Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 172

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 8. október, var haldinn 172. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Saga María Sæþórsdóttir, Reykjavíkurráði ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Guðrún Edda Bentsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Alexandra Briem er kosin varaformaður skóla- og frístundaráðs.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem merkt er trúnaðarmál, dags. 3. október 2019:

    Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að setja af stað starfshóp sem hafi það verkefni að móta tillögur til að auka öryggi barna í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Starfshópurinn skoði í vinnu sinni þá öryggisferla sem eru til staðar í dag og geri tillögu að samræmdum ferlum. Kannaðir verði m.a. kostir þess að nýta öryggismyndavélar í auknum mæli við starfsstöðvar, merkingar starfsfólks og hafa strangari aðgangsstýringar. Jafnframt verði skoðaður þáttur forvarna og fræðslu varðandi öryggismál til barna, ungmenna og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi. Starfshópurinn hafi samráð við Ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar í vinnu sinni. Tillögur starfshóps verði lagðar fyrir skóla- og frístundaráð eigi síðar en 1. febrúar 2020.

    Greinargerð fylgir. SFS2019090277
    Samþykkt.

    Heiða Björg Hilmisdóttir og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er grundvallaratriði að börn og ungmenni séu varin eins og kostur er fyrir áreitni, ofbeldi og einelti í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Nýlegt tilvik í Austurbæjarskóla þar sem utanaðkomandi einstaklingur braut gegn nemanda kallar á að farið sé vandlega yfir verkferla og viðbragðsáætlanir skóla og nauðsynlegt er að ræða opinskátt til hvaða aðgerða megi grípa til að draga úr líkum á að slík tilvik eigi sér stað. Það verður verkefni þess starfshóps sem nú mun taka til starfa og mun hann m.a. fara yfir atriði eins og merkingar starfsfólks, kosti og galla þess að setja upp öryggismyndavélar á skólalóðum, strangari aðgangsstýringar, tilkynningaskyldu gesta o.s.frv. Þá verði sérstaklega hugað að forvörnum og fræðslu varðandi öryggismál gagnvart börnum, ungmennum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi. Eins liggur beint við að stýrihópurinn leiti leiða til að koma í veg fyrir þjófnað á eigum nemenda og kennara, en þó það sé ekki jafn aðkallandi og öryggi þeirra sjálfra er sjálfsagt að slík skoðun eigi heima í sömu stefnumótun.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi nýliðins alvarlegs atviks í einum grunnskóla þar sem brotið var á barni af utanaðkomandi aðila sem komst inn í skólann er mikilvægt að aðgengi og öryggismál skólanna verði tekin til gagngerrar endurskoðunar sem allra fyrst. Í stað þess að setja slíka endurskoðun í nefnd hefði verið heppilegra að fela skóla- og frístundasviði að gera úttekt á öryggisferlum og móta tillögur til úrbóta sem kæmu fljótlega til framkvæmda. Mikilvægt er að gefin séu út samræmd viðmið og reglur í því skyni að tryggja betur öryggi barna í skólahúsnæðinu og á skólalóðinni. Til að öryggi nemenda verði betur tryggt höfum við sjálfstæðismenn í skóla- og frístundaráði komið með tillögu um að starfsmenn auðkenni sig með nafnspjaldi og að öllum skólum borgarinnar standi til boða að koma upp öryggismyndavélum við skólana enda hafa þær sannað gildi sitt í þeim skólum sem nú þegar hafa á að skipa slíkum búnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 24. september 2019:

    Lagt er til að eftirlit við grunn- og leikskóla í borginni verði endurskoðað sem og allir öryggisferlar. Starfsmenn og kennarar auðkenni sig t.d. með nafnspjaldi eins og þekkist víða í stofnunum og fyrirtækjum til að tryggja betur öryggi nemenda. Skóla- og frístundasviði yrði falin útfærsla þessara auðkenna. Þá er lagt til að kannaðir verði kostir þess að koma upp öryggismyndavélum við skólana og að þeim skólum sem þess óska standi slíkur búnaður til boða.

    Greinargerð fylgir. SFS2019090277

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar í starfshópi um aukið öryggi barna í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að gerðar verði umbætur á skipulagi og umhverfi leikskólastarfs í borginni með það í huga að auka fagmennsku, minnka álag á börn og starfsfólk og tryggja gæði starfsins með þarfir barnanna í huga. Meðal þeirra þátta sem sérstaklega verða teknir til skoðunar eru opnunartími leikskólanna, skipulag starfsdagsins, dvalartími barna, stærð barnahópa, uppbygging gjaldskrár og hvernig megi bregðast við þeirri staðreynd að nýliðun leikskólakennara fullnægir ekki eftirspurn. Settur verði á fót stýrihópur með kjörnum fulltrúum, fulltrúum leikskólastjóra og fulltrúa leikskólahluta fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs. Hópurinn leiti jafnframt álits og ábendinga frá Félagi leikskólakennara, Félagi stjórnenda í leikskólum, öðru starfsfólki leikskóla, Samtökum foreldra á leikskólum, háskólasamfélaginu og fleirum eftir þörfum. Stýrihópurinn leggi fram áfangaskýrslu fyrir 1. desember 2019 og lokaskýrslu fyrir 1. mars 2020 en hafi jafnframt heimild til að koma með tillögur jafnóðum ef þörf krefur.

    Greinargerð fylgir. SFS2019100023
    Samþykkt.

    Samþykkt að skipa í stýrihópinn Egil Þór Jónsson, Diljá Ámundadóttur Zoëga og Skúla Helgason sem jafnframt verður formaður hópsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur gripið til fjölmargra aðgerða á undanförnum misserum til að bæta vinnuumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks leikskóla og varið til þess vel á annan milljarð króna. Starfsánægja hefur aukist í kjölfarið og ánægja foreldra með leikskólastarfið er um 95% sem er á heimsmælikvarða. Engu að síður felst í því mikil áskorun hve fáir nýir leikskólakennarar útskrifast úr námi og nægir hvergi til að mæta nýliðunarþörf í stéttinni. Við þessu þarf að bregðast með markvissum hætti og það verður verkefni nýs stýrihóps sem fær m.a. það verkefni að skoða atriði eins og breytt skipulag vinnudags í leikskóla, opnunartíma, stærð barnahópa, uppbyggingu gjaldskrár og hvernig megi nýta sem best það fagfólk sem er til staðar í leikskólunum. Samhliða verði teknar upp viðræður við mennta- og menningarmálaráðuneytið um aðkomu ríkisins að mótvægisaðgerðum til að mæta fækkun fagfólks.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrsta stig í því að gera umbætur á skipulagi og umhverfi leikskólastarfs í borginni með það í huga að auka fagmennsku, minnka álag á börn og starfsfólk og tryggja gæði starfsins með þarfir barnanna í huga væri að ganga að kröfum starfsfólks um betri starfsaðstæður. Sem dæmi má nefna að margir sem starfa á leikskólum borgarinnar skilgreinast sem ósérhæft starfsfólk og eru meðlimir Eflingar stéttarfélags sem sáu sig knúna til að vísa kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara nú nýlega. Þar var eitt helsta ágreiningsmálið krafa um styttingu vinnuvikunnar. Þá er nauðsynlegt að skoða launamálin og hækkun launa og styttingu vinnuvikunnar þar og innan fleiri starfsstétta á leikskólanum en það er krafa sem hefur heyrst víða og er nauðsynlegt að styðja til að minnka álag og slíkt er öllum til hagsbóta. 

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi stjórnenda leikskóla þakkar fyrir tillögu um umbætur á skipulagi og umhverfi leikskólastarfs og um leið koma á framfæri ályktun frá stjórnendahópi leikskóla. Stjórnendur krefjast þess að skóla- og frístundaráð bregðist við ákalli stjórnenda, en við höfum þungar áhyggjur af vöntun á leikskólakennurum, mikilli starfsmannaveltu, mönnunarvanda, löngum opnunartíma, langri viðveru barna í leikskóla og velferð barna. 1) Við leggjum til að opnunartími verður styttur um ½ klukkustund og allir leikskólar loki kl. 16:30. Það væri í samræmi við vinnutímastyttingu og í takt við önnur sveitarfélög sem hafa gert sér grein fyrir vandanum. 2)Við leggjum til að úthlutun á fjármagni til leikskóla verði í samræmi við lög, sem kveða á um að 2/3 hluti starfsmanna skulu vera leikskólakennarar. Ef ekki næst að manna stöður með leikskólakennurum þá nýtist fjármagnið í að ráða inn aðra sérfræðinga. 3) Fækka börnum í skólum, þar sem engir eða fáir fagmenn starfa. 4) Við óskum eftir fjölskyldustefnu, sem kveður á um hámarkstíma sem barn getur dvalið í leikskóla. Þessar aðgerðir myndu auðvelda og jafna rekstur á milli skóla, minnka álag og bæta þjónustu við börn og tryggja betur velferð og öryggi barna og starfsmanna í Reykjavík.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 24. september 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. október 2019, varðandi tillöguna: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði leggja það til að skóla- og frístundasvið skoði þann möguleika að breyta húsnæði Kelduskóla – Korpu í sameiginlegan leik- og grunnskóla með tilliti til kostnaðarmats. Enn fremur verði vilji skólasamfélagsins og foreldrafélagsins kannaður. Þegar hefur verið samþykkt að hefja rekstur svipaðra skóla í Reykjavík. Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á nýja skólagerð fyrir börn á aldrinum 2 ára til 16 ára þar sem styrkleikar leikskóla, grunnskóla og frístundar fléttast saman í skóla sem getur dregið fram það besta í hverju barni. Álíka tillaga um rekstur Kelduskóla Korpu kom fyrst fram hjá starfshópi um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Staðarhverfi í Grafarvogi í apríl 2016.

    Samþykkt með 4 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn 3 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands að vísa tillögunni frá. SFS2019090285

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði harma það að ekki verði skoðað að bætta við þá vinnu sem nú þegar er í gangi vegna Kelduskóla – Korpu. Reykjavíkurborg hefur boðað að með byggingu tveggja nýrra skóla þá verði Krikaskólamódelið útfært frekar með það að leiðarljósi að reka leik- og grunnskóla undir sama þaki. Af hverju ekki er hægt að skoða þá útfærslu fyrir Kelduskóla- Korpu þykir fulltrúum Sjálfstæðisflokks vera miður.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sú tillaga sem hér er lögð fram er í meginatriði samhljóða tillögu sem þegar hefur verið lögð fram í skóla- og frístundaráði og er enn til meðferðar í borgarkerfinu. Starfshópur um framtíðarskipan skólamála í norðanverðum Grafarvogi lagði til 2 ólíkar tillögur í skýrslu sinni í júní. Önnur þeirra er að halda áfram skólahaldi í Kelduskóla-Korpu, ráðast í umfangsmikla uppbyggingu húsnæðis í hverfinu en mæta mikilli fækkun nemenda til skemmri tíma með því að bæta við rekstri leikskóla í húsnæði skólans eða annarri skóla- og frístundastarfsemi. Báðar tillögur starfshópsins eru nú í umsagnarferli hjá umhverfis og skipulagssviði og koma síðan til afgreiðslu í skóla og frístundaráði í kjölfarið. Það er því bæði óþarfi og gerir lítið úr vandaðri vinnu starfshópsins þar sem voru fulltrúar skólastjóra, kennara og foreldra að Sjálfstæðismenn sem greiddu atkvæði með stofnun starfshópsins skuli nú grafa undan tillögum hópsins og leggja fram samskonar tillögu í skóla- og frístundaráði. Það er þvi einboðið að vísa henni frá.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. september 2019, um viðurkenningar fyrir meistaraverkefni í kennslu- og tómstundafræðum.

    Lagt er til að eftirtaldir aðilar hljóti viðurkenningar fyrir meistaraverkefni árið 2019:
    1)    Eyrún Ólafsdóttir fyrir verkefnið Byrjendalæsi sem brú milli táknmáls og íslensks ritmáls: Reynsla döff kennara 
    2)    Guðlaug Bjarnadóttir fyrir verkefnið „Þú getur sýnt fram á hæfni þína á ótrúlega mismunandi vegu“: Samþætting námsgreina í unglingadeild í einum skóla.
    3)    Halla Leifsdóttir fyrir verkefnið Í hlekkjum huglása: Starfendarannsókn á samþættingu núvitundarástundunar og nýsköpunarmenntar.
    4)    Hildur Lilja Guðmundsdóttir fyrir verkefnið Í kanínuholunni beið nýr raunveruleiki: Þróun vaxtarhugarfars í skólastarfi.
    5)    Hörður Arnarson fyrir verkefnið „Þurfum við endilega að hætta núna?“: Prófun og endurhönnun hlutverkaspilsins „Teningasögur“. 
    6)    Kristín Dóra Ólafsdóttir fyrir verkefnið Essið: Ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum.
    7)    Ingunn Heiða Kjartansdóttir fyrir verkefnið „Skipulag í óskipulaginu“: Líðan barna í leikskóla sem styðst við hugmyndir um flæði: Hver er reynsla foreldra?
    8)    Sólveig Björg Pálsdóttir fyrir verkefnið „Þetta er kannski alltaf svona á bak við eyrað“: Kynjajafnréttismenntun elstu barna í sex leikskólum. 
    9)    Sunneva Svavarsdóttir fyrir verkefnið Yngstu börnin og upplýsingatækni. 
    10)    Valdís Ingimarsdóttir fyrir verkefnið „Ég finn bara hálfan skó!“: Hvaða stærðfærði eru börn á leikskólaaldri að fást við?

    Samþykkt. SFS2019050007

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið gleðiefni að sjá þá grósku og þann margbreytileika hugmynda sem á sér stað í fræðum kennslu og tómstunda og það er ráðinu mikil ánægja að veita þessum verðugu verkefnum viðurkenningu.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram skýrslan Stuðningur við verkefni fyrir ungmenni í Reykjavík, samantekt, ódags. SFS2017030073

    Hulda Valdís Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar lýsa yfir ánægju með framkvæmd stuðnings við verkefni ungmennaráðanna í Reykjavík, en þau eru bæði mikilvægur og kraftmikill vettvangur fyrir ungmenni í Reykjavík þar sem þeirra rödd fær að heyrast, og ákaflega aðkallandi að þau hafi þann stuðning og þá aðstöðu sem þau þurfa til að sinna sínum hlutverkum. Sérstaklega er mikilvægt að styrkurinn er afhentur ungmennaráðunum sjálfum til útfærslu og mikilvægt að sú aðferðafræði fái reynslu og tækifæri til að þróast. Bendum einnig á mikilvægi þess að tengja ungmennaráð við nemendaráðin með það að markmiði að efla ungmennastarf í þeirra nærumhverfi.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 26. september 2019, þar sem tilkynnt er að borgarráð heimili sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að gera samninga við tónlistarskóla og greiða út framlög Jöfnunarsjóðs vegna kennslu á efri stigum tónlistarnáms. SFS2018080114

    -    Kl. 15.05 víkur Saga María Sæþórsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs á tímabilinu janúar – september 2019. SFS2019100018

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf skóla- og frístundasviðs á tímabilinu janúar – september 2019 ásamt erindisbréfum fagteymis um innleiðingu á verkefninu Opinskátt um ofbeldi, starfshóps um innritun í 1. bekk grunnskóla og innritun á frístundaheimili, stýrihóps um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík, starfshóps um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi, starfshóps um handleiðslu fyrir leikskólakennara og starfshóps um frekari innleiðingu á verkefnum skóla- og frístundasviðs á Stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025 auk mats á árangri þeirrar innleiðingar sem þegar hefur farið fram. SFS2019100020

    Fylgigögn

  11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. október 2019, um ráðningu í stöðu skólastjóra Fossvogsskóla. SFS2019100021

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Fossvogsskóla Ingibjörgu Ýri Pálmadóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Aðalbjörgu Ingadóttur fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um húsnæðismál Fossvogsskóla, frá 162. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019060111

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir svarið þó dregist hafi úr hömlu að svara fyrirspurninni. Ánægjulegt er að framkvæmdum hefur miðað vel við skólann þannig að búið er að taka tvær álmur í fullan rekstur og vonum við að áætlanir um aðrar verklegar framkvæmdir innandyra sem utan standist áætlun þannig að þeim verði lokið upp úr miðjum nóvember.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði varðandi viðbrögð við erindum vegna skólahalds í Staðahverfi sem lögð var fram í borgarráði þann 15. ágúst 2019. SFS2019080072

    -    Kl. 15.15 víkur Ragnheiður Davíðsdóttir af fundinum.

    -    Kl. 15.25 víkja Magnús Þór Jónsson og Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    Fylgigögn

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að umferðaröryggi í Úlfarsárdal verði bætt með áherslu á göngu- og hjólaleiðir barna til og frá skóla. Þá er lagt til að gangbrautir verði sérmerktar og upplýstar í samræmi við umferðarlög. 

    Frestað. SFS2019100042

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Í ljósi ítrekaðs þjónustubrests vegna skólaaksturs í Grafarvogi er lagt til að farið verði yfir öll þau tilvik þar sem um þjónustubrest er að ræða. Þá er lagt til að skerpt verði á því að upplýsingar til foreldra berist eins fljótt og auðið er þegar skólabílnum seinkar eða um þjónustubrest er að ræða. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að ræða við fyrirtækið sem sér um aksturinn til að gera athugasemdir, fara fram á úrbætur og tryggja að hægt verði að reiða sig á þjónustuna framvegis. Þá er brýnt að til staðar sé viðbragðsáætlun sem virkjast ef skólaakstur bregst einhverra hluta vegna.

    Frestað. SFS2019100041

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu mörg laus pláss eru á leikskólum Reykjavíkurborgar í september árið 2019 miðað við fulla mönnun. Hvað voru mörg laus pláss árið 2017? Hversu marga starfsmenn þarf að ráða til þess að leikskólarnir teljist fullmannaðir?

    SFS2019100048

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu margir leikskólakennarar starfa á leikskólum Reykjavíkur. Óskað er eftir þessum upplýsingum frá árunum 2017, 2018 og 2019. Hver væri heildar launakostnaður Reykjavíkurborgar ef leikskólarnir væru mannaðir líkt og lög kveða á um að 2/3 starfsmanna væru leikskólakennarar. Hver er meðalaldur leikskólakennara hjá leikskólum Reykjavíkurborgar?

    SFS2019100049

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvort að Reykjavíkurborg reki leikskóla þar sem tveir eða færri leikskólakennarar starfa. Hversu margir eru þessir leikskólar og hafa einhverjir þeirra eitt stöðugildi leikskólakennara eða jafnvel ekkert stöðugildi leikskólakennara?

    SFS2019100051

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu mörg börn eru að nýta sér annars vegar 9 klst. vistun og hins vegar 9,5 klst. vistun á leikskólum Reykjavíkurborgar. Hversu mörg börn eru skráð í þessa vistun? Hversu mörg börn sem eru skráð nýttu sér þessa vistun í september 2019? 

    SFS2019100052

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvað mörg börn á aldrinum 12 til 18 mánaða hafa fengið leikskólapláss hjá leikskólum Reykjavíkurborgar í september 2019.

    SFS2019100054

  21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er uppfærðra upplýsinga um fjölda nemenda í tónlistarskólum sundurliðað eftir skólum og hverfum og hversu mörgum nemendum Reykjavíkurborg greiðir með í hverjum skóla fyrir sig. 

    SFS2019100055

  22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvaða tónlistarskólar starfa innan og í samstarfi við leik- og grunnskóla.

    SFS2019100056

  23. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um fjölda nemenda í skólahljómsveitum og hvort einhverjir nemendur séu á biðlista eftir að komast að í þeim.

    SFS2019100057

  24. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er sundurliðaðra upplýsinga eftir frístundaheimilum hversu margir tómstunda- og félagsfræðingar starfa þar.

    SFS2019100058

  25. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er sundurliðaðra upplýsinga eftir félagsmiðstöðvum hversu margir tómstunda- og félagsfræðingar eru starfandi þar.

    SFS2019100059

  26. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um þjónustutíma félagsmiðstöðva og hvort hann sé samræmdur milli hverfa borgarinnar.

    SFS2019100060

Fundi slitið klukkan 15:38

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
skola_og_fristundarad_0810.pdf