Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 179

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 11. febrúar, var haldinn 179. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Embla María Möller Atladóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs árið 2020, dags. 5. febrúar 2020, yfirlit yfir umsóknir um almenna styrki skóla- og frístundaráðs árið 2020 og reglur um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs. Lögð er fram svohljóðandi tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki skóla- og frístundaráðs 2020, í þeim tilfellum þar sem lagt er til veittur að verði styrkur að hluta er skilyrt að styrkupphæð verði varið í tilgreinda þætti sem fram koma í minnisblaði sviðsstjóra, dags. 5. febrúar 2020: 

    1)    Umsækjandi: ADHD samtökin. Heiti verkefnis: Nám og tómstundir með ADHD. Kr. 600.000.

    2)    Umsækjandi: Alexía Björg Jóhannsdóttir. Heiti verkefnis: Kynfræðsla Pörupilta. Kr. 500.000.

    3)    Umsækjandi: Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavíkur. Heiti verkefnis: Stelpur filma. Kr. 500.000.

    4)    Umsækjandi: Félag Horizon. Heiti verkefnis: Pangea stærðfræðikeppni. Kr. 250.000.

    5)    Umsækjandi: Laila Margrét Arnþórsdóttir. Heiti verkefnis: Tilfinningadrekinn minn. Kr. 300.000.

    6)    Umsækjandi: Landssamband slökkviliðsmanna. Heiti verkefnis: Eldvarnarátak 2019. Kr. 300.000.

    7)    Umsækjandi: Markús Már Efraim. Heiti verkefnis: Rithöfundaskólinn í Gerðubergi. Kr. 350.000.

    8)    Umsækjandi: Móðurmál – samtök um tvítyngi. Heiti verkefnis: Hýsing gagna í Gegni. Kr. 200.000.

    9)    Umsækjandi: Móðurmál – samtök um tvítyngi. Heiti verkefnis: Innkaup skólagagna. Kr. 100.000.

    10)    Umsækjandi: Rauði krossinn. Heiti verkefnis: Krakkanám. Kr. 250.000.

    11)    Umsækjandi: Rithöfundasamband Íslands. Heiti verkefnis: Skáld í skólum. Kr. 600.000.

    12)    Umsækjandi: SÍM – Samband íslenskra myndlistarmanna. Heiti verkefnis: Mánuður myndlistar. Kr. 250.000.

    13)    Umsækjandi: Tónskóli Sigursveins. Heiti verkefnis: Lögin hans Aðalsteins Ásbergs. Kr. 500.000.

    Samþykkt. SFS2019100191

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir tillögur valnefndar að styrkjum, en áréttar að ástæða er til að ræða nánara samstarf milli sviða borgarinnar um fyrirkomulag almennra styrkja og þykir ástæða til að endurskoða úthlutunarferlið og samræma viðmið og yfirsýn. Ráðið vísar því samþykktinni til forsætisnefndar með ósk um að hún hafi frumkvæði að endurskoðun á þessu ferli.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt áfangaskýrslu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík, dags. í desember 2019:

    Lagt er til að laus rými í leikskólum borgarinnar verði kynnt og boðin foreldrum laus til umsóknar. Jafnframt verði innleiðingu áður samþykktrar ákvörðunar um 7% heildarlækkun á rekstrarleyfum leikskóla flýtt með þeim hætti að síðari áfangi breytingarinnar taki gildi 1. mars 2020 í stað 1. ágúst 2020.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. SFS2019100023

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í tengslum við Brúum bilið aðgerðaáætlunina hefur tekist að fjölga talsvert leikskólarýmum í borginni og bjóða yngri börnum í leikskóla. Jákvæð afleiðing af þeirri stöðu er að tekist hefur að útrýma biðlistum á allmörgum leikskólum borgarinnar og þar eru nú laus pláss sem hægt er að bjóða nýjum börnum. Alls er um að ræða rúmlega 200 rými og er hér lagt til að athygli foreldra í borginni verði vakin á þessum lausu plássum og þeim gefinn kostur á að sækja um fyrir börn sín. Samhliða er stigið skref í að ljúka innleiðingu á ákvörðun frá 2018 um að stækka leikrými barnanna með því að skilgreina færri börn á hverri deild.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 10. janúar 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

    Flokkur fólksins vill enn og aftur leggja það til að borgarmeirihlutinn setji málaflokk sérskóla í forgang og veiti í hann meira fé. Nú hefur fjárhagsáætlun nýlega verið samþykkt og var ekkert í henni sem liðkar til í þessum efnum. Lagt er til að fjármálaskrifstofan leggist yfir þetta í samvinnu við fjármálastjóra skóla- og frístundarsviðs og komi með tillögur til borgarráðs hvar taka megi fjármagn til að fjölga rýmum í skóla eins og Klettaskóla og mögulega í Arnarskóla. Arnarskóli er að öllu leyti til fyrirmyndar og einmitt sá skóli sem Reykjavík ætti að horfa til þegar stofna skal nýjan sérskóla í Reykjavík.

    Samþykkt að vísa tillögunni til stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. SFS2018080155

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 18. júlí 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. febrúar 2020:

    Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð kalli markvisst og kerfisbundið eftir upplýsingum frá foreldrum sem telja að börn þeirra fái ekki náms-, félags, og/eða tilfinningalegum þörfum sínum mætt í hinum „almenna skóla“ byggðan á stefnu borgarinnar sem kallast Skóli án aðgreiningar. Eins og Flokkur fólksins hefur margítrekað þá er verið að taka áhættu með andlega heilsu barna ef þau eru sett í aðstæður til langs tíma þar sem þau fá ekki notið sín í. Barn sem upplifir sig ekki vera meðal jafningja og finnur sig einangrað er í áhættu með að þróa með sér depurð og kvíða. Eins og fram hefur komið m.a. í könnun Velferðarvaktarinnar er hópur barna sem neitar að fara í skólann vegna vanlíðan sem þau tengja skólanum. Hópurinn hefur farið stækkandi undanfarin ár. Þessi börn geta verið alla ævi að byggja sig upp eftir áralanga veru í skólaaðstæðum sem ekki hentar þeim.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2019070105

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 22. október 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. janúar 2020: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að sendur verði upplýsingapóstur á alla dagforeldra í Reykjavík þar sem kemur fram hver sé tengiliður þeirra hjá Reykjavíkurborg. Þar verði gefið upp nafn, netfang og símanúmer sem hægt er að ná í viðkomandi tengilið á vinnutíma.

    Samþykkt. SFS2019100141

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að brugðist hafi verið við tillögunni og búið sé að gera bragarbót á upplýsingaflæði til dagforeldra.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2020, um börn á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2019-2020 ásamt yfirlit yfir nemendafjölda eftir skólum og árgöngum 1. október 2019. SFS2020020023 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla og frístundaráð þakkar fyrir upplýsingar um börn á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík. Sérstaka athygli vekur að af 15.385 börnum á þessum aldri með lögheimili í Reykjavík þá eru 179 börn þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hvar og hvort þau stunda nám í grunnskóla hérlendis eða erlendis. Ráðið beinir þeim tilmælum til sviðsins að vekja athygli mennta- og menningarmálaráðuneytis og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar á þessari staðreynd með það í huga að komið verði á fót samræmdu verklagi til að tryggja að engin börn fari á mis við skólagöngu á Íslandi.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2019, um ráðningu í stöðu skólastjóra í Engjaskóla. SFS2020020016 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Engjaskóla Álfheiði Einarsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs í janúar 2020. SFS2019100018

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf skóla- og frístundasviðs fyrir tímabilið október 2019 – janúar 2020. SFS2019100020

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. febrúar 2020, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 5572. fundi borgarráðs, varðandi jafnréttismat á breyttum opnunartíma leikskóla. SFS2020010202

    Freyja Barkardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúum Sjálfstæðisflokks þætti betri bragur á því að fleiri kæmu að úttekt á jafnréttismati vegna fyrirhugaðra breytinga á opnunartíma leikskóla. Um er að ræða umdeilt verkefni sem mikilvægt er að hafið verði yfir allan vafa og sátt skapist um það. Samhliða úttektinni yrði utanaðkomandi aðili fenginn til ráðgjafar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil umræða hefur skapast um tillögu ráðsins um breyttan opnunartíma leikskóla og er eðlilegt að skoðanir séu skiptar þó nauðsynlegt sé að minna á að tillagan er lögð fram til að minnka álag í leikskólum og standa vörð um það mikilvæga starf sem fram fer í leikskólum borgarinnar. Brýnt er að greina vandlega áhrif breytinganna á mismunandi hópa foreldra og kalla eftir viðhorfum þeirra og þess vegna er mikilvæg sú vandaða vinna sem stendur yfir við að undirbúa jafnréttismat á áhrifum tillögunnar. Matið er unnið samkvæmt leiðbeiningum fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar og sérfræðingar í kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun frá fjármála- og áhættustýringarsviði og skóla- og frístundasviði stýra vinnunni við gerð matsins.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 174. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjölda barna á biðlistum eftir sérfræðiþjónustu. SFS2019110080

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Biðlistar eftir sérfræðiþjónustu lengjast stöðugt og fjölgun tilvísana í skólaþjónustu hefur aukist um 23% milli áranna 2017-2019. Alls bíða 759 börn eftir fyrstu þjónustu og frekari þjónustu. Þá er biðlistinn misjafn eftir hverfum og er lengstur í þremur þjónustumiðstöðvum, Laugardal/Háleiti, Breiðholti og í Grafarvogi og Kjalarnesi. Taka þarf á þessum biðlistavanda með raunhæfum úrræðum í samræmi við ábendingar í skýrslu Innri endurskoðunar frá júlí 2019:,, Á fundum með skólastjórnendum kom ítrekað fram að þeir telja að inn í skólana vanti sérfræðinga til að fást við vandamál nemenda, svo sem sálfræðinga og félagsráðgjafa. Þjónusta við skólana væri vissulega í boði á þjónustumiðstöðvunum en talað var um að það þyrfti oft að bíða lengi eftir henni og hún væri fyrst og fremst greining á vanda nemandans en ekki meðferð, að skólastjórnendur telja að inn í skólana vanti sérfræðinga til að fást við vandamál nemenda, svo sem sálfræðinga og félagsráðgjafa. Þjónusta við skólana væri vissulega í boði á þjónustumiðstöðvum en það þyrfti oft að bíða lengi eftir henni .” Þessar ábendingar eru í samræmi vð skýrslu starfshóps um Nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara um að þjónustu skólasálfræðinga og annarra fagaðila verði í auknum mæli beint inn í skólana í samræmi við ákvæði grunnskólalaga. Hér er bent á lausnir á biðlistavandanum sem ber að taka alvarlega.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt að fram komi að bið eftir fyrstu þjónustu þýðir hér að skólaþjónustan hefur sett sig í samband við skólann en ekki foreldrana, en það þarf ekki að þýða að fjölskyldan hafi ekki fengið neina þjónustu eða námskeið á vegum þjónustumiðstöðvarinnar. Mikil aukning hefur orðið á fjölda umsókna um sérfræðiþjónustu síðustu ár, og þó svo lenging biðlista sé áhyggjumál, er rétt að halda til haga að þeim börnum sem þiggja þjónustu hefur fjölgað úr 1.243 árið 2017 í 1.481 árið 2019. Þó er lenging biðlista til marks um að enn frekari viðbragða sé þörf og það er mikilvægt verkefni bæði skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs. Í því skyni hefur verið stofnaður sameiginlegur stýrihópur ráðanna og tilraunaverkefnið 'Betri borg fyrir börn' hefur verið sett í gang í Breiðholti, með það að markmiði að útfæra skólaþjónustuna betur. Einnig er starfandi starfshópur um endurskoðun úthlutunarlíkans til grunnskólanna og mikilvægt að þeirri vinnu verði lokið fljótt og vel.

    -    Kl. 15.10 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 175. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi hækkun niðurgreiðslna til dagforeldra. SFS2019110146 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 171. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi viðbrögð við viðhorfskönnun starfsmanna. SFS2019090291

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 175. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi umferðarfræðslu í leik- og grunnskólum. SFS2019110143

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Víða er góð og metnaðarfull umferðarfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar og til fyrirmyndar er samstarf leikskólanna við Samgöngustofu. Í svarinu er ekki um tæmandi upplýsingar að ræða. Minna virðist vera um umferðarfræðslu á miðstigi og unglingastigi en á yngri stigum. Mikilvægt er að þessir árgangar fái þessa fræðslu einnig, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að notkun fisfarartækja hefur aukist á borð við rafhlaupahjól og vespur en mikilvægt er að kenna unglingum umgengni við þessi farartæki. Brýnt er að allir leik- og grunnskólar séu hvattir til að bjóða upp á markvissa umferðarfræðslu.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. febrúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 177. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjölda leikskólakennara eftir hverfum. SFS2020010088

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vekja athygli á því að Reykjavíkurborg rekur 63 leikskóla. Í lögum um leikskóla kemur fram að hann sé fyrsta skólastigið en þar er kveðið á um að tveir af hverjum þrem starfsmönnum skulu vera menntaðir leikskólakennarar. Leikskólar gegna mikilvægu hlutverki í menntun barnanna okkar. Í nóvember 2019 voru starfandi í borgarreknum leikskólum Reykjavíkurborgar 351 leikskólakennari í 301 stöðugildi en heildarfjöldi stöðugilda er um 1400. 

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Leikskólastjórar hafa áhyggjur af lágu starfshlutfalli og af fámennum hópi leikskólakennara og annarra háskólamenntaðra í störfum með börnum í leikskólum Reykjavíkurborgar, miðað við aðra starfsmenn. Ef öll háskólamenntun er borin saman við heildina, þá eru: 62 leikskólastjórar 4%, 303,8 leikskólakennarar 19,55%, 224,1 uppeldismenntaðir starfmenn, 14,42% og 158,2 starfsmenn með aðra háskólamenntun 10,%, 721,5 aðrar starfsstéttir 46,4% og 83,6 í mötuneyti og ræsting 5%. Öll háskólamenntun er innan við helmingur af heildinni. Samkvæmt lögum ættu 66% eða 2/3 hluti starfsmanna að vera með leikskólakennaramenntun, sem segir okkur að það ættu að vera 1025 stöðugild mönnuð leikskólakennurum en eru í dag 303 eða 365,8 ef leikskólastjórar eru taldir með sem gerir 23,5%. Það vantar 659 leikskólakennara miðað við heildarstöðugildi leikskólanna í dag til að uppfylla lög um leikskóla. Skortur á leikskólakennurum og annarri fagmenntun, ásamt mikilli starfsmannaveltu sem er vel yfir 30%, veldur miklu álagi, bæði á börn og starfsmenn sem hefur mikil áhrif á starfsumhverfi leikskóla. Endurskoða þarf launakjör og efla tækifæri starfsmanna til námsleyfa, til að styðja betur við leikskóla til að uppfylla markmið laga. Hér þarf að gera stórátak og ná sátt hjá öllum flokkum til að takast á við vandann.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Metnaður borgarinnar stendur til þess að standa vörð um og bæta enn frekar það gæðastarf sem fram fer í leikskólum borgarinnar. Stærsta áskorun leikskólastigsins á landinu öllu er skortur á menntuðum leikskólakennurum til að fylla störf þeirra sem fara á eftirlaun. Mikið hefur verið gert til að bæta starfsumhverfi starfsfólks leikskóla og fleira er í burðarliðnum. Viðræður um betri kjör starfsfólks standa yfir í kjarasamningum þessa dagana og ríki, háskólar og borgin vinna saman að því að hvetja ungt fólk til að leggja stund á kennaranám. Þar hefur nemendum fjölgað nokkuð á allra síðustu árum og er nauðsynlegt að allir leggi sitt af mörkum til að sú þróun haldi áfram.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um embættisafgreiðslu sviðsstjóra, dags. 5. febrúar 2020, eitt mál. SFS2019020033

    -    Kl. 15.35 víkja Embla María Möller Atladóttir og Kristján Gunnarsson af fundinum.

    -    Kl. 15.40 víkur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að farið verði í úrbætur á aðstöðu fyrir félagsmiðstöð við Sæmundarskóla en bæði foreldrar og starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar hafa ítrekað kallað eftir því að aðstaðan verði bætt. Gert var ráð fyrir við hönnun skólans að aðstaða væri fyrir félagsmiðstöð innan hans en sú aðstaða hefur nánast frá upphafi verði nýtt í skólastofur. Bent hefur verið á að ákjósanlegast sé að koma upp varanlegri aðstöðu fyrir félagsmiðstöðina austan megin við Sæmundarskóla til framtíðar. Á meðan slíkri aðstöðu hefur ekki verið komið upp er mikilvægt að farið verði í bráðabirgðaaðgerðir til að mynda með færanlegum kennslustofum.

    Frestað. SFS2020020040

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að farið verði strax í bráðabirgðaaðgerðir til að tryggja umferðaröryggi við Dalskóla í ljósi þess að ekki verður farið í framkvæmdir fyrr en í sumar til að bæta umferðaröryggi á helstu göngu- og hjólaleiðum barna til og frá skóla. Dalskóli stendur við mikla umferðargötu, þar sem engar merktar gangbrautir eru og lýsing slæm og því brýnt að gripið verði til bráðbirgðaráðstafana hið allra fyrsta.

    Frestað. SFS2019100042

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvenær mötuneyti í Dalskóla verði tekið í gagnið.

    SFS2019060106

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvenær nýjar Chrome tölvur verða afhentar Seljaskóla í stað véla sem skemmdust í bruna sem varð í skólanum.

    SFS2020020041

  21. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    SAMFOK hefur lengi fengið þau skilaboð frá foreldrum að töluvert vanti upp á að starfsemi skólaráða sé samkvæmt lögum og reglum. Við teljum það mjög alvarlegt þegar ráðin eru ekki rétt skipuð og starfsemi þeirra ekki samkvæmt lögum og reglum. Enda er þá ekki um sannarlegt samstarf að ræða. 1. Hefur skóla- og frístundasvið gert sér grein fyrir þessari stöðu og hversu alvarleg hún er? 2. Er einhver starfsmaður skóla- og frístundasviðs sem ber ábyrgð á því að fylgjast með því hvort skólaráðin starfi eftir lögum og reglum? Ef ekki teljið þið það nauðsynlegt? 3. Eru einhver viðurlög við því þegar skólaráðin starfa ekki samkvæmt lögum og reglum? 4. Er til einhver áætlun um inngrip ef skólaráðin starfa ekki samkvæmt lögum og reglum? 5. Nú þegar ljóst er hversu slæm staðan er verður eitthvað gert í því? 6. Í reglugerðinni kemur fram að fundargerðir skuli birtar á vef skólans en við hönnun vefsíðnanna var ekki gert ráð fyrir skólaráðunum og vantar þau ennþá á allmargar heimasíður. Hvers vegna var ekki gert ráð fyrir þeim í hönnunarferlinu?

    Greinargerð fylgir. SFS2020020042

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:53

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_1102.pdf