Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 183

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 12. maí, var haldinn 183. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C) og Elín Oddný Sigurðardóttir (V). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 6. maí 2020, um að Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði og að Sigríður Arndís Jóhannsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu. SFS2019060216 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. apríl 2020, um heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, notkun fjarfundabúnaðar. SFS2020040074 

    Fylgigögn

  3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu ásamt jafnréttisskimun og umsóknareyðublaði: 

    Lagt er til að sumarið 2020 verði heimilt að víkja frá reglum um leikskólaþjónustu um að barn verði að vera að lágmarki í tuttugu virka daga í sumarleyfi. Foreldrum/forsjáraðilum barna, í leikskólum Reykjavíkurborgar, sem vegna skerðingar á leikskólaþjónustu í samkomubanni vegna Covid-19 á tímabilinu 16. mars til 30. apríl, þurftu að ganga á orlofsdaga sína og eiga af þeim sökum innan við 20 daga í sumarorlof gefist kostur á að sækja um fækkun sumarleyfisdaga leikskólabarns. Á sama tíma geti þeir sótt um dvöl í hverfisleikskóla sem ákveðið hefur verið að hafa opinn í sumar. Hvert barn verður þó að fá að lágmarki 10 daga sumarleyfi á þeim tíma sem heimaleikskóli þess lokar vegna sumarleyfa. Framangreint gildir eingöngu fyrir sumarið 2020. Skilyrði fyrir fækkun sumarleyfisdaga verði eftirfarandi: 
    •    Foreldrar sækja um fækkun sumarleyfisdaga fyrir 25. maí 2020.
    •    Hvert barn þarf að lágmarki að fá 10 samfellda sumarleyfisdaga á sumarorlofstíma heimaleikskóla.
    •    Foreldrar geta sótt um 5-10 daga tilslökun á sumarleyfi barna í samræmi við töku orlofs þeirra á tímabilinu 16. mars til 30. apríl 2020. 
    •    Við afgreiðslu umsókna verði horft til samanlagðrar orlofsstöðu foreldra/forsjáraðila barns og upplýsinga leikskóla um skerðingu á þjónustu. Ef foreldri fer eitt með forsjá á framangreint eingöngu við um forsjárforeldri.
    •    Sé umsókn samþykkt fær barnið dvöl í opnum hverfisleikskóla á þeim tíma sem heimaleikskóli barns lokar. Dvöl í opna leikskólanum þarf að lágmarki að vera 5 samfelldir dagar.
    •    Greiða þarf aukalega, samkvæmt gjaldskrá borgarinnar, fyrir þann tíma sem barn er í opnum hverfisleikskóla. 

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020050026

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Síðustu vikur og mánuðir hafa verið mjög óvenjulegir í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og reyndar um heimsbyggð alla. Slíkt ástand kallar á að beitt sé óvenjulegum leiðum til að mæta þörfum foreldra og annarra aðstandenda barna í viðkvæmri stöðu. Þessi tillaga felur í sér að vegna þeirrar röskunar sem COVID-19 hefur valdið verði foreldrum gefinn kostur á að sækja um styttingu á sumarorlofstíma barna sinna í leikskólum. Útfærslan verður með þeim hætti að nýtt verða þau tæplega 500 rými sem eru laus til ráðstöfunar á þeim sex leikskólum sem taka þátt í verkefninu um sumaropnun leikskóla. Málið verður nú sent til borgarráðs í flýtimeðferð þar sem stefnt er að afgreiðslu n.k. fimmtudag svo opna megi fyrir umsóknir foreldra fram til 24. maí næstkomandi.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt bréfi skólaráðs Háaleitisskóla, dags. 20. mars 2020; umsögn skólaráðs Háaleitisskóla, dags. 30. apríl 2020; umsögn skólaráðs Réttarholtsskóla, dags. 30. apríl 2020 og umsögn foreldrafélags Réttarholtsskóla, dags. 5. maí 2020:

    Lagt er til að starfseiningar Háaleitisskóla, annarsvegar starfsstöðin í Álftamýri og hinsvegar í Hvassaleiti verði aðgreindar að nýju í tvo grunnskóla frá og með skólaárinu 2020 - 2021. Álftamýrarskóli verður eftir sem áður fyrir nemendur í 1. – 10. bekk og Hvassaleitisskóli fyrir nemendur í 1. – 7. bekk. Nemendur Hvassaleitisskóla sæki 8. - 10. bekk í Réttarholtsskóla sem verði safnskóli á unglingastigi fyrir þrjá skóla í stað tveggja eins og verið hefur. Skólahverfamörkum verði breytt frá og með upphafi skólaársins 2020 - 2021 til samræmis við upplýsingar í fylgiskjali. Skólarnir taki upp sín fyrri nöfn Hvassaleitisskóli og Álftamýrarskóli. Við hvorn skólann verði skólastjóri. Hanna Guðbjörg Birgisdóttir sem hefur starfað sem skólastjóri skólans verði skólastjóri Álftamýrarskóla en ný staða skólastjóra Hvassaleitisskóla verði auglýst í vor. Við breytinguna njóti skólarnir stuðnings vinnuhóps sem vinnur að farsælum aðskilnaði eininganna og opnun Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla. Hópurinn verði skipaður núverandi skólastjórnendum, fulltrúum í skólaráði skólans (foreldra, kennara, starfsmanna og nemenda), fulltrúa frá mannauðsþjónustu, grunnskólaskrifstofu og fjármálaskrifstofu skóla- og frístundasviðs. Lagt er til að hópurinn taki til starfa nú þegar og starfi þar til breytingarnar hafa formlega gengið eftir. Í vinnunni verði sérstaklega hugað að breytingum í starfsmannahaldi og er sviðsstjóra falið að ganga frá ráðningarmálum stjórnenda vegna breytinganna eftir því sem við á.

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018010154

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í kjölfar fjármálahruns og þess samdráttar sem því fylgdi var á síðasta áratug ráðist í sameiningar ýmissa starfsstöðva í borginni, en þar lágu þó einnig faglegar ástæður að baki. Þó svo sumar þessara sameininga hafa gengið vel þá er því miður svo að í einhverjum tilvikum skiluðu sameiningar ekki þeim árangri sem vonast var til. Háaleitisskóli er einn þeirra, en fyrir því liggja til að mynda landfræðileg fjarlægð og lágt stjórnunarhlutfall. Á síðasta skólaári var ákveðið að fjölga skólastjórum um einn í tilraunaskyni. Sú tilraun gekk vel og hefur skilað bættum árangri og aukinni ánægju starfsfólks og foreldra. Það er eðlileg niðurstaða þeirrar tilraunar að stíga nú skrefið til fulls og aðgreina Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla að nýju í sjálfstæðar einingar. Það er bæði rétt og mikilvægt að viðurkenna í verki þegar fyrirætlanir ganga ekki eftir og leiðrétta þá stefnuna í ljósi fenginnar reynslu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú er komið á daginn að síendurtekin varnaðarorð fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í menntaráði Reykjavíkur áttu fullan rétt á sér þegar ákvörðun var tekin um sameiningar skóla í borginni árið 2011 þ.á.m. Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla. Sömuleiðis áttu vonbrigði foreldrafélags Hvassaleitisskóla fullan rétt á sér þegar kröfu þeirra um að fallið yrði frá sameiningu skólanna var hafnað. Í umsögnum skólaráða beggja skólanna var ekki mælt með sameiningu skólanna en engu að síður var hún keyrð í gegn þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra, fagfólks og starfsmanna og lítinn fjárhagslegan ávinning. Það hefði farið betur að þeir flokkar sem skipa meirihlutann nú og voru við völd þegar þessi ákvörðun var tekin hefðu séð að sér fyrr en þannig hefðu sparast ómældir fjármunir vegna þessarar sameiningar og óþægindi fyrir nemendur, foreldra, kennara, starfsfólk og skólastjórnendur.

    Elín Oddný Sigurðardóttir víkur af fundi undir þessum dagskrárlið vegna vanhæfis.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. apríl 2020, um ráðningu í stöðu leikskólastjóra í Ægisborg. SFS2020050027 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Ægisborgar Auði Ævarsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Sigrúnu Birgisdóttur fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. apríl 2020, um ráðningu í stöðu leikskólastjóra í Árborg. SFS2020050028 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Árborgar Sigríði Valdimarsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Sigríði Þórðardóttur fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram aðgerðaáætlun starfshópsins Vinsamlegt samfélag í kjölfar úttektar á stöðu eineltis á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. mars 2020 ásamt úttekt á eineltisferlum hjá starfsstöðum skóla- og frístundasviðs, dags. 16. september 2019. SFS2017050165 

    Nanna Kristín Christiansen og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið gegn einelti á starfstöðum skóla- og frístundasviðs enda er einelti litið mjög alvarlegum augum hér líkt og víðast annarsstaðar. Benda má á að Samtök um menntarannsóknir í Bandaríkjunum hafa ályktað að einelti sé einn mesti heilsufarsvandi sem steðjar að börnum og ungmennum. Í kjölfar úttektar á stöðu eineltismála á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs leggur starfshópurinn Vinsamlegt samfélag fram þær tillögur sem hér hafa verið kynntar. Tillögurnar hafa það að markmiði að samræma aðgerðir aðila er koma að eineltismálum barna í leikskólum, grunnskólum, frístundastarfi og skólaþjónustu. Ný menntastefna Reykjavíkur, þar sem rík áhersla er lögð á félagsfærni og sjálfseflingu, styður enn frekar við og veitir skýran ramma í vinnunni gegn einelti. Einelti verður áfram áskorun fyrir starfsstaði skóla- og frístundasviðs en ofangreindar tillögur geta orðið mikilvægur þáttur í að fyrirbyggja og vinna gegn einelti enn frekar og stuðla að bættu samfélagi á starfsstöðum sviðsins þar sem markmiðið er ávallt að öll börn leiki sér og læri í öruggu umhverfi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að viðvarandi vinna sé í gangi í leik- og grunnskólum og í frístundastarfi til að efla jákvæð samskipti og skapa góðan skólabrag í þeim tilgangi að koma í veg fyrir einelti og samskiptavanda meðal barna. Stór liður í því að ná árangri í þeim efnum er að til séu skýrir verkferlar og aðgerðáætlun fyrir allar ofangreindar starfsstöðvar skóla- og frístundasviðs. Ákveðið var árið 2016 að óháð úttekt yrði gerð á verkferlum eineltismála sú úttekt átti að hefjast í maímánuði 2017 og átti að vera lokið í september sama ár. Núna fyrst þremur árum eftir að úttektinni átti að vera lokið er hún loksins að líta dagsins ljós. Það er miður að ekki hafi verið brugðist hraðar við því fram kemur í úttektinni að einungis sex skólar af 47 ná að halda einelti og tíðni eineltis undir meðaltali öll árin 2013-2017 sem úttektin náði yfir. Í kjölfar úttektarinnar hefur verið gerð metnaðarfull heildstæð aðgerðaráætlun í eineltismálum af starfshópi hjá Vinsamlegu samfélagi með tímasettum markmiðum. Bundnar eru vonir við að þær tillögur til úrbóta sem starfshópurinn leggur til skili sér í jákvæðari samskiptum, betri skólabrag og nái þeim markmiðum að draga úr einelti. Brýnt er þó að samhliða þeirri vinnu bjóðist þeim skólum, þar sem einelti mælist mest ár eftir ár, sérstakur stuðningur til að ná tökum á vandanum.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði frá 12. september 2019 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

    Flokkur fólksins leggur til að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna a) hvernig skólar sinna forvörnum og b) hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið með kerfisbundinni yfirferð sem þessari er einnig að samræma hvorutveggja eftir því sem þurfa þykir þannig að allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis bæði hvað varðar forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnsluferli. Flokkur fólksins leggur til að athugað verði sérstaklega hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri tiltæk og aðferðir, bæði almenn og sértæk til að geta tekið á móti og unnið með kvörtunarmál um einelti af öllum stærðargráðum með faglegum og skilvirkum hætti. Kanna þarf eftirfarandi sérstaklega: Er tilkynningareyðublað á heimasíðu? Er viðbragðsáætlun á heimasíðu? Er lýsing á úrvinnslu ferli kvörtunarmála aðgengileg á heimasíðu? Er upplýsingar á heimasíðu skólans hverjir sitja í eineltisteymi skólans? Er skýrt á heimasíðu hverjir taka við eineltiskvörtunum?

    Breytingartillaga skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla- og frístundaráð leggur til að farið verði kerfisbundið yfir ferla grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna hvernig skólar sinna forvörnum og hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið er að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis varðandi forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnslu. Lagt er til að athugað verði sérstaklega hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri og aðferðir til að geta tekið á móti og unnið með eineltismál með faglegum og skilvirkum hætti.

    Samþykkt. SFS2019090179

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 26. nóvember 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. mars 2020, um tillöguna: 

    Lagt er til að gerð verði könnun á því hvort allir grunnskólar borgarinnar nái að fullnægja kröfum aðalnámskrár um kennslutíma í upplýsinga- og tæknimennt og hvort verið sé að vinna að þeim hæfniviðmiðum sem vinna skal að samkvæmt aðalanámskránni.

    Samþykkt. SFS2019110140

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Síbreytilegt samfélag og ör tækniþróun kallar á að kennsla í upplýsinga- og tæknimennt skipi veglegan sess í skólastarfinu til að undirbúa nemendur sem best undir störf og nám til framtíðar. Síbreytileg tækni kallar á mikilvægi þekkingar og færni í að flokka, vinna úr og miðla upplýsingum. Í ljósi þess er mikilvægt að allir grunnskólar nái að uppfylla kröfur aðalnámskrár um kennslutíma í upplýsinga- og tæknimennt og að unnið sé að hæfniviðmiðum sem aðalnámskráin gerir ráð fyrir. Það er því ánægjulegt að hafin sé könnun í samræmi við tillögu okkar Sjálfstæðismanna á því hvort skólarnir uppfylli þessi markmið. Mikilvægt er könnunin verði nýtt til efla kennslu á þessu sviði og gera úrbætur þar sem þörf er á.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan er góð og brýn. Hún skapar frekari færi til að draga lærdóm af hinu makalausa vori 2020 þar sem skólasamfélagið hefur þurft að innleiða breytt vinnubrögð vegna COVID-19 sem hefur haft þær jákvæðu afleiðingar að margir skólar hafa tekið upplýsingatækni í sína þjónustu í enn ríkari og kröftugri mæli en áður. Full þörf er á könnun á heildarmyndinni af því hversu víðtæk notkun grunnskólanna er á upplýsingatækni, hvort allir grunnskólarnir nái að fullnægja kröfum aðalnámskrár um kennslutíma og vinnu að hæfniviðmiðum í upplýsinga- og tæknimennt.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. maí 2020, um ráðningu í stöðu skólastjóra í Ölduselsskóla. SFS2020050029 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Ölduselsskóla Elínrós Benediktsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 171. fundi skóla- og frístundaráðs, um frímínútnagæslu í grunnskólum. SFS2019090287

    Fylgigögn

  12. Fram fer umræða um stöðu mála í Fossvogsskóla. SFS2018120034 

    -    Kl. 15:04 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Raka- og loftgæðavandamál þ.m.t. mygla í húsnæði getur verið alvarlegt heilbrigðisvandamál og þrálátt en skilningur læknisfræðinnar og heilbrigðissérfræðinga á myglu, hvernig hún dreifist og hvernig megi finna hana er í stöðugri þróun. Ekki er langt síðan litið var á umræðu um myglu sem óstaðfestar fregnir, jafnvel bábilju, en sem betur fer er í dag öldin önnur og Reykjavíkurborg hefur þegar farið í víðtækar aðgerðir til að uppræta rakaskemmdir og myglu þar sem slíkt finnst. Það er ákaflega mikilvægt að gengið sé úr skugga um það að það húsnæði sem Reykjavíkurborg býður starfsfólki, íbúum og sérstaklega börnum upp á sé ekki skaðlegt heilsu þeirra. Varðandi Fossvogsskóla hefur verið gripið til mikilla endurbóta á húsnæðinu en hópur foreldra hefur kallað eftir athugunum með sýnatöku eftir lok framkvæmda til að hægt verði að ganga úr skugga um að komist hafi verið fyrir vandann. Það eru eðlileg sjónarmið og taka fulltrúar meirihlutans undir að mikilvægt sé að tryggja góða upplýsingagjöf og samtal við foreldra og skólasamfélagið um næstu skref í málinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ítrekuð er tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 25. febrúar síðastliðnum um samstarf við foreldra og starfsfólk Fossvogsskóla vegna framkvæmda og viðgerða við skólann. Það er með ólíkindum að foreldrar hafi þurft að leita lögfræðiráðgjafar til að sækja sér nauðsynlegar og áríðandi upplýsingar varðandi málið. Lagt er til að skóla- og frístundasvið sjái til þess að unnið verði í fullu samstarfi við fulltrúa starfsfólks og foreldra Fossvogsskóla varðandi endurbætur við skólann. Þá er jafnframt lagt til að komið verði á samstarfsvettvangi ofangreindra aðila við fulltrúa fagmanna og úttektaraðila sem unnið hafa að endurbótum og gert hafa mælingar og úttekt á skólahúsnæðinu og aðra þá fagaðila sem komið hafa að verkinu. Enn fremur er mikilvægt að allar upplýsingar um framkvæmdina verði aðgengilegar fulltrúum foreldra og starfsfólks. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja brýnt að án tafar verði gerð ítarleg úttekt á ástandi skólans með tilliti til ábendinga foreldra skólans til að skera úr um hvort eitthvað sem viðkemur húsnæðinu sjálfu og viðhaldi þess hafi áhrif á heilsufar nemenda og starfsfólks. Það er ótækt að foreldrar barna upplifi að heilsu barna þeirra með dvöl í skólanum sé ógnað.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna í skóla- og frístundaráði lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í Fossvogsskóla. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar er fyllilega upplýst um alvarleg einkenni mygluskemmda sem nemendur og starfsfólk Fossvogsskóla þjást áfram af. Fulltrúi foreldra krefst þess að borgaryfirvöld komi tafarlaust á samráði við foreldra og starfsfólk, og láti framkvæma heildstæða úttekt á öllu húsnæði skólans af fagaðila með sérþekkingu á og verkfæri til að meta hvort húsnæði skólans sé heilsuspillandi af völdum myglu- og rakaskemmda. 

    Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, Agnar Guðlaugsson, Árný Sigurðardóttir og Rósa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  13. Fram fer umræða um skóla- og frístundastarf í Reykjavík í kjölfar afléttingar takmarkana á skólastarfi 4. maí 2020. SFS2020010206

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í ljósi þess að nýleg úttekt eineltismála á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs nær einungis til áranna 2014-2017 er óskað upplýsinga um hversu mörg eineltismál hafi komið upp í leik- og grunnskólum og í frístundastarfi á árunum 2017-2020. Þá er óskað upplýsinga um hvernig unnið hefur verið úr þeim málum og hversu mörg börn þ.e. þolendur og gerendur hafa þurft á sérfræðiaðstoð að halda í kjölfarið? Ennfremur er óskað upplýsinga um hvort biðlisti sé eftir slíkri sérfræðiaðstoð?

    SFS2020050062

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði leggja til að gerður verði listi yfir fyrirhugaðar framkvæmdir og viðhaldsverkefni á starfstöðum skóla- og frístundaráðs sem samþykktar hafa verið á vegum borgarinnar. Yfirlitið verði sundurliðað eftir starfstöðvum og framkvæmdatíma. Þannig gæti starfsfólk skólanna, foreldrar og íbúar í nágrenni þeirra glöggvað sig á því með einföldum hætti hvaða framkvæmdir og viðhaldsverkefni eru framundan í sínu umhverfi. Gott væri að þau verkefni sem skilgreind eru sem sérstök átaksverkefni í tengslum við viðbrögð við Covid-19 ástandinu séu merkt sérstaklega.

    Frestað. SFS2020050063

Fundi slitið klukkan 15:40

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_1205.pdf