Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 174

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 12. nóvember, var haldinn 174. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 17. október 2019, þar sem tilkynnt er að Örn Þórðarson taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Katrínar Atladóttur. SFS2019060216 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. nóvember 2019, umsögn skólaráðs Vættaskóla, dags. 6. nóvember 2019, umsögn skólaráðs Kelduskóla, dags. 5. nóvember 2019, umsögn foreldrafélags Vættaskóla, dags. 7. nóvember 2019, umsögn foreldrafélags Kelduskóla, dags. 6. nóvember 2019, fyrri tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi, álit borgarlögmanns um ráðgerðar breytingar á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi, dags. 8. nóvember 2019, skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi, dags. í júní 2019 og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um tillögur starfshópsins, dags. 16. október 2019: 

    Lagt er til að skólahald í norðanverðum Grafarvogi verði með þeim hætti frá og með upphafi skólaárs 2020-2021 að tveir grunnskólar verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk, annar í Borgum og hinn í Engi. Einn unglingaskóli verði í Vík fyrir 8. – 10. bekk. Skólastjóri verði í hverjum skóla. Skólarnir taki upp sín fyrri nöfn, þ.e. Borgaskóli, Engjaskóli og Víkurskóli.

    Skólahald verði aflagt í starfsstöðinni Korpu þar til fjöldi barna í Staðahverfi á aldrinum 6 – 12 ára (1. – 7. bekk) hefur náð 150 nemendum. Ákvörðun um áframhald skólahalds fyrir börn í Staðahverfi verði þá endurskoðuð í nánu samstarfi við foreldra og íbúa Staðahverfis. Fram að þeim tíma tilheyri Staðahverfi skólahverfi Engjaskóla á yngra og miðstigi og Víkurskóla á unglingastigi. Nemendur á yngra og miðstigi í Víkurskóla tilheyri skólahverfi Borgaskóla. Foreldrar/forsjáraðilar geti óskað eftir því að börn þeirra gangi í annan skóla sem þau kjósa og verði það hlutverk skólastjóra að koma til móts við slíkar óskir, svo fremi sem húsrúm leyfir. Umhverfisvænn skólaakstur verði fyrir börn í 1. – 4. bekk í Staðahverfi í Engjaskóla frá Korpuskóla. Nemendur á mið- og unglingastigi í Staðahverfi hafi val um það að fá skólaakstur eða ókeypis strætókort til afnota að eigin vali. 

    Frístundaheimili verði starfrækt í Borgaskóla og Engjaskóla og þar fari einnig fram félagsmiðstöðvastarf fyrir 10-12 ára nemendur. Félagsmiðstöð unglinga verði starfrækt í Víkurskóla.

    Tryggðar verði samgöngubætur til þess að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og til að tengja betur öll hverfi í norðanverðum Grafarvogi.

    •    Göngu- og hjólaleiðir verði bættar til að gera skóla-, frístunda- og íþróttastarf aðgengilegra fyrir íbúa í öllum norðanverðum Grafarvogi.

    •    Undirgöng eða ámóta örugg göngu- og hjólaleið verði sett við Strandveg/Víkurveg á milli Garðsstaða og Breiðavíkur.

    •    Sett verði upp gönguljós og þrenging götu við Mosaveg.

    •    Unnið verði að úrbótum á almenningssamgöngum í samstarfi við Strætó b.s., með áherslu á fjölgun biðstöðva og tíðari ferðir. 

    Gerðar verði breytingar á hverfamörkum skólanna til að tryggja gott jafnvægi nemendafjölda í skólunum.

    Lögð er áhersla á að leitað verði leiða til að húsnæði Korpu nýtist áfram í skóla- og frístundastarf, með það að markmiði að foreldrar hafi val um skóla- og frístundaúrræði fyrir börn sín. Í því sambandi verði m.a. leitað eftir áhuga sjálfstætt starfandi skóla og byggingin kynnt fyrir þeim aðilum sem vilja hefja þar starfsemi. 

    Lagt er til að innleiðingarhópar verði skipaðir til að vinna að markvissri og farsælli innleiðingu breytinganna, einn hópur fyrir hvern skóla/frístundaheimili/félagsmiðstöð og einn yfirhópur sem tryggi að samfella skapist í skipulagi skólahalds, frístundastarfs og samgöngumála. Innleiðingarhóparnir starfi að minnsta kosti til ársloka 2022. Innleiðingarhópur hvers skóla/frístundaheimilis/félagsmiðstöðvar verði skipaður fulltrúum skólastjórnenda, kennara, nemenda og foreldra, frístundaheimila/félagsmiðstöðvar, og fulltrúum skóla- og frístundasviðs. Í yfirhópi verði fulltrúar skólastjórnenda, foreldra, kennara, stjórnendateymis Gufunesbæjar og fulltrúar skóla- og frístundasviðs. Lögð verði fram tillaga um skipan einstaklinga í innleiðingarhópana eigi síðar en á fundi skóla- og frístundaráðs 10. desember 2019. Í vinnunni verði sérstaklega hugað að breytingum í starfsmannahaldi og stefnt að því að eðlileg starfsmannavelta leysi sem mest af breytingunum og tryggt sé að öllum starfsmönnum bjóðist áfram starf hjá skóla- og frístundasviði. Sviðsstjóra er jafnframt falið að vinna að ráðningum stjórnenda skólanna þriggja og frístundaheimila og félagsmiðstöðvar og kynna fyrir skóla- og frístundaráði í janúar 2020.

    Greinargerð fylgir. SFS2019020105

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi byggir á faglegum, félagslegum og fjárhagslegum rökum sem fram komu í skýrslu starfshóps fagfólks sem hafði skýrt markmið - að bæta menntun og félagslegan aðbúnað nemenda. Á fundinum í dag var lagt fram álit borgarlögmanns sem undirstrikar að gagnrýni sem hefur verið áberandi í opinberri umræðu er reist á mjög veikum grunni, s.s. um að áformin kalli á breytingar á deiliskipulagi eða séu líkleg til að skapa borginni skaðabótaskyldu. Borgarlögmaður telur hvorugt vera fyrir hendi. Þá kemur vel fram í minnisblaði sviðsins að mikil fækkun nemenda á undanförnum árum í Korpu stafar ekki af ákvörðunum borgaryfirvalda heldur vali foreldra og forráðamanna. Meirihlutinn þakkar skólaráðum Kelduskóla og Vættaskóla fyrir margar góðar ábendingar í umsögnum þeirra sem munu fá faglega og góða umfjöllun í þeirri vinnu innleiðingarhópanna sem framundan er. Mikil áhersla verður lögð á að tryggja fjármagn til þeirra brýnu samgöngubóta sem eru mikilvæg forsenda breytinganna því þær miða að því að tryggja öryggi þeirra nemenda sem velja að fara fótgangandi eða hjólandi í skólann. Skólaakstur verður tryggður fyrir þau börn úr Staðarhverfi sem velja þann kost.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast alfarið á móti fyrirhuguðum tillögum um breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Ekkert raunverulegt samráð hefur átt sér stað við foreldra, nemendur og starfsfólk skólanna en það vitna umsagnir, greinaskrif og tölvupóstar frá skólasamfélaginu um. Þá hafa nemendur bent á að lýðræðisleg aðkoma þeirra sé ekki virt og einn nemandi sá ástæðu til að stíga fram í fjölmiðlum til að tjá skoðun sína og biðla til skólayfirvalda í borginni um að loka ekki skólanum. Ekkert er hlustað á vilja allra þessara aðila og keyra á þessa ákvörðun í gegn þvert á vilja íbúa. Að auki hafa fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn komið með ýmsar tillögur til að tryggja áframhaldandi skólastarf s.s. samrekstur leik- og grunnskóla, fjölgun árganga í skólanum og að byggð verði þétt í Staðahverfi. Ekkert hefur heldur verið hlustað á þessar hugmyndir. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að til staðar sé skóli í hverju hverfi enda um lögboðna þjónustu að ræða. Það skýtur svolítið skökku við að á sama tíma og verið er að leggja niður skóla í einu hverfi er verið að fara í hönnunarsamkeppni með skóla í hverfi sem enn er ekki til s.s. nýtt hverfi í Skerjafirði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikið hefur verið lagt upp úr því að leita álits og tillagna frá íbúum, nemendum, starfsfólki og stjórnendum og var það hluti af starfi starfshóps sem skipaður var til að fara yfir málið og koma með tillögur. Eins og fram hefur komið hefðu tillögur á borð við fjölgun árganga eða samrekstur við leikskóla, ekki leyst þau undirliggjandi vandamál sem tengjast stærð bekkjardeilda og viðkvæmrar félagslegrar stöðu. Eins er ljóst að þegar byggja á ný hverfi þarf að hanna þær byggingar sem í þeim eiga að rísa áður en ráðist er í þær framkvæmdir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði minna á álit frá umboðsmanni Alþingis sem segir „Af framangreindu svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins tel ég mega ráða að það sé afstaða þess að það hafi kallað á breytingu á deiliskipulagi að fella niður skólahald í grunnskóla Staðahverfis í 8. – 10. bekk og flytja það í grunnskóla Víkurhverfis.“ Enn fremur kemur fram í minnisblaði borgarlögmanns R08100274: „Deiliskipulag er þannig ígildi lagasetningar“. Þannig er ljóst að fara þarf í breytingar á deiliskipulagi í fjórum hverfum í norðanverðum Grafarvogi áður en farið er í þessar breytingar. Að öðrum kosti væri verið að brjóta á íbúum vegna þess að í skipulagsmarkmiðum deiliskipulags Staðahverfis segir að búa eigi íbúum meðal annars aðlaðandi umhverfi, umferðaröryggi og „aðgang að grunnskóla“. 

    Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjóra í grunnskólum í skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjórnenda í skóla- og frístundaráði árétta að þeir telja að undirbúningsvinna að ákvarðanatöku um framtíðarskipan skólamála í norðanverðum Grafarvogi hafi verið fagleg með nauðsynlegri þátttöku kennara og stjórnenda. Ákvarðanatakan um þær tillögur sem lagðar voru samhljóða fram er svo ráðsins. Öll áform velta á innleiðingu og fjármögnun hennar. Þar mun ráðast hvernig tekst til í þessu verkefni eða ekki. Til að tryggja það verða fyrirhuguð innleiðingarteymi að vera skipuð fagfólki skólanna enda teljum við það lykilinn að góðum árangri. Þróunarvinna nýrra skóla er unnin í skapandi teymisvinnu væntanlegra kennara og stjórnenda en ekki með miðstýringu. Það er jafnframt undirtónn nýrrar menntastefnu sem innleidd verður í þessum skólum samhliða þróun þeirra. Tryggja þarf fjármögnun þeirra skóla sem stofnaðir verða og að stoðkennsla, stuðningur og valver, kennsla nemenda barna með erlendan uppruna sé í samræmi við þarfagreiningu sem byggir á mati umsjónarkennara námshópa og skólastjórnenda. Tryggja þarf að skólarnir séu mannaðir fagfólki og að vandað sé við val á stjórnendum með þekkingu og færni í mannauðsmálum nýrra skóla. Fjármögnun vegna tækjakosts, húsbúnaðar og húsnæðisbreytinga verður að vera tryggð. Þá þarf að tryggja að öll sú nauðsynlega undirbúningsvinna væntanlegra kennara og stjórnenda á þessu skólaári sé fjármögnuð. Látum hina afgerandi niðurstöðu skýrslu Innri endurskoðunar um vanfjármögnun grunnstoða skólanna verða leiðarljós hér við upphaf þriggja skóla. Þá aðeins má vænta farsællrar niðurstöðu við sköpun nýrra framúrskarandi skóla í Grafarvogi.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram skýrslan Viðmið um skólasókn í grunnskólum Reykjavíkurborgar, dags. í október 2019. SFS2018110090

    Hólmfríður G. Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar í skóla- og frístundaráði þakka stýrihópnum fyrir vel unnin störf og góða skýrslu um viðmið í skólasókn í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Það er mikilvægt að grunnskólarnir taki upp samræmd viðmið í skólasókn grunnskólabarna í borginni. Það skiptir miklu máli að allir skólar borgarinnar skrái fjarvistir nemenda með sama hætti og skilgreini hver ástæða fjarvistar er. Með þessu er hægt að greina vandann fyrr ef vandi er fyrir hendi og grípa þá fyrr inn í til að aðstoða nemandann. Verklagsreglurnar eru mjög skýrar og hlutverk hvers og eins er skýrt. Til að hægt sé að framfylgja þessum verklagsreglum er mikilvægt að velferðarsvið borgarinnar búi sér til samræmdar verklagsreglur þegar málin eru komin á það stig og fylgi þeim eftir með sama hætti og vinnulagið sé samræmt yfir alla borgina. Skýrslan svarar þessum óskum skólanna og lagt er til að hún fari í umsagnarferli hjá skólaráðum áður en verkferlin verða innleidd. Það er mikilvægt að veita foreldrum góðar upplýsingar um skólaforðun og þau nýju viðmið í skólasókn barnsins.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. október 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. nóvember 2019 um akstur nemenda í Kelduskóla og tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 22. október 2019:

    Í ljósi ítrekaðs þjónustubrests vegna skólaaksturs í Grafarvogi er lagt til að farið verði yfir öll þau tilvik þar sem um þjónustubrest er að ræða. Þá er lagt til að skerpt verði á því að upplýsingar til foreldra berist eins fljótt og auðið er þegar skólabílnum seinkar eða um þjónustubrest er að ræða. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að ræða við fyrirtækið sem sér um aksturinn til að gera athugasemdir, fara fram á úrbætur og tryggja að hægt verði að reiða sig á þjónustuna framvegis. Þá er brýnt að til staðar sé viðbragðsáætlun sem virkjast ef skólaakstur bregst einhverra hluta vegna.

    Samþykkt. SFS2019100041

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að skólaaksturþjónustan sé örugg og áreiðanleg. Því miður hefur misbrestur á skólaakstrinum komið niður á nemendum í Grafarvogi í haust. Nú þegar búið er fara yfir allar ábendingar og úrbótum lofað er mikilvægt að því sé fylgt vel eftir að skólakstursþjónustan verði trygg framvegis. Þá er jafnframt mikilvægt ef eitthvað fer úrrskeiðis fari í gang varaáætlun og foreldrum tilkynnt um það.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða góða og í raun sjálfsagða tillögu. Nú þegar er þetta mál í vinnslu á skóla- og frístundasviði, en vel við hæfi að árétta með skýrum hætti vilja skóla- og frístundaráðs til úrbóta á þessu máli.

    -    Kl. 14.40 víkur Skúli Helgason af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur þar sæti. Alexandra Briem, varaformaður skóla- og frístundaráðs, tekur við fundarstjórn.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram skýrslan Sumaropnun leikskóla 2019, samantekt á tilraunaverkefni, dags. í nóvember 2019. SFS2018090095 

    Auður Ævarsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að margir foreldrar geta ekki valið hvenær þeir taka sumarfrí. Sumaropnun leikskóla er mikilvæg fyrir þennan hóp þannig að fjölskyldur geti verið saman í fríi. Mikilvægt er að mæta þörfum þessa hóps betur. Draga má þann lærdóm af tilraunaverkefninu að ekki hafi allir foreldrar verið meðvitaðir um að þessi þjónusta um sumaropnun stæði til boða þar sem hún var ekki nægjanlega vel kynnt og auglýst. Ljóst er að gera þarf ítarlegri greiningu og könnun á því hversu margir þurfa á sumaropnun leikskólanna að halda. Þá er jafnframt mikilvægt að vera í betra samráði og samstarfi við þá leikskóla sem sinna sumaropnuninni. Verði haldið áfram með verkefnið er mikilvægt að tryggt verði að sátt ríki milli leikskóla og skólayfirvalda um verkefnið. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í skóla- og frístundaráði þakka góða kynningu og skýrslu á mati á sumaropnun leikskóla 2019. Það er gott að sjá heilt yfir ánægja með verkefnið. Í skýrslunni koma fram góðar ábendingar sem við teljum mikilvægt að fylgja eftir fyrir næsta sumar. Upplýsingagjöfin þarf að vera efld til muna, bæði til foreldra sem og starfsfólks allra leikskóla borgarinnar. Mikilvægt er að umsóknarferlið verði með aðgengilegum rafrænum hætti. Svo mætti skoða að samræma sumaropnun á frístund samhliða leikskólum. Að bjóða upp á sumaropnun leikskóla býður barnafjölskyldum í borginni upp á meira frelsi og sveigjanleika og kemur í veg fyrir streituvaldandi ákvarðanartökur þegar um er að ræða skipulag sumarleyfa. Þessi þjónustuaukning er meirihlutanum mjög mikilvæg.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar fyrir kynningu á mati á sumaropnun leikskóla. 128 börn nýttu sér sumaropnun, 100 voru fyrir í viðkomandi sumaropnunarleikskólum, 28 börn fóru á milli skóla, sem gerir 0,5%. 28% foreldra þurftu að sækja um sumaropnun, á móti 68% sem sóttu um af því að það hentaði þeim betur. Hvetja hefði mátt alla foreldra, líka þá sem áttu börn í sumaropnunarleikskólanum til þess að fara í sumarleyfi á þeim tíma sem lokunartími leikskólans hefði verið að öllu óbreyttu. Það tryggir jafnræði meðal allra barna og foreldra í Reykjavík. Í matið vantar rödd leikskólastjóra sem lokuðu og tóku þátt í að senda börn og starfsfólk í sumaropnunarleikskóla. 20% barna leið frekar illa eða mjög illa með að fara í annan leikskóla og 5% hvorki né. Val og frelsi er í eðli sínu gott en í þessu tilfelli kostar frelsið bæði aukin fjárhagsútgjöld og getur tekið sinn toll af þroska og velferð barna. Aukin þjónusta kallar á meiri þjónustu eins og opnun frístundaheimila. Það kemur skýrt fram að álag á stjórnendur eykst og er varla á það bætandi í því ástandi sem leikskólinn býr við í dag með tilliti til kennaraskorts og óska um aukið fjármagn í fjárhagsramma fyrir óbreyttan rekstur. Nýtum fjármagnið betur og minnkum álag.

    -    Kl. 15.13 víkur Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 5. október 2019, þar sem tilkynnt er um breytingu á samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð. SFS2019060217

    Fylgigögn

  7. Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs fyrir árið 2020. SFS2019110026

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. október 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 171. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi stöðu innleiðingar verkefnisins Aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi auk greinargerðar og tillagna starfshóps um aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi skóla- og frístundasviðs, dags. í ágúst 2016. SFS2019090292

    Bókun skóla- og frístundaráðs: 

    Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir greinargott svar við fyrirspurn um stöðu innleiðingar á verkefninu Aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að unnið sé með skýrslu starfshópsins, til þess að hægt sé að framfylgja því starfi þarf að tryggja fjármagn, stuðning og hvatningu. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. október 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um umferðartalningar við grunnskóla, frá 171. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019090290

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að umferðartalningar við skólana séu nýttar vel til að bæta umferðaröryggi skólabarna. Í því sambandi er aðkallandi að á göngu- og hjólaleiðum barna til og frá skóla séu vel merktar og upplýstar gangbrautir og gerðar verði aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja umferðaröryggi barna sem best.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. nóvember 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda 12-18 mánaða barna sem hafa fengið leikskólapláss hjá leikskólum Reykjavíkurborgar í september 2019, frá 172. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019100054

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er sérstakt metnaðarmál meirihlutans að auka þjónustu við ungbarnafjölskyldur í borginni með því að fjölga leikskólarýmum og bjóða yngri börnum að njóta þeirra fjölmörgu kosta sem fylgja leikskólavist. Í september voru 261 barn 15-18 mánaða komin í vistun eða komið með boð eða alls 75% af börnum á þessum aldri sem voru komin með umsókn á leikskóla borgarinnar. Markvisst er unnið að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og þessar tölur sýna að verkefnið er á góðri leið.

    -    Kl. 15.40 víkja Guðrún Kaldal, Anna Metta Norðdahl og Guðmundur G. Guðbjörnsson af fundinum.

    Fylgigögn

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að farið verði í úrbætur til að bæta loftgæði í Laugarnesskóla. Mælingar hafa sýnt að styrkur koltvísýrings sé þar of hár og yfir viðmiðunarmörkum í kennslustofum í eldri byggingu skólans enda ekkert loftræstikerfi þar til staðar. Hár styrkur koltvísýrings í lofti getur valdið óþægindum og slappleika. Ekki er boðlegt að bjóða nemendum og starfsfólki upp á heilsuspillandi húsnæði og því mikilvægt að farið verði í úrbætur strax. Nú þegar hefur slæmt ástand skólans haft áhrif á starfsmannamálin.

    SFS2019110078

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

     

    Lagt er til að farið verði í loftgæðamælingar í öllum skólum borgarinnar í ljósi þeirra tilfella sem komið hafa upp að undanförnu í Hagaskóla og Laugarnesskóla. Þar mældist styrkur koltvísýrings of hár með þeim afleiðingum að nemendur fundu fyrir óþægindum s.s. slappleika og höfuðverk.

    SFS2019110079

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um fjölda barna á biðlistum eftir sérfræðiþjónustu sundurgreint eftir hverfum og þjónustumiðstöðvum.

    SFS2019110080

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um aðsókn reykvískra barna í Arnarskóla. Reykjavíkurborg hefur gert samning við Arnarskóla um að greitt sé fyrir fjögur börn. Hafa fleiri börn en þau sem samþykki er fyrir verið að sækjast eftir þjónustu Arnarskóla?

    SFS2019110081

    -    Kl. 16.00 víkja Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundinum.

    -    Kl. 16.07 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum.

  15. Fram fer umræða um fundarsköp. SFS2019100140

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að leitað verði eftir áliti borgarlögmanns vegna trúnaðarbrots af hálfu Reykjavíkurborgar. Send var út fréttatilkynning klukkan 15:08 á meðan að fundur stóð yfir í skóla- og frístundaráði undir yfirskriftinni Skólahald breytist í norðanverðum Grafarvogi næsta haust. Fréttatilkynningin er einnig efnislega röng en fram kemur að skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar hafi samþykkt tillöguna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu gegn tillögunni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma þetta verklag. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata samþykkja það að útsending fréttatilkynningar um afgreiðslu ráðsins áður en fundi lauk sé ákaflega óheppileg og hefði ekki átt að eiga sér stað. Um var að ræða yfirsjón af hálfu fulltrúanna og biðjumst við í einlægni afsökunar á því og munum gæta þessa í framtíðinni. Ekki stóð til að það liti út eins og um væri að ræða einróma ákvörðun, en þó efnislega rétt að ákvörðun tekin með einföldum meirihluta er lögleg ákvörðun skóla og frístundaráðs. Sanngjarnt er þó að árétta það í ljósi aðstæðna.

    -    kl. 16:22 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum. 

Fundi slitið klukkan 16:25

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_1211.pdf