Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 184

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 26. maí, var haldinn 184. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.41.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Hanna Halldóra Leifsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða og kynning á viðhaldsframkvæmdum á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs 2020. SFS2020050030

    Agnar Guðlaugsson og Hildur Freysdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir ítarlega kynningu á viðhaldsframkvæmdum á skóla- og frístundasviði á árinu 2020. Í ár er gert ráð fyrir 2,1 milljarði króna í almennt viðhald á húsnæði skólabygginga og hækkar um næstum 500 milljónir króna frá síðasta ári. Því til viðbótar stefnir í að viðbótarfjárveitingar til viðhalds skóla og frístundahúsnæðis verði rúmlega 700 milljónir króna svo alls verði 2,8 milljörðum króna varið til viðhalds leikskóla, grunnskóla og frístundahúsnæðis á þessu ári. Það er næstum tvöföldun á framlögum miðað við árið í fyrra og munar gríðarlega um þá viðbót. Það er mikilvægt að húsnæði sem notað er í skólastarf sé gott og standist kröfur um heilbrigði og hreinlæti. Miklar viðbætur hafa orðið á viðhaldi húsnæðis grunn-og leikskóla á síðustu árum og með átaksverkefnum bæði síðasta árs og nú í ár sem viðbragð vegna Covid er viðhald húsnæðis á vegum skóla- og frístundasviðs nú í góðum farvegi, þó enn sé verk að vinna. Þar er mikilvægt að hafa í huga húsnæði og aðstöðu frístundastarfsins. Nú er unnið að heildarúttekt á húsnæði skóla - og frístundastarfsins og verða niðurstöðurnar notaðar til grundvallar við fjárfestingaráætlun næsta árs og komandi missera.

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. maí 2020, um úthlutun úr B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Látum draumana rætast ásamt yfirliti yfir umsóknir B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs. SFS2019040020 

    Tillaga úthlutunarnefnda þróunar- og nýsköpunarstyrkja skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2020:

    1)    Umsækjandi: Dalskóli, Geislabaugur, Ingunnarskóli, Maríuborg, Reynisholt og Sæmundarskóli. Heiti verkefnis: Orð eru til alls fyrst. Kr. 4.500.000.
    2)    Umsækjandi: Fab Lab Reykjavík, þjónustumiðstöð Breiðholts, Fellaskóli, Seljaskóli, Hólabrekkuskóli, menntavísindasvið Háskóla Íslands, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Mixtúra, RG Menntaráðgjöf og Vísindasmiðja Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Skapandi námssamfélag í Breiðholti. Kr. 6.000.000.
    3)    Umsækjandi: Fossvogsskóli, Vesturbæjarskóli, Dalskóli, Kelduskóli og Háskóli Íslands. Heiti verkefnis: Lærdómssamfélag stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga. Kr. 5.000.000.
    4)    Umsækjandi: Gufunesbær. Heiti verkefnis: Frístundafræðingur á miðstigi. Kr. 4.000.000.
    5)    Umsækjandi: Húsaskóli, Foldaskóli, Engjaskóli, Hamraskóli, Rimaskóli, Klébergsskóli, Borgaskóli, Víkurskóli, Háskóli Íslands og Íslenskuþorpið. Heiti verkefnis: Vertu velkomin/n í hverfið okkar – viltu tala íslensku við mig? Kr. 6.500.000.
    6)    Umsækjandi: Ingunnarskóli, Selásskóli, Vesturbæjarskóli og menntavísindasvið Háskóla Íslands. Heiti verkefnis: Austur – Vestur, sköpunar- og tæknismiðjur. Kr. 5.000.000.
    7)    Umsækjandi: Reynisholt, Stakkaborg, Tjörn, Ægisborg og Rannung. Heiti verkefnis: Leikur – styðjandi samskipti og lærdómssamfélag. Kr. 7.000.000.
    8)    Umsækjandi: Skóla- og frístundadeild Breiðholts (Miðberg og grunnskólar). Heiti verkefnis: Betra Breiðholt fyrir unglinga. Kr. 4.000.000.
    9)    Umsækjandi: Tjörnin, Háskóli Íslands Ranntóm, Samtökin 78, Ársel, Gufunesbær, Kringlumýri, Miðberg og félagsmiðstöðvar í Reykjavík. Heiti verkefnis: Öll sem eitt! Kr. 4.000.000.
    10)    Umsækjandi: Tjörnin, Háskóli Íslands, Núvitundarsetrið, félagsmiðstöðvar og frístundaheimili. Heiti verkefnis: VAXANDI. Kr. 4.000.000.

    Samþykkt.

    Guðrún Edda Bentsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Hanna Halldóra Leifsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Menntastefna Reykjavíkurborgar er mikil vítamínsprauta í skóla og frístundastarf borgarinnar enda vönduð og framsækin stefna sem mótuð var af fagfólki á vettvangi. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að tryggja öllum starfsstöðvum sviðsins fjármagn til að innleiða meginatriði stefnunnar og farvegurinn er Nýsköpunar- og þróunarsjóðurinn þar sem annars vegar er úthlutað 150 milljónum úr sérstökum potti til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva og hins vegar 50 milljónum í samstarfsverkefni sem nú er úthlutað til í annað sinn. Hér er gott jafnvægi milli nýrra verkefna og annarra sem dafnað hafa vel og verðskulda áframhaldandi stuðning. Sjóðurinn er lifandi dæmi um áherslu borgarinnar á fjölbreytta starfsþróun sem gerir gott starf enn betra í þágu menntunar barnanna í borginni.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. maí 2020, ásamt umsögn Marenar Óskar Elíasdóttur um Læsi II, hefti 2:

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið taki upp Lesmál til þess að fylgjast með hversu margir nemendur geti lesið sér til gagns við lok 2. bekkjar og hversu stór hluti nemenda þurfi hugsanlega á sérstökum stuðningi að halda við lestrarnámið. Um leið verði hætt að nota Læsi, lesskimun í 2. bekk sem skimun á læsi og lesskilningi barna í 2. bekk.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. SFS2020050107

    Guðrún Edda Bentsdóttir og Dröfn Rafnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að próf og skimanir á stöðu barna í skólakerfinu séu nútímalegar og taki mið af veruleika þeirra nemenda sem þeim er ætlað að leggja mat á. Læsi II er rúmlega tuttugu ára gamalt próf og þykir ekki mæta sem skyldi kröfum samtímans. Prófið er norskt að uppruna og segir sína sögu að þar hefur það verið uppfært nokkrum sinnum á undanförnum áratugum. Því ber að fagna að nú liggi fyrir nýtt próf sem skrifað er frá grunni miðað við aðstæður á Íslandi og hefur farið í gegnum ítarlega stöðlun. Prófið Lesmál er gefið út af Menntamálastofnun og má ætla að það verði uppfært reglulega eftir því sem við á. Hér er því um mikilvægt og gott skref við uppfærslu á prófi sem hefur þann tilgang að finna þau börn sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda í lestrarnáminu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Til að leggja mat á framfarir nemenda í lestri eftir mismunandi kennsluaðferðum er mikilvægt að til staðar séu góð, áreiðanleg og raunprófuð mælitæki. Það er því með ólíkindum að notast hefur verið við, svo árum skiptir, úrelt mælitæki við lesskimum barna í 2. bekk eða 20 ára gamalt próf sem ekki stenst nútímakröfur. Það vekur upp spurningar um hvort niðurstöður lesskimunar síðustu ára séu marktækar og hvort þær hafi komið niður á greiningu barna með lestrarerfiðleika sem þurfa á stuðningskennslu að halda við lestrarnámið. Í ljósi þess að Menntamálastofnun hófst handa við þróun mælitækis árið 2015 sem metur framvindu nemenda í lestri og skimar fyrir lestrarerfiðleikum í 1.-10. bekk. Það mælitæki hefur gefið góða raun og því hefði átt að bregðast við fyrr og taka slíkt mælitæki í notkun.

    Fylgigögn

  4. Fram fara umræður um aukin framlög til sjálfstætt rekinna leikskóla og frístundaheimila vegna áhrifa COVID-19. SFS2020050110

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

    -    Kl. 14:15 víkur Guðmundur G. Guðbjörnsson af fundinum. 

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2020, um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur: 

    Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur skólaárið 2020 - 2021 verði eftirfarandi: 
    Waldorfskólinn Lækjarbotnum; 64 reykvískir nemendur. 
    Alþjóðaskólinn á Íslandi; 30 reykvískir nemendur. 
    Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ; 5 reykvískir nemendur. 
    Grunnskólinn NÚ, Framsýn; 15 reykvískir nemendur. 
    Ákvörðun um viðmið er tímabundin og gildir til 1. júlí 2021, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu. Með samþykkt viðmiða um hámarksfjölda er ekki fallið frá óskilyrtum rétti sveitarfélagsins til að synja einstaka umsóknum foreldra um skólavist í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags. Gerður er fyrirvari af hálfu Reykjavíkurborgar um að fjárveitingar skóla- og frístundasviðs eru gerðar með fyrirvara um fjárheimildir skv. fjárhagsáætlun á hverju ári. 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2019050183

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Til að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem er í boði, er það réttlætismál að tryggja að jöfn framlög fylgi með hverju barni hvort heldur þau gangi í borgarrekinn eða sjálfstætt starfandi skóla. Með því að fé fylgi barni ætti efnahagur foreldra ekki að koma í veg fyrir val á skóla. Auk þess myndi slíkt fyrirkomulag veita foreldrum fleiri valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í menntun barna sinna. Enda eru það foreldrarnir sem bera ábyrgð á uppeldi og menntun barna sinna og greiða fyrir námið með sköttum sínum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að allir nemendur eigi að hafa val um hvaða skóla þeir sæki, óháð rekstrarformi skóla eða sveitarfélagsmörkum af þeim sökum styðja þeir ekki tillögur sem byggja á fjöldatakmörkunum.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram Stefna í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030. SFS2020050109 

    Pawel Bartoszek tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. febrúar 2020 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 5. mars 2020:

    Lagt er til að eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur með þrifum í leik- og grunnskólum verði aukið í ljósi yfirstandandi verkfalls Eflingar. Þá er ennfremur mikilvægt að fylgst sé vel með þrifum ef sá heimsfaraldur sem kórónaveiran er, berst til landsins og breiðist út.

    Samþykkt. SFS2020020122

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 31. október 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. janúar 2020, um tillöguna:

    Flokkur fólksins leggur til að verðandi starfsmenn leikskóla sem ekki tala íslensku sæki námskeið í íslensku áður eða stuttu eftir að þeir hefja starf. Það er erfitt fyrir starfsmann að byrja á vinnustað ef þeir eiga erfitt með að tjá sig og skilja hvað sagt er. Hluti af aðlögun nýs starfsmanns sem er af erlendu bergi brotinn ætti því að vera íslenskunámskeið. Skóla- og frístundasviði ber ávallt að reyna að tryggja að starfsmönnum líði vel í vinnunni og liður í því er að þeir sem ekki tala málið fái íslenskunámskeið. Hlutfall erlendra leikskóla starfsmanna er hátt hér á landi og menntunarstig þeirra sem vinna á íslenskum leikskólum er lægra en annars staðar. Þetta er meðal þess sem kom fram í niðurstöðum TALIS-rannsóknarinnar þar sem starfshættir á leikskólum hér á landi, í Síle, Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Kóreu, Tyrklandi og Ísrael voru kannaðir. Í könnuninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir starfsfólk leikskóla og leikskólastjóra. Meðal þess sem þar kom fram var að Ísland er það land þar sem hlutfallslega flestir leikskólastarfsmenn eru fæddir í öðru landi. Hlutfallið er 13,56% hér á landi, en til samanburðar er það 6,9% í Þýskalandi og 12,3% í Noregi.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. maí 2020, um innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar fyrir haustið 2020 og stöðu biðlista 12. maí 2020. SFS2020050108

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. maí 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs, um fjölda leikskólakennara í leikskólum Reykjavíkur, launakostnað og meðalaldur leikskólakennara. SFS2019100049 

    -    Kl. 15:13 víkur Magnús Þór Jónsson af fundi. 

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt lögum eiga 66% starfsmanna í leikskóla að vera leikskólakennarar. Í dag eru 303,9 leikskólakennarar sem gerir um 22%. Ef 226,6 uppeldismenntuðum starfsmönnum er bætt við leikskólakennara þá er fjöldi stöðugilda í starfi með börnum 530,5 af 1390,2 og fer hlutfallið upp í 38%. Enn vantar um 386,5 leikskólakennara sem gerir um 28% af stöðugildum í leikskóla í vinnu með börnum. Úthlutun í fjárhagsramma leikskóla miðast ekki við lögin, heldur raun stöðu hvers skóla. Vegna skorts á leikskólakennurum er launaliðurinn lægri en ef viðmiðum laga væri náð, þ.e. 66% stöðugilda væri mönnuð leikskólakennurum. Leikskólastjórar hafa bent á þessa stöðu og hvatt til þess að úthlutun í fjárhagsramma leikskóla miðist við lögin. Það myndi jafna stöðu leikskóla og þeir sem ekki ná að ráða til sín leikskólakennara hafi meira svigrúm til að mæta börnum sínum með öðrum leiðum og meira jafnvægi fengist á milli skóla. Endurskoða þarf launakjör, starfsaðstæður og efla tækifæri kennara og stjórnenda til námsleyfa, til að styðja betur við leikskóla til að uppfylla markmið laga.

    Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum hefur áhyggjur af því hversu margir leikskólakennarar hafa verið að flytja sig yfir í grunnskólann. Tölur frá Félagi leikskólakennara sýna að frá 1. janúar – 31. desember 2019 fóru 337 félagar úr FL. Þar af fóru 213 yfir í grunnskólann. Þessar tölur eru sláandi og sýna okkur, eins og svo margar kannanir og rannsóknir hafa gert, að vinnufyrirkomulag leikskólakennara verður að færast í átt til þess sem er í grunn- og framhaldsskólum. Það eru samningaviðræður í gangi núna og nú gefst ykkur tækifæri til að gera starf leikskólakennara eftirsóknarvert. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er áhyggjuefni að árlega fækki stöðugildum leikskólakennara hjá Reykjavíkurborg. Árið 2017 voru starfandi leikskólakennarar 324 en árið 2018 voru þeir 303. Samkvæmt lögum skulu 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara, það vantar því mikið uppá að lögin séu uppfyllt. Meðalaldur leikskólakennara í Reykjavík er 51 ár og því er ljóst að mun fleiri stöðugildi leikskólakennara munu tapast á næstu árum ef ekki fer að ganga betur að ráða leikskólakennara til Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg sparar árlega 800 milljónir í launakostnað vegna skorts á fagmenntuðum leikskólakennurum.

    Fylgigögn

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að allir reykvískir foreldrar njóti jafnræðis þegar kemur að systkinaafslætti vegna frístundagjalds. Því leggja þeir til að systkinaafsláttur gildi um öll reykvísk börn hvort sem þau stunda nám við borgarrekna skóla eða sjálfstætt starfandi skóla utan Reykjavíkur. 

    Greinargerð fylgir. 

    Frestað. SFS2020050136

    -    Kl. 15:34 víkur Skúli Helgason af fundinum. Alexandra Briem tekur við fundarstjórn.

    Fylgigögn

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að skóla- og frístundasvið móti tillögur fyrir næsta skólaár um hvernig hægt verði að mæta nemendum sem misst hafa úr námi vegna skerts skólahalds í Kórónuveirufaraldrinum. Skert skólahald hefur áhrif á námsframvindu margra nemenda og bregðast verður við því með markvissum aðgerðum s.s. að skoðað verði að fjölga kennslustundum í undirstöðunámsgreinum s.s. í lestri og stærðfræði.

    Frestað. SFS2020050137

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að allir reykvískir nemendur hafi raunverulegt val um hvaða skóla þeir sæki, óháð rekstrarformi skóla eða sveitarfélagsmörkum. Til þess að gera það kleift er því lagt til að sama fé fylgi börnum óháð því hvort þau velja sjálfstætt starfandi skóla eða borgarrekinn skóla.

    Frestað. SFS2020050138

    -     Kl. 15.40 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundi.

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Ítrekuð tillaga frá 25. febrúar 2020 en þar var lagt er til að skóla- og frístundasvið sjái til þess að unnið verði í fullu samstarfi við fulltrúa starfsfólks og foreldra Fossvogsskóla varðandi endurbætur við skólann. Þá er jafnframt lagt til að komið verði á samstarfsvettvangi ofangreindra aðila við fulltrúa fagmanna og úttektaraðila sem unnið hafa að endurbótum og gert hafa mælingar og úttekt á skólahúsnæðinu og aðra þá fagaðila sem komið hafa að verkinu. Ennfremur er mikilvægt að allar upplýsingar um framkvæmdina verði aðgengilegar fulltrúum foreldra og starfsfólks. Þremur mánuðum eftir að tillagan var lögð fram hefur hún ekki verið tekin á dagskrá. Þennan tíma hefur óvissa foreldra og barna í Fossvogsskóla um málefni skólans aukist mikið. 

    Frestað. SFS2018120034

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Nú standa yfir ráðningar í kennarastöður við grunnskóla borgarinnar. Hver er staða ráðningamála skólanna fyrir næsta skólaár? Þá er óskað upplýsinga um hvort leikskólakennarar eða grunnskólakennarar hafi færst milli skólastiga eftir lagabreytinguna um eitt leyfisbréf frá 1. janúar sl. 

    SFS2020050139

Fundi slitið klukkan 15:43

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2605.pdf