Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 182

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 28. apríl, var haldinn 182. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.43. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P); Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Embla María Möller Atladóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram tillaga borgarstjórnar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 24. mars 2020 um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi ásamt verklagsreglum vegna fjarfunda ráða og nefnda Reykjavíkurborgar. SFS2020040074
    Heimild til að nota fjarfundabúnað á fundum fagráða. SFS2020040074

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um skóla- og frístundastarf á tímum Covid-19. SFS2020010206

  3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að leggja sérstaka áherslu á vernd barna í viðkvæmri stöðu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Þar verði sérstaklega hugað að nemendum með annað móðurmál en íslensku, nemendum í skólaforðun og unglingum í áhættuhegðun. Skóla- og frístundaráð samþykkir að beina því til sviðsstjóra að mótað verði verklag sem tryggir að a.m.k. út þetta skólaár verði fylgst vel með börnum í viðkvæmri stöðu í starfi leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Verklagið verði unnið í samráði við þjónustumiðstöðvarnar. Í verklaginu sé meðal annars lögð áhersla á að undirstrika skólaskyldu í grunnskóla. Sett verði á fót viðbragðsteymi í hverjum borgarhluta sem samhæfi vinnu skóla, skólaþjónustu og frístundamiðstöðvar í málefnum einstakra barna og hópa í viðkomandi borgarhluta. Því til viðbótar verði sett á fót samhæfingarteymi sem hafi yfirsýn yfir málefni barna og unglinga í skóla- og frístundastarfi borgarinnar sem metin eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna áhrifa COVID-19. Í þessu samhæfingarteymi sitji fulltrúar skóla- og frístundasviðs, skólaþjónustu, frístundamiðstöðva, skólastjórnenda og kennara auk fulltrúa skóla- og frístundaráðs og fundi hópurinn vikulega fram til 15. júní 2020. Að þeim tíma loknum verði metið hvort þörf er á framhaldi þeirrar vinnu. 

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. SFS2020040080

    Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, Helgi Eiríksson og Elísabet Helga Pálmadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það hefur gengið í öllum meginatriðum afburða vel að halda uppi skóla- og frístundastarfi í takt við fyrirmæli sóttvarnayfirvalda og almannavarna frá því samkomubann tók gildi um miðjan mars. Engu að síður er ástæða til að hafa áhyggjur af börnum í viðkvæmri stöðu og gera allt sem unnt er til að standa vörð um þann hóp hvort sem um er að ræða nemendur af erlendum uppruna, börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður, nemendur í skólaforðun eða ungmenn í áhættuhegðun. Tillagan felur í sér að allt verði gert til að vernda börn í viðkvæmri stöðu, tryggja að þau fari ekki á mis við þá menntun sem þau eiga rétt á og dragist ekki aftur úr jafnöldrum sínum.

    Fylgigögn

  4. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir með vísan til aðgerðaáætlunar nýrrar menntastefnu, stefnu ráðsins um notkun á upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi og jákvæðrar reynslu af fjarkennslu og fjarnámi á tímum COVID-19 faraldursins að hraða innleiðingu stafrænnar tækni í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Lögð verði áhersla á uppfærslu búnaðar, starfsþróun með áherslu á stuðning við lærdómssamfélag í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, þjónustu, markvissa notkun og framsækni með það að markmiði að nemendur fái nám og kennslu við hæfi og starfsfólk þær bjargir og aðbúnað sem duga til að virkja hæfileika og sköpunarkraft barna, ýta undir og þroska frumkvöðlahugsun og nýsköpun í fjölbreyttu skóla- og frístundastarfi. Sviðsstjóra verði falið að leggja fram áætlun með áfangaskiptingu og forgangsröðun um hraðari innleiðingu stafrænnar tækni eigi síðar en 15. júní 2020.

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. SFS2020040081

    Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, Hildur Rudolfsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Fríða Bjarney Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þrátt fyrir þau miklu og neikvæðu áhrif sem samfélagið allt verður fyrir af völdum COVID-19 faraldursins er þó mögulegt að finna tækifæri í slíkum aðstæðum. Eitt slíkt tækifæri felst í því að margir starfsstaðir hafa stigið stór skref í þá átt að hagnýta stafræna tækni með auknu fjarnámi og fjarkennslu, stafrænu félagsmiðstöðvastarfi o.s.frv. Aukin hagnýting stafrænnar tækni er hluti af aðgerðaáætlun nýrrar menntastefnu og í samræmi við stefnu um nýtingu upplýsingatækni í skóla og frístundastarfi sem samþykkt var í apríl 2018. Með tillögunni lýsir skóla- og frístundaráð vilja sínum til að setja þessi mál á oddinn á komandi mánuðum og misserum og sviðsstjóra falið að vinna forgangsröðun um hvernig megi hrinda í framkvæmd markvissum aðgerðum frá og með næsta skólaári til að tryggja nemendum og kennurum þeirra fullnægjandi búnað, kennslu, þjónustu og starfsþróun í takt við nútímalega kennsluhætti og aukið tæknilæsi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um metnaðarfulla og framsýna tillögu að ræða sem rímar vel við þá tillögu sem við Sjálfstæðismenn lögðum fram á síðasta borgarstjórnarfundi. Það hefði hins vegar verið betri bragur á því að skóla- og frístundaráð hefði sameinast um að leggja tillöguna fram sem hefði þá verið í anda þeirrar samstöðu sem allir flokkar í borgarstjórn sammæltust um varðandi aðgerðir í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Dýrmæt reynsla hefur skapast í notkun snjalltækni í skólastarfi á tímum skerts skólahalds vegna Covid-19 og samkomubannsins sem fylgdi í kjölfarið. Mikil sóknarfæri felast í að nýta tæknina enn betur til að auka fjölbreytni og sveigjanleika í skólastarfi og innleiða nýjungar í kennsluháttum. Nýta þarf þessi sóknarfæri til að flýta fyrir innleiðingu snjalltækninnar í skólastarfi til framtíðar.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um sumarstörf ungmenna árið 2020. Jafnframt lagt fram bréf framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, dags. 21. apríl 2020, um leitarstarf og virknihópa félagsmiðstöðva sumarið 2020. SFS2020040073

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata þakka góða kynningu á þeim úrræðum sem hægt er að grípa til að auka virkni unglinga í sumar. Það er mjög gott að sjá allt það fagfólk sem starfar á frístundasviði sem er tilbúið með áætlun til þessa að grípa inn í ef á þarf að halda. Einnig er aðdáunarvert að sjá allar þær fjölbreyttu og faglegu leiðir sem hér er verið að leggja til.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt bréfi skólaráðs Háaleitisskóla, dags. 20. mars 2020: 

    Lagt er til að starfseiningar Háaleitisskóla, annarsvegar starfsstöðin í Álftamýri og hinsvegar í Hvassaleiti verði aðgreindar að nýju í tvo grunnskóla frá og með skólaárinu 2020 - 2021. Álftamýrarskóli verður eftir sem áður fyrir nemendur í 1. – 10. bekk og Hvassaleitisskóli fyrir nemendur í 1. – 7. bekk. Nemendur Hvassaleitisskóla sæki 8. - 10. bekk í Réttarholtsskóla sem verði safnskóli á unglingastigi fyrir þrjá skóla í stað tveggja eins og verið hefur. Skólahverfamörkum verði breytt frá og með upphafi skólaársins 2020 - 2021 til samræmis við upplýsingar í fylgiskjali. Skólarnir taki upp sín fyrri nöfn Hvassaleitisskóli og Álftamýrarskóli. Við hvorn skólann verði skólastjóri. Hanna Guðbjörg Birgisdóttir sem hefur starfað sem skólastjóri skólans verði skólastjóri Álftamýrarskóla en ný staða skólastjóra Hvassaleitisskóla verði auglýst í vor. Við breytinguna njóti skólarnir stuðnings vinnuhóps sem vinnur að farsælum aðskilnaði eininganna og opnun Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla. Hópurinn verði skipaður núverandi skólastjórnendum, fulltrúum í skólaráði skólans (foreldra, kennara, starfsmanna og nemenda), fulltrúa frá mannauðsþjónustu, grunnskólaskrifstofu og fjármálaskrifstofu skóla- og frístundasviðs. Lagt er til að hópurinn taki til starfa nú þegar og starfi þar til breytingarnar hafa formlega gengið eftir. Í vinnunni verði sérstaklega hugað að breytingum í starfsmannahaldi og er sviðsstjóra falið að ganga frá ráðningarmálum stjórnenda vegna breytinganna eftir því sem við á. 

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að tillaga sviðsstjóra um að starfseiningar Háaleitisskóla, annarsvegar í Álftamýri og hinsvegar í Hvassaleiti, verði aðgreindar að nýju í tvo grunnskóla, verði send til umsagnar skólaráða og foreldrafélaga Háaleitisskóla og Réttarholtsskóla. 

    Samþykkt. SFS2018010154

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á síðasta áratug var ráðist í sameiningar ýmissa starfsstöðva í borginni af faglegum og fjárhagslegum ástæðum m.a. til að bregðast við afleiðingum fjármálahrunsins. Sumar þessara sameininga hafa gengið vel en í öðrum tilvikum hafa sameiningar ekki náð markmiðum sínum. Það á við um Háaleitisskóla þar sem landfræðileg fjarlægð og lágt stjórnunarhlutfall hefur sett starfseminni verulegar skorður. Á síðasta skólaári var ákveðið að fjölga skólastjórum um einn í tilraunaskyni og hefur það skilað miklum árangri og ánægju starfsfólks og foreldra. Það er skýr lærdómur af þeirri tilraun að stíga nú skrefið til fulls og gera Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla aftur að sjálfstæðum einingum. Við leggjum áherslu á að það er rétt að viðurkenna í verki þegar fyrirætlanir ganga ekki eftir og leiðrétta þá kúrsinn í ljósi reynslunnar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Nú er komið á daginn að síendurtekin varnaðarorð fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í menntaráði Reykjavíkur áttu fullan rétt á sér þegar ákvörðun var tekin um sameiningar skóla í borginni árið 2011 þ.á. m. Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla. Sömuleiðis áttu vonbrigði foreldrafélags Hvassaleitisskóla fullan rétt á sér þegar kröfu þeirra um að fallið yrði frá sameiningu skólanna var hafnað. Í umsögnum skólaráða beggja skólanna var ekki mælt með sameiningu skólanna en engu að síður var hún keyrð í gegn þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra, fagfólks og starfsmanna og lítinn fjárhagslegan ávinning. Það hefði farið betur að þeir flokkar sem skipa meirihlutann nú og voru við völd þegar þessi ákvörðun var tekin hefðu séð að sér fyrr en þannig hefðu sparast ómældir fjármunir vegna þessarar sameiningar og óþægindi fyrir nemendur, foreldra, kennara, starfsfólk og skólastjórnendur. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2020, um reglur um innritun og útskrift nemenda á táknmálssviði Hlíðaskóla ásamt reglum um innritun og útskrift nemenda á táknmálssviði Hlíðaskóla og umsögn skólaráðs Hlíðaskóla um reglurnar, dags. 27. apríl 2020. 

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020040078

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2020: 

    Lagt er til að gerður verði samningur vegna vorannar 2020 við Söngskóla Sigurðar Demetz í samræmi við neðangreindar upplýsingar um tímamagn og upphæðir. Þetta er gert í ljósi áherslna á aukna fjölbreytni námstilboða á sviði tónlistar og aukið aðgengi ungmenna að slíku námi þegar þau eru komin á unglingsaldur. Samningur kveði á um 168 stundir vegna tímabilsins 1. janúar 2020 til 31. júlí 2020. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að ganga frá samningnum. Viðbótarframlag Reykjavíkurborgar til tónlistarskólans vegna þessa nemur 2.167.865 kr. vorið 2020 og rúmast innan fjárheimilda sviðsins vegna tónlistarnáms.

    Greinargerð fylgir. 
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020040077

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að bjóða sem flestum börnum upp á aðgang að tónlistar- og söngnámi, en rannsóknir hafa sýnt að slíkt nám hefur töluverð jákvæð áhrif á þá sem það stunda. Hér er á ferðinni skemmtileg nýbreytni og gleðilegt að sjá aukna fjölbreytni sem unglingum stendur til boða í tónlistar- og söngnámi.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram fréttabréf til foreldra í norðanverðum Grafarvogi, dags. í apríl 2020. SFS2019020105 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar þakka fyrir kynningu á því starfi sem unnið hefur verið í þessum breytingum á erfiðum tímum. Um er að ræða ákaflega mikilvægar breytingar á skólastarfinu og nauðsynlegt að breytingar á samgöngum og umhverfi sem styðja við þær breytingar haldist á áætlun þrátt fyrir aðstæður. Fulltrúarnir þakka öllum sem að máli koma fyrir að halda svona vel á þessu máli til þess að þær áætlanir gangi eftir, mikilvægt er að upplýsingar um framgang málsins séu aðgengilegar og skýrar, og hér er það gert með hætti sem er til fyrirmyndar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Valgerður Sigurðardóttir leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði Valgerður Sigurðardóttir leggst enn gegn ákvörðun um sameiningar á skólum í Grafarvogi. Á sama fundi og sameining á skólum í Grafarvogi er kynnt liggur fyrir tillaga um aðgreiningu tveggja starfsstöðva Háaleitisskóla til fyrra horfs í tvo aðskilda skóla. Það verður einnig að hafa í huga að álitamál er hvort að þessar sameiningar séu brot á deiliskipulagi er varðar skipulagslög nr. 123/2010. Ef svo reynist vera þá er það mikill álitshnekkir á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Fulltrúarnir vilja skora á meirihlutann að draga þessa ákvörðun til baka enda er það ekki orðið of seint, sér í lagi þar sem öll vinna við sameiningarnar hefur tafist vegna COVID-19 og því eru foreldrar og kennarar í mikilli óvissu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir og Egill Þór Jónsson leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði, Egill Þór Jónsson og Marta Guðjónsdóttir leggjast gegn ákvörðun um sameiningar á skólum í Grafarvogi. Á sama fundi og fréttabréf til foreldra skólabarna í Grafarvogi er kynnt liggur fyrir tillaga um aðgreiningu tveggja starfsstöðva Háaleitisskóla til fyrra horfs í tvo aðskilda skóla, Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla. Það er staðreynd að síendurtekin varnaðarorð fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í menntaráði Reykjavíkur áttu fullan rétt á sér þegar sameiningar skóla í Grafarvogi og þegar Álftamýrarskóli og Hvassaleitisskóli voru sameinaðir. Það hefur tekið átta ár fyrir meirihlutann að sjá að sér og aðskilja Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla en á sama tíma loka þeir augunum fyrir þeim háværu mótmælum sem hafa verið vegna sameininga skóla í Grafarvogi, ennfremur er ekki hlustað á raddir foreldra barna og starfsfólk skólanna þegar ákvörðun var tekin. Lofað var miklu og góðu samstarfi við uppbygginu nýsköpunarskóla við foreldra en ekki hefur verið staðið við það enn. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar meirihlutans árétta að hér er verið að fjölga sjálfstæðum skólum á svæðinu, hver á sínum stað með sjálfstæðan stjórnanda og því skrítið að það sé innrammað með þeim hætti að um sameiningar sé að ræða. Spurningu um deiliskipulag hefur verið svarað skilmerkilega, en ekki er skylda til að breyta deiliskipulagi reitar fyrr en tekin er ákvörðun um annars konar notkun á umræddri lóð. Fulltrúar meirihlutans halda því jafnframt til haga að hér er um erfiðar aðstæður að ræða en starfsfólk sviðsins hefur gert allt sem mögulegt er til að viðhafa mikið og gott samráð. Nú þegar búið er að ganga frá ráðningum stjórnenda getur samráð við foreldra, íbúa, nemendur og starfsfólk farið á fullt.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. apríl 2020, um umsóknir um sumaropnun leikskóla í Reykjavík sumarið 2020. SFS2020040076 

    -    Kl. 15.48 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sumaropnun leikskóla í Reykjavík er tilraunaverkefni sem stuðlar að auknum sveigjanleika fyrir foreldra til að taka sumarorlof með börnum sínum. Í stað þess að allir taki orlof á sama tíma í júlí er nú hægt að velja að fara í frí á öðrum tíma yfir sumarið. Í ljósi aðstæðna sem nú eru uppi vegna Covid-19 og þar áður verkföll starfsmanna Eflingar má búast við því að áform fyrir sumarið 2020 hafi raskast í lífi margra fjölskyldna. Það er því erfitt að meta hvort ásóknin í nýtingu um sumaropnun endurspegli raunverulega eftirspurn á eðlilegum tíma.

    Fylgigögn

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að þeim nemendum sem ljúka grunnskóla nú í vor standi til boða að stunda fjarnámsáfanga í framhaldsskólum í sumar sér að kostnaðarlausu. Í ljósi ástandsins og skerts skólahalds að undanförnu vegna Covid-19 faraldursins og samkomubannsins er mikilvægt að nemendur eigi þess kost við skólaskilin að spreyta sig á framhaldsskólaáföngum. Þannig munu þeir kynnast framhaldsskólastiginu, geta nýtt tímann og verða betur í stakk búnir til að takast á við krefjandi nám á framhaldsskólastigi. Þetta gæti orðið hluti af virkniúrræðum fyrir þessa nemendur enda má búast við að erfitt verði fyrir þennan aldurshóp að fá vinnu í sumar. Lagt er til að Reykjavíkurborg leiti samninga við ríkið um að greiða kostnað vegna þessara fjarnámsnemenda sem ljúka munu 10. bekk nú í vor. Enda um að ræða áfanga sem ríkið þyrfti hvort eð er að greiða fyrir þegar þessir nemendur hefja nám í framhaldsskóla. 

    Frestað. SFS2020040151

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Í aðgerðapakka borgarráðs vegna neikvæðra efnahagslegra áhrifa Covid-19 faraldursins er lögð til flýting fjárfestinga og viðhalds á vegum Reykjavíkurborgar til að auka atvinnu og umsvif í efnahagslífinu. Gert er ráð fyrir viðbótarfjárfestingar borgarsjóðs og B-hluta fyrirtækja geti samanlagt orðið um 5 milljarðar króna á árinu og enn meiri árið 2021. 
    Nú liggur fyrir í fjölmörgum skýrslum sem lagðar hafa verið fyrir skóla- og frístundaráð viðhaldsþörf skólahúsnæðis í borginni og því lagt til í ljósi þeirra aðgerða sem borgarráð hefur boðað að ráðist verði í enn frekari aðgerðir vegna löngu tímabærra viðhaldsverkefna í grunn- og leikskólum, frístundaheimilum og frístundamiðstöðvum borgarinnar strax á þessu ári. Á sama tíma og slík ráðstöfun yrði atvinnuskapandi yrði margra ára uppsafnaðri viðhaldsþörf skólanna mætt.

    Frestað. SFS2020040152

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Ítrekuð er neðangreind tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 25. febrúar síðast liðnum. Óskað er eftir að fá þessa kynningu inn á næsta fund ráðsins.
    Lagt er til að ráðið fái kynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu á síðustu úttekt á öryggi á og við leikskóla- og grunnskólalóðir. Jafnframt er óskað eftir að ráðið fái yfirlit yfir athugasemdir
    sem gerðar hafa verið til að bæta öryggi leiksvæða skólanna.

    Frestað. SFS2020020124

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að samningar við Arnarskóla verið endurskoðaðir. Nokkur reykvísk börn komast ekki inn í Arnarskóla þrátt fyrir það að úrræðið sé talið henta þeim best af þeim úrræðum sem eru í boði á Íslandi. Það er því gríðarlega mikilvægt að skóla- og frístundaráð óski eftir því að samningar við Arnarskóla verði endurskoðaðir og fleiri börnum boðin þar vist. Í dag eru það fjögur reykvísk börn sem fá að ganga í Arnarskóla. Ekki er búið að taka út starfsemi Arnarskóla enda hefur slík úttekt aldrei farið fram fyrr en í fyrsta lagi á fjórða starfsári nýrra skóla. Mikið eftirlit er þó með starfseminni og full ástæða til þess að treysta þeim fagteymum sem starfa með þessum börnum og foreldrum þeirra.

    Frestað. SFS2018110109

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Stendur til að loka leikskólanum Bakka í Staðahverfi? Foreldrar virðast hafa verið að fá misvísandi upplýsingar um það hvort að starfi verði haldið áfram í húsnæðinu.

    SFS2020040150

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hversu margir einstaklingar og félagasamtök eru að nýta húsnæði Kelduskóla Vík/Korpu og Vættaskóla Engi/Borgir? Munu þessir aðilar hafa tök á því áfram að nýta húsnæðið þegar það er ekki nýtt af skólanum ef þeir óska þess líkt og þeir hafa fengið að gera hingað til.

    SFS2020040153

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 
     
    Hvað verður gert við húsnæði Kelduskóla Korpu?

    SFS2020040154

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:  

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvað skóla- og frístundasvið sé búið að gera til þess að mæta þeim vanda er mörg heimili eru í vegna COVID-19 svo sem eins og með niðurfellingu gjalda. Eins óska fulltrúarnir eftir upplýsingum um það hvaða og hvort farið hafi verið í einhverjar aðgerðir sem miðast að sjálfstætt starfandi skólum.

    SFS2020040155

Fundi slitið klukkan 16:54

Skúli Helgason Alexandra Briem

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2804.pdf