Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 175

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 26. nóvember, var haldinn 175. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Þórunn Steindórsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Snjalltækjanotkun og skjátími, skýrsla starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi, dags. í október 2019. SFS2018100137 

    Tillögur starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi eru samþykktar. 

    Sveinn Bjarki Tómasson og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12.50 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

    -    Kl. 13.00 taka Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata þakka starfshópnum fyrir vel unnin störf og góða skýrslu um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Það er mikilvægt að hver starfsstöð móti sín eigin viðmið þegar kemur að skjánotkun og skjátíma barna og unglinga. Því fögnum við þeim áherslum sem starfshópurinn leggur til að hver starfsstöð skóla- og frístundasviðs setji sér viðmið og/eða reglur um notkun snjalltækja í einkaeigu í skóla- og frístundastarfi og leggjum áherslu á mikilvægi þess að þær verði unnar í nánu samstarfi við nemendur, kennara, frístundaráðgjafa, foreldra og aðra sem koma að starfinu. Notkun nútímatækni í skólum er nauðsynlegur þáttur í þróun skólastarfs en mikilvægt er að notkun snjalltækja á skólatíma sé á forsendum námsins og að kennarar, nemendur og skólastjórnendur upplifi að sú notkun fari fram á þeim forsendum. Viljum við leggja áherslu á að þó skrifstofa sviðsins geri leiðbeinandi verklag fyrir starfsstaðina um þessi viðmið, þá sé starfsstöðvum treyst til að útfæra sínar reglur í samstarfi við starfsfólk, foreldra og nemendur.

    Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjóra í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar kennara og skólastjórnenda í skóla- og frístundaráði fagna skýrslu starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Við teljum þó að farsælla hefði verið að í starfshópnum hefðu setið fulltrúar kennara í Reykjavík enda þeir lykilaðilar þegar kemur að þessum þætti skólastarfs sem og öðrum. Notkun snjalltækja í skólum er mikilvægt verkefni nútíma skólastarfs sem verður að vera leitt af kennurum og stjórnendum skólanna. Helstu niðurstöður hópsins eru jákvæðar og lúta að þeirri staðreynd að sjálfstæði skóla er lykilatriði. Leiðbeinandi verklag verður því að vera án miðstýringar en virka frekar sem verkfærakassi sem hver skóli gæti nýtt sér kjósi hann svo. Aðstæður, tækjabúnaður og fjármagn til sérstakra stöðugilda til að sinna tölvu og snjalltækjakennslu er mismunandi og er að sjálfsögðu breyta í starfi sem byggir á jöfnun tækifærum nemenda til að nýta sér snjalltækni í námi. Við því þarf að bregðast nú þegar og í framhaldi verður hver skóli að aðlaga sig að þeim raunveruleika sem hann býr við. Lykilatriði í farsælli þróun er því að fullfjármagna þessa þætti í öllum skólum um leið og við viljum árétta að umgengisreglur með snjalltækjum nemenda verða ætíð hluti að skólareglum hvers skóla.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. nóvember 2019, ásamt drögum að breyttum reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í A-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Látum draumana rætast og núgildandi reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs vegna styrkja í A-hluta og B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Látum draumana rætast:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur eftirfarandi til vegna úthlutunar styrkja í þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur Látum draumana rætast vegna skólaársins 2020-2021: 1. Umsóknarfrestur til að sækja um í A-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs verði til og með 15. mars 2020. 2. Styrkir til verkefna sem sótt er um í B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs og úthlutunarnefnd gerir tillögu um að fái styrk verði að lágmarki 4.000.000 kr. og að hámarki 8.000.000 kr. 3. Umsóknarfrestur til að sækja um í B- hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs verði til og með 1. mars 2020. 4. Styrkir í þróunar- og nýsköpunarsjóð verði auglýstir til umsóknar eigi síðar en í byrjun janúar 2020. Enn fremur eru lagðar til meðfylgjandi breytingar á reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur Látum draumana rætast.

    Greinargerð fylgir. SFS2019020035
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fríða Bjarney Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. nóvember 2019:

    Lagt er til að haldið verði menntastefnumót þann 10. maí 2021, heilsdagsráðstefna í Hörpu, með það að markmiði að auka sýnileika þess fjölbreytta þróunar- og nýsköpunarstarf sem unnið er á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Menntastefnumótið verði liður í að leggja mat á hvernig til hefur tekist við innleiðingu stefnunnar 2018-2021. Fjármagn vegna árlegra ráðstefna í leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi verði nýtt til að halda menntastefnumótið.

    Greinargerð fylgir. SFS2019110025
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. október 2019, ásamt skóladagatali grunnskóla fyrir skólaárið 2020-2021 og minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. mars 2019, um skóladagatal grunnskóla Reykjavíkur fyrir skólaárið 2020-2021: 

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að gerð verði breyting á skóladagatali grunnskóla borgarinnar vegna skólaársins 2020 – 2021. Gerð verði sú breyting að einn starfsdagur grunnskóla verði tileinkaður sameiginlegum starfsdegi skóla- og frístundastarfs borgarinnar þann 10. maí 2021 vegna þátttöku í menntastefnumóti.

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. SFS2019030055

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum vill færa til bókar að sameiginlegur starfsdagur vegna menntastefnumóts hitti á afar slæma viku þar sem frídagur er fimmtudaginn í þeirri viku. Heppilegra hefði þótt að hafa þetta á föstudeginum 14. maí.

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram svohljóðandi tillögur skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 14. maí 2019, ásamt umsögnum umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. október 2019, um tillögurnar:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að öryggisúttekt verði gerð í öllum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að athugað verði hvort að mygla finnist í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:

    Skóla- og frístundaráð fagnar því að ráðist verði í allsherjar úttekt á ástandi húsnæðis í öllum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar m.a. með tilliti til loftgæða, öryggis og almenns ástands viðkomandi fasteigna.

    Samþykkt. SFS2019050116/ SFS2019050117

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði fagna því að tillagan fái framgang. Athygli vekur hins vegar hversu langur tími leið frá framlagningu til afgreiðslu þess. Úttekt leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili og frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar er löngu tímabær. Það er gríðarlega mikilvægt að taka út almennt ástand, loftgæði og öryggismál allra þessara fasteigna enda eins og komið hefur í ljós er ástandið því miður víða í ólestri. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í aðgerðaáætlun nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar segir að bæta eigi aðstöðu til skóla- og frístundastarfs þannig að húsnæði og búnaður auðveldi starfsfólki að vinna að framgangi menntastefnunnar með áherslu á að öll aðstaða til skóla- og frístundastarfs ýti undir vellíðan og heilbrigði barna og starfsmanna. Til að styðja við þessa aðgerð er nauðsynlegt að vinna heildarúttekt á ástandi húsnæðis leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í borginni m.a. með tilliti til loftgæða og öryggismála og því mikið fagnaðarefni að slík heildarúttekt standi nú til á fyrri hluta næsta árs. Niðurstöður hennar verða nýttar til að vinna viðhalds- og endurbótaáætlun ársins 2021.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 22. ágúst 2019 og vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2019:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tekjur foreldra/forsjármanna hafi bein áhrif á gjaldskrá frístundaheimila. Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Flokkur fólksins hefur lagt til að þeir foreldrar sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis fái gjaldfrjáls frístundaheimili en þeirri tillögu hefur verið hafnað. Á árinu 2017 fengu 466 foreldrar 777 barna fjárhagsaðstoð til framfærslu. Margir þessara foreldra geta ekki greitt frístundagjaldið og lenda í vanskilum. Þá hefst afar tyrfin vegferð þeirra til að reyna að fá skuld sína afskrifaða. Flókið ferli er aldrei ódýrt. Ferli sem er á mörgum stigum og kemur inn á borð margra starfsmanna kostar peninga. Ferlið er auk þess óþarflega snúið því skóla- og frístundasvið hefur ekki heildarmyndina hjá sér, starfsmenn hafa engar upplýsingar um tekjur foreldra. Árið 2017 fengu 466 foreldrar 777 barna í Reykjavík fjárhagsaðstoð til framfærslu. Það sem verra er að enn fleiri þyrftu aðstoð en fá ekki. Hægt er að sækja um þriggja mánaða skuldaskjól. Matsreglur og umsóknarferlið er flókið og kemur inn á borð margra. 

    Greinargerð fylgir.
    Tillagan er felld. SFS2019080117

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsögn skóla- og frístundaráðs um frumvarp til laga um breytingar á lögum um grunnskóla nr. 91/2008. SFS2019100014

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er réttlætis- og jafnréttismál að öllum börnum í skólum borgarinnar séu tryggð jöfn opinber framlög til sinnar skólagöngu, óháð rekstrarformi skóla eða eignarhaldi. Opinber framlög til menntunar ættu að vera eign barnanna og fylgja þeim í gegnum skólagöngu sína. Með jöfnum framlögum, óháðum rekstrarformi skóla, má komast hjá því að börn og foreldrar þeirra þurfi að greiða skólagjöld í sjálfstætt starfandi skólum. Óumdeilt er að slíkir skólar auka fjölbreytni í skólahaldi og eru mikilvæg viðbót í valkostum barna og foreldra varðandi menntun. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skólaráði fagna því að með frumvarpinu skuli vera lagt til að skref í þá átt verði tekin. Engu að síður er mikilvægt að vanda til slíkra breytinga, að þær séu byggðar á réttum upplýsingum og raunverulegum samanburði. Auk þess er mikilvægt að rýna vel fjárhagsleg áhrif tillögunnar á rekstur skóla- og frístundasviðs sem og borgarsjóð. Eðlilegra væri þó að tillaga í átt að auknum jöfnuði skólabarna í Reykjavík kæmi frá borgaryfirvöldum sjálfum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans árétta að það er eindregin afstaða borgarstjórnarmeirihlutans að auknar fjárveitingar eða tilfærsla tekjustofna þurfi að fylgja með þeim breytingum á lögum eða reglugerðum sem skapi sveitarfélögum aukinn kostnað. Þó rétt væri að slík kostnaðarþátttaka væri sjálfsögð þegar verkefni sem sveitarfélögum hafa verið falin stækka að umfangi, hvort sem það er ákveðið af sveitarfélögum sjálfum eða með lagasetningu, verður það að vera krafa að þegar slík aukning er að frumkvæði og kröfu löggjafans þá sé gert ráð fyrir að auka tekjur sveitarfélaga til jafns við þann kostnaðarauka sem af verður.

    Fylgigögn

  8. Fram fer skipan fulltrúa í valnefnd vegna hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs.
    Samþykkt að skipa í valnefndina. Alexöndru Briem, Diljá Ámundadóttur Zoëga, Sigríði Arndísi Jóhannsdóttur og Kolbrúnu Baldursdóttur.

  9. Fram fer kynning á Skrekk 2019, hæfileikahátíð skóla- og frístundasviðs. SFS2019090174 

    Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2019, um íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík 2019. SFS2019100001 

    -    Kl. 15.05 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. nóvember 2019, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 18.-19. nóvember 2019. SFS2018080035

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Góður gangur hefur verið í ráðningum í laus störf í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi síðustu vikurnar og er nú svo komið að búið er að manna 98-99% starfa á þessum starfsstöðvum sviðsins. Nú á einungis eftir að manna um 25 störf í leikskólum, rúm 14 í grunnskólum og 8 í frístundaheimilum. Það hefur því tekist að ráða í nærri helming þeirra rúmlega 80 stöðugilda sem voru ómönnuð fyrir rúmum mánuði. Ánægjulegt er að staðan er í öllum tilvikum betri í mönnunarmálum leikskóla, grunnskóla og frístundastarfsins en á sama tíma í fyrra. Ástæða er til að þakka stjórnendum viðkomandi starfsstöðva og mannauðsskrifstofu sviðsins fyrir góða vinnu þeirra síðustu vikur.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2019, um fjölda kennara með leyfisbréf og fjöldi leiðbeinenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar. SFS2019110123

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði vonast til þess að betur gangi á næsta skólaári að ráða grunnskólakennara. Þó svo betur hafi gengið að ráða í lausar stöður þá hafa fleiri verið ráðnir til starfa í grunnskólum borgarinnar sem ekki hafa leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari. Haustið 2019 veitti Menntamálastofnun skólastjórum í grunnskólum Reykjavíkurborgar heimild til að ráða 127 einstaklinga sem ekki hafa leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari. Haustið 2018 voru 103 undanþágur veittar. Hlutfall kennara með leyfisbréf í grunnskólum borgarinnar er 91,7% nú miðað við 92,8% haustið 2018. Ef deildarstjórar eru taldir með er hlutfallið 92%. Hlutfall kennara sem eru með leyfisbréf er lægst 70,5% og hæst 100%, en í fjórum skólum voru allir kennarar með leyfisbréf.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda leikskólakennara og leikskóladeilda án leikskólakennara, frá 167. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019080137

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er eitt mikilvægasta verkefni leikskólastigsins á Íslandi að fjölga fagfólki en nýliðun leikskólakennara er langt frá því að fullnægja eftirspurn sem skýrist af því að mikil fækkun hefur orðið á nemendum í leikskólakennaranám eftir að námið var lengt í 5 ár með lagabreytingu árið 2008. Reykjavíkurborg hefur brugðist við stöðunni með því að hækka dagvinnulaun leikskólakennara til jafns við grunnskólakennara og grípa til fjölmargra aðgerða til að bæta starfsumhverfi leikskólakennara, og nú er unnið að tillögum sem miða að því að breyta skipulagi leikskólastarfsins í þeim tilgangi að nýta betur það fagfólk sem starfar á leikskólum borgarinnar. Áfram verður unnið með ríkinu og háskólum að því að fjölga nemendum í kennaranámi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði harma það hversu fáir leikskólakennarar starfa við leikskóla Reykjavíkurborgar. Í nóvember 2019 voru starfandi í borgarreknum leikskólum Reykjavíkurborgar 351 leikskólakennari í 301 stöðugildi, heildarfjöldi stöðugilda er um 1430. Hlutfall leikskólakennara í starfi með börnum inni á deild var að meðaltali 20,9%. Leikskóladeildir í nóvember 2019 voru 284. Þar af eru 184 deildir með starfandi leikskólakennurum en 100 deildir án leikskólakennara. Samkvæmt lögum þá ber 2/3 starfsmönnum á leikskólum að vera með menntun leikskólakennara.

    Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í Reykjavík starfa 351 leikskólakennari í 301 stöðugildi. Hlutfall starfandi leikskólakennara með börnum er um 20,9%, 100 deildir af 284 eða um 35% deilda eru án leikskólakennara. 184 deildir eða 65% deilda eru með deildarstjóra eða leikskólakennara, en ekki er tryggt að leikskólakennari sé allan opnunartíma deildarinnar sem getur verið 9,5 st. á dag eða 47,5 st. á viku. Samkvæmt lögum ættu störf í leikskóla að vera skipuð leikskólakennurum að 2/3 hluta starfsmanna og hér vantar því mikið upp á að markmið laga náist. Inni í þessari hlutfallstölu 20,9% eru aðstoðarleikskólastjórar sem tilheyra Félagi stjórnenda leikskóla og störf þeirra skiptist bæði í stjórnunarskyldu og starf með börnum. Mikilvægt er að aðgreina þarna á milli svo tölurnar sýni raunverulega mynd af þeim sem starfa beint með börnum. Stjórnendur leikskóla lýsa yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og hafa bent á þessa staðreynd í langan tíma og vert er að benda á ályktun frá 18. nóvember, sem kom frá félagsmönnum Félags stjórnenda sem finna má á heimasíðu Kennarasambandsins. Gera þarf rótækar breytingar sem styrkja stöðu leikskólans til framtíðar með því að bæta starfsaðstæður og laun.

    -    Kl. 15.35 víkja Skúli Helgason og Egill Þór Jónsson af fundinum. Alexandra Briem, varaformaður skóla- og frístundaráðs, tekur við fundarstjórn.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leikskóla með tvo eða færri leikskólakennara, frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019100051

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er eitt mikilvægasta verkefni leikskólastigsins á Íslandi að fjölga fagfólki en nýliðun leikskólakennara er langt frá því að fullnægja eftirspurn sem skýrist af því að mikil fækkun hefur orðið á nemendum í leikskólakennaranám eftir að námið var lengt í 5 ár með lagabreytingu árið 2008. Reykjavíkurborg hefur brugðist við stöðunni með því að hækka dagvinnulaun leikskólakennara til jafns við grunnskólakennara og grípa til fjölmargra aðgerða til að bæta starfsumhverfi leikskólakennara, og nú er unnið að tillögum sem miða að því að breyta skipulagi leikskólastarfsins í þeim tilgangi að nýta betur það fagfólk sem starfar á leikskólum borgarinnar. Áfram verður unnið með ríkinu og háskólum að því að fjölga nemendum í kennaranámi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði telja að strax verði að finna lausn á því að einn 5 deilda leikskóli er ekki með neinn starfandi leikskólakennara utan leikskólastjóra og í fjórum leikskólum eru aðeins 1 - 1,3 stöðugildi leikskólakennara. Í sjö leikskólum starfa 2 leikskólakennarar utan leikskólastjóra. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og því er það ótækt að þar starfi ekki fólk sem hefur rétta menntun. 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. nóvember 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á húsnæði frístundaheimila, frístundamiðstöðva og félagsmiðstöðva, frá 145. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2018100121

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. nóvember 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um húsnæði Hagaskóla, frá 162. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019060110

    -    Kl. 15.58 víkja Diljá Ámundadóttir Zoëga, Helgi Grímsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Soffía Vagnsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að gerð verði könnun á því hvort allir grunnskólar borgarinnar nái að fullnægja kröfum aðalnámskrár um kennslutíma í upplýsinga- og tæknimennt og hvort verið sé að vinna að þeim hæfniviðmiðum sem vinna skal að samkvæmt aðalanámskránni.

    Frestað. SFS2019110140

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig er umferðarfræðslu í grunn- og leikskólum borgarinnar háttað? Hefur verið komið á formlegu samstarfi um fræðsluna við Samgöngustofu og ef svo er hvernig er því háttað?

    SFS2019110143

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað við aðkeypta vinnu vegna ráðgjafar og sérverkefna á skrifstofu skóla- og frístundasviðs síðustu tvö ár.

    SFS2019110144

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hvort að Reykjavíkurborg muni hækka niðurgreiðslu til dagforeldra um áramót.

    SFS2019110146

Fundi slitið klukkan 16:25

Alexandra Briem

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_2611.pdf