Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 187

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, fimmtudaginn 25. júní var haldinn sameiginlegur fundur, 187. fundur skóla- og frístundaráðs og 22. fundur mannréttinda-, nýsköpunar-, og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi og hófst kl.14.35. Fundinn sátu, Skúli Helgason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Geir Finnsson, Ellen Jacqueline Calmon, Þór Elís Pálsson, Örn Þórðarson, Daníel Örn Arnarsson, Alexandra Briem, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir.

Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar skóla- og frístundaráðs: starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennari í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs, um stækkun á tilraunaverkefni í kynfræðslu: 

    Lagt er til að haustið 2020 verði tveimur skólum bætt við í tilraunaverkefni um markvissa kynfræðslu, Réttarholtsskóla og Hagaskóla. Verkefnið verður unnið í samvinnu skólanna tveggja, félagsmiðstöðvanna Bústaða og Frosta og skólahjúkrunarfræðinga beggja skóla. Sérfræðingar frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs veita ráðgjöf, fræðslu og stuðning.

    Greinagerð fylgir tillögunni. SFS2020060247
    Samþykkt.

    Fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Líkamsvirðing, skýr mörk og mannhelgi eru mikilvæg gildi raunverulegs jafnréttis og nauðsynlegt er að fræða börn og ungmenni um mikilvægi þessara þátta í þeirra kynfræðslumenntun. Það er bundið í lög og mikilvægt samfélagslegt verkefni að börn og unglingar fái vandaða og góða fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífs á öllum skólastigum. Það er sérstaklega brýnt í ljósi þess hve klámvæðing er útbreidd meðal ungmenna, en nýjustu rannsóknir sýna að yfir 60% drengja í 10. bekk horfa reglulega á klám. Tillagan um stækkun á tilraunaverkefni um markvissa kynfræðslu byggir á jákvæðum viðbrögðum við verkefninu í Foldaskóla og Seljaskóla sem m.a. hlaut Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs á síðasta ári. Nú munu fjölmennu unglingaskólarnir Réttarholtsskóli og Hagaskóli bætast í hópinn og vinna verkefnið í samvinnu við félagsmiðstöðvar og skólahjúkrunarfræðinga skólanna. Í verkefninu er hugtakið kynfræðsla víkkað út og mikil áhersla lögð á félagslegan þátt kynfræðslunnar og sjálfsmynd nemenda. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut svo fjölga megi jafnt og þétt þeim nemendum á mið- og unglingastigi grunnskóla um alla borg sem fá aukna og vandaða kynfræðslu sem unnin er í samvinnu kennara, skólahjúkrunarfræðinga og frístundaráðgjafa með ráðgjöf, fræðslu og stuðningi sérfræðinga á skrifstofu skóla- og frístundasviðs.
     
    Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs, um stofnun starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar: 

    Lagt er til að stofnaður verði starfshópur til þess að skoða hvernig megi auka og efla fræðslu um kynjafræði og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar og þjálfun starfsfólks á þeim sviðum. Starfshópurinn leggi mat á núverandi stöðu og móti tillögur til úrbóta. Í hópnum verði verkefnastýra Jafnréttisskólans, sérfræðingar í hinsegin-og jafnréttismálum á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, fulltrúar stjórnenda og starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs og Reykjavíkurráðs ungmenna.

    Greinagerð fylgir tillögunni. SFS2020060248
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
        
    Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa og skóla- og frístundasvið hafa um árabil átt gott samstarf um hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar með þjónustusamningi við Samtökin 78, sem boðið hafa kynja- og hinseginfræðslu í samstarfi við frístundamiðstöðina Tjörnina. Viðbrögð ungmenna hafa verið mjög góð og aðsókn farið hratt vaxandi í hinsegin félagsmiðstöðina sem sett var á laggirnar fyrir tveimur árum. Nú leggjum við til að stigið verði næsta skref í að auka og efla fræðslu um kynjafræði og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi borgarinnar, þar með talið að auka þjálfun starfsfólks á þeim sviðum. Sérfræðingar sviðsins og skrifstofunnar leiði starfið sem felist í mati á núverandi stöðu og mótun á tillögum til úrbóta. Hér er mikið undir því jafnrétti er ein af grunnstoðum menntunar og jafnréttisfræðsla, þ.mt. kynjafræðsla og hinseginfræðsla er mikilvæg forsenda þess að grundvallarþættir nýrrar menntastefnu borgarinnar m.a. um tilfinningalæsi, réttlætiskennd, siðferði og heilbrigði nái til allra barna en ekki bara sumra.

    Fulltrúar Sósíalistaflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sósíalistaflokksins fagna þessari tillögu og geta tekið undir bókun meirihluta ráðanna en leggur áherslu á að fleiri ungmenni verði fengin til samráðs inn í starfshópinn og þá helst fulltrúi frá hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og Samtakanna 78. Einnig er það skoðun fulltrúanna að fræðsla starfsfólks og nemenda um kynja- og hinseginfræðslu ætti ekki að vera valkvæð í ljósi þess hve gríðarlega mikilvæg og mótandi hún er.

    Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs, um lýðræði í skólastarfi og umbætur á starfi skólaráða: 

    Lagt er til að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, í samstarfi við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og grunnskóla í Reykjavík, að vinna markvisst að lýðræði í skólastarfi og umbótum á starfi skólaráða m.a. varðandi kosningu fulltrúa, upplýsingamiðlun skólaráða og stuðning við fulltrúa nemenda. Skólastjórnendur og nemendur fái fræðslu og stuðning til að tryggja að skólaráð sé virkur samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Könnun um starfsemi skólaráða verði lögð fyrir skólastjórnendur og fulltrúa nemenda í skólaráði á árinu 2021 til að meta árangur aðgerða.

    Greinagerð fylgir tillögunni. SFS2020060249
    Samþykkt.

    -    Kl. 15.49 víkur Þór Elís Pálsson af fundinum. 

    Fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skólaráð eru mikilvægur samráðsvettvangur skólastjóra, nemenda og foreldra um veigamestu málefni hvers grunnskóla og þau eiga sér trygga stoð í grunnskólalögum. Nýleg könnun skóla- og frístundasviðs meðal skólastjóra sýnir að þörf er á að skerpa á starfi skólaráða, tryggja skilyrðislausa aðkomu nemenda að kosningu fulltrúa nemenda, auka stuðning við fulltrúa nemenda og sérstaklega að tryggja gott flæði og miðlun upplýsinga milli fulltrúa nemenda í skólaráði og nemendahópsins almennt. Tillaga sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um lýðræði í skólastarfi og umbætur í starfi skólaráða þjónar þessum markmiðum ásamt því að verið er að tryggja rétt barna til að geta látið í ljós skoðanir þeirra um mál sem þau varða í takti við 12 gr. Barnasáttmálans.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:00

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2506.pdf