Skóla- og frístundaráð
Ár 2020, 28. janúar, var haldinn 178. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum, Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum, Stefán Geir Hermannsson, Reykjavíkurráð ungmenna og Þórunn Steindórsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram skýrslan Menntastefna Reykjavíkur til 2030, staða innleiðingar, dags. í desember 2019. SFS2017010019
Fríða Bjarney Jónsdóttir og Guðrún Hjartardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 12.40 taka Linda Ósk Sigurðardóttir og Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn þakkar fyrir innihaldsríka og fræðandi kynningu á innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur. Menntastefnan sameinar helstu markmið borgarinnar í skóla- og frístundastarfi um fjölbreytta menntun við hæfi hvers og eins, velferð nemenda, góðan aðbúnað og bætt vinnuumhverfi barna og starfsfólks og fjölþætta starfsþróun fagfólks og annarra starfsmanna leikskóla, grunnskóla og frístundar. Afar ánægjulegt er að fylgjast með markvissri innleiðingu menntastefnunnar undir dyggri forystu Fríðu Bjarneyjar Jónsdóttur og félaga hennar á Nýsköpunarsmiðju menntamála.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Mörtu Guðjónsdóttur, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 10. desember 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. janúar 2020:
Lagt er til að niðurstöður reykvískra grunnskóla í PISA-könnuninni verði gerðar opinberar. Sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í einstökum greinum; lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstra umræðna um kennsluhætti og námsárangur.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Mörtu Guðjónsdóttur og Arnar Þórðarsonar. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Valgerður Sigurðardóttir, situr hjá. SFS2019120070Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
PISA könnunin er eina alþjóðlega samanburðarmælingin sem gerð er hér á landi á skólakerfinu. Hún gefur veigamiklar og samræmdar upplýsingar um þróun skólastarfs frá einum tíma til annars. Mörg erlend skólakerfi nota niðurstöður PISA-prófa til að láta skóla fá endurgjöf á starf sitt. Íslenska menntakerfið er í kjörstöðu að því leyti að hér þreyta allir 10. bekkingar PISA-prófið og því ættu niðurstöður þess að nýtast betur en í öðrum OECD-ríkjum þar sem einungis er um úrtak að ræða. Árið 2012 tók Námsmatsstofnun (forveri Menntamálastofnunar) saman greinargóðar upplýsingar um frammistöðu hvers skóla fyrir sig. Margir skólastjórnendur fögnuðu því að fá slíka endurgjöf á starfsemi sína, nýttu niðurstöðurnar til umbóta í skólastarfi og efldu þannig hag nemenda sinna. Þeir gátu þá séð hversu hátt hlutfall nemenda sinna var á hverju hæfnisþrepi og hvar þeir voru í röðinni miðað við aðra skóla í Reykjavík. Til að efla og bæta skólastarf í borginni er mikilvægt að niðurstöður kannanaprófa á borð við samræmdu prófin og PISA prófin séu nýttar til umbóta í skólastarfi en til þess að gera það kleift er nauðsynlegt að sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í borginni í PISA könnuninni liggi fyrir í einstökum greinum og þær sendar skólastjórnendum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
PISA könnunin er samkvæmt skilgreiningu próf sem hefur þann tilgang að bera saman heil menntakerfi milli landa. Könnunin hentar síður til að bera saman smærri einingar og alls ekki til að bera saman árangur nemenda milli einstakra skóla. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengur því beinlínis gegn tilgangi PISA könnunarinnar og það sem verra er, gögnin myndu einfaldlega ekki gefa marktækar niðurstöður. Tillagan fellur því um sjálfa sig enda vekur athygli að ekki er einu sinni samstaða um hana í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. október 2019:
Lagt er til að umferðaröryggi í Úlfarsárdal verði bætt með áherslu á göngu- og hjólaleiðir barna til og frá skóla. Þá er lagt til að gangbrautir verði sérmerktar og upplýstar í samræmi við umferðarlög.
Samþykkt. SFS2019100042
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Löngu tímabært og brýnt er að bæta umferðaröryggi í Úlfarsárdalnum, sérstaklega við Dalskóla, sem stendur við mikla umferðargötu, þar sem engar merktar gangbrautir eru og lýsing slæm. Umferð er mikil á þessu svæði og kemur til með að aukast umtalsvert þegar nýtt íþróttahús, sundlaug og menningarmiðstöð verða tekin í notkun. Því er fagnað að undirbúningur að aðgerðum er hafin til að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi á helstu hættustöðum í hverfinu. Þær umbætur munu hins vegar ekki koma til framkvæmda fyrr en næsta sumar. Með þá staðreynd í huga er nauðsynlegt að farið verði í bráðabirgðaaðgerðir í vetur til að tryggja umferðaröryggi barna við Dalskóla.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 22. október 2019:
Skóla- og frístundaráð leggur til að Úlfarsárdalurinn verði valinn sem einn af þeim fimm stöðum sem taka þátt í tilraunaverkefni um LED gangbrautir sem felur í sér að tæknibúnaður skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Jafnframt kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2019100042
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Úlfarsárdalur er hverfi í virkri uppbyggingu, og þar skiptir máli að raða verkefnum svo heildar uppbygging gangi sem best. Nú þegar eru á áætlun aðgerðir til að bæta umferðaröryggi fyrir gangandi og hjólandi og ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja þá tillögu sem snýr að þeim úrbótum. Öryggi gangandi og hjólandi er mikið forgangsmál og fer vel á því að hnykkja á því. Hvað varðar tilraunaverkefni með upplýstar LED-gangbrautir er það verkefni svo langt á veg komið að ekki verður með góðu móti skipt um gatnamót í þessum hluta verkefnisins. Það færi hins vegar vel á því að sú gangbraut sem hér er til umræðu yrði skoðuð gaumgæfilega þegar og ef tekin er ákvörðun um frekari LED væðingu gangbrauta í kjölfar þess tilraunaverkefnis.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan var lögð fram í október og ekki tekin fyrir í skóla- og frístundaráði fyrr en nú í lok janúar. Brýnt hefði verið að koma þeim skilaboðum áleiðis sem fyrst að óskað hefði verið eftir að Úlfarsárdalur væri einn af þeim stöðum sem yrði fyrir valinu sem tilraunahverfi fyrir LED gangbrautir enda hefði það orðið mikill liður í að bæta umferðaröryggi barna við Dalskóla.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar um gönguleiðir grunnskólabarna. SFS2020010155
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata þakka fyrir kynningu á könnun um ferðavenjur og gönguleiðir skólabarna milli heimilis og skóla í Reykjavík. Gífurlega ánægjulegt er að sjá þá lykilniðurstöðu að 75% nemenda ferðast til og frá skóla fótgangandi eða hjólandi. Mikilvægt er að ýta undir þá þróun og halda áfram öflugri hjólastefnu og halda áfram að leggja áherslu á mannvænt borgarumhverfi sem hentar vel til göngu. Um er að ræða stöðuga þróun sem þarf að halda við.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 7. maí 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. janúar 2020:
Flokkur fólksins leggur til að byggt verði við Brúarskóla til þess að hann geti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla sem er í Vesturhlíð er afar hentug staðsetning fyrir skóla eins og Brúarskóla þar sem staðsetningin er ótengd m.a íbúðarhverfi og verslunum. Mikil friðsæld er í hverfinu, gott næði til að vinna með börnin en samt stutt í allar áttir. Mikilvægt er að skólinn sé og verði staðsettur á þeim stað sem hann er. Í dag eru 24 börn í skólanum en lagt er til að skólinn verði stækkaður til að geta að minnsta kosti bætt við 6-8 nemendum í viðbót. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er einn sinnar tegundar. Í honum stunda nám börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana. Skólinn er tímabundið úrræði og ávallt er markmiðið að vinna börnin aftur út í heimaskólann. Meðallengd skólavistar er 15-18 mánuðir. Brúarskóli sinnir fleiri hlutverkum og eitt þeirra er ráðgjafahlutverk við aðra skóla. Sérhæft ráðgjafarteymi fer á vettvang í skóla sé þess óskað. Í Brúarskóla eru 2 þátttökubekkir í tengslum við skólann, annar í Húsaskóla og hinn í Ingunnarskóla og eru samtals 10 börn í þessum bekkjum. Brúarskóli sinnir auk þess kennslu á Stuðlum og BUGL. Skólinn er rekinn af Reykjavíkurborg með stuðningi úr Jöfnunarsjóði.
Greinargerð fylgir.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2019050099
- Kl. 15.10 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í kjölfar úttektar Evrópumiðstöðvarinnar á menntastefnunni skóla án aðgreiningar hefur menntamálaráðuneytið í samvinnu við Samband sveitarfélaga unnið að því að breyta áherslum í þá veru að fækka greiningum en fjölga inngripum í þágu barna með sérstakar þarfir út frá hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar. Á sama tíma hefur borgin aukið þjónustu við þennan hóp með fjölgun fagfólks á borð við hegðunarráðgjafa, talmeinafræðinga, stofnun farteyma o.s.frv. Síðast en ekki síst er hafin innleiðing menntastefnu borgarinnar þar sem er að finna mikla áherslu á forvarnarstarf í hegðunarmálum með það að markmiði að auka félagsfærni barna. Þá hefur sameiginlegur stýrihópur skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs það hlutverk með höndum að skoða heildstætt allt stuðningskerfi borgarinnar við börn með sérþarfir. Við þessar aðstæður er ekki tímabært að taka ákvörðun um stækkun sérskóla á borð við Brúarskóla.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 2. maí 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. janúar 2020:
Eftirfarandi tillaga Flokks fólksins snýr að nemendum sem eru með ýmis konar geðraskanir en eins og vitað er er mjög erfitt fyrir þessi börn að fá aðstoð í "venjulegum skóla". 1. Lagt er til fyrst og síðast að farið sé að lögum. Það er lögbrot að reka börn úr skólaskyldu vegna frávika. Það verður að setja meira fjármagn með hverju barni til að ráða faglegan stuðningsfulltrúa t.d. iðjuþjálfa eða sálfræðing sem hefur eitthvað vægi inn í skólastofunni. 2. Lagt er til að fjármagn sé merkt barni en ekki skóla þannig að það fylgi barninu skipti það um skóla. 3. Lagt er til að unnið verði markvisst að því að fækka nemendum í bekkjum. 4. Lagt er til að í miðjum tíma fái börn tækifæri til að standa upp og fá hreyfingu. 5. Lagt er til að láta af því að afsérþarfavæða börnin til að það aðlagist kerfinu, hinum svo kallaða „skóla án aðgreiningar“. Skóla- og frístundaráð hefur gengið allt of langt að reyna að þagga niður vanda barna til að láta þau passa inn í skólakerfi sem er ekki útbúið til að taka á þörfum allra barna. Erlendis má sjá að í stað þess að reyna sífellt að slökkva elda er börnum leyft að nota stóra bolta í stað stóla, heyrnartól með tónlist til að þau geti haldið athyglinni og þeim leyft að nýta öll þau verkfæri sem virka til að vinna og efla kosti barnanna. Sveigjanleiki og margbreytileiki þarf að koma sterkar inn í hugmyndafræði skólastefnunnar. 6. Lagt er til að skóla- og frístundaráð auki vægi tækni- og listaverkefna í grunnskólanum. Eins og vitað er eru styrkleikar barna alls konar. 7. Lagt er til að skóla- og frístundaráð fari nú að alvöru að eyða endalausum biðlistum í þjónustu s.s. greiningar. Borgarstjóri hefur nýlega sagt á opinberum vettvangi að verið sé að setja meira fjármagn í skólana. Hvernig væri að sýna að hér eru ekki einungis orðin tóm? 8. Lagt er til að aðgengi barna að sálfræðingum og iðjuþjálfurum verði stórbætt og að foreldrar hafi ávallt gott aðgengi að þessum sérfræðingum.
Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2019050046
Fylgigögn
-
Lagt fram verklag vegna stuðnings við verkefni fyrir ungmenni í Reykjavík ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 17. maí 2018 og samantekt um stuðning við verkefni fyrir ungmenni í Reykjavík, ódags. SFS2017030073
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lögð fram dagskrá ráðstefnu fyrir starfsfólk leikskóla Reykjavíkurborgar sem fram fer 7. febrúar 2020. SFS2020010154
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 22. janúar 2020, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 15.-17. janúar 2020. SFS2018080035
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Góður árangur hefur náðst í ráðningarmálum á undanförnum vikum ekki síst í leikskólum og vekur athygli að þar á nú aðeins eftir að fylla 17 stöðugildi í 63 leikskólum, eða um 0,25 stöðugildi að jafnaði í hverjum leikskóla. Það er betri staða en sést hefur í mörg ár.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 177. fundi skóla- og frístundaráðs varðandi ráðningar á skóla- og frístundasviði. SFS2018080035
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 171. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi skráningar atvika er varða öryggi barna í leik- og grunnskólum og á frístundaheimilum. SFS2019090288
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 162. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi tónmenntakennslu í grunnskólum. SFS2019060109
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tónlistarkennslu er augljóslega víða ábótavant í grunnskólum borgarinnar þar sem ekki er kennd tónmennt í einhverjum árgöngum í 14 skólum og þá aðallega á unglingastigi. Þá vekur athygli að af tíu skólum með 1. – 6. eða 7. bekk eru tónmenntakennarar með kennsluréttindi og sem kenna tónmennt í sex skólum. Í tveimur af þessum skólum er tónmennt aðeins kennd í 1. – 3. eða 4. bekk. Þá er engin tónmennt kennd í einum af þremur unglingaskólunum. Jafnframt er athugavert að ekki liggja fyrir upplýsingar hvað varðar stöðu kennslu samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár í einstaka skólum en nám nemenda í öllum námsgreinum er metið skv. hæfniviðmiðum aðalnámskrár í hverri námsgrein eða námssviði. Samkvæmt þessu er ljóst að fjöldi nemenda fer á mis við tónmenntakennslu í grunnskólum borgarinnar. Við þeirri stöðu þarf að bregðast þannig að nemendur fái þá kennslu sem þeim ber samkvæmt aðalnámskrá.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. janúar 2020, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 174. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi aðsókn reykvískra barna í Arnarskóla. SFS2019110081
- Kl. 16.06 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samkvæmt svari sem lagt var fram í skóla- og frístundaráði varðandi tónlistarkennslu í grunnskólum borgarinnar kemur í ljós að tónlistarkennslu er víða ábótavant. Óskað er ítarlegri upplýsinga en fram kemur í svarinu um hvaða skóla er að ræða.
SFS2019060109
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska upplýsinga vegna leka í Fossvogsskóla, ábendingar hafa komið frá foreldrum um að upplýsingagjöf hafi verið verulega ábótavant til þeirra. Af því tilefni er óskað eftir því að nauðsynlegar upplýsingar varðandi framkvæmdina og ástand skólans verði veittar á næsta fundi (meðal annars eftirtaldar upplýsingar). 1) Fá að sjá eftirlitsdagbók af viðhaldi á Fossvogsskóla í sumar og haust. Eins þá með hvaða hætti mygluprófið sem gaf grænt ljós á að opna skólann aftur var framkvæmt, hver framkvæmdi það, hvort ítrasta próf hafi verið framkvæmt eða ekki. Ef ekki, hverju það sæti og hver tók ákvörðun um að framkvæma ekki ítrasta og nákvæmasta prófið? Með hvaða hætti var hreinsun myglu háttað? 2) Fá að sjá samskipti milli skólastjórnenda, foreldra og skóla- og frístundasviðs frá september og fram í janúar vegna leka sem aftur kom upp í Fossvogsskóla. 3) Fá upplýsingar um það hversu margir starfsmenn Fossvogsskóla hafa verið fjarverandi vegna veikinda síðustu 5 ár? Hvernig mælast fjarvistir frá vinnu í samanburði við aðra skóla? 4) Fá upplýsingar um það hvenær skóla- og frístundasvið var upplýst um leka í endurnýjuðu þaki Fossvogsskóla og aðrar raka- og mygluskemmdir á skólanum eftir endurbætur? 5) Fá upplýsingar um það hvernig sviðið ætlar að bregðast við þeim aðstæðum sem núna hafa komið upp í Fossvogsskóla. 6) Fá upplýsingar um það hversu hár kostnaður var við framkvæmdir við Fossvogsskóla.
SFS2020010179
PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2801.pdf