No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Ár 2020, 13. október, var haldinn 193. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði og hófst kl. 12.32. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Geir Finnsson (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Stefán Geir Hermannsson, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Anna Garðarsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að hefja undirbúning að stofnun framtíðarhóps í menntamálum Reykjavíkurborgar sem leggi grunn að nýrri aðgerðaáætlun menntastefnu fyrir tímabilið 2022-2024 og taki til umfjöllunar í því sambandi helstu sóknarfæri, álitamál og umbótaverkefni í skóla- og frístundastarfi borgarinnar til náinnar framtíðar. Framtíðarhópurinn verði skipaður fulltrúum skóla- og frístundasviðs og helstu aðila í skólasamfélaginu s.s. barna og unglinga, foreldra, kennara og annars starfsfólks, stjórnenda, fræðasamfélagsins, aðila vinnumarkaðarins og kjörinna fulltrúa allra flokka í skóla- og frístundaráði. Eitt af verkefnum framtíðarhóps verði að leggja mat á framgang innleiðingar menntastefnu Reykjavíkurborgar og áforma næstu skref. Hópnum er ætlað að tryggja að áherslur innleiðingar og aðgerðaráætlun verði samofin „Græna planinu“ sem nú er í mótun fyrir Reykjavíkurborg sem og þeirri gerjun sem átt hefur sér stað í menntamálum jafnt hérlendis sem erlendis á liðnum misserum. Sviðsstjóri leggi fram tillögu um skipan fulltrúa í framtíðarhóp og drög að erindisbréfi með tímasetningum eigi síðar en 10. nóvember 2020. Starfshópurinn skili niðurstöðum vinnu sinnar eigi síðar en í nóvember 2021.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. SFS2020100054
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Menntastefna Reykjavíkurborgar er flaggskip borgarinnar í málaflokknum og hefur innleiðingin verið farsæl enda byggir stefnan á þéttri samvinnu þúsunda aðila í skólasamfélaginu í borginni. Nú er liðið á seinni hluta fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar og er tímabært að leggja grunn að nýrri aðgerðaáætlun stefnunnar fyrir tímabilið 2022-2024. Það verður verkefni nýs framtíðarhóps í menntamálum með aðkomu allra helstu aðila í skólasamfélaginu s.s. barna og unglinga, foreldra, kennara og annars starfsfólks, stjórnenda, fræðasamfélagsins, aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa skóla- og frístundasviðs og kjörinna fulltrúa allra flokka í skóla- og frístundaráði. Framtíðarhópurinn mun jafnframt leggja mat á innleiðingu menntastefnunnar og ræða helstu sóknarfæri, álitamál og mögulegar umbætur í skóla og frístundastarfi borgarinnar til næstu framtíðar. Við munum leggja áherslu á að vinnan verði í góðu samræmi við Græna planið og taki mið af þeirri gerjun sem stendur yfir í menntamálum hérlendis og erlendis þar sem innleiðing stafrænnar tækni, fjarnám og nýir kennsluhættir eru ofarlega á baugi.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. ágúst 2020:
Lagt er til að búinn verði til skýr verklagsferill komi upp kórónuveirusmit innan grunnskóla, leikskóla, frístundaheimila og frístundamiðstöðva borgarinnar. Verklagsferillinn taki mið af því að komi upp kórónuveirusmit á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs verði skóla- og frístundaráð upplýst hið fyrsta og haft með í ráðum varðandi ákvarðanir í tengslum við aðgerðir sem teknar verða þá í samráði við sóttvarnarlækni og yfirmenn þeirra starfstöðva þar sem smit kemur upp. Þá verði starfsmenn og foreldrar upplýstir strax. Sviðsstjóra verði falið að framfylgja ákvörðunum ráðsins, eins og fram kemur í 6. gr. samþykktar fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020080229
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í umsögn Neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar er til staðar skýr ferill þegar upp kemur smit í leik-, grunn- og tónlistarskóla, frístundastarfi og hjá dagforeldrum í borginni. Einnig er við lýði regluleg upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa í skóla- og frístundaráði. Tillögunni er því vísað frá.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fundurinn í dag sýndi fram á að full þörf er á að skýra verkferla og efla gagnvirkt samráð. Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar sem bera ábyrgð á skólastarfi í borginni fylgist vel með og geti komið ábendingum og athugasemdum á framfæri.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. október 2020, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 8. október 2020. SFS2020050139
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikið fagnaðarefni að sjá hve vel hefur gengið að manna störf í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, en á öllum vígstöðvum gengur betur að ná fullri mönnun en á fyrri árum, það er þrátt fyrir að börnum og deildum fjölgi og þörfin fyrir starfsfólk vaxi ár frá ári. Þó svo sennilegt sé að vinnumarkaðsaðstæður geti haft þarna áhrif er þó ljóst að aðgerðir sviðsins til að laða fólk til starfa síðustu ár eru einnig að hafa áhrif og er þróunin síðustu tvö árin til marks um það. Í leikskólum er búið að ráða í 98,4% stöðugilda miðað við 97,8% 2018 og í grunnskólum 99,5% miðað við 99% 2018 og er það fagnaðarefni. Þó ber sérstaklega að fagna þeim árangri að í frístund og félagsmiðstöðvum hefur verið ráðið í 98,1% stöðugilda, en á sama tíma 2018 var einungis búið að ráða í 89% stöðugilda. Þar hefur greinilega verið lyft grettistaki og því ber að hrósa.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er ánægjuefni að sjá hversu vel gengur að ráða í stöður í skólaumhverfi borgarinnar. Sú staða er þeim mun mikilvægari í ljósi þess hversu mikið álag er og hefur verið í skólum við þær aðstæður sem skapast hafa í tengslum við Covid 19. Ástæða er til að þakka fyrir það öfluga starf sem unnið er á öllum starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs á þessum erfiðu og krefjandi tímum.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2020, um fjölda kennara með leyfisbréf og fjöldi leiðbeinenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar haustið 2020. SFS2019110123
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þess ber að geta að síðasta árið hefur M.ed nám farið að miklu leyti fram á vettvangi við kennslu og þarf ekki að sækja um undanþágu vegna slíkra kennsluréttindanema á lokaári og það gæti haft áhrif á heildar tölfræðina, en í ár eru 67 manns með kennsluréttindi sem slíkir nemar í grunnskólum Reykjavíkur og 33 aðrir á undanþágu, samtals 100, en árið 2019 voru undanþágur 127 og árið 2020 voru þær 103, svo ljóst er að þróunin er á réttri braut. Það er sérstaklega mikilvægt að hlutfall menntaðra kennara sé sem hæst, enda er það forsenda faglegs skólastarfs, og því ánægjulegt að sjá þessa þróun.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík á tímum Covid-19. SFS2020010206
Jón Viðar Matthíasson, Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Það hefur verið gæfuspor fyrir samfélagið að tekist hefur að halda úti reglulegu skóla- og frístundastarfi þrátt fyrir það mikla álag og skakkaföll sem fylgt hafa COVID-19 faraldrinum. Stefna sóttvarnaryfirvalda og almannavarna hefur verið mjög skýr með að það sé mikilvæg forsenda þess að samfélagið geti gengið sinn gang og allir hafa lagst á eitt við að styðja og framfylgja þeirri stefnu: Starfsfólk og stjórnendur skóla og frístundasviðs, börn og forráðamenn þeirra og kjörnir fulltrúar. Við munum áfram styðja þá stefnu af öllu afli og leggja okkur fram um að styðja þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að kveða niður faraldurinn. Skóla- og frístundaráð þakkar Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra fyrir mikilvæg innlegg þeirra á fundinum og frábær störf ásamt Ölmu Möller landlækni undanfarna mánuði.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka formanni ráðsins fyrir að bregðast skjótt við þeirri ósk okkar að fá sóttvarnalækni á fund ráðsins. Fundurinn sýndi fram á mikilvægi virks samráðs og gagnkvæmrar upplýsingagjafar. Mikilvægt er í framhaldinu meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur að slíkir fundir verði haldnir oftar.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Skólaárið 2020 – 2021 hefur frá upphafi markast af stöðu íslensks samfélags og baráttu þess við illskæða veiru. Til ólíkra aðgerða hefur þar verið gripið til undir stjórn sóttvarnalæknis og Almannavarna, þ.á.m. þær að hafa skólastarf grunnskóla eins eðlilegt og mögulegt er. Af þessum sökum hefur starfsfólk grunnskólans búið við aðrar aðstæður í sóttvörnum en almennt gerist og hefur borið á kvíða og vanlíðan í þeirra hópi. Mikilvægt er að hugað verði að starfsfólki við þessar aðstæður á raunsæjan hátt, það verður að finna fyrir jákvæðum stuðningi í önnum dagsins auk þess að fá upplýsingar um stöðu mála inni á sínum vinnustöðum. Verkefni grunnskólanna í þessum aðstæðum er stórt og enn er allsendis óvíst um framtíðina. Mikilvægi hreinskiptinnar, jákvæðrar og öflugrar mannauðsstjórnar er algert um leið og allar aðgerðir verða að miðast við að hraða því ferli að samfélagssmit náist niður og að neyðarstigi sé aflétt.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 mkr. janúar-júní 2020. SFS2020090244
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs janúar-júní 2020, dags. 21. september 2020. SFS2020090243
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 179. fundi skóla- og frístundaráðs, um afhendingu tölva í Seljaskóla. SFS2020020041
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 182. fundi skóla- og frístundaráðs, um nýtingu á húsnæði Kelduskóla og Vættaskóla. SFS2020040153
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs, um skertan opnunartíma leikskóla vegna Covid-19. SFS2020060061
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins frá 186. fundi skóla- og frístundaráðs, um kostnað foreldra af skemmdarverkum barna. SFS2020060261
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs, um fjölda nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2020. SFS2020060063
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs, um yfirlit yfir mál Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu. SFS2020080120
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs, um skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um húsnæði leikskólans Langholts. SFS2020080117
- Kl. 15:05 víkur Guðmundur G. Guðbjörnsson af fundinum.
- Kl. 15:10 víkur Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að óskað verði eftir því með formlegum hætti að formaður ráðsins taki sæti í Neyðarstjórn borgarinnar f.h. ráðsins.
Greinargerð fylgir.
Frestað. SFS2020080229Fylgigögn