Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 181

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 10. mars, var haldinn 181. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Rannveig Ernudóttir (P), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Embla María Möller Atladóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Þórunn Steindórsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagðar fram skýrslurnar Brákarborg, mat á leikskólastarfi, dags. í október 2019; Brekkuborg, mat á leikskólastarfi, dags. í júní 2019; Jörfi, mat á leikskólastarfi, dags. í nóvember 2019; Rauðhóll, mat á leikskólastarfi, dags. í janúar 2020; Grandaskóli, ytra mat á grunnskólastarfi, dags. í nóvember 2019; Melaskóli, ytra mat á grunnskólastarfi, dags. í september 2019 og Frístundaheimilið Vinasel, ytra mat á frístundastarfi, dags. í nóvember 2019. 

    Auður Ævarsdóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. mars 2020, um tilraunaverkefni um sumaropnun leikskóla sumarið 2020. SFS2018090095 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata í skóla- og frístundaráði fagna því að borgin sé að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á aukna þjónustu og sveigjanleika þegar það kemur að því að skipuleggja sumarleyfin sín. Það er ánægjulegt að sjá að í ár hefur verið tekið mið af þeim tillögum um úrbætur, sem fram komu í matsskýrslu sem var tekin saman eftir sumaropnunina 2019, við undirbúning fyrir sumarið 2020. Hér verður þó að taka inn í myndina að í ljósi aðstæðna, bæði vegna nýafstaðinna verkfalla og Covid19 faraldsins er mikilvægt að taka mið af ólíkum þörfum íbúa borgarinnar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. mars 2020, um reykvíska nemendur í Arnarskóla, umsögn sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. mars 2020 og þjónustusamningi Arnarskóla og skóla- og frístundasviðs fyrir skólaárið 2019-2020:

    Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði heimilað að gera samning við Arnarskóla um framlag vegna fjögurra reykvískra nemenda sem nú þegar eru í Arnarskóla um skólavist þeirra skólaárið 2020-2021. Framangreint er háð því að foreldrar þeirra óski eftir skólavist og uppfyllt séu skilyrði til samræmis við það sem fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. mars 2020. Ekki verði opnað fyrir umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en mat á starfsemi skólans liggur fyrir. Þjónustusamningur vegna skólaársins 2019-2020 er samþykktur. 

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018110109

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar í skóla- og frístundaráði óska eftir því að borgarráð taki málefni reykvískra nemenda í Arnarskóla til heildstæðrar umræðu í samhengi við þá tillögu sem hér er lögð fram. Líkt og fram kemur í greinagerðinni með tillögunni hefur ekki verið framkvæmt ytra mat á starfsemi Arnarskóla en faglegar forsendur til fjölgunar reykvískra nemenda liggja ekki fyrir fyrr en það hefur verið gert. Skóla- og frístundaráð hvetur til þess að Menntamálastofnun vinni þetta mat á starfi Arnarskóla hið fyrsta, með þarfir reykvískra nemenda í huga.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. febrúar 2020 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 2. mars 2020, um tillöguna:

    Víða er aðstaða í frístundamiðstöðvum og frístundaheimilum slæm sem kemur niður á faglegu starfi þannig að erfitt getur reynst að starfa í samræmi við stefnu í frístundamálum sem gerir auknar kröfur um aukið hlutverk þessara starfsstaða. Að auki er viðhaldi víða ábótavant. Lagt er til að gerð verði sérstök úttekt á aðstöðu frístundamiðstöðva og frístundaheimila og viðhaldsþörf þessara starfsstaða. Í framhaldinu er lagt til að að gerð verði áætlun um úrbætur. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að gerð verði heildarúttekt á húsnæði og aðstöðu frístundamiðstöðva, félagsmiðstöðva og frístundaheimila þar sem mat verði lagt á viðhaldsþörf umræddra starfsstaða. Niðurstöður úttektarinnar verði nýttar til að vinna áætlun með forgangsröðun um úrbætur.

    Frestað. SFS2020020123

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað stýrihóps um framtíðarskipan tónlistarnáms, dags. 6. mars 2020, um tillögur stýrihóps um framtíðarskipan tónlistarnáms.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga:

    Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að koma í farveg úthlutun til tónlistarskóla með þjónustusamning við Reykjavíkurborg á þeim 1200 stundum sem heimild er fyrir á sviðinu til tónlistarnáms vegna innritunar haustið 2020. Um er að ræða viðbót sem færi inn í samninga vegna skólaársins 2020-2021. Lögð verði áhersla á að kennslumagnið nýtist einkum börnum á þeim svæðum borgarinnar þar sem minni þátttaka er í tónlistarnámi. Í ljósi þess er lagt til að 1200 stundum verði dreift á samningsbundna tónlistarskóla með fastar starfsstöðvar austan Elliðaáa. Þeir nemendur hafi forgang sem koma frá skólahverfum þar sem hlutfall barna í tónlistarnámi er lægst. 

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga:

    Lagt er til að skipaður verði verkefnahópur sem er falið að koma með tillögur að úrlausnum á húsnæðismálum skólahljómsveita til langs tíma, ásamt tillögum að úrbótum til skemmri tíma til að taka á aðkallandi vanda. Í verkefnahópnum sitji tveir fulltrúar fyrir hönd stýrihóps um framtíðarskipan tónlistarnáms, en einnig sitji í honum fulltrúi stjórnenda skólahljómsveita og fulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs sem hafi þekkingu á húsnæðismálum skóla og skipulagsmálum. Hópurinn fái stuðning verkefnastjóra fasteigna- og búnaðarmála á skóla- og frístundasviði. Verkefnahópurinn skili til stýrihópsins tveimur eða fleiri sviðsmyndum með tillögum sem fengið hafa frumkostnaðarmat umhverfis- og skipulagssviðs eigi síðar en 1. maí 2020. 

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. SFS2018120032

    Sigfríður Björnsdóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sköpun er einn af forgangsþáttum nýrrar menntastefnu og í því samhengi er unnið að því að efla tónlistarnám í borginni. Stýrihópur um framtíðarskipan tónlistarnáms í borginni leggur hér til að fjölgað verði tækifærum barna til tónlistarnáms einkum í þeim borgarhlutum þar sem þátttakan hefur verið hvað lægst. 1200 kennslustundum verður nú varið til fimm tónlistarskóla í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi með það að markmiði að auka aðgengi og jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Jafnframt verður sett í gang vinna við að bæta húsnæðisaðstöðu skólahljómsveita í borginni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hingað til hefur ekki verið jafnræði milli borgarhluta er varða tækifæri barna til tónlistarnáms. Niðurstöður starfshóps staðfesta það. Það er því jákvætt að tekin séu skref í rétta átt að jafnræði milli borgarhluta hvað varðar stuðning við tónlistarnám barna. Mikilvægt er að leggja áherslu á að auka tækifæri barna til að stunda tónlistarnám í þeim hverfum þar sem þátttaka barna í tónlistarnámi er einna minnst. Öll börn í borginni eiga að hafa sömu tækifæri til tónlistarnáms óháð því hvar þau búa innan borgarmarkanna.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um viðbrögð vegna kórónaveiru Covid-19. SFS2020010206 

    -    Kl. 15.15 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum. 

    -    Kl. 15.28 víkja Egill Þór Jónsson og Guðrún Kaldal af fundinum.

  7. Fram fer umræða um verkföll félagsmanna Eflingar og Sameykis hjá Reykjavíkurborg og undirritun kjarasamninga. SFS2020020015 

    -    Kl. 15.30 víkur Skúli Helgason af fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga tekur við fundarstjórn.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftir langar kjaraviðræður og krefjandi verkföll hefur nú tekist að undirrita kjarasamninga við Eflingu og Sameyki - samninga sem að mörgu leyti marka tímamót. Samningarnir fela í sér mikilvægar og tímabærar kjarabætur fyrir þá sem hafa lægstu launin og hækka þau í einstökum tilvikum umfram lífskjarasamninginn þó byggt sé á þeim mikilvæga grunni. Þá eru mikilvæg ákvæði um starfsþróun sem metin er til launa og síðast en ekki síst er tryggð stytting vinnuvikunnar sem hefur verið sérstakt áhersluatriði borgarinnar undanfarin misseri. Foreldrar, börn og starfsfólk ekki síst í leikskólum borgarinnar hafa sýnt mikið langlundargeð við erfiðar aðstæður að undanförnu og er full ástæða til að þakka þeim fyrir þolinmæðina um leið og samningsaðilum er óskað til hamingju með mikilvæga samninga sem styrkja launajöfnuð í landinu ekki síst í þágu mikilvægra kvennastétta.

Fundi slitið klukkan 15:38

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_1003.pdf