No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Ár 2020, 25. febrúar, var haldinn 180. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.37. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Kolbrún Baldursdóttir (F), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Heiðarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Stefán Geir Hermannsson, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á verkefninu Betri borg fyrir börn. SFS2019090153
Óskar Dýrmundur Ólafsson, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Helgi Eiríksson og Hulda Sólrún Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Betri borg fyrir börn er tímamótaverkefni þar sem bætt þjónusta við börn og foreldra, skilvirkni og dreifstýring eru lykilorðin. Heildrænt samstarf eininga sem þjónusta börn og fjölskyldur þeirra er skref í því að bæta þjónustu og nýta tíma, aðstöðu og fjármagn betur, stytta boðleiðir og efla möguleika með grenndarþjónustu til að bregðast hratt við málum sem upp koma. Sérstaklega er mikilvægt að samstarfið geri það kleift að grípa þau mál sem ekki tilheyra einni rekstrareiningu sérstaklega og gætu fallið milli stafs og bryggju annars. Markviss stoðþjónusta í nærumhverfi barna er leiðarljósið og greinilegt er að verkefnið fer vel af stað. Það er mikilvægt því ef vel gengur mun þessi aðferðafræði verða innleidd í öllum borgarhlutum innan fárra missera.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Betri borg verkefninu er ætlað stórt hlutverk. Flokkur fólksins leggur áherslu á að Betri borg skoði vel árangursmælingar og samstarf. Stundum er nauðsynlegt að fá utanaðkomandi aðila til að mæla árangur til að gæta hlutleysis. Árangursmælingar skipta miklu máli fyrir öll verkefni og má í þessu sambandi nefna mælingar á sérkennslu, stuðningi og skólaþjónustu til að auka gæði og virkni þjónustunnar fyrir börnin. Skóla- og frístundasvið hefur alla tíð rennt blint í sjóinn með það hvernig fjármagn, um 5 milljarðar, sem veitt er í sérkennslu nýtist börnunum þar sem litlar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Þetta tengist niðurstöðum PISA sem sýna að íslensk börn standa illa að vígi í lesskilningi samanborið við önnur lönd og 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla. Flokkur fólksins leggur áherslu á að samstarf sé aukið við heilsugæsluna í formi ráðgjafar frá læknum og sálfræðingum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar með það að markmiði að saxa á biðlistana. Hér þarf skóla- og frístundaráð að eiga frumkvæði en Betri borg verkefnið getur leikið stórt hlutverk. Minna má á í þessu sambandi að mörg hundruð börn bíða eftir fyrstu og frekari þjónustu hjá sérfræðingum skólaþjónustu.
-
Fram fer kynning á viðbrögðum og áhrifum vegna verkfalla félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg. SFS2020020015
- Kl. 13.27 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Verkfall félagsmanna Eflingar hefur mikil áhrif á skólastarf í Reykjavík og þó enginn deili um verkfallsrétt starfsfólks þá er ljóst að nauðsyn þess að samningar takist vex dag frá degi. Báðir aðilar við samningaborðið hafa mikið til síns máls og góð samstaða er um það grundvallarmarkmið að bæta sérstaklega kjör þeirra sem minnst hafa borið úr býtum. Á þeim grundvelli hefur borgin kynnt sitt tilboð sem gengur lengra en ákvæði lífskjarasamningsins á síðastliðnu ári og vonandi skapar það grundvöll til lausnar við samningaborðið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það verkfall sem nú er í gangi er með öllu óviðunandi og getur borgarstjóri farið í að leysa það umsvifalaust sé til þess vilji. Verk¬fallið hefur áhrif á rúm¬lega 3.500 leik-skóla¬börn og 1.650 not¬end¬ur vel¬ferðarþjón¬ustu. Fram hefur komið að samninganefnd borgarinnar hefur ítrekað slegið á sáttartilboð frá Eflingu. Borgin verður að fara að koma betur til móts við Eflingarfélaga. Flokkur fólksins telur að skóla- og frístundaráð eigi að beita sér með ríkari hætti t.d. með því að taka stöðu með þeim sem berjast fyrir að fá mannsæmandi laun. Leggjast þarf á eitt til að höggva á hnútinn enda kominn tími til að lyfta þessum láglaunabotni með séraðgerð. Allir vita að útilokað er að lifa með mannsæmandi hætti á þeim launum sem Eflingarfólki er boðið. Allt tal um lífskjör og lífskjarasamninga hlýtur að hljóma eins og öskur í eyru þeirra sem fátt geta veitt sér eftir að hafa greitt leigu, lán og reikninga. Hér er um að ræða hópa fólks sem á kannski eftir örfáa þúsundkalla til að lifa af þegar búið er að greiða leigu og reikninga. Verkfall kemur illa niður á börnunum sem bíða í óvissu um hvenær rútína kemst aftur á líf þeirra.
Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Láglaunastefna Reykjavíkurborgar hefur haft í för með sér mikla starfsmannaveltu í leikskólum borgarinnar sem óneitanlega hefur haft í för með sér neikvæð áhrif á menntun leikskólabarna og starfsumhverfi þeirra sem starfa og nema í leikskólum. Staðan í Reykjavík er grafalvarleg. Verkfall Eflingar hefur haft mjög mikil áhrif á fjölskyldur í Reykjavík og leikskólakennarar eru farnir að finna fyrir álaginu og pressunni sem því fylgir. Leikskólakennarar í Reykjavík styðja kjarabaráttu samstarfsmanna sinna í Eflingu heilshugar og skora því á samninganefndir að ganga að samningsborðinu og leysa deiluna farsællega.
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. febrúar 2020, um staðfestingu skóladagatals grunnskóla Reykjavíkur fyrir skólaárið 2021-2022. SFS2020020096
Frestað.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður þá skoðun sem fram hefur komið á fundi skóla- og frístundaráðs í umræðunni um staðfestingu á skóladagatali þar sem fram kemur að um sé að ræða of mikla miðstýringu. Sjálfsagt er að setja ramma en innan þess ramma eigi skólum að vera treyst til að skipuleggja dagatal sitt eins og hentar, og í samráði við kennara og jafnvel foreldra.
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú er vinna við starfsáætlanir og skóladagatöl í gangi fyrir skólaárið 2020-2021. Samkvæmt 29. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal í hverjum grunnskóla gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Í árlegri starfsáætlun skal m.a. gera grein fyrir skóladagatali þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Sérstaklega er tekið fram í þeirri lagagrein að hún skuli unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds. Fari starfsáætlun gegn kjarasamningum fara þær því jafnframt gegn lögum og eru því ólögmætar. Skóladagatöl eru í stuttu máli lýðræðislegt ferli innan skóla en ekki miðstýrt valdboð. Samráðsvinna kennara og stjórnenda innan hvers skóla mótar innihald skóladagatals sem síðan er lagt fyrir skólaráð skólans til samþykktar. Þaðan eru þau send viðkomandi skólanefnd (skóla- og frístundaráð) til staðfestingar. Vinna við skóladagatal starfsárið 2021-2022 er eðli málsins samkvæmt ekki tímabær. Kjarasamningar eru ókláraðir og hafa veruleg áhrif á skóladagatal.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er um enn eina miðlæga ákvörðunina að ræða sem tekin er fyrir alla skóla borgarinnar þannig að skólarnir hafa hvorki tillögurétt né ákvörðunarvald um hvernig vetrarfrí skólanna er skipulagt næstu tvö árin. Mikilvægt er að sjálfstæði skólanna sé virt og að skólarnir hafi möguleika á sveigjanleika í að skipuleggja vetrarfríin í samráði við kennara, starfsfólk og foreldra skólanna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt fram skóladagatal fyrir skólaárið 2021-2022 til kynningar, en afgreiðslu þess er frestað. Vilji meirihlutans í ráðinu er ekki að miðstýra eða taka fram fyrir hendur skólastjórnenda, og því leggjum við áherslu á að eiga nánara samtal við skólasamfélagið áður en málið verður tekið til afgreiðslu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 12. september 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. desember 2019:
Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundaráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að skóla- og frístundaráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að skóla- og frístundaráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólanna. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinnar í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef skóla- og frístundaráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundi ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata:
Skóla- og frístundaráð leggur til að efnt verði til árlegra samráðsfunda skóla- og frístundaráðs og skólastjórnenda í grunnskólum borgarinnar þar sem fjallað verði um þau mál sem helst brenna á skólastjórnendum hverju sinni. Miðað er við að slíkir fundir verði tvisvar á ári, einn í ágúst og annar í janúar. Þessir fundir munu koma í staðinn fyrir aðkomu kjörinna fulltrúa skóla- og frístundaráðs að hefðbundnum fundum fagskrifstofu grunnskóla með skólastjórnendum tvisvar á ári.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. SFS2019090180
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að stuðla að góðum samskiptum kjörinna fulltrúa skóla- og frístundaráðs við stjórnendur og með þessari breytingatillögu meirihlutans er stuðlað að markvissari samskiptum þessara aðila. Tvisvar á ári munu þessir aðilar funda um þau mál sem helst brenna á stjórnendum grunnskóla og setja í skýran lausnarfarveg þau mál sem kalla á nánari vinnu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að skóla- og frístundaráð styrki sérstaklega tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðanda um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Í minnisblaði sviðsstjóra er lögð fram breytingartillaga um að í staðinn fyrir að bjóða kjörnum fulltrúum á fundi fagskrifstofu grunnskóla með skólastjórnendum þá sé efnt til árlegra samráðsfunda skóla- og frístundaráðs og skólastjórnenda í grunnskólum til að fjalla um það sem brennur á hverju sinni. Það er tvennt í þessu sem fulltrúa Flokks fólksins finnst skipta máli og það er að á þessum samráðsfundum sé frjálst samtal en ekki skipulögð dagskrá. Kjörnir fulltrúar kunna að vilja spyrja skólastjórnendur um skoðun og afstöðu þeirra til mála. Flokki fólksins finnst engin ástæða til að falla frá hinum fundunum en þar er skipulögð dagskrá. Hafa má báða þessa möguleika fyrir þá kjörnu fulltrúa sem þess óska. Mikilvægast er að skólastjórnendur hafi gott aðgengi að kjörnum fulltrúum og skólaráðinu og sviðinu og að tekið sé mark á hvað skólastjórnendur segja. Eins og lýst er í skýrslu Innri endurskoðunar þá upplifa skólastjórnendur sig ekki vera með í ráðum og ekki boðið að borðinu þegar verið er að ákveða fjárhagsrammann. Þetta sýnir og segir að tengsl hafa rofnað hafi þau verið til staðar þ.e.a.s.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. september 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. desember 2019:
Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekkina þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng og stíf skilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín sem gætu notið góðs af því að stunda nám í þátttökubekk. Fram hefur komið að nú fyrst er sá eini þátttökubekkur sem er rekinn fullur en lengi vel var aðsókn ekki mikil. Ástæðan gæti verið sú að inntökuskilyrðin eru of ströng og að foreldrar barna sem ekki ná þessum viðmiðunum sækja þar að leiðandi ekki um. Vitað er að hópur barna (ekki vitað hve mörg) eru að berjast í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu. Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að sjá til þess að hverju einasta barni líði vel í skólanum og finni sig meðal jafningja. Að rýmka inntökuskilyrðin í þátttökubekk og fjölga þeim eftir þörfum gæti verið byrjun á að mæta enn frekar ólíkum náms- og félagslegum þörfum barna.
Samþykkt að vísa tillögunni til stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. SFS2018080157
- Kl. 14.35 víkur Linda Heiðarsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að inntökureglur í þátttökubekk(i) verði rýmkaðar og standi börnum með væga þroskahömlun þar með einnig til boða. Í minnisblaði er talað um að nauðsynlegt er að endurskoða reglurnar og er tillögunni vísað í starfshóp. Í minnisblaði frá sviðstjóra finnst fulltrúa Flokks fólksins það liggja í augum uppi að of ströng viðmið hafa staðið í vegi fyrir umsóknum og þátttökubekkurinn því ekki fullsetinn. Þess utan furðar Flokkur fólksins sig á því að þátttökubekkurinn skuli staðsettur í skóla þar sem ekki er hægt að taka við nemendum með fjölþættar fatlanir. Slíkt er ekki viðunandi. Allir vita að þörfin fyrir sérúrræði er mikil en með því að hafa of stíf viðmið er verið að fæla foreldra barna sem gætu notið úrræðisins frá því að sækja um. Mikilvægt er að til sé þátttökubekkur fyrir yngri börnin enda ekki hægt að hafa dreift aldursbil í einn bekk. Sú hugmynd að hefja nám í sérúrræði við upphaf grunnskólagöngu eins og nefnt er í minnisblaði þá hlýtur slíkt mat að vera einstaklingsbundið og í samráði við foreldra. Flokkur fólksins hvetur skóla- og frístundaráð til að berjast fyrir að fá viðbótarfjármagn til að fjölga þátttökubekkjum og rýmka reglurnar um viðmið til að foreldrar barna með væga þroskahömlun geti sótt um. Fjölga þarf þátttökubekkjum síðan í samræmi við þörf og nauðsyn.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu húsnæðismála Fossvogsskóla. SFS2018120034
Agnar Guðlaugsson og Kristján Sigurgeirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn þakkar fyrir góða kynningu á stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Mikil vinna hefur verið lögð í að bregðast við þeim leka- og loftgæðavanda sem kom upp í skólanum á síðasta ári og hefur verið skipt um byggingaefni með tilliti til loftgæða og fleiri þátta á þeim stöðum sem sýnataka hefur leitt í ljós að aðgerða væri þörf. Mikilvægt er að kynna jafnóðum stöðu mála fyrir foreldrum og starfsfólki Fossvogsskóla og liggur fyrir skýr vilji skóla- og frístundasviðs að skerpa enn frekar á upplýsingamiðlun til skólasamfélagsins. Skólastjórnendum Fossvogsskóla og starfsfólki skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs eru færðar kærar þakkir fyrir fumlaus og góð vinnubrögð varðandi framkvæmdirnar undanfarna mánuði.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins þakkar kynningu á stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Miklar framkvæmdir eru að baki en engu að síður eru vísbendingar um að vandinn kraumi enn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið þær upplýsingar að í nóvember hafi aftur komið upp leki þar sem yngstu börnin eru og aftur séu komin upp veikindi. Óskað hefur verið eftir frekari mælingum. Margir foreldrar eru uggandi og finnst þeir ekki fá nægja hlustun á málið núna. Mygluvandi í Fossvogsskóla á sér langa sögu og hefur verið fyrir skólastjórnendur, foreldra og börn mikil þrautarganga. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að gerð verði ítarlegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins hefur einnig lagt til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fleiri myglumál eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag sem allir sem að málinu koma geti verið sáttir við. Í einhverjum tilfellum gæti þurft að að leita til utanaðkomandi fagaðila sem eru e.t.v með fullkomnari tækni til að mæla myglu en Heilbrigðiseftirlitið hefur yfir að ráða.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið sjái til þess að unnið verði í fullu samstarfi við fulltrúa starfsfólks og foreldra Fossvogsskóla varðandi endurbætur við skólann. Þá er jafnframt lagt til að komið verði á samstarfsvettvangi ofangreindra aðila við fulltrúa fagmanna og úttektaraðila sem unnið hafa að endurbótum og gert hafa mælingar og úttekt á skólahúsnæðinu og aðra þá fagaðila sem komið hafa að verkinu. Ennfremur er mikilvægt að allar upplýsingar um framkvæmdina verði aðgengilegar fulltrúum foreldra og starfsfólks.
Frestað.
- Kl. 15.09 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.
-
Lögð fram skýrslan Gott samstarf – betra fyrir börnin, skýrsla starfshóps um markvissara samstarf frístundaheimila, félagsmiðstöðva og grunnskóla í Reykjavík. SFS2018110153
Guðrún Edda Bentsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 15.45 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn þakkar fyrir góða skýrslu. Mikil vinna hefur verið lögð í að fá glögga mynd af því hvernig samstarfinu er háttað í öllum hverfum borgarinnar. Það er greinilega mikill vilji hjá stjórnendum að bæta úr því sem er ábótavant í samstarfinu til að gera umhverfi barnsins sem best hvort sem það er í skólanum eða frístundastarfi. Aðgerðaáætlunin er skýr og verið að taka á þeim þáttum sem er ábótavant s.s. eins og virðing fyrir störfum hvors annars, afnot af húsnæði og nýting á þeim mannauði sem er í hverju skóla- og frístundastarfi. Tilkoma frístundaráðgjafa í fullu starfi er mikið framfaraskref sem m.a. hefur dregið verulega úr starfsmannaveltu og hafa þeir greinilega aukið samvinnu og tengingar á milli grunnskóla og frístundastarfsins með sinni vinnu og aukið fagmennsku út frá sjónarmiði barnsins og þörfum þess.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að gott samstarf og samvinna sé milli grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva sem eru innan sama hverfis til að geta veitt börnum og unglingum heildstæða þjónustu. Tillögum starfshópsins um sameiginlega starfs/fræðsludaga, samstarf um óhefðbundna daga, meðferð og miðlun upplýsinga og samnýtingu á húsnæði eru mikilvægir þættir í að efla samstarfið milli þessara stofnana, bæta starfsumhverfi, fagstarfið og uppeldisumhverfi barna og ungmenna. Samþykkt var í borgarráði 17. maí 2018 að ráða fagmenntaða starfsmenn í fullt starf á frístundaheimili skóla- og frístundasviðs sem hefðu vinnuskyldu að hluta með börnum í 1. – 4. bekk á skólatíma m.a. til að vinna með börn sem þurfa sérstaka hvatningu og vinna gegn félagslegri einangrun og neikvæðri hegðun og efla sjálfsmynd þeirra. Eingöngu átta til tólf tómstunda- og félagsfræðingar sinntu þessum störfum sem gefur til kynna að ekki allir skólar eða öll hverfi hafi notið þessarar þjónustu og er mikilvægt að fleiri skólar fái notið hennar og standi til boða í öllum grunnskólum.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um Framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2019-2030 ásamt Framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2019-2023, dags. í október 2019. SFS2019100159
Samþykkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata fagna aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd. Það er gífurlega mikilvægt að efla Barnavernd Reykjavíkur og skýra umboð og hlutverk. Mjög gott er að sjá þann mikla samhljóm sem er milli framkvæmdaáætlunarinnar og menntastefnu Reykjavíkurborgar. Auk þess að verkefni á borð við Opinskátt um ofbeldi og Betri borg fyrir börn efla enn frekar þær aðgerðir sem áætlunin leggur áherslu á. Fulltrúarnir leggja áherslu á að aðgerðaáætlunin verði innleidd markvisst í nánu samstarfi velferðarsviðs við skóla- og frístundasvið, og að samstarf í þessum mikilvæga málaflokki milli borgarinnar og annarra aðila, Barnaverndarstofu, heilbrigðiskerfisins og annarra, sé markvisst og samráð reglulegt. Mikilvægt er að verkferlar séu skýrir og hlutverk hvers og eins sviðs séu skýr til að samskonar þjónusta sé eins í öllum hverfum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds á umhverfis- og skipulagssviði, dags. 18. febrúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 179. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi opnun á mötuneyti Dalskóla. SFS2019060106
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Óskað var upplýsinga um mötuneyti Dalskóla, hvenær það kemst í notkun. Fram kemur að það verði nú í mars. Þetta er því miður eitt af þeim verkum sem hefur tafist mikið. Í maí í fyrra bókaði Flokkur fólksins að mikilvægt væri að finna lausn á þessum málum fyrir skólabyrjun haustið 2019. Fram til þessa hefur Dalskóli því ekki getað uppfyllt þær lagalegu kröfur sem gerðar eru til skóla um sbr. einkum 1. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið.
- Kl. 15.55 víkja Kristján Gunnarsson og Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur með þrifum í leik- og grunnskólum verði aukið í ljósi yfirstandandi verkfalls Eflingar. Þá er ennfremur mikilvægt að fylgst sé vel með þrifum ef sá heimsfaraldur sem kórónaveiran er, berst til landsins og breiðist út.
Frestað. SFS2020020122
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Víða er aðstaða í frístundamiðstöðvum og frístundaheimilum slæm sem kemur niður á faglegu starfi þannig að erfitt getur reynst að starfa í samræmi við stefnu í frístundamálum sem gerir auknar kröfur um aukið hlutverk þessara starfsstaða. Að auki er viðhaldi víða ábótavant. Lagt er til að gerð verði sérstök úttekt á aðstöðu frístundamiðstöðva og frístundaheimila og viðhaldsþörf þessara starfsstaða. Í framhaldinu er lagt til að að gerð verði áætlun um úrbætur.
Frestað. SFS2020020123
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að ráðið fái kynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu á síðustu úttekt á öryggi á og við leikskóla- og grunnskólalóðir. Jafnframt er óskað eftir að ráðið fái yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið til að bæta öryggi leiksvæða skólanna.
Frestað SFS2020020124
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um stöðu kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum borgarinnar og hvort skólarnir séu að uppfylla viðmið aðalnámskrár varðandi kennslu í þessu fagi. Óskað er svara við því hvernig kennslunni sé háttað, hvort fjármálalæsi sé sér námsgrein, hluti af stærðfræðikennslu, lífsleikni eða öðrum greinum og hversu mörgum kennslustundum sé varið í kennsluna á skólaárinu. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvaða námsefni er aðallega stuðst við og hvort námsárangur í fjármálæsi sé metinn.
SFS2020020125
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um stöðu innleiðingar þeirra 11 tillagna sem sneru að innleiðingu frístundastefnunnar og bættu fagumhverfi frístundamiðstöðva og frístundastarfs sem samþykkt var í borgarráði 18. maí 2018.
SFS2020020126
Fundi slitið klukkan 16:11
Skúli Helgason Alexandra Briem
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2502.pdf