Skóla- og frístundaráð
Ár 2020, 8. september, var haldinn 190. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í borgarstjórnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 12.32.
Eftirtaldir voru komnir til fundar í borgarstjórnarsalnum: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P); Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V); Marta Guðjónsdóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Valgerður Sigurðardóttir (D), Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Stefán Geir Hermannsson, Reykjavíkurráð ungmenna.
Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á sumarstarfinu á skóla- og frístundasviði 2020. SFS2020080078
Atli Steinn Árnason, Árni Jónsson, Dagbjört Ásbjörnsdóttir, Dröfn Rafnsdóttir, Guðrún Kaldal og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir afburða góða kynningu á sumarstarfi á skóla- og frístundasviði. Ákaflega jákvætt er að sjá hve gott samstarf var milli starfseininga, sviða, íbúaráða og barnanna, en einnig milli ríkis og borgar. Hér er um að ræða frábært verkefni sem sýnir bestu hliðar borgarinnar og sviðsins, og eiga starfsmenn og aðrir sem komu að vinnunni mikið hrós skilið. Það er vonandi að áfram verði mögulegt að vinna saman að mikilvægum verkefnum sem þessum.
- KL. 12:45 taka Soffía Vagnsdóttir og Guðmundur G. Guðbjörnsson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja til að hafin verði vinna við endurbætur á gjaldskrár- og greiðslukerfum skóla- og frístundasviðs. Til grundvallar liggi sú stefna að börn á leik- og grunnskólaaldri hafi öruggt aðgengi að skóla- og frístundastarfi óháð efnahag foreldra. Markmið vinnunnar verði sanngirni og innbyrðis samræmi gjaldskráa og einföldun á greiðslukerfi með áherslu á stafrænar lausnir og þjónustumiðaða hönnun. Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að hafa umsjón með greiningu á kostum og göllum núverandi gjaldskrár, hvítbók sem verði grundvöllur tillagna um endurbætur.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020090059Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er í góðu samræmi við þjónustustefnu Reykjavíkurborgar að fara í þessa endurskoðun, með það að markmiði að bæta þjónustu, einfalda viðmót og auðvelda umsóknir og notkun á kerfinu. Eins er rétt að skoða hvort ástæða sé til að endurskoða afsláttarkerfin með tilliti til samfélagsbreytinga, sanngirni og til að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika miðað við önnur sambærileg kerfi á sviðinu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 18. ágúst 2020:
Vegna aðstæðna er varða Covid-19 er lagt til að samþykkt verði að til 31. desember 2020 verði almennur opnunartími leikskóla Reykjavíkurborgar frá kl. 07:30 til 16:30.
Greinargerð fylgir.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst 2020, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. september 2020, um tillöguna:
Í ljósi þess að skipulag leikskólastarfs þarf að fara fram með breyttum hætti vegna Covid 19 er lagt til að gerðar verði ráðstafanir til að mæta þörfum þeirra foreldra sem þurfa nauðsynlega á leikskólaþjónustu að halda til kl. 17:00. Sviðsstjóra verði því falið, í samráði við leikskólastjórnendur, að koma með tillögur um hvernig megi tryggja fulla þjónustu fyrir þá foreldra sem nauðsynlega þurfa á að halda. Tillögum verði skilað svo fljótt sem verða má, enda áríðandi að hægt verði að skipuleggja skólastarf og skólasókn leikskólabarna í byrjun skólaárs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til vegna aðstæðna er varða Covid-19 að sóttvörnum vegna farsóttarinnar verði sinnt í leikskólum Reykjavíkur eftir kl. 17:00 til að komist verði hjá tímabundinni skerðingu á leikskólaþjónustu. Starfsmönnum leikskólanna gefst kostur á að bæta við sig yfirvinnu til að sinna þessum störfum. Um er að ræða tímabundið ástand eða til 31. október nk. og því ekki um umtalsverðan kostnað að ræða.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:
Vegna aðstæðna er varða Covid-19 er lagt til að samþykkt verði að til 31. október 2020 verði almennur opnunartími leikskóla Reykjavíkurborgar frá kl. 07:30 til 16:30. Eigi síðar en um miðjan október liggi fyrir mat á því hvort nauðsynlegt sé að framlengja samþykktina.
Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vísað til borgarráðs. SFS2020080077
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þrátt fyrir þá miklu röskun sem COVID faraldurinn hefur valdið á daglegu lífi almennings hefur góðu heilli tekist að halda úti skóla- og frístundastarfi í borginni með góðri samvinnu allra hlutaðeigandi, starfsfólks, foreldra og barna. Með því að stytta opnunartíma leikskóla um 30 mínútur á meðan þetta ástand varir hefur verið hægt að mæta kröfum sóttvarnaryfirvalda inni í leikskólum borgarinnar. Eins og allir vita fer veiran sínar eigin leiðir og breytist ástandið oft á tíðum hratt. Það er því skynsamlegt að búa svo um að hægt verði að bregðast við og gera ráðstafanir jafnt og þétt, líkt og þessi tillaga gerir ráð fyrir.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samþykkt á tillögu meirihlutans um breyttan opnunartíma leikskóla felur í sér skerðingu á þjónustu sem hittir viðkvæma hópa illa. Þessi ákvörðun meirihlutans fer gegn hans eigin bókun fá 18. ágúst sl. þar sem segir um skóla- og frístundastarf á tímum Covid-19; „Það er einbeittur ásetningur Reykjavíkurborgar að halda úti faglegu og vönduðu skóla- og frístundastarfi í leikskólum, grunnskólum og frístund á komandi skólaári þrátt fyrir Covid- 19 faraldurinn”. Einnig segir þar að „allir séu viðbúnir því að þurfa að grípa til ráðstafana þegar og ef aðstæður breytast“. Með þeirri ákvörðun sinni í dag um að draga úr þjónustu sýnir meirihlutinn að ekki fari saman mynd og hljóð. Breytingartillaga Sjálfstæðisflokks sem nú var hafnað, var lausnamiðuð og kom í veg fyrir þjónustuskerðingu. Kostnaðarmat FÁST lá fyrir, upphæð sem nemur um 8.000 kr. á barn fyrir þann tíma sem um ræðir. Öllum er ljóst að auknum sóttvörnum fylgir ákveðinn kostnaðarauki. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að eðlilegra sé að forgangsraða í þágu leikskólabarna í stað gæluverkefna. Heildarkostnaður við þá lausn sem Sjálfstæðisflokkur lagði til er innan við 18 milljónir króna, sem ekki getur talist hár ef borinn er saman við endurgerð Tryggvatorgs svo dæmi sé tekið. Lausn Sjálfstæðisflokks hefði sömuleiðis falið í sér aukna tekjumöguleika fyrir starfsfólk leikskólanna sem hefði verið vel tekið á þeim erfiðu tímum sem nú eru uppi. Þjónustuskerðingin kemur illa niður á fjölmörgum fjölskyldum í borginni.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Opnunartími leikskóla hefur verið til kl. 16.30 í Reykjavík allt frá því í mars. Það hefur verið mikilvæg forsenda þess að hægt hefur verið að halda uppi faglegu leikskólastarfi í borginni við krefjandi aðstæður. Tillagan boðar því enga breytingu hvað það varðar en segir einfaldlega að þetta fyrirkomulag verði áfram við lýði til loka október amk. Foreldrar hafa sýnt þessu mikinn skilning. Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins er köld kveðja til leikskólastarfsfólks sem staðið hefur sig frábærlega við erfiðar aðstæður.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Því fer fjarri að tillaga okkar sjálfstæðismanna feli í sér kaldar kveðjur heldur þvert á móti er verið að koma til móts við starfsfólk og þarfir foreldra. Betur færi á því að meirihlutinn hefði kynnt sér tillöguna betur og litið í eigin barm varðandi sendingar á köldum kveðjum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt þjónustusamningi skóla- og frístundasviðs og Tónlistarskóla Árbæjar vegna neðri stiga tónlistarnáms, dags. 30. maí 2017:
Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði heimilað að gera þjónustusamning við Tónlistarskóla Árbæjar ehf. kt. 540699-2329, vegna tímabilsins 1. ágúst 2020 til 31. júlí 2021 vegna neðri stiga og vegna tímabilsins 1. september 2020 til 31. ágúst 2021 vegna efri stiga í stað áður samþykkts aðila Tónlistarskóla Árbæjar, kt. 530795-2179
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2019010206Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, samkomulagi um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 3. desember 2018 og 13. apríl 2016:
Lagt er til að gerð verði sú breyting á reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla að í stað þess að í reglunum sé vísað sé til samkomulags, dags. 13. apríl 2016, um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, verði vísað til samkomulags, dags. 3. desember 2018, um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Vísað er til samkomulagsins í greinum 1.2, 2.3, 5.3, 5.5, 8.1, 8.2, og gr. 16.1. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða í reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla þar sem fram kemur að ákvæði 9.1 reglnanna eigi ekki við vegna skólaáranna 2017 – 2018, 2018 – 2019 og 2019 – 2020 gagnvart þeim tónlistarskólum sem gerður var þjónustusamningur við vegna tímabilsins 1. september 2016 til 31. ágúst 2017, verði framlengt um eitt ár þannig að það nái jafnframt til skólaársins 2020-2021.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018090150Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
- Kl. 14.08 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundi og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur þar sæti.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í vinnslu er stefna um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík, en sú vinna hefur tafist bæði vegna umfangs verkefnisins og vegna ytri aðstæðna, svo sem Covid. Mikilvægt er að taka inn þær breytingar sem hér eru lagðar til, til þess að búa megi til svigrúm til þess að semja í samræmi við þá stefnu sem nú er í vinnslu frá árinu 2021, án þess að setja tónlistarkennslu í borginni í uppnám í millitíðinni.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 28. apríl 2020 ásamt bréfi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. júlí 2020:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að samningar við Arnarskóla verið endurskoðaðir. Nokkur reykvísk börn komast ekki inn í Arnarskóla þrátt fyrir það að úrræðið sé talið henta þeim best af þeim úrræðum sem eru í boði á Íslandi. Það er því gríðarlega mikilvægt að skóla- og frístundaráð óski eftir því að samningar við Arnarskóla verði endurskoðaðir og fleiri börnum boðin þar vist. Í dag eru það fjögur reykvísk börn sem fá að ganga í Arnarskóla. Ekki er búið að taka út starfsemi Arnarskóla enda hefur slík úttekt aldrei farið fram fyrr en í fyrsta lagi á fjórða starfsári nýrra skóla. Mikið eftirlit er þó með starfseminni og full ástæða til þess að treysta þeim fagteymum sem starfa með þessum börnum og foreldrum þeirra.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018110109
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Passa verður að allar ákvarðanir er teknar eru á vegum Reykjavíkurborgar séu í samræmi við lög og ekki sé verið að mismuna börnum. Hlúa þarf sérstaklega að fötluðum börnum og er það alvarlegt mál ef brjóta á jafnræði gagnvart þeim. Mál Arnarskóla vakti mikla og neikvæða athygli á Reykjavíkurborg þar sem foreldrar barns sem synjað var um skólavist í Arnarskóla urðu að kæra Reykjavíkurborg til þess að málið væri endurskoðað. Tryggja verður að sambærilegt mál komi ekki upp aftur hjá Reykjavíkurborg með því að vanda alla ákvarðanatöku betur.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg kom til móts við óskir foreldra um fjölgun reykvískra nemenda í Arnarskóla með því að fjölga þar nemendum upp í sex á yfirstandandi skólaári. Ekki er talin ástæða til að ráðast í breytingar á samningum á þessum tímapunkti, í ljósi þess að málið hefur þegar verið leyst í sátt.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. ágúst 2020:
Lagt er til að næsta úttekt sem gerð verður 3. september á stöðu ráðningarmála í leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og sértækum frístundaheimilum verði send ráðsmönnum til upplýsingar og rædd á næsta fundi skóla- og frístundaráðs. Þá er jafnframt óskað eftir að uppfærð staða biðlista á frístundaheimili verði lögð fram og send ráðsmönnum og tekin fyrir á næsta fundi skóla- og frístundaráðs.
Samþykkt. SFS2020050139
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. september 2020, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 3. september 2020. SFS2020050139
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Vel hefur gengið að ráða í lausar stöður undanfarnar tvær vikur og er nú búið að ráða í 95-99% stöðugilda í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Staðan er talsvert betri en á sama tíma í fyrra í grunnskólum og sérstaklega frístundastarfinu en svipuð í leikskólaumhverfinu þar sem ekki liggja þó fyrir samanburðarhæfar tölur milli ára. Mikilvægt er að halda áfram að nýta öll tækifæri til að ráða í lausar stöður og styður meirihlutinn þá forgangsröðun mannauðsdeildar sviðsins að einbeita sér að þeim leikskólum sem eiga lengst í land með að ljúka sínum ráðningum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að staða ráðningarmála í leikskólum Reykjavíkur er verri en á sama tíma í fyrra þar sem nú á enn eftir að ráða í 52 stöðugildi samanborið við í fyrra þegar átti eftir að ráða í 38,1 stöðugildi um miðjan september. Þetta hefur áhrif á inntöku 35 barna á leikskóla. Brýnt er að leitað verði allra leiða til að manna leikskólana til að flýta inntöku þeirra barna sem ekki komast á leikskóla vegna manneklunnar. Þrátt fyrir að vel hafi tekist að manna frístundaheimilin vantar enn upp á ráðningarnar til að geta tekið inn þau 122 börn sem eru enn á biðlista þremur vikum eftir að skólahald hófst nú í haust. Við þessari stöðu þarf einnig að bregðast hratt og örugglega til að tryggja öllum grunnskólabörnum pláss á frístundaheimilum
Fylgigögn
-
Fram fer kynning og umræða um drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla. SFS2020090060
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga mennta- og menningarmálaráðuneytis að breytingu á viðmiðunarstundaskrá er virðingarverð tilraun til að bregðast við lökum árangri íslenskra nemenda í PISA könnunum. Betur færi þó á því að rýna kennsluhætti og aðbúnað kennara og nemenda, í stað þess að einblína á tímafjölda í kennslu íslensku og náttúrufræði. Lakur árangur nemenda í íslensku hefur einkum tengst lesskilningi og breytingar þurfa því að styrkja þann þátt. Þá hefur árangur íslenskra nemenda í náttúrufræði m.a. tengst uppbyggingu prófanna, þar sem notast er við aðra nálgun en íslenskir nemendur eru vanir. Sérstaklega gagnrýnivert er þó hve mjög fyrirhugaðar breytingar draga úr vali nemenda, á unglingastigi minnkar það um tæplega helming og á yngsta- og miðstigi þurrkast valið út. Ástæða er til að vara við þeim hugmyndum á tímum þar sem sterk krafa er um að menntun byggi á áhugasviði, hæfileikum og færni hvers og eins, sem er einmitt leiðarstef í menntastefnu borgarinnar. Þá er nauðsynlegt að bregðast við skorti á fagmenntuðum kennurum, námsefni og kennsluhúsnæði fyrir náttúrufræði á unglingastigi. Þröngt sjónarhorn á lengingu tímamagns leysir ekki vandann, íslenskt menntakerfi þarf ekki að gera meira af því sem ekki hefur skilað árangri til þessa – heldur skapa aðstæður og forsendur fyrir nauðsynlegri endurnýjun fagfólks og bættum starfsaðstæðum á vettvangi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að Ísland er með lægsta hlutfall tíma til kennslu móðurmáls í 1.-7. bekk grunnskóla og sömuleiðis í náttúrufræði í 8.-10. bekk samanborið við nágrannalönd okkar. Með það í huga og slakan árangur íslenskra nemenda í Pisa er mikilvægt að brugðist verði við með fjölgun kennslustunda í þessum greinum. Það hafa aðrar þjóðir gert með góðum árangri s.s. í Svíþjóð þar sem kennslustundum í móðurmáli var fjölgað í kjölfar lélegs árangurs í Pisa sem skilaði sér í bættum árangri þannig að sænsk ungmenni standa sig mun betur á Pisaprófunum en áður.
Guðrún Edda Bentsdóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs, ódags. og yfirlit yfir starfshópa á vegum Ráðhúss sem skóla- og frístundasvið á fulltrúa í. SFS2019100018
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf skóla- og frístundasviðs, febrúar – ágúst 2020. SFS2019100020
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. september 2020, um samþykkt tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, notkun fjarfundabúnaðar. SFS2020040074
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi framkvæmdir við Fífuborg. SFS2020060060
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. ágúst 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi samráð við foreldra vegna skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi. SFS2019020105
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Komið er á daginn að ekki var haldinn upplýsinga- og samráðsfundur með foreldrum Nýsköpunarskólans í norðanverðum Grafarvogi fyrir skólabyrjun. Þegar um er að ræða jafn róttækar breytingar á skólahaldi og sameiningar skóla eru, er mikilvægt að upplýsingaflæði til foreldra sé gott, og að þeir hafi vettvang til að koma á framfæri athugasemdum. Það er deginum ljósara að meirihlutinn hefur lítinn áhuga á samráði við foreldra enda hafa allar breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi einkennst af samráðsleysi. Það á að vera að skylda skólayfirvalda að upplýsa og vera í góðu samstarfi við foreldra um skólastarf enda bera foreldrar ábyrgð á menntun og uppeldi barna sinna.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. ágúst 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 189. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi aukna frístundaþjónustu vegna lokunar Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla. SFS2020080232
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. september 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 188. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi seinkun á opnun Langholts eftir sumarleyfi. SFS2020080119
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Gluggi til framkvæmda í leikskólum Reykjavíkur er ekki langur og því er mikilvægt að vel takist til við allt skipuleg er kemur að stórum framkvæmdum í leikskólunum. Það vekur því furðu að tafir hafi orðið á því að framkvæmdir hæfust við leikskólann Langholt. Eins er það undarlegt að leikskólastjóri hafi ekki verið betur upplýstur um gang framkvæmdanna og því ekki áttað sig á þeim töfum sem urðu á verkinu fyrr en rétt áður en opna átti leikskólann. Við lestur svarsins vakna upp spurningar líkt og hvort ekki hafi verið verkefnastjóri yfir verkinu frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar og af hverju ekki hafi verið meiri samskipti á milli leikskólastjóra og verkefnastjóra. Því vissulega er það ekki hlutverk leikskólastjóra að verkefnastýra framkvæmdum í sínu sumarfríi.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228
- Kl. 15:40 víkja Anna Metta Norðdahl, Ragnheiður Davíðsdóttir og Magnús Þór Jónsson af fundinum.
- Kl. 15:45 víkja Soffía Vagnsdóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundinum.
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um málefni Fossvogsskóla. Voru sýni sem tekin hafa verið í sumar og eftir að framkvæmdum lauk ekki send til tegundagreiningar til Náttúrufræðistofnunar Íslands líkt og gert var áður? Ef það hefur ekki verið gert var það ekki niðurstaða samráðsfundar í vor að samþykkja að fara í samskonar sýnatöku líkt og gert var þegar alvarleg mygla fannst í skólanum? Gríðarlega mikilvægt er að farið sé í tegundagreiningu til þess að greina á milli umhverfismyglu og myglu sem vex bara í rakaskemmdu efni innanhúss á Íslandi líkt og gert hefur verið áður í Fossvogsskóla.
SFS2020010179
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um það hvort að búið sé að seinka kennslu um 10 mínútur í Víkurskóla vegna þess að almenningasamgöngur (Strætó) séu með þeim hætti að ekki sé hægt að hefja þar kennslu fyrr. Eins þar sem skólanum var seinkað um 10 mínútur þá er búið að taka af frímínútur og kennsla er í 120 mínútur. Er það talið heppilegt fyrir börn og kennara að kennsla sé samfellt í 120 mínútur? Einnig er óskað eftir því hver sé ástæðan fyrir því að ekki sé búið að opna bókasafn, ekki séu komnir skápar fyrir nemendur til þess að geyma í bækur eða kennsla í valfögum sé byrjuð?
SFS2020090123
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um hvaða aðilar hafa óskað eftir að fá húsnæði Korpuskóla til afnota og sent inn tilboð þess efnis.
SFS2020040154
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skólastarf í Grafarvogi fór af stað með breyttum hætti nú í haust m.a. vegna lokunar Korpuskóla og sameininga við aðra skóla í hverfinu. Talsvert hefur verið um að íbúar hafi gert athugasemdir við þá ákvörðun og framkvæmd hennar. Með hliðsjón af því, er lagt til að skóla- og frístundaráð, ásamt hlutaðeigandi stjórnendum á skóla- og frístundasviði, haldi opinn fund með íbúum í hverfinu þar sem farið verði yfir þær breytingar, ásamt stöðu skólamála almennt í Grafarvogi. Einnig verði farið yfir öll þau áform sem kynnt voru í aðdraganda breytingarinnar sem varða skipulagsmál, samgöngumál og umferðaröryggismál í hverfinu. Fulltrúar viðeigandi sviða verði sömuleiðis viðstaddir fundinn og upplýsi um stöðu mála. Ástæða er til halda fundinn hið fyrsta til að nota það svigrúm sem opnast hefur núna með breyttum samkomutakmörkunum.
Frestað. SFS2019020105
PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_0809.pdf