Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 192

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 22. september, var haldinn 192. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33. Eftirtaldir voru komnir til fundar í Hofi á Höfðatorgi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Anna Garðarsdóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Guðrún Hjartardóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D), Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtalinn starfsmaður skóla- og frístundasviðs: Hanna Halldóra Leifsdóttir.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. september 2020, tölvubréf Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 27. ágúst 2020, samningi skóla- og frístundasviðs og Skóla Ísaks Jónssonar um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla, dags. 31. janúar 2019, viðauka við samning, dags. 12. júlí 2019, rekstrarleyfi fyrir 5 ára leikskóladeild í Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 15. maí 2013 og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. september 2020:

    Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. september 2020, að viðmið um hámarksfjölda reykvískra fimm ára barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Skóla Ísaks Jónssonar verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að greiða framlag vegna allt að 70 barna frá 1. október 2020 í stað 65 barna. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að gera viðauka við núgildandi samning skólans, dags. 31. janúar 2019 með gildistíma til 1. október 2021.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2019040036

    Fylgigögn

  2. Lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og meirihluta skóla- og frístundaráðs um drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla. 

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs gagnrýnir tillögur menntamálaráðuneytis um breytingar á viðmiðunarstundaskrá og þá sérstaklega þann mikla niðurskurð á vali nemenda á öllum stigum grunnskólans sem þeim fylgja. Í tillögunni er gengið svo langt í skerðingu á vali að spyrja má hvort í reynd sé verið að taka úr sambandi 26. grein grunnskólalaganna. Í lögunum segir að markmiðið með valinu sé að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa aukinn sveigjanleika í skólastarfi. Valstundir eiga því bæði að stuðla að því að skóli hafi sveigjanleika til að mæta staðbundnum og samfélagslegum aðstæðum og eins að nemendur hafi val um námsgreinar og viðfangsefni. Það er fagnaðarefni að ráðuneytið grípi til aðgerða til að styrkja stöðu íslensku og náttúruvísinda en mikilvægt er að greina nákvæmlega hvar skóinn kreppir í kennslu þessara greina svo úrbæturnar skili tilætluðum árangri. Í íslensku þarf að leggja megináherslu á að efla lesskilning, sem verið hefur veikleiki íslenskra nemenda. Það er skammgóður vermir að fjölga eingöngu kennslustundum án þess að hafa skýrar áætlanir um betra innihald eða áherslubreytingar í kennslu. Nauðsynlegt er að fjölga kennurum sem hafa kennslureynslu í náttúrufræði og bæta námsefni og aðstöðu til kennslu náttúrugreina.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að mennta- og menningarmálaráðuneytið sýni vilja sinn til að styrkja kennslu í íslensku og stærðfræði með tillögu um fjölgun kennslustunda í þessum námsgreinum. Mikilvægt er að gott samráð sé við skólasamfélagið og sveitarfélög við útfærslu tillögunnar um breytingar á viðmiðunarstundaskrá. Ljóst er að Ísland er með lægsta hlutfall tíma til kennslu móðurmáls í 1.-7. bekk grunnskóla og sömuleiðis í náttúrufræði í 8.-10. bekk samanborið við nágrannalönd okkar. Með það í huga og slakan árangur íslenskra nemenda í Pisa er mikilvægt að brugðist verði við með fjölgun kennslustunda í þessum greinum. Það hafa aðrar þjóðir gert með góðum árangri s.s. í Svíþjóð þar sem kennslustundum í móðurmáli var fjölgað í kjölfar lélegs árangurs í Pisa sem skilaði sér í bættum árangri þannig að sænsk ungmenni standa sig mun betur á Pisaprófunum en áður.

    SFS2020090060

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa kennara og skólastjóra í grunnskólum sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst 2020 ásamt umsögnum samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. september 2020 og samninganefndar Reykjavíkurborgar, dags. 21. ágúst 2020: 

    Skóla- og frístundaráð lýsir ánægju sinni með þann mikilvæga áfanga sem náðst hefur í kjarasamningsgerð við Félag Grunnskólakennara þann 10.07. 2020. Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara endurnýjuðu þá viðræðuáætlun milli aðila. Með viðræðuáætluninni fylgir eftirfarandi bókun sem aðilar vilja vekja sérstaka athygli á. Innleiðing bókunarinnar nú í skólabyrjun í skólum borgarinnar er afar mikilvæg. Á þessu hausti er skólastarf að hefjast við krefjandi aðstæður í skugga Covid-19 faraldurs og því mikilvægt að nýta þann sveigjanleika sem kjarasamningur aðila inniheldur til að halda uppi venjubundnu skóla- og frístundastarfi þar sem heilbrigði og öryggi barna og starfsmanna er í forgangi.

    Bókun með viðræðuáætlun 10. júlí 2020 um sveigjanlegt vinnuumhverfi fylgir tillögunni. 

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela „Samráðshóp um innleiðingu kjarasamnings SÍS og KÍ vegna KÍ í grunnskólum borgarinnar“ frá september 2018 það verkefni að fylgja eftir framkvæmd bókunarinnar í skólum Reykjavíkur.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í bókun samninganefnda Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara að mikilvægt sé að nýta sveigjanleika gildandi kjarasamninga til að halda uppi venjubundnu skóla- og frístundastarfi þar sem heilbrigði og öryggi barna og starfsmanna er í forgangi. Framkvæmd og innleiðing kjarasamninga er verkefni viðkomandi stjórnenda og skrifstofa borgarinnar. Í ljósi reynslunnar getur verið varhugavert að fagráðið hlutist til um verklag varðandi innleiðingu bókana í einstaka kjarasamningum. Þá er grundvallaratriði sem kemur fram í umsögn samninganefndar sveitarfélaga að það er alfarið hlutverk samstarfsnefndar Sambands sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara að túlka kjarasamninga þeirra á milli og það verkefni verður ekki framselt til annarra aðila. Á þessum forsendum er tillögunni vísað frá en samningsaðilum sendar góðar kveðjur og hvatning um að ná saman um kjarasamning, sem verður grunnskólastarfi í borginni til heilla.

    -    Kl. 13:20 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum. 

    -    Kl. 13:30 víkur Sigríður Arndís Jóhannsdóttir af fundi og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur þar sæti með fjarfundabúnaði. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Innleiðing bókunar um sveigjanlegt vinnuumhverfi í skólum borgarinnar er jákvætt skref í að efla sjálfstæði kennara og gera skólastarf sjálfstæðara og sveigjanlegra. Snjalltæknin hefur skipt sköpum í að gera fjarvinnu og fjarkennslu mögulega en tæknin hefur skapað aukna möguleika til að auka sveigjanleika í störfum kennara og skapað ný tækifæri í skipulagi skólastarfs. Dýrmæt reynsla hefur skapast á þessu sviði nú á tímum Covid-19 og því mikilvægt að halda áfram að þróa og bæta starfshætti með hjálp tækninnar til að efla og auka menntun og auka sveigjanleika í störfum kennara.

    SFS2020010206

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svo breytt tillaga skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla og frístundaráð tekur undir tillögu ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða og felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að vekja athygli Heilsugæslu höfuðborgar- svæðisins á stöðu skólahjúkrunar í Reykjavík. Vísbendingar eru um að fjölmargir skólar í Reykjavík uppfylli ekki viðmið um að 650 nemendur séu að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings en dæmi eru um að ríflega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Skóla- og frístundaráð hvetur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að nýta fyrirliggjandi gögn til að knýja á um úrbætur þar sem þörf er á að fjölga skólahjúkrunarfræðingum í borginni til að uppfylla viðmið um nemendafjölda.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. SFS2020090217

    Bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Á sameiginlegum fundi Borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna árið 2019 vöktu fulltrúar ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða athygli á stöðu skólaheilsugæslu í Reykjavík og lögðu fram tillögu að úrbótum. Í kjölfar tillögunnar var óskað eftir upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um stöðugildi hjúkrunarfræðinga í skólum borgarinnar, en í svari frá 26. mars 2019 kemur fram að í fjölmörgum skólum eru viðmið heilsugæslunnar ekki uppfyllt, en samkvæmt þeim skulu vera 650 nemendur að baki hverju fullu stöðugildi hjúkrunarfræðings. Dæmi eru um að ríflega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Það er mikið áhyggjuefni og hvetur skóla- og frístundaráð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að nýta þau gögn sem liggja fyrir til að knýja á um úrbætur þannig að fjölga megi skólahjúkrunarfræðingum svo að viðmiðum nemendafjölda að baki hverju stöðugildi séu uppfyllt. Það er ljóst að skólahjúkrunarfræðingar sinna mikilvægri þjónustu við nemendur í grunnskólum borgarinnar., en nauðsynlegt er að fara vel yfir verkaskiptingu á fræðslu og hjúkrun milli skólanna og heilsugæslunnar til að væntingar og hlutverk séu skýr. Ekki síður er mikilvægt að tryggja að fullnægjandi skólaheilsugæsla sé til staðar í öllum skólum borgarinnar og að jafnræði grunnskólabarna til þjónustu sé tryggt óháð búsetu innan borgarinnar.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 18. ágúst 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2020:

    Enn er ekki búið að ganga frá því hvernig skólaakstri verði háttað fyrir þau börn sem búa í Staðahverfi og þurfa að sækja skóla langan veg eftir að Korpuskóla var lokað. Þegar skólanum var lokað var því lofað að skólaakstur stæði til boða en nú þegar örfáir dagar eru í að skólar hefjist er enn ekki búið að ganga frá þeim málum. Mikilvægt er að foreldrar og nemendur séu upplýstir um hvort staðið verði við loforð um skólaakstur og hvernig honum verði háttað. Í ljósi þess er lagt til að loforð um skólaakstur verði efnd og að foreldrar verði upplýstir um þessi mál hið fyrsta.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þrem atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020080114

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skólaakstur hefur verið tryggður fyrir börn úr Staðahverfi í Engjaskóla og Víkurskóla á morgnana og síðdegis í tengslum við þær breytingar sem ráðið samþykkti á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi. Það er nauðsynleg þjónusta fyrir viðkomandi nemendur og hún nær einnig til frístundastarfsins þar sem boðið er upp á skólarútu síðdegis kl. 16.30 og 16.45 úr frístundaheimilinu Brosbæ í Staðarhverfi. Nemendur hafa val um það að nýta skólarútuna eða þiggja strætókort til frjálsra afnota. Foreldrar hafa verið upplýstir um þetta frá skólabyrjun og það er mat skrifstofu skóla- og frístundasviðs að fyrirheit um skólaakstur hafi verið uppfyllt.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 25. ágúst 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2020:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að skólaakstur verði fyrir börn úr Staðahverfi í Grafarvogi eftir að frístund líkur þar sem ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar úrbætur á umferðaröryggi.

    Samþykkt. SFS2020080114

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 8. september 2020:

    Skólastarf í Grafarvogi fór af stað með breyttum hætti nú í haust m.a. vegna lokunar Korpuskóla og sameininga við aðra skóla í hverfinu. Talsvert hefur verið um að íbúar hafi gert athugasemdir við þá ákvörðun og framkvæmd hennar. Með hliðsjón af því, er lagt til að skóla- og frístundaráð, ásamt hlutaðeigandi stjórnendum á skóla- og frístundasviði, haldi opinn fund með íbúum í hverfinu þar sem farið verði yfir þær breytingar, ásamt stöðu skólamála almennt í Grafarvogi. Einnig verði farið yfir öll þau áform sem kynnt voru í aðdraganda breytingarinnar sem varða skipulagsmál, samgöngumál og umferðaröryggismál í hverfinu. Fulltrúar viðeigandi sviða verði sömuleiðis viðstaddir fundinn og upplýsi um stöðu mála. Ástæða er til halda fundinn hið fyrsta til að nota það svigrúm sem opnast hefur núna með breyttum samkomutakmörkunum.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þrem atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Lagt er til að forsvarsmenn skóla- og frístundaráðs og skóla- og frístundasviðs kynni breytingarnar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi og stöðu framkvæmda við samgöngubætur á fundi með íbúaráði Grafarvogs sem opinn verði öllum íbúum hverfisins.

    Samþykkt. SFS2019020105

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú liggja fyrir áform um að forsvarsfólk skóla- og frístundasviðs, ásamt forsvarsfólki ráðsins, munu kynna breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi á íbúafundi Grafarvogs, en sá fundur er opinn öllum. Þeim markmiðum sem þessari tillögu er ætlað að ná er hægt að ná á þeim fundi og ekki að sjá að þörf sé á tveimur slíkum fundum á sama tímaramma. Eins er ljóst að nú er skólastarf í breyttri mynd í norðanverðum Grafarvogi komið í gang, og eðlilegt að næsta skref sé að leyfa því starfi að ganga og sjá hvernig reynslan af því verður.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er til marks um samráðsleysi meirihlutans við íbúa í norðanverðum Grafarvogi vegna breytts skólahalds að tillaga að samráðsfundi með foreldrum, sem lögð var fram 23. júní sl., skuli ekki vera tekin til afgreiðslu fyrr en þremur mánuðum eftir að hún var lögð fram og nokkrum vikum eftir að skólahald hófst.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 8. september 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. september 2020:

    Lagt er til að haldinn verði samráðsfundur með foreldrum í norðanverðum Grafarvogi eigi síðar en í byrjun ágúst, fyrir skólabyrjun, til að fara yfir þær breytingar sem breytt skólahald og stofnun nýsköpunarskóla mun hafa í för með sér.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þrem atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þessari tillögu er vísað frá í ljósi þess að samráð hefur verið mikið við foreldra og skólasamfélagið, bæði í gegnum innleiðingarteymin en einnig á vettvangi hvers skóla, en þeir taka eðlilega við samskiptahlutverki við sína foreldra- og nemendahópa eftir því sem þeir taka til starfa.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir svör varðandi skólahald í norðanverðum Grafarvogi. Það er augljóst miðað við þau svör sem eru lögð fram að undirbúningur fyrir stofnun skóla í norðanverðum Grafarvogi hefur ekki verið gefinn sá tími sem þurfti þar sem töluvert vantar upp á að skólarnir séu réttum tækjum búnir, iðnaðarmenn hafi lokið vinnu eða kennsla hafi geta hafist í valfögum á réttum tíma. Hinsvegar ber að fagna að samþykkt hafi verið að svara sterku ákalli frá foreldrum í norðanverðum Grafarvogi um að fá fund opinn fund vegna sameininga skóla í norðanverðum Grafarvogi allt frá því að tillagan var fyrst reifuð. Það er undarlegt að ekki hafi verið meira samráð við alla foreldra þrátt fyrir þessa sterku ósk. Það er gríðarlega mikilvægt þegar er farið í jafn stórar breytingar að allir foreldrar fái að koma að þeim með því að bjóða upp á opinn fund.

    SFS2019020105

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. febrúar 2020 og 10. mars 2020 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. mars 2020, um tillöguna:

    Víða er aðstaða í frístundamiðstöðvum og frístundaheimilum slæm sem kemur niður á faglegu starfi þannig að erfitt getur reynst að starfa í samræmi við stefnu í frístundamálum sem gerir auknar kröfur um aukið hlutverk þessara starfsstaða. Að auki er viðhaldi víða ábótavant. Lagt er til að gerð verði sérstök úttekt á aðstöðu frístundamiðstöðva og frístundaheimila og viðhaldsþörf þessara starfsstaða. Í framhaldinu er lagt til að gerð verði áætlun um úrbætur. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að gerð verði heildarúttekt á húsnæði og aðstöðu frístundamiðstöðva, félagsmiðstöðva og frístundaheimila þar sem mat verði lagt á viðhaldsþörf umræddra starfsstaða. Niðurstöður úttektarinnar verði nýttar til að vinna áætlun með forgangsröðun um úrbætur.

    Samþykkt. SFS2020020123

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hafin er vinna við allsherjar úttekt á öllu húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í borginni. Þetta er löngu tímabær vinna í anda þeirrar áherslu nýrrar menntastefnu að bæta aðstöðu og búnað í skóla og frístundastarfi borgarinnar. Vinnan er nú í fullum gangi og stefnt er að því að úttektin klárist á allra næstu vikum. Í framhaldinu verður unnin áætlun um endurbætur á húsnæði frístundarinnar í borginni. Til framtíðar er svo mikilvægt að unnin verði heildstæð rýni á húsnæðisþarfir frístundastarfsins þar sem markmið verður að leita frekari leiða til samþættingar grunnskóla og frístundastarfs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Víða er aðstaða í frístundamiðstöðvum og frístundaheimilum slæm sem kemur niður á faglegu starfi þannig að erfitt getur reynst að starfa í samræmi við stefnu í frístundamálum sem gerir auknar kröfur um aukið hlutverk þessara starfsstaða. Að auki er viðhaldi á húsnæði þessara starfsstöðva víða ábótavant. Dregist hefur að ljúka úttekt á viðhaldsþörf og aðstöðu frístundaheimila og frístundamiðstöðva þannig að enn liggur ekki fyrir áætlun um úrbætur. Brýnt er að þeirri vinnu ljúki sem fyrst svo hægt verði að gera kostnaðaráætlanir vegna endurbóta og framkvæmda og taka þær inn í gerð fjárhagsáætlunar.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva fagna því að ráðist verði í heildarúttekt á húsnæði og aðstöðu frístundamiðstöðva, félagsmiðstöðva og frístundaheimila þar sem mat verði lagt á viðhaldsþörf umræddra starfsstaða. Við viljum aftur á móti benda á að húsnæðismál frístundamiðstöðva, frístundaheimila og félagsmiðstöðva þurfi að kortleggja með tilliti til þess að tryggja starfsmönnum viðunandi aðstöðu til uppbyggjandi starfa með börnum og unglingum. Vellíðan barna og starfsmanna verði jafnframt höfð að leiðarljósi við vinnuna. Fara þarf yfir allt húsnæði og búnað þar sem starfsemi fer fram, taka út aðstöðuna á grundvelli viðmiða um húsnæði og aðbúnað félagsmiðstöðva og frístundaheimila skv. ytra mati SFS, Æskulýðslaga og gæðaviðmiða frístundaheimila (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2017) og Laga um hollustuhætti, aðbúnað og öryggi á vinnustað. Gera þarf úrbótaáætlun, forgangsraða verkefnum og tryggja fjármagn í endurbætur og nýframkvæmdir.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum:

    Lagt er til að eftirfarandi ákvæði verði bætt inn sem lokamálslið 3. mgr. í ákvæði 1.a. í reglum Reykjavíkurborgar um niðurgreiðslu vegna daggæslu: Ekki er greitt framlag með börnum dagforeldra, nema viðkomandi hafi einnig önnur börn í daggæslu. Komi upp sú staða að önnur börn hætta í daggæslunni hefur dagforeldri þó einn mánuð frá 1. eða 15. hvers mánaðar til að taka inn önnur börn áður en niðurgreiðsla, vegna eigin barna, er felld niður. Breytingin taki gildi 1. desember 2020. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018100030

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um er að ræða einfalda breytingu, sem er ætlað að loka fyrir þann möguleika að dagforeldrar starfi einungis með sín eigin börn.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning og umræða um fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2021, trúnaðarmál. SFS2020090221

  12. Lagt fram árshlutauppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar – júní 2020. SFS2020090061

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi umferðaröryggi í Úlfarsárdal. SFS2019100042

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Umferðaröryggismál hafa verið í ólestri í Úlfarsdal og marg sinnis hefur verið bent á að tryggja þurfi betur umferðaröryggi barna á leið í og úr skóla- og frístundastarfi. Það er því slæmt að framkvæmdum hafi ekki verið lokið fyrir skólabyrjun eins og lofað var. Brýnt er að því verði fylgt eftir að þessum framkvæmdum ljúki sem allra fyrst áður en svartasta skammdegið skellur á.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, ódags, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 182. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi húsnæði Kelduskóla/Korpu. SFS2020040154

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 190. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi málefni Víkurskóla. SFS2020090123

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir greinargott svar. Það er augljóst miðað við svarið að undirbúningur fyrir stofnun nýsköpunarskóla hefur ekki verið gefinn sá tími sem þurfti þar sem ekki er búið að laga skólahúsnæðið að starfsemi skólans og tafist hefur að hefja þar kennslu í valfögum. 

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi umgjörð um skólastarf í Víkurskóla. SFS2020080122

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 189. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjölda barna og fjölda stöðugilda í Engjaskóla og Borgaskóla. SFS2020080235

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 177. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi skólaakstur úr Staðahverfi. SFS2019100041

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi opnunartíma Guluhlíðar og Öskju í sumar. SFS2020060062

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 180. fundi skóla- og frístundaráðs, um kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum. SFS2020020125 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ánægjulegt er að fram kemur að þeir skólastjórar sem svöruðu telja að nám í fjármálalæsi mikilvægt og telja það gagnist nemendum vel og að þeir hafi áhuga á náminu. Ljóst er að kennslunni er sinnt með mismunandi hætti annað hvort sem sér námgrein eða samþætt öðrum námsgreinum. Hins vegar liggur ekki fyrir nægjanlega ítarleg svör við því hversu mörgum kennslustundum er varið í kennslu fjármálalæsis í skólunum. Sömuleiðis er ljóst af svari skólastjórnenda að ekki er stuðst við fjölbreytt námsefni. Þá kemur einnig fram að óljóst er hvernig námsárangur er metinn. Mikilvægt er til að efla námsgreinina að til boða standi val um vandað og fjölbreytt námsefni og að námsárangur sé metinn með skýrum hætti og fyrir liggi hversu mörgum kennslustundum er varið í kennsluna.

    Fylgigögn

  21. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. september 2020, við fyrirspurnum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. og 190. fundi skóla- og frístundaráðs, um framkvæmdir í Fossvogsskóla. 

    -    Kl. 15:37 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundi. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn gagnrýnir harðlega yfirlýsingar Valgerðar Sigurðardóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu í morgun um að rífa eigi húsnæði Fossvogsskóla. Þetta er afar óábyrgur málflutningur sem ekki er studdur neinum gögnum þeirra sem gerst þekkja stöðuna á húsnæði skólans. Reykjavíkurborg hefur lagt mikla vinnu og fjármuni í gagngerar endurbætur á skólahúsnæði og í einu og öllu fylgt fyrirmælum sérfræðinga verkfræðistofunnar VERKÍS. Borgin hefur varið til þess rúmlega 500 milljónum króna og hefur verið tekist af ábyrgð á við þau dæmi um rakaskemmdir sem komið hafa fram í þessum framkvæmdum. Von er á lokaskýrslu VERKÍS um framkvæmdirnar á alla næstu dögum þar sem einnig koma fram niðurstöður Náttúrufræðistofnunar á tegundagreiningu þeirra sýna sem tekin voru í sumar.

    -    Kl. 16.10 víkur Skúli Helgason af fundinum

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:11

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2209.pdf