Skóla- og frístundaráð
Ár 2019, 22. október, var haldinn 173. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.30. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um fundarsköp. SFS2019100140
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um lokun Korpuskóla hefur verið sett á dagskrá skóla- og frístundaráðs án þess að bera hana undir minnihlutann í ráðinu. Athyglisvert er að í tilkynningu frá meirihlutanum sem send var til fjölmiðla í gær segir að það sé „óábyrgt af opinberum aðilum að halda úti rekstri menntastofnana sem ekki eru sjálfbærar einingar faglega og fjárhagslega.“ Það er hins vegar skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að miklu frekar sé óábyrgt að sveitarfélög geti ekki staðið við þá opinberu þjónustu sem þeim ber skylda til skv. lögum. Þessi vinnubrögð eru meirihlutanum í borginni til skammar og verða ekki látin óátalin. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að fréttatilkynning í nafni borgarinnar var send út gær 21. október um tillöguna en engin úr minnihlutanum vissi um áform meirihlutans fyrr en fundarboð var sent út. Í fundarboði 173. fundar skóla- og frístundaráðs segir orðrétt: „Vek athygli á því að fundargögn eru trúnaðarmál þar til fundi er lokið.“ Því telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks það skjóta skökku við að fjölmiðlum hafi verið send tilkynning, sérstaklega þar sem hún var send í nafni borgarinnar ekki tillöguflytjenda sjálfra og það sérstaklega tekið fram að um trúnaðarmál hafi verið að ræða. Vinnubrögð í kringum lokun Kelduskóla - Korpu í norðanverðum Grafarvogi og sameiningar annarra skóla þar eru meirihlutanum til minnkunar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans telja hvorki brot á lögum, reglugerðum né samþykktum Reykjavíkurborgar að kjörnir fulltrúar ræði það opinberlega hvaða tillögur þeir hyggist leggja fram. Hvað varðar trúnað, kemur fram í 7. grein samþykktar um skóla- og frístundaráð að dagskrá fundar ásamt fundargögnum skuli vera aðgengileg á opnum vef borgarinnar tveimur dögum fyrir fund.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í útsendri dagskrá var sérstaklega vakin athygli á að trúnaður ríkti yfir fundargögnum og verður það því að teljast forkastanleg vinnubrögð að send er sérstaklega út fréttatilkynning, degi fyrir fund, um viðkvæmt mál á dagskrá ráðsins.
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi, dags. í júní 2019 og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um tillögur starfshópsins, dags. 16. október 2019:
Lagt er til að skólahald í norðanverðum Grafarvogi verði með þeim hætti frá og með upphafi skólaárs 2020-2021 að tveir grunnskólar verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk, annar í Borgum og hinn í Engi. Einn unglingaskóli verði í Vík fyrir 8. – 10. bekk sem starfi samkvæmt hugmyndafræði nýsköpunarskóla. Skólastjóri verði í hverjum skóla. Skólarnir taki upp sín fyrri nöfn, þ.e. Borgaskóli, Engjaskóli og Víkurskóli. Skólahald verði aflagt í starfsstöðinni Korpu þar til fjöldi barna í Staðahverfi á aldrinum 6 – 12 ára (1. – 7. bekk) hefur náð 150 nemendum. Ákvörðun um áframhald skólahalds fyrir börn í Staðahverfi verði þá endurskoðað í nánu samstarfi við foreldra og íbúa Staðahverfis. Fram að þeim tíma tilheyri Staðahverfi skólahverfi Engjaskóla á yngra og miðstigi og Víkurskóla á unglingastigi. Umhverfisvænn skólaakstur verði fyrir börn í 1. – 4. bekk í Staðahverfi í Engjaskóla frá Korpuskóla. Nemendur á mið- og unglingastigi í Staðahverfi hafi val um það að fá skólaakstur eða ókeypis strætókort til afnota að eigin vali. Frístundaheimili verði starfrækt í Borgaskóla og Engjaskóla og þar fari einnig fram félagsmiðstöðvastarf fyrir 10-12 ára nemendur. Félagsmiðstöð unglinga verði starfrækt í Víkurskóla. Tryggðar verði samgöngubætur til þess að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og til að tengja betur öll hverfi í norðanverðum Grafarvogi. Göngu- og hjólaleiðir verði bættar til að gera skóla-, frístunda- og íþróttastarf aðgengilegra fyrir íbúa í öllum norðanverðum Grafarvogi.• Undirgöng eða ámóta örugg göngu- og hjólaleið verði sett við Strandveg/Víkurveg á milli Garðsstaða og Breiðavíkur.-• Sett verði upp gönguljós og þrenging götu við Mosaveg.• Unnið verði að úrbótum á almenningssamgöngum, með áherslu á fjölgun biðstöðva og tíðari ferðir. • Gerðar verði breytingar á hverfamörkum skólanna til að tryggja gott jafnvægi nemendafjölda í skólunum. Lögð er áhersla á að leitað verði leiða til að húsnæði Korpu nýtist áfram í skóla- og frístundastarf, með það að markmiði að foreldrar hafi val um skóla- og frístundaúrræði fyrir börn sín. Í því sambandi verði m.a. leitað eftir áhuga sjálfstætt starfandi skóla og byggingin kynnt fyrir þeim aðilum sem vilja hefja þar starfsemi. Lagt er til að innleiðingarhópar verði skipaðir til að vinna að markvissri og farsælli innleiðingu breytinganna, einn hópur fyrir hvern skóla/frístundaheimili/félagsmiðstöð og einn yfirhópur sem tryggi að samfella skapist í skipulagi skólahalds, frístundastarfs og samgöngumála. Innleiðingarhóparnir starfi að minnsta kosti til ársloka 2020. Innleiðingarhópur hvers skóla/frístundaheimilis/félagsmiðstöðva verði skipaður fulltrúum skólastjórnenda, kennara, nemenda og foreldra, frístundaheimila/félagsmiðstöðvar og fulltrúum skóla- og frístundasviðs. Í yfirhópi verði fulltrúar skólastjórnenda, foreldra, kennara, stjórnendateymi Gufunesbæjar og fulltrúar skóla- og frístundasviðs. Í vinnunni verði sérstaklega hugað að breytingum í starfsmannahaldi og stefnt að því að eðlileg starfsmannavelta leysi sem mest af breytingunum og tryggt sé að öllum starfsmönnum bjóðist áfram starf hjá skóla- og frístundasviði.
Greinargerð fylgir. SFS2019020105
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi verði frestað.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að tillaga um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi verði send til umsagnar skólaráða og foreldrafélaga grunnskólanna Vættaskóla og Kelduskóla.
Samþykkt.
Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Betri aðbúnaður barna bæði námslega og félagslega er meginmarkmið þeirra breytinga á skóla– og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi sem meirihlutinn hefur nú kynnt. Í stað tveggja sameinaðra skóla á fjórum stöðum verða til þrír öflugir grunnskólar með frístunda- og félagsmiðstöðvastarfi: Borgaskóli, Engjaskóli og Víkurskóli sem verður sameinaður unglingaskóli samkvæmt hugmyndafræði nýsköpunarskóla. Sú hugmynd nýtur mikils stuðnings nemenda og starfsfólks enda verða þar áherslur á frumkvæði nemenda, frumkvöðlanám, skapandi starf og gagnrýna hugsun í anda menntastefnu borgarinnar. Skólahald leggst af í Korpu, a.m.k. tímabundið en vilji meirihlutans í ráðinu stendur til þess að það húsnæði verði áfram nýtt til skóla- og frístundastarfs, þar sem ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar: leikskólastarf, útibú frá Brúarskóla, samstarf við sjálfstætt starfandi skóla o.s.frv.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði leggjast alfarið gegn lokun og sameiningum skóla í norðanverðum Grafarvogi. Íbúar hafa verið að óska eftir mun meira samráði en var haft í þessu ferli en á það hefur ekki verið hlustað. Öll börn í Reykjavík eiga rétt á þjónustu í sínu nærumhverfi óháð kostnaði, enda verða skólar aldrei hagnaðardrifnar einingar. Það er því óásættanlegt að horfa upp á niðurskurð í þeirri lögbundnu grunnþjónustu sem Reykjavíkurborg ber að veita. Eins þá gerir skipulag hverfisins ráð fyrir að þar sé rekinn grunnskóli frá 1. upp í 10. bekk. Með þessari ákvörðun er verið að brjóta á íbúum þannig að Reykjavíkurborg gæti hugsanlega verið að skapa sér skaðabótaskyldu gagnvart íbúum í hverfinu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að skólastarf í Grafarvogi og í Staðahverfi mun sannarlega eftir sem áður uppfylla lagalegar kröfur um grunnskólakennslu, og ef eitthvað er gera það enn betur með þeim úrbótum sem hér eru lagðar til.
Fylgigögn
- Tillaga um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi
- Framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi, skýrsla starfshóps
- Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um tillögur starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í norðanv. Grafarvogs
- Málsmeðferðartillaga
-
Lögð fram áfangaskýrsla stýrihóps um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík, dags. í október 2019. SFS2018120032
Vísað til fjárhagsáætlunargerðar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð þakkar stýrihópnum vinnuna sem hér var kynnt, en í samræmi við Menntastefnu Reykjavíkurborgar 2018-2030 er mikilvægt að auka aðgengi barna í borginni að fjölbreyttu list- og skapandi námi sem hluti af samræmdum skóladegi, með áherslu á aðgengi í öllum hverfum borgarinnar. Endurskoðun á stefnu borgarinnar um tónlistarkennslu er liður í þeirri vegferð.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka að jafna þarf betur tækifæri barna í borginni til tónlistarnáms. Mikill munur er á þátttöku barna í tónlistarnámi milli hverfa en þar sem þátttakan er mest og þar sem hún er minnst er munurinn þrefaldur. Liður í því að fleiri nemendum gefist kostur á að stunda tónlistarnám er að efla skólahljómsveitir og að samstarf tónlistarskóla og skóla verði aukið þannig að börn geti stundað námið á skólatíma.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. október 2019, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva 2019-2020 ásamt starfsáætlunum frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2019-2020. SFS2019100118
Samþykkt.
Helgi Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar í skóla- og frístundaráði þakka kærlega fyrir góða kynningu á starfsáætlun frístundamiðstöðvanna. Mjög mikilvægt að fá sýn inn í allt það frábæra starf sem fer fram bæði í félagsmiðstöðvunum og frístundaheimilum borgarinnar. Það er augljóst að mikið fagstarf er unnið inn í frístundamiðstöðvunum, verið er að nýta niðurstöður háskólasamfélagsins, barnasáttmála og aðrar niðurstöður úr könnunum og unnið út frá þeim.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs af fundi borgarráðs 12. september 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. október 2019, um tillöguna:
Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundaráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að skóla- og frístundaráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að skóla- og frístundaráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólana. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinnar í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef skóla- og frístundaráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundi ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til.
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs af fundi borgarráðs 19. september 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2019, um tillöguna:
Flokkur fólksins leggur til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar. Í dag eru aðeins fjórar skólahljómsveitir í Reykjavík, í Austurbæ, í Árbæ og Breiðholti, í Vesturbæ og í Grafarvogi, en hverfi borgarinnar eru 10. Eftir stendur Grafarholt og Úlfarsárdalur, Háaleiti og Bústaðir, Laugardalur, Hlíðar og Miðborg. Á sjöunda hundrað nemenda stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skónna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt og ekki á færi allra foreldra að greiða fyrir tónlistarmenntun barna sinna. Tónlistarskólinn á Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á tónlistarnám og ekki er á allra færi að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar gæti þátttaka í skólahljómsveit verið góður valmöguleiki. Með því að hafa skólahljómsveit í öllum hverfum er tækifæri til tónlistarnáms flutt í nærumhverfi barnanna. Reykjavíkurborg tryggir með þessu að börnum sé ekki mismunað á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám.
Samþykkt að vísa tillögunni til stýrihóps um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík. SFS2019090204
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. október 2019:
Lagt er til að umferðaröryggi í Úlfarsárdal verði bætt með áherslu á göngu- og hjólaleiðir barna til og frá skóla. Þá er lagt til að gangbrautir verði sérmerktar og upplýstar í samræmi við umferðarlög.
Frestað. SFS2019100042
Fylgigögn
-
Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs fyrir tímabilið janúar – júní 2019. SFS2019060141
- Kl. 15.11 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. á tímabilinu apríl – júní 2019. SFS2019060142
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit yfir ferðir starfsmanna skóla- og frístundasviðs og kjörinna fulltrúa á tímabilinu apríl – júní 2019. SFS2019060143
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2019, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 14. október 2019. SFS2018080035
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs,. dags. 14. október 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 160. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjármagn til viðhaldsframkvæmda leik- og grunnskóla 2015-2018. SFS2019050118
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um húsnæðismál Seljaskóla, frá 162. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019060113
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði vona að hægt verði að klára vinnu við Seljaskóla sem fyrst svo að nemendur geti aftur farið að stunda nám í sínu nærumhverfi og starfsfólk fái betri vinnuaðstöðu.
- Kl. 15.45 víkja Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Ragnheiður Davíðsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Soffía Pálsdóttir, Guðrún Kaldal, Kristján Gunnarsson, Jón Ingi Gíslason, Helgi Grímsson, Soffía Vagnsdóttir og Magnús Þór Jónsson af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Á síðasta fundir skóla- og frístundaráðs 8. október sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram tillögu um úrbætur á skólaakstri í Grafarvogi. Tillögunni var frestað og vekur furðu að hún hafi ekki ratað inn í dagskrá fundarins í dag. Það er til marks um að meirihlutinn telur málið ekki brýnna en svo að tillagan er enn í frestun. Frá því að tillagan var lögð fram hafa borist upplýsingar um að enn sé skólaaksturinn í ólagi og ferðir fallið niður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka að bregðast þarf strax við og koma skólaakstrinum í lag. Jafnframt er óskað eftir því að tillagan verði tekin til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.
Frestað. SFS2019100041
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að sendur verði upplýsingapóstur á alla dagforeldra í Reykjavík þar sem kemur fram hver sé tengiliður þeirra hjá Reykjavíkurborg. Þar verði gefið upp nafn, netfang og símanúmer sem hægt er að ná í viðkomandi tengilið á vinnutíma.
Frestað. SFS2019100141
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að breyting verði gerð á þjónustu við dagforeldra þannig að rekstrarumhverfi þeirra verði ekki jafn ótryggt og nú er. Breytingarnar stuðla að því að jafna stöðu dagforeldra á milli sveitarfélaga. Lagt er til að ef barn hættir hjá dagforeldri eftir 1. apríl og fer í einhvern af leikskólum Reykjavíkur þá fá dagforeldrar niðurgreiðslu frá Reykjavíkurborg fyrir maí og júní mánuð ef ekki vistast annað barn í staðinn hjá dagforeldrinu. Skilyrði fyrir greiðslu er að barnið hafi verið í vistun hjá dagforeldrinu frá 1. janúar sama ár. Þetta ákvæði á eingöngu við um dagforeldra sem eru starfandi hjá Reykjavíkurborg.
Frestað. SFS2019100142
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð leggur til að Úlfarsárdalurinn verði valinn sem einn af þeim fimm stöðum sem taka þátt í tilraunaverkefni um LED gangbrautir sem felur í sér að tæknibúnaður skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Jafnframt kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð.
Greinargerð fylgir.
Frestað. SFS2019100042
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 16:08