá hafa fjölmargar aðrar leiðir verið nýttar til þess að kynna störfin eins og á Framadögum í HR, háskólanemum boðið í vísindaferðir til skóla- og frístundasviðs og viðurkenningar fyrir meistaraverkefni sem unnin eru á vettvangi sviðsins, allt með það að markmiði að laða starfsfólk til starfsstaða skóla- og frístundasviðs. Síðast en ekki síst hefur mikil vinna og fjármagn verið sett í að bæta starfsumhverfi starfsfólks, launakjör og aðstöðu. Þessi vinna hefst á vorin og stendur fram á haust ár hvert og nú hefur tekist að manna 98-99% lausra stöðugilda, sem er betri staða en undanfarin ár.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins um að skoða breytta og þá fjölbreyttari aðferðafræði við ráðningu kennara hefur verið vísað frá en hún er einmitt lögð fram til að hvetja skóla- og frístundasvið í samvinnu við skólanna til að hugsa málið upp á nýtt. Róðurinn er þyngstur í leikskólum og vandinn er til staðar á hverju hausti. Hvað er það sem er mögulega að fæla frá annað en lág laun og álag? Hugmyndin um afleysingastofu er mjög góð en ekki liggur fyrir hver árangur hennar er. Þrír hópar skoðuðu starfsumhverfi kennara og settu fram tillögur til úrbóta. Sumar eru komnar í framkvæmd aðrar ekki. Ekki liggur fyrir mælanlegur árangur af þeim aðgerðum enn. Nú er atvinnuleysi mikið og vaxandi svo gera má ráð fyrir að mannekluvandi ætti að vera úr sögunni. Ef það verður ekki raunin næsta haust þá má ætla að einhverjar aðrar skýringar séu þarna að baki, óþekktar eða í það minnsta sem ekki liggja ljósar fyrir. 

    -    kl. 15:00 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs á fundi borgarráðs 10. október 2019: 

    Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna leiðir til að draga úr matarsóun. Í ljós hefur komið í rannsóknum að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Ný rannsókn á vinsælustu og óvinsælustu fæðutegundum skólabarna í Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi og Noregi var kynnt á Menntakviku Háskóla Íslands í síðustu viku. Þá var matarsóun sérstaklega skoðuð en þar á Ísland langt í land. Daglega eru yfirfullir stampar af mat í skólunum sem börnin hafa fleygt. Þá er matur barnanna einsleitari hér. Samt vill meirihlutinn draga úr dýraafurðum. Það eru ekki ný tíðindi að börn vilja ekki mikið af grófmeti sem dæmi. Sé börnum skammtað mikið af mat sem þau vilja ekki fer hann í ruslið. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 2018 að borgin myndi beita sér m.a. fjárhagslega fyrir því að allir skólar í Reykjavík yrðu grænfánaskólar og hvernig stemma megi stigu við matarsóun. Mikilvægt er að börn skammti sér sjálf og vigti og skrái síðan það sem þau leifa. Það dregur úr matarsóun eins og rannsóknir hafa sýnt. Einnig þarf maturinn að vera fjölbreyttur.

    Greinargerð fylgir.

    -    kl. 15:12 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum. 

    Samþykkt að vísa tillögunni til stýrihóps um innleiðingu matarstefnu Reykjavíkurborgar. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Matarstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn árið 2018 og þar er að finna fjölmargar aðgerðir sem miða að því að auka gæði og úrval af hollum og næringarríkum mat í þjónustuneti borgarinnar við börn og fullorðna. Ein þessara aðgerða tengist aðgerðum til að draga úr matarsóun og tillaga Flokks fólksins er af sama meiði þar sem hún ávarpar mikilvægi þess að minnka matarsóun í leik- og grunnskólum. Nú er unnið að áætlun um innleiðingu matarstefnunnar og er einboðið að umrædd tillaga verði tekin til jákvæðrar skoðunar í þeim stýrihópi sem vinnur að innleiðingaráætluninni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan var um að skóla- og frístundaráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna fleiri leiðir til að draga úr matarsóun. Matarsóun er málaflokkur sem varðar okkur öll. Ef marka má kannanir er matarsóun meira vandamál hér en í nágrannalöndum. Það er vont til þess að vita. Hvað myndi maður sjá ef skoðað yrði í stampana eftir hádegismat í skólum? Er verið að mæla það sem er leift? Er verið að leyfa börnunum að taka þátt í að sporna við matarsóun sem spennandi verkefni? Hvar er Grænfánahugmyndafræðin stödd í skólum Reykjavíkur? Tillaga Flokks fólksins um að hvetja alla skóla til að vera Grænfánaskóla og styrkja þá til þess var felld í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins vil ítreka enn og aftur að það skiptir máli að börn skammti sér sjálf og vigti og skrái síðan það sem þau leifa. Einnig þarf maturinn að vera fjölbreyttur og af góðum gæðum. Það dregur úr matarsóun eins og rannsóknir hafa sýnt. Ekki gengur að bjóða börnum upp á það sem þau ekki vilja. Það fer bara lóðbeint í ruslið. Tillögunni er vísað í vinnuhóp og fagnar fulltrúi Flokks fólksins því.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

    -    Kl. 15:50 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

    -    Kl. 16:24 víkur Skúli Helgason af fundinum og Alexandra Briem tekur við stjórn fundarins. 

    -    Kl. 16.27 víkja af fundinum Ragnheiður Davíðsdóttir, Magnús Þór Jónsson, Anna Metta Norðdahl, Haraldur Sigurðsson, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jón Ingi Gíslason og Ragnheiður Stefánsdóttir.

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 24. september 2020, um læsi. SFS2020090364

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. um í hversu miklum mæli gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri og í hversu miklum mæli og hvaða aðgerðir eru í gangi til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi. Enda þótt ekki sé verið að miðstýra aðferðum er varla í boði að nota aðrar aðferðir en sannreyndar. Byrjendalæsi er ekki gagnreynd aðferð að sama skapi og hljóðaaðferðin enda svo sem ólíkar aðferðafræðilegar nálganir. Engu að síður nota sumir skólar Byrjendalæsi meira en hljóðaaðferðina sem aðal lestrarkennsluaðferð. Segir í svari að fjöldi skóla sem nota Byrjendalæsi sveiflast vegna þess „að stjórnendur senda ekki alltaf nýja kennara í þjálfun heldur treysta á að þeir sem fyrir eru taki að sér þjálfunina“. Þetta er nokkuð sérkennilegt. Enda þótt þetta sé ekki spurning um annað hvort eða þá er ekki hægt að horfa framhjá versnandi árangri barna í lestri. Enginn efast um að kennarar séu ekki að nýta þekkingu sína. Ábyrgðin er hjá borgaryfirvöldum og menntamálaráðherra. Rannsóknir sýna að börn innflytjenda eru að koma verr út á Íslandi en í nágrannalöndum sem er mikið áhyggjuefni. Kallað er eftir sérstöku og sértæku átaki fyrir þann hóp, börn sem eru fædd hér og einnig börnin sem koma stálpaðri til landsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Taka skal fram að eins og fram kom í kynningu á fundinum er byrjendalæsi safn af aðferðum, sem meðal annars inniheldur hljóðaaðferðina, og það er ekki réttur skilningur að þeir sem nota byrjendalæsi noti þá ekki hljóðaaðferð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir fundinum er mikill metnaður hjá sviðinu, og í skólum borgarinnar, bæði leik- og grunnskólum, að stunda öfluga lestrarkennslu þar sem gagnreyndum aðferðum er beitt. Þó er rétt að huga betur að kennslu í íslensku fyrir börn með annað fyrsta tungumál en íslensku, en samkvæmt nýjum rannsóknum er ekki endilega rétt að skipa börnum innflytjenda, fæddum á Íslandi, í hóp með þeim sem koma stálpuð til landsins. Eins ber að halda því til haga að samkvæmt mælingum á eldri börnum, sem hafa verið lengur í skólakerfinu og við höfum haft betra tækifæri til að kenna, er ljóst að árangur fer batnandi milli ára eins og niðurstöður síðustu PISA könnunar bera með sér.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 1. október 2020, um lestrarkennsluaðferðir í grunnskólum. SFS2020100032

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka góð svör, en það er ánægjulegt að sjá hve öflugar og gagnreyndar aðferðir eru í notkun við lestrarkennslu í skólum borgarinnar, en allir skólar nota hljóðaaðferðina, þó skólar noti aðrar aðferðir til viðbótar. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari kemur aftur fram að allur gangur er á hvaða lestrarkennsluaðferðir eru notaðar. Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar sjálfstæði skólanna í þessum efnum en pólitíkin þarf að hafa yfirsýn og hennar er ábyrgðin. Vinnubrögð eru markviss og sama þarf að gilda um notkun aðferða, hún þarf einnig að vera markviss. Hin svokallaða hljóðaaðferð er best rannsökuð af lestrarkennsluaðferðum og er sögð notuð í öllum skólum kannski í mismiklum mæli. Börn með lesblindu eru oft sterk í sjónrænni úrvinnslu og læra því betur með sjónrænum kennsluaðferðum. Hvað sem öllu líður er árangur barna í lestri versnandi. Hvað nákvæmlega veldur því er ekki vitað. Vitað er að heilmikil áhersla er á hraðamælingar í lestri. Hraðamælingar í lestri koma illa við sum börn sér í lagi þau sem eru hæglæs eða með lesblindu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur velt upp þeirri spurningu hvort áherslan á leshraða hefur verið á kostnað lesskilnings. Áherslan hlýtur að þurfa vera á lesskilning númer eitt um leið og lestrartækninni er náð. Þessi mál væru ekki í umræðunni nema vegna þess að íslensk börn eru að koma ítrekað illa út úr PISA. Þetta er dapurt því á Íslandi státum við af stórkostlegu kennaraliði auk þess sem við eigum gagnreynt kennsluefni.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 1. október 2020, um mæliaðferðir til að meta lesskilning barna. SFS2020100031

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda? 
    Í svari kemur fram að áhersla á fjölbreyttar lesskilningsaðferðir hafa aukist og er það mjög jákvætt. En til að vita hvort við erum á réttri leið í þessum málum þarf að mæla árangur. Markmiðið hlýtur að vera að 80-90% af börnum séu fulllæs eftir 2 bekk. Þegar talað er um mælingar má ætla að mæla eigi í 1.-2. bekk stöðu barna í bókstafa-hljóðaprófi, kanna hvort börnin hafi brotið lestrarkóðann. Síðan eru það mælingar með lesskilningsprófum fyrir þá sem hafa brotið lestrarkóðann. Þetta er sennilega allt í gangi í flestum skólum. Þegar talað er um aðferðir við mælingar, innan skóla og milli skóla þá hlýtur að vera spurt um samanburðarhæfi þ.m.t. aðferðafræðilega séð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sumt óljóst sem Menntamálastofnun gerir. Flokkur fólksins spurði um mælingar sem hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda. Í því sambandi má spyrja hvort ekki hafi staðið til að þýða fleiri lesskilningspróf hjá Menntamálastofnun? En gott er að vita að nóg er af námskeiðum um lestrarkennslu á vegum Miðju máls og læsis. Vonandi skilar þetta sér síðan í betri niðurstöðum í næstu PISA könnun.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það skal tekið fram að samkvæmt PISA fer árangur barna í Reykjavík batnandi í öllum greinum milli 2015 og 2018.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að ræða um árangur barna í lestri og lesskilningi en ekki í öðrum fögum/greinum. Ekki er hægt að líta framhjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestri og eru slakari í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. Staða barna í lestri og lesskilningi fer versnandi eins og sjá má af síðustu niðurstöðum PISA könnunar og Lesskimun síðustu ára. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Ef litið er lengra til baka þá hefur frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum PISA ekki breyst marktækt frá könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þriðji hver drengur og fimmta hver stúlka mælast ekki vera með grunnhæfni í lesskilningi. Áleitnar spurningar hafa þess vegna vaknað um hvort læsisstefna stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga og metnaðarfullar áætlanir séu byggðar á réttum forsendum og áherslum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tekið skal fram að eins og fram kemur á fundinum er mikill metnaður lagður í mælingar á lesskilningi nemenda, en eins og fram kom á 184. fundi skóla og frístundaráðs sem fram fór í vor, þá er í undirbúningi nýtt lesskilningspróf sem hentar betur nútímaaðstæðum íslenskra barna.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. október 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 167. fundi skóla- og frístundaráðs, um fjármagn til skóla- og frístundasviðs sl. 5 ár. SFS2019080134 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að því sé haldið til haga að fjármagn sem fer til skóla- og frístundamála í Reykjavík hefur aukist um 4,6-4,7 milljarða árlega síðan 2018, sem er umfram hækkun vísitölu. Þó ber að halda því til haga að teknar hafa verið í notkun nýjar skólabyggingar sem hafa áhrif á slíka útreikninga. Skóla- og frístundasvið er lang umfangsmesta svið borgarinnar og menntamál eru forgangsmál, þess vegna er alltaf mikilvægt að fylgjast vel með því hvernig fjármagn er nýtt á sviðinu, hvar megi gera betur og hvar vanti upp á.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. október 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs, um fjölda nemenda í skólahljómsveitum og biðlista. SFS2019100057

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er af þeim fjölda barna eða 96 sem eru á biðlista að mikill áhugi er á því að komast í skólahljómsveit. Skólahljómsveitirnar hafa ekki nema 130 nemenda kvóta og fjármagn til þeirra miðast við þann fjölda. Mikilvægt er miðað við áhuga barna í borginni á að taka þátt í tónlistarstarfi og komast að í skólahljómsveit að endurskoða þarf kvótann og fjárveitingu til skólahljómsveita.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ný stefna um framtíð tónlistarkennslu í Reykjavík er núna á lokastigum og mun ávarpa málefni skólahljómsveita og tónlistarskóla.

    Fylgigögn

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort þurft hefur að loka á áskriftir að skólamáltíðum veturinn 2019-2020 vegna ógreiddra reikninga? Ef svo er hvað eru þær margar? Einnig er spurt hve margar fjölskyldur hafa ekki getað greitt reikninga vegna áskrifta að skólamáltíðum á þessum tíma og hve margar að þeim fjölskyldum eru komnar með reikninga í vanskil eða eru á leið með þá í vanskil? Hve margar fjölskyldur hafa sótt um sérstakan styrk hjá Reykjavíkurborg til að greiða reikninga fyrir skólamáltíðir barna sinna? Hve margar fjölskyldur hafa fengið slíkan styrk í vetur? Hvað eru margir nemendur í áskrift að skólamáltíðum í Reykjavík?

    SFS2020100184

    -    Kl. 16.44 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.

    -    Kl. 16.50 víkja Diljá Ámundadóttir Zoëga og Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Afleysingastofa er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem einstaklingum gefst tækifæri til þess að skilgreina sjálfir sinn vinnutíma og vinna á þeim tíma sem þeir óska eftir. Í fyrsta fasa verkefnisins var um störf á leikskólum Reykjavíkurborgar að ræða en nú hefur fleiri starfsstöðum verið bætt við á skóla- og frístundasviði og á velferðarsviði. Afleysingastofa er nýjung hjá Reykjavíkurborg en byggir á erlendri fyrirmynd og er fyrirkomulagið til dæmis þekkt í Skandinavíu. Hver hefur árangur verið af þessu verkefni þegar kemur að mönnun starfa í skóla- og frístundastarfi? Hve margir hafa verið ráðnir til starfa í gegnum Afleysingastofuna?

    SFS2020100185

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka tillögu sína frá 25. ágúst sl. Lagt er til að kostnaðarmat verði fengið vegna kaupa á hugbúnaði og vélbúnaði handa öllum kennurum sem starfa hjá Reykjavíkurborg og ekki hafa viðeigandi hugbúnað og vélbúnað til þess að sinna starfi sínu utan skólanna. 

    Frestað. SFS2020080230

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð fundi vikulega meðan neyðarstig ríkir vegna Kórónuveirufaraldursins. Mikilvægt er að ráðið fylgist vel með stöðu mála hvað varðar skólana og allar þær starfsstöðvar sem undir ráðið heyra. Skóla- og frístundaráð ber ábyrgð á rekstri og skólastarfi í borginni og undir ráðið heyra samtals 27.560 einstaklingar eða 6.200 börn í leikskólum, 500 börn sem dvelja hjá dagforeldrum, 15.100 nemendur í grunnskólum, 250 manns sem stunda nám hjá Námsflokkum Reykjavíkur og 5.510 starfsmenn sem heyra undir sviðið. Með þessa umfangsmiklu starfsemi í huga er nauðsynlegt að ráðið fundi vikulega til að fylgjast með framvindu mála og geta brugðist hratt við þeim aðstæðum sem geta komið upp vegna farsóttarinnar. 

    Frestað. SFS2020100186

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir að lagðar verði fram allar fundargerðir Neyðarstjórnar sem snúa að skólamálum á næsta reglulega fundi ráðsins.

    SFS2020100187

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að fá stöðu biðlista eftir leikskólaplássi. Óskað er eftir sundurliðun eftir hverfum og ennfremur eftir aldri. Sérstaklega er óskað eftir að fá upplýsingar um hversu mörg börn 12 mánaða og eldri eru á biðlista og sömuleiðis hversu mörg börn 18 mánaða og eldri eru á biðlista. Óskað er eftir að þessar upplýsingar verði lagðar fram á næsta reglulega fundi ráðsins.

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um hvort öllum þeim börnum sem lofað var aðlögun í leikskóla í haust hafi getað hafið hana.

    SFS2019090106

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga um hversu oft skóla- og frístundasvið hefur nýtt sér aðstöðu til funda í Kjarvalsstofu og af hvaða tilefni. Óskað er sundurliðaðs lista yfir tilefni, hverjir sátu fundina og hver var kostnaður hvers fundar. Þá er jafnframt óskað eftir því að kvittanir fylgi með fyrir hvern viðburð. Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um kostnað við aðgangaskort að Kjarvalsstofu og hver sé handhafi þess.

    SFS2020100188

Fundi slitið klukkan 17:09

Alexandra Briem Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2710.pdf