Skóla- og frístundaráð
Ár 2019, 10. desember, var haldinn 176. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Arnaldur Sigurðarson (P), Egill Þór Jónsson (D), Geir Finnsson (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Stefán Geir Hermannsson, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram skýrslan PISA 2018: Helstu niðurstöður á Íslandi. SFS2019120021
Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, Kolfinna Jóhannesdóttir, Ragnar F. Ólafsson, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður PISA sýna hve mikilvægt er að ná samstöðu meðal þjóðarinnar um leiðir til að efla lesskilning íslenskra nemenda, ekki síst drengja. Þar skiptir sköpum að hvetja nemendur til að lesa og þá sérstaklega bækur og texta sem vekja áhuga þeirra. Brýnt er að grípa til aðgerða til að styrkja stöðuna í náttúrufræði en gleðilegt er að árangur nemenda í stærðfræði hefur batnað frá fyrri könnun. Það er ánægjulegt að árangur nemenda í Reykjavík er betri í öllum þremur námsgreinunum en í síðustu PISA könnun, einkum í stærðfræði og náttúruvísindum og Reykjavík er í fremstu röð þegar borinn er saman árangur nemenda í öllum landshlutum. Engu að síður er mikilvægt að skoða vel hvernig megi nýta niðurstöðurnar til að bæta árangur nemenda ekki síst varðandi lesskilning og náttúrufræði samhliða innleiðingu nýrrar menntastefnu sem leggur áherslu á læsi og aukið vægi stærðfræði og náttúrugreina.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður PISA er einn mælikvarða skólastarfs sem mikilvægt er að rýna vel í með það að markmiði að bæta skólastarf í skólum borgarinnar. Í skýrslunni koma fram bæði þættir sem benda til lakari árangurs íslenskra nemenda í námsþáttum ef miðað er við skóla innan OECD en einnig þættir sem lýsa betri stöðu íslenskra nemenda í þeim samanburði. Um leið og fulltrúum Menntamálastofnunar er þökkuð þeirra rýnivinna vegna niðurstaðnanna telja fulltrúar FSR og KFR algert lykilatriði að leitað verði til kennara og stjórnenda í Reykjavíkurborg þegar kemur að viðbrögðum við niðurstöðunum og þar verði horft til áherslna í nýútgefinni Menntastefnu Reykjavíkurborgar. Raddir þeirra sem stýra skólum borgarinnar og skólastofum innan þeirra eru þær sem líklegastar eru til að ná árangri. Sérstaklega þarf að horfa til sérstöðu íslensku sem tungumáls og skora fulltrúar FSR og KFR á skóla- og frístundaráð að ráðast í og/eða styðja aðgerðir sem miða að auknu úrvali náms- og lesefnis á íslensku. Ráðast þarf í aðgerðir sem styrkja menningarlegan bakgrunn tungumálsins auk þess sem augljóst er miðað við niðurstöður PISA að sannkallaðs stórátaks er þörf þegar kemur að málefnum nemenda sem eru í skólum borgarinnar en eiga ekki íslensku að móðurmáli.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir þakka fyrir góða kynningu á niðurstöðum PISA 2018. Fulltrúarnir treysta því að niðurstöður könnunar verði nýttar til þess að takast á við áskoranir í skólakerfinu og bæta árangur reykvískra skólabarna í góðri samvinnu við skólasamfélagið.Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:
Pisa-könnunin er eina alþjóðlega samanburðarmælingin sem gerð er hér á landi á skólakerfinu. Hún gefur veigamiklar og samræmdar upplýsingar um þróun skólastarfs frá einum tíma til annars. Hún er gerð á þriggja ára fresti og niðurstöður hennar voru síðast birtar 2016. Þá gaf hún ótvíræðar vísbendingar um að nemendur hér séu heilu skólaári á eftir jafnöldrum sínum í öðrum löndum og að árangur íslenskra grunnskóla sé sá lakasti á Norðurlöndum. Niðurstöður Pisakönnunar sýna nú að staðan hefur breyst lítið til batnaðar og að lesskilningi hefur hrakað Samkvæmt niðurstöðunum ná 26% nemenda ekki grunnhæfni í lesskilningi. Þriðji hver drengur eða 34% og fimmta hver stúlka geta ekki lesið sér til gagns. Umræddar niðurstöður þarf að greina frekar í því skyni að skýra betur stöðu skólakerfisins í Reykjavík sem og stöðu einstakra skóla. Ljóst er að niðurstöður um árangur eru ekki viðunandi og mikilvægt er að þegar í stað verði ráðist í aðgerðir til úrbóta í þeim þremur greinum sem könnunin nær til, lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði. Tími er til kominn að láta verkin tala í skólastarfi í Reykjavík og hefja raunverulegar úrbætur í stað þess að vísa málum endalaust á milli nefnda, ráða, starfshópa og stýrihópa í stjórnkerfi borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrslan Talnalykill 2018: Niðurstöður úr stærðfræðiskimun í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur, dags. í desember 2019, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. desember 2019, um niðurstöður stærðfræðiskimunar í 3. bekk 2018. SFS2018110032
Ásgeir Björgvinsson og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2019, um niðurstöður samræmdra könnunarprófa 2019 í Reykjavík. SFS2019120022
Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 14.02 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2019:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fresta samþykkt og gildistöku nýrra reglna um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Reglur um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar og reglur um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla, verði óbreyttar a.m.k. út þetta skólaár. Málið verður rýnt nánar á skóla- og frístundasviði og tekið til meðferðar að nýju í skóla- og frístundaráði að því loknu.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. SFS2018110156
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að niðurstöður reykvískra grunnskóla í PISA-könnuninni verði gerðar opinberar. Sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í einstökum greinum; lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstra umræðna um kennsluhætti og námsárangur.
Frestað. SFS2019120070
Fundi slitið klukkan 14:15
Skúli Helgason Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_1012.pdf