Skóla- og frístundaráð
Ár 2020, 23. júní, var haldinn 186. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34.
Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Kolbrún Baldursdóttir (F), Marta Guðjónsdóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning og umræða um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi frá hausti 2020. SFS2019020105
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 12.48 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn þakkar fyrir vandaða og góða kynningu á stöðu undirbúnings vegna umbóta í skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Það er mikið ánægjuefni að samgöngubætur séu nú tilbúnar til framkvæmda eftir samþykkt borgarráðs á dögunum og verði unnar á allra næstu vikum. Undirbúningur vegna stofnunar nýsköpunarskóla í Víkurskóla er í fullum gangi, lagður hefur verið grunnur að samstarfi við Borgarholtsskóla, Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarmiðstöð þar sem liggur fyrir gagnkvæmur áhugi og er ljóst að spennandi námsframboð verður í boði fyrir unglinga í þeim skóla rétt eins og hinum nýju skólunum: Engjaskóla og Borgarskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn virðist lítið hafa lært og engu gleymt af fyrri sameiningum skóla í borginni. Sama er uppi á teningnum nú og þegar farið var í viðamiklar sameiningar skóla árið 2012 sem ollu miklu fjaðrafoki og sættu mikilli gagnrýni. Það virðist sem meirihlutinn líti á Grafarvoginn sem tilraunahverfi fyrir skólasameiningar. Gerð var ítarleg óháð úttekt á þeim sameiningum 2012 sem staðfesti svo ekki verði um villst að varnaðarorð og gagnrýni á sameiningarnar áttu fullan rétt á sér. Mikil ringulreið og óvissa skapaðist í skólastarfinu í aðdraganda þeirra róttæku breytinga sem áttu sér stað þá. Í stystu máli fékk sameiningarferlið, undirbúningur og framkvæmd verksins falleinkunn í skýrslu Intellecta. Því miður kveður við sama tón nú þar sem samráð sameininga skóla í norðanverðum Grafarvogi var lítið sem ekkert og keyrðar í gegn þrátt fyrir hávær mótmæli. Þrátt fyrir gefin loforð og fögur fyrirheit þá hafa heldur ekki enn verið haldnir samráðsfundir með foreldrum vegna breytts skólahalds og stofnunar nýsköpunarskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að hér er um að ræða fjölgun sjálfstæðra skólaeininga, ekki fækkun. Skýrsla um sameiningar sem farið var í 2012 er eitt af þeim gögnum sem til hliðsjónar voru þegar ákveðið var að ráðast í þær breytingar sem hér eru til umræðu og miða þær að því að búa til besta mögulega skólaumhverfi sem völ er á fyrir börn í norðanverðum Grafarvogi. Hafa fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði lagt á það mikla áherslu í þessu ferli að vera í virku samtali við foreldra, íbúa og skólasamfélagið og hafa bæði mætt á fundi og svarað fjölda tölvupósta.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Allt þetta mál hefur verið erfitt einna helst vegna þess að farið var í framkvæmdir í óþökk íbúa, foreldra og barna. Hvernig þetta allt lukkast kemur ekki í ljós fyrr en komin er á reynsla og ekki fyrr en þá foreldrar segja að þau séu sátt og að þau séu örugg með börn sín. Það er einnig miður að þegar íbúar senda inn fyrirspurnir að þeim er ekki svarað fyrr en eftir dúk og disk og ítrekanir. Staðreyndin er sú að íbúar eru uggandi og enn kraumar án efa einhver óánægja og kvíði fyrir framtíðinni. Síðast í gær var borgarfulltrúum sent skeyti þar sem ítrekað er að fá svör við fyrirspurnum um ýmis atriði. Í skeytinu er lýst yfir áhyggjum ekki síst yfir því hvað gengur illa að fá viðbrögð skóla- og frístundasviðsins við fyrirspurnum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef borgari þarf að senda stjórnkerfi borgarinnar skeyti af þessu tagi þá er eitthvað sem þarf að laga. Ekkert afsakar samskiptaleysi eða hunsun gagnvart áhyggjufullum foreldrum eða íbúum sem eru uggandi um börn sín. Óvissa og þögn fer illa með alla.
-
Lögð fram skýrslan Öryggismál í skóla- og frístundastarfi, tillögur starfshóps, dags. 26. maí 2020.
Guðrún Hjartardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að móta áætlun um forgangsröðun og innleiðingu á tillögum starfshóps um öryggismál í skóla- og frístundastarfi. Áætlunin feli í sér fjárhagsmat á einstökum tillögum.
Samþykkt. SFS2019090277
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir greinargóða yfirferð á öryggismálum grunnskólanna og vandaða vinnu starfshópsins. Afar mikilvægt er að tryggja eftir megni öryggi barna í skóla- og frístundastarfi en jafnframt er nauðsynlegt að gæta meðalhófs og persónuverndarsjónarmiða og varast að ganga lengra í eftirliti en þörf krefur. Við leggjum til að sviðsstjóra verði falið að útfæra kostnaðarmetna áætlun um innleiðingu á tillögum til að bæta öryggi, sem feli í sér forgangsröðun og taki mið af aðstæðum og þörf á hverjum stað.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ánægjulegt er að tillögur skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks hafi skilað sér inn í vinnu starfshóps um öryggismál í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að gefin séu út samræmd viðmið og reglur í því skyni að tryggja betur öryggi barna í skólahúsnæðinu og á skólalóðinni. Til að öryggi nemenda verði betur tryggt höfum við sjálfstæðismenn í skóla- og frístundaráði komið með tillögu um að starfsmenn auðkenni sig með nafnspjaldi og að öllum skólum borgarinnar sem það vilja standi til boða að koma upp öryggismyndavélum við skólana enda hafa þær sannað gildi sitt í þeim skólum sem nú þegar hafa á að skipa slíkum búnaði bæði til að tryggja öryggi nemenda og koma í veg fyrir skemmdarverk.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í skýrslu starfshóps um öryggismál í skólum undir kaflanum um „Öryggismyndavélar, hvers vegna öryggismyndavélar?“ að alls hafa 73 rúður verið brotnar á 12 mánaða tímabili víðs vegar um húsnæði eins skóla í borginni. Hætta getur skapast af glerbrotum sem liggja á skólalóðinni eftir ítrekuð rúðubrot. Gríðarlegur kostnaður fer í að hreinsa upp glerbrot og skipta um gler í gluggum skólans. Kostnaður fyrir árið 2018 er 15.259.000 kr. og fyrir árið 2019 12.023.000 kr. Hér er aðeins um einn skóla að ræða í borginni en Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eðlilegt að foreldrar axli ábyrgð brjóti barn þeirra rúðu í skólanum utan skólatíma, gefið að staðfest sé hver gerandinn er og að hann sé nemandi í skólanum. Ef barnið er í skólanum á skólatíma þá er barnið á ábyrgð skólans. Ef það er utan skólatíma þá hlýtur barnið þ.e. foreldrar þess að vera skaðabótaskyldir gagnvart skólanum. Hvað varðar öryggismyndavélar tekur fulltrúi Flokks fólksins undir mikilvægi þeirra í mörgu tilliti. Öryggismyndavélar eru dýrar og viðhaldskostnaður án efa mikill. Vega þarf og meta ávinninginn, hvar öryggismyndavélar koma að mesta gagni og í hvaða skólum uppsetning þeirra er sérstaklega mikilvæg t.d. hvað varðar fælingarmátt sem öryggismyndavélar sannarlega hafa.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur fagna vandaðri skýrslu starfshóps um öryggismál í skóla- og frístundastarfi þar sem horft er til þess að gera grunnskóla borgarinnar enn öruggari en nú er. Tillögur starfshópsins eru vel ígrundaðar og í framhaldi er mikilvægt að rýnt verði í hvern skóla í samráði við stjórnendur og starfsfólk hvers skóla enda þar á ferð lykilaðilar í því að búa öruggt umhverfi fyrir börn í skólum borgarinnar. Í þeirri vinnu skiptir miklu máli að hver skóli móti sínar tillögur og gæti meðalhófs í hvívetna.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. júní 2020, um framlengingu samninga við tónlistarskóla í Reykjavík vegna neðri stiga tónlistarnáms og endurnýjun samninga vegna efri stiga tónlistarnáms ásamt yfirliti yfir kennslumagn; yfirliti yfir upphæðir samninga; umsögn endurskoðunarnefndar vegna erindis Samtaka tónlistarskólastjóra í Reykjavík um endurskoðun ársreikninga, dags. 2. október 2018; fyrirmynd að samningi við tónlistarskóla; reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla; drögum að viðauka við þjónustusamning við tónlistarskóla vegna neðri stiga tónlistarnáms; drögum að þjónustusamningi við tónlistarskóla vegna efri stiga tónlistarnáms; samkomulagi um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dags. 3. desember 2018 og reglum um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til stuðnings við tónlistarnám og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, dags. 31. ágúst 2016:
Lagt er til að samningar Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla með þjónustusamning við Reykjavíkurborg vegna neðri stiga tónlistarnáms sem renna út þann 31. júlí 2020 verði framlengdir með viðauka til 31. júlí 2021, sjá fylgiskjal 1. Þá verði í framangreindum viðaukum kveðið á um úthlutun viðbótarstunda til þeirra tónlistarskóla sem úthlutað hefur verið viðbótarstundum í þeim tilgangi að auka jöfnuð og fjölbreytni í tónlistarnámi, sjá fylgiskjal 1.
Þá er lagt til að samþykktir verði samningar Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla í Reykjavík vegna efri stiga tónlistarnáms sem renna út 31. ágúst 2020. Gildistími verði 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. Þar sem hlutverk Reykjavíkurborgar er að miðla framlagi Jöfnunarsjóðs er sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs falið að ganga frá samningum við aðila þá sem tilgreindir eru í fskj. 2 á grundvelli upplýsinga frá Jöfnunarsjóði. Upphæðir eru birtar með fyrirvara um úthlutun og byggjast á upplýsingum frá Jöfnunarsjóði.
Gerður er fyrirvari um að tónlistarskólarnir uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla og samningsbundnar skyldur þeirra samkvæmt núgildandi samningum.
Sviðsstjóra er falið að gera samninga við tilgreinda aðila á grundvelli endanlegra útreikninga á framlögum.Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018090150
Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrir liggur að stýrihópur á vegum skóla- og frístundasviðs vinnur að heildstæðri stefnumótun sem lögð verður til grundvallar samninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla frá og með vori 2021, en mikilvægt er að samningar séu endurnýjaðir til eins árs meðan sú stefnumótun liggur ekki fyrir að fullu, en tilgangur hennar er að auka og jafna aðgengi barna í mismunandi borgarhlutum að tónlistarnámi, ásamt því að draga úr þeim kostnaði sem fellur á foreldra vegna tónlistarnáms.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt eldri tillögu frá 163. fundi skóla- og frístundaráðs, minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. júní 2019 og reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að gera breytingar á áður samþykktri tillögu, dags. 25. júní 2019, varðandi nýjar reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Reglur um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar, samþykktar í menntaráði 3. nóvember 2005, halda gildi sínu en þó með þeirri breytingu að í stað þess að nemendur fái afhenta farmiða fái nemendur strætókort. Reglur um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar verði óbreyttar. Ekki verða gerðar breytingar á skólaakstri í borginni frá því sem nú er. Sviðsstjóra er falið að leggja fram tillögu að breytingum á reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum sem taki tillit til framangreinds.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2018110156
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Að stjórna stærsta málaflokki borgarinnar krefst áræði, útsjónarsemi og sveigjanleika og kjörnir fulltrúar þurfa að vera tilbúnir að gera breytingar á áformum sínum ef aðstæður breytast eða til að taka mið af rökstuddum sjónarmiðum borgarbúa. Það skýrir þá tillögu sem hér er kynnt þar sem breytingar eru gerðar á áður samþykktri tillögu varðandi skólaakstur og afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum. Breytingin felur í sér að fallið er frá áformum um að leggja af skólaakstur í þremur hverfum borgarinnar, Staðahverfi, Skerjafirði og Suðurhlíðum m.a. vegna sjónarmiða sem komu fram í umsögnum foreldra en hins vegar er samþykkt að taka upp strætókort í stað farmiða sem mun hafa í för með sér verulegan ábata fyrir umrædda nemendur sem þurfa að fara um nokkurn veg til að sækja sinn grunnskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að nú skuli loks vera fallið frá þeirri hugmynd að afleggja skólaakstur. Með því er tekið undir áralanga baráttu íbúa í hverfum þar sem skólabörn þurfa að reiða sig á þjónustu skólaaksturs, að forgangsraðað sé í þágu öryggis skólabarnanna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn er að samþykkja hér að gera engar breytingar á reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskóla borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum. Að halda reglunum óbreyttum eru vonbrigði því margt í þeim er úrelt. Fulltrúi Flokks fólksins situr því hjá. Í þessum reglum er t.d. ekki verið að hugsa til þeirra barna sem búa á tveimur stöðum en þannig er það með hóp barna. Þetta eru börn sem eru t.d. viku hjá föður og viku hjá móður en eru aðeins með lögheimili á einum stað eins og lögin kveða á um að verði að vera. Í þessum tilfellum hlýtur að þurfa að gera undantekningar ef vegalengd frá lögheimili til skóla er meiri en 1,5 km. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að skóla- og frístundarráð nái sambandi við stjórn Strætó bs. Það er tímabært að gera breytingar á reglunum ef börn eiga að sitja við sama borð í þessum efnum. Strætó bs er í eigu borgarinnar að stórum hluta og verður að vinna með fagsviðunum til þess að hægt sé að virða ákvæði mannréttindastefnu og Barnasáttmálans.
Skúli Helgason víkur af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis. Alexandra Briem tekur við fundarstjórn undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2020, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2020-2021.
Samþykkt. SFS2019030055
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2020, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. maí 2020, umsókn Suðurhlíðarskóla, dags. 30. apríl 2020, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs og Suðurhlíðaskóla, dags. 13. maí 2019 og staðfesting Menntamálastofnunar á þjónustusamningi Suðurhlíðaskóla, dags. 31. janúar 2020:
Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Suðurhlíðarskóla verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 41 í stað 36 frá upphafi skólaárs 2020-2021. Sviðstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila, dags. 13. maí 2019, þar sem kveðið er á um fjölgun reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna 41 reykvísks nemanda. Breyting taki gildi frá og með skólaárinu 2020-2021.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS2020050001
- Kl. 14.50 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 28. apríl 2020:
Í aðgerðapakka borgarráðs vegna neikvæðra efnahagslegra áhrifa Covid-19 faraldursins er lögð til flýting fjárfestinga og viðhalds á vegum Reykjavíkurborgar til að auka atvinnu og umsvif í efnahagslífinu. Gert er ráð fyrir að viðbótarfjárfestingar borgarsjóðs og B-hluta fyrirtækja geti samanlagt orðið um 5 milljarðar króna á árinu og enn meiri árið 2021. Nú liggur fyrir í fjölmörgum skýrslum sem lagðar hafa verið fyrir skóla- og frístundaráð viðhaldsþörf skólahúsnæðis í borginni og því lagt til í ljósi þeirra aðgerða sem borgarráð hefur boðað að ráðist verði í enn frekari aðgerðir vegna löngu tímabærra viðhaldsverkefna í grunn- og leikskólum, frístundaheimilum og frístundamiðstöðvum borgarinnar strax á þessu ári. Á sama tíma og slík ráðstöfun yrði atvinnuskapandi yrði margra ára uppsafnaðri viðhaldsþörf skólanna mætt.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins situr hjá. SFS2020040152
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar liggur fyrir áætlun um aukningu viðhalds á skóla- og frístundamannvirkjum fyrir um 2 milljarða á þessu ári, í kjölfar ákvörðunar borgarráðs að fjölga flýtiframkvæmdum til að örva atvinnustig í borginni. Þetta fjármagn kemur til viðbótar því fjármagni sem varið er til hefðbundins viðhalds og endurbóta á mannvirkjum skóla- og frístundastarfsins í borginni en það hefur þrefaldast á örfáum árum. Erfitt er að sjá að við þær aðstæður sem uppi eru í borginni sé raunhæft að ganga lengra í aukningu en þegar er áætlað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 12. nóvember 2019 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júní 2020, um tillöguna:
Lagt er til að farið verði í úrbætur til að bæta loftgæði í Laugarnesskóla. Mælingar hafa sýnt að styrkur koltvísýrings sé þar of hár og yfir viðmiðunarmörkum í kennslustofum í eldri byggingu skólans enda ekkert loftræstikerfi þar til staðar. Hár styrkur koltvísýrings í lofti getur valdið óþægindum og slappleika. Ekki er boðlegt að bjóða nemendum og starfsfólki upp á heilsuspillandi húsnæði og því mikilvægt að farið verði í úrbætur strax. Nú þegar hefur slæmt ástand skólans haft áhrif á starfsmannamálin.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðs:
Skóla og frístundaráð leggur til að ráðist verði í loftgæðamælingar í Laugarnesskóla og í framhaldinu verði gripið til aðgerða til að bæta loftgæði í skólanum byggt á niðurstöðum mælinga.
Samþykkt. SFS2019110078
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 12. nóvember 2019 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júní 2020, um tillöguna:
Lagt er til að farið verði í loftgæðamælingar í öllum skólum borgarinnar í ljósi þeirra tilfella sem komið hafa upp að undanförnu í Hagaskóla og Laugarnesskóla. Þar mældist styrkur koltvísýrings of hár með þeim afleiðingum að nemendur fundu fyrir óþægindum s.s. slappleika og höfuðverk.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð leggur til að ráðist verði í mælingar á loftgæðum í öllum grunnskólum borgarinnar í tengslum við úttekt á ástandi húsnæðis skólanna. Niðurstöður mælinga verði nýttar til að ráðast í úrbætur þar sem þörf krefur.
Samþykkt. SFS2019110079
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 11. febrúar 2020 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020:
Lagt er til að farið verði strax í bráðabirgðaaðgerðir til að tryggja umferðaröryggi við Dalskóla í ljósi þess að ekki verður farið í framkvæmdir fyrr en í sumar til að bæta umferðaröryggi á helstu göngu- og hjólaleiðum barna til og frá skóla. Dalskóli stendur við mikla umferðargötu, þar sem engar merktar gangbrautir eru og lýsing slæm og því brýnt að gripið verði til bráðbirgðaráðstafana hið allra fyrsta.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins situr hjá. SFS2019100042
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt minnisblaði umhverfis- og skipulagssviðs er í sumar áætlað að ganga frá gangstéttum við Sögutorg, göngustíg og tröppum frá Sifjartorgi að Úlfarsbraut og að merkja og lýsa upp gangbrautir yfir Úlfarsbraut við Jaðartorg, til móts við stíg frá Lofnarbrunni og Sifjartorgi og yfir alla leggi Sögutorgs. Auk þess verður haldið áfram við frágang lóðar Dalskóla. Ljóst má telja að hvaða nýjar aðgerðir sem samþykkt væri að fara í gætu ekki komið til framkvæmdar hraðar en þær sem nú þegar eru í undirbúningi. Mikilvægt er að þær úrbætur séu vel kynntar íbúum, til dæmis á vettvangi íbúaráðs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ánægjulegt er að komið hefur verið til móts við tillögur skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lagðar hafa verið fram í ráðinu í vetur um að bæta umferðaröryggi við Dalskóla. Vonir standa til að þeim framkvæmdum sem nú þegar eru hafnar verði lokið fyrir skólabyrjun enda mikilvægt að umferðaröryggi barna í Dalskóla verði tryggt á helstu göngu- og hjólaleiðum til og frá skóla þar sem Dalskóli stendur við þunga umferðargötu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. febrúar 2020:
Lagt er til að ráðið fái kynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu á síðustu úttekt á öryggi á og við leikskóla- og grunnskólalóðir. Jafnframt er óskað eftir að ráðið fái yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið til að bæta öryggi leiksvæða skólanna.
Samþykkt. SFS2020020124
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var á fundi borgarráðs 14. maí 2020 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2020, um tillöguna:
Borgarráð samþykkir að tryggja foreldrum barna á sjálfstætt starfandi leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum þau úrræði sem borgarráð samþykkti á fundi sínum 26. mars 2020 að tryggja heimilum í borginni. Vísað er til liðar 1(a) í aðgerðarpakka borgarráðs í efnahagsmálum vegna COVID19, þar sem samþykkt var að lækka, fella niður eða leiðrétta gjöld til heimilanna vegna skerðingar þjónustu yfir samkomubann. Þannig verði tryggt að Reykjavíkurborg mæti foreldrum barna í öllum leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar, með sama hætti vegna skertrar þjónustu yfir samkomubann, óháð því hvort börnin sæki borgarreknar eða sjálfstætt starfandi einingar. Borgarráð gæti þannig að jafnræði milli heimilanna í borginni hvað úrræðið varðar.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins situr hjá. SFS2020060020
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar hefur borgarráð gengið frá ákvörðun um niðurfellingu dvalargjalda vegna skerðingar á þjónustu sjálfstætt starfandi leikskóla og frístundaheimila í góðu samráði við samtök sjálfstætt starfandi skóla. Þar sem þessu máli hefur þegar verið lokið af hálfu borgarráðs er ekki þörf á því að taka það mál upp að nýju í þessu ráði enda hefur verið komið til móts við meginóskir forsvarsmanna sjálfstætt starfandi skóla og foreldra með börn í þeim skólum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals, dags. 18. maí 2020, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2020, um tillöguna:
Lagt er til að komið verði á fót smíðavöllum fyrir grunnskólanema í hverfinu sumarið 2020. Verkefnið getur verið hvort í senn atvinnuskapandi fyrir ungmenni á komandi sumri auk þess sem um uppbyggilega og jákvæða iðju væri að ræða fyrir börnin í hverfinu. Lagt er til að íþrótta- og tómstundasviði eða skóla- og frístundasviði verði falið að koma verkefninu á fót, hugsanlega í samstarfi við forsvarsmenn annars frístundastarfs í hverfinu.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. SFS2020050151
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í minnisblaði sviðsins voru smíðavellir í fyrri mynd lagðir af ýmsum ástæðum, þar ber að nefna lítinn fyrirsjáanleika í skráningum og þar með starfsmannahaldi og efniskostnaði, sem leiddi til langra biðlista og gerði námskeiðin dýr fyrir þátttakendur. Í staðinn hefur verið boðið upp á fjölbreyttar smiðjur á vegum félagsmiðstöðva frá árinu 2013. Börn sem taka þátt í starfi félagsmiðstöðva hafa í vetur fengið tækifæri til að koma að ákvörðun um hvaða smiðjur verði í boði í sumar, en að þessu sinni verður boðið upp á m.a. útilegu, sundferð, busl í Krakkafossi, smíðafjör, ratleik, bolagerð, vatnaveröld og miðbæjarfjör. Þannig er enn í boði að taka þátt í smíðasmiðju, en sem hluti af fjölbreyttara sumarstarfi á vettvangi félagsmiðstöðva, og ekki er talin ástæða til að hverfa aftur til fyrra fyrirkomulags.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar styðja tillögu íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals um að starfræktir verði í sumar smíðavellir í hverfinu. Mikilvægt er að fjölbreytt tómstundastarf sé í boði sem næst heimilum barnanna og koma til móts við áhugasvið þeirra. Smíðavellir voru starfræktir um árabil í borginni við miklar vinsældir en því miður hafa þeir ekki verið starfræktir frá árinu 2012 þrátt fyrir ítrekaðar óskir íbúa þess efnis. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að endurskoða verði þá ákvörðun og að starfsemi smíðavalla verði endurvakin.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á þessa tillögu að komið verði á fót smíðavöllum fyrir grunnskólanema í Úlfarsárdal sumarið 2020 en tillagan kom frá íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals þann 18. maí 2020. Verkefni sem þetta hentar án efa mörgum börnum. Fram kemur að smíðavellir hafa ekki verið starfræktir í Reykjavík síðan sumarið 2012. Nefndar voru ýmsar ástæður fyrir því að þetta verkefni var lagt af t.d. misjöfn mæting en engu að síður var biðlisti. Fulltrúa Flokks fólksins fyndist það skynsamlegt að prófa þetta aftur og finna leiðir til að bæta þá þætti sem betur máttu fara í verkefninu. Á meðan ekki er hægt að nota frístundakortið í námskeið sem eru styttri en 10 vikur er mikilvægt að finna vettvang fyrir börnin að koma saman í skapandi vinnu án þess að foreldrar þurfi að greiða. Vikunámskeið á vegum borgarinnar kostar a.m.k. 10 þúsund og jafnvel meira. Þetta verkefni gæti verið mjög hagkvæmt enda fellur mikið af viði til sem nýta má í smíði. Margir myndu án efa vilja leiðbeina í þessu.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. júní 2020, um sumaropnun leikskóla og leikskólabörn sem taka færri en 20 virka daga í sumarleyfi sumarið 2020. SFS2020050026
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tilslakanir á sumarleyfum leikskólabarna sumarið 2020 voru liður í mótvægisaðgerðum borgarstjórnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Mikilvægt þótti að veita fjölskyldum sveigjanleika með sumarorlofstöku eftir fordæmalausa tíma í mars og apríl. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar meirihlutans þakka starfsfólki sviðsins fyrir góð og hröð vinnubrögð í útfærslu á þessari tillögu.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2020, um stöðu ráðninga í leikskólum og grunnskólum 10. júní 2020. SFS2020050139
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Staða ráðningarmála fyrir næsta skólaár vekur upp áhyggjur. Eftir er að ráða í 67,5 stöðugildi fyrir haustið, 30,4 stöðugildi kennara, 26,5 stöðugildi stuðningsfulltrúa. Auðvitað getur margt breyst fram á haust en það er sú óvissa sem hér ríkir sem er ekki síður erfið. Staðan var líka erfið í fyrra og einnig árið áður. Fyrir ríkt og velmegandi sveitarfélag eins og Reykjavík er þessi staða sérkennileg þótt vissulega spili margt inn í. Í skýrslu Innri endurskoðunar um rekstrarramma grunnskólanna sem kom út sumarið 2019 mátti án efa greina hluta vandans. Kennarar eru undir miklu álagi og hafa margsinnis óskað eftir að álagsþáttur þeirra í starfi verði skoðaður. Þeir kalla eftir meiri fagþjónustu, fagfólk inn í skólana til að sinna börnunum og styðja við kennara. Í skýrslunni kemur fram að nærvera fagaðila myndi létta mjög álagi á þeim. Ekki hefur verið brugðist við því. Staðan er óbreytt og hefur verið árum saman.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er áhyggjuefni að enn eitt árið virðist stefna í manneklu í leikskólum borgarinnar þar sem eftir er að ráða í fleiri störf þar en á sama tíma og í fyrra eða í 115,2 stöðugildi. Ljóst er að bregðast verður við þessari stöðu með viðeigandi aðgerðum sem séu til þess fallnar að laða starfskrafta að leikskólum borgarinnar. Betur hefur gengið að ráða í kennarastöður í grunnskólunum en í fyrra en þrátt fyrir það er enn óráðið í 67 stöðugildi sem sömuleiðis þarf að bregðast strax við svo skólarnir verði fullmannaðir þegar skólar hefjast í ágúst.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi stöðu ráðningarmála í skóla- og frístundastarfi. SFS2020050139
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 184. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi stöðu ráðninga í grunnskólum og færslu kennara milli skólastiga. SFS2020050139
- Kl. 15.30 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. maí 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 175. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi kostnað við aðkeypta vinnu vegna ráðgjafar og sérverkefna á skrifstofu skóla- og frístundasviðs árin 2018 og 2019. SFS2019110144
- Kl. 15.50 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að hagræða megi í rekstri skóla- og frístundasviðs með að rýna betur þann kostnað sem hefur farið í sérfræðiverkefni sem hafa verið keypt út. Þar kemur fyrst til álita óheyrilegur kostnaður við verkefnastjórnun og skýrslugerð vegna starfshópa sem nemur 17.957.977 kr.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Því er vísað til föðurhúsanna að kostnaður við aðkeypta vinnu hafi verið óheyrilegur á undanförnum árum. Þvert á móti er hlutfall hans einungis um 0,04% af veltu sviðsins á ársgrundvelli þrátt fyrir að gríðarleg vinna hafi farið í tímamótaverkefni á borð við ítarlegar úttektir á starfsumhverfi starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs, menntastefnu Reykjavíkurborgar og margt fleira.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi fjölda tómstunda- og félagsmálafræðinga í frístundaheimilum. SFS2019100058
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðalatriðið að mati fulltrúa Flokks fólksins er að borgaryfirvöld hafi stefnu í því sem þau eru að gera í þessu sem öðru. Hér er lagt fram svar við fyrirspurn um fjölda tómstunda- og félagsmálafræðinga í félagsmiðstöðvum. Hvaða reynslu, menntun og bakgrunn starfsmenn hafa hlýtur að taka mið af því hvaða hugmyndir eru á lofti um markmið starfsins. Til að ná árangri þarf að gera ákveðnar grunnkröfur, þannig þróast fagvitund. Það er mikilvægt að skilgreina hlutina. Hluti starfsmanna eru ófaglærðir í skóladagvistun og á frístundaheimilum borgarinnar. Skortur á fagmenntuðu fólki til starfa á frístundaheimilum eða skóladagvistum er ástæðan. Gera þarf kröfur um menntun stjórnenda. Halda þarf vel utan um ófaglært fólk, sjá til þess að þeir fái góða handleiðslu og reglulega þjálfun auk grunnþjálfunar. Í þessum störfum er mikil hreyfing sem hefur iðulega vissulega ókosti. Klárlega er víða unnið gott starf og öll erum við sammála um að tryggja börnum góða þjónustu í þroskandi umhverfi.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi fjölda tómstunda- og félagsmálafræðinga í félagsmiðstöðvum. SFS2019100059
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðalatriðið að mati fulltrúa Flokks fólksins er að borgaryfirvöld hafi stefnu í því sem þau eru að gera í þessu sem öðru. Hér er lagt fram svar við fyrirspurn um fjölda tómstunda- og félagsmálafræðinga í félagsmiðstöðvum. Hvaða reynslu, menntun og bakgrunn starfsmenn hafa hlýtur að taka mið af því hvaða hugmyndir eru á lofti um markmið starfsins. Til að ná árangri þarf að gera ákveðnar grunnkröfur, þannig þróast fagvitund. Það er mikilvægt að skilgreina hlutina. Hluti starfsmanna eru ófaglærðir í skóladagvistun og á frístundaheimilum borgarinnar. Skortur á fagmenntuðu fólki til starfa á frístundaheimilum eða skóladagvistum er ástæðan. Gera þarf kröfur um menntun stjórnenda. Halda þarf vel utan um ófaglært fólk, sjá til þess að þeir fái góða handleiðslu og reglulega þjálfun auk grunnþjálfun. Í þessum störfum er mikil hreyfing sem hefur iðulega vissulega ókosti. Klárlega er víða unnið gott starf og öll erum við sammála um að tryggja börnum góða þjónustu í þroskandi umhverfi.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Viðreisnar frá 168. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi fjölda starfsmanna í frístundastarfi sem eru háskólanemar. SFS2019090104
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi þjónustutíma félagsmiðstöðva. SFS2019100060
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 177. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi nýsköpunarskóla. SFS2020010089
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 182. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi aðgerðir vegna Covid-19. SFS2020040155
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. júní 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 185. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi framkvæmdir til að bæta umferðaröryggi við Dalskóla. SFS2019100042
- Kl. 15.55 víkur Örn Þórðarson af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver er fjárhagslegur ávinningur við sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi þegar upp er staðið. Ljóst er að viðamiklar breytingar fylgja sameiningunni, innri sem ytri og sem eru kostnaðarsamar. Ekki er hægt að leggja fjárhagslegt mat á huglæga þætti eins og tilfinningar og upplifun íbúa/foreldra sem gátu af ýmsum ástæðum ekki sætt sig við þessa breytingu og hafa e.t.v. ekki enn gert og munu jafnvel aldrei gera. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort þetta borgaði sig fjárhagslega fyrir borgina að fara í þessar breytingar? Í svari er þess vænst að kostnaðartölur fylgi með sem varpa ljósi á kostnað nauðsynlegra breytinga sem gera þarf í kjölfar sameiningarinnar.
SFS2020060260
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fram kemur í skýrslu starfshóps um öryggismál að alls hafa 73 rúður verið brotnar á 12 mánaða tímabili víðs vegar um húsnæði eins skóla í borginni. Kostnaður er fyrir árið 2019 í þessum skóla 12.023.000 kr. Hér er aðeins um einn skóla að ræða í borginni en Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla. Ef barnið er í skólanum á skólatíma þá er barnið á ábyrgð skólans. Ef það er utan skólatíma þá getur barnið verið skaðabótaskylt gagnvart skólanum, þ.e. foreldrar þess. Barn er sakhæft 15 ára. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort foreldrar beri ekki kostnað í þeim tilfellum sem fyrir liggur hver sé gerandi og að gerandi sé nemandi í skólanum og að hann hafi brotið rúðu utan skólatíma?
SFS2020060261
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að haldinn verði samráðsfundur með foreldrum í norðanverðum Grafarvogi eigi síðar en í byrjun ágúst, fyrir skólabyrjun, til að fara yfir þær breytingar sem breytt skólahald og stofnun nýsköpunarskóla mun hafa í för með sér.
Frestað. SFS2019020105
Fundi slitið klukkan 16:41
Skúli Helgason Alexandra Briem
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2306.pdf