Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 171

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 24. september, var haldinn 171. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um öryggismál í grunnskólum í tengslum við atvik í Austurbæjarskóla. SFS2019090277

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að eftirlit við grunn- og leikskóla í borginni verði endurskoðað sem og allir öryggisferlar. Starfsmenn og kennarar auðkenni sig t.d. með nafnspjaldi eins og þekkist víða í stofnunum og fyrirtækjum til að tryggja betur öryggi nemenda. Skóla- og frístundasviði yrði falin útfærsla þessara auðkenna. Þá er lagt til að kannaðir verði kostir þess að koma upp öryggismyndavélum við skólana og að þeim skólum sem þess óska standi slíkur búnaður til boða.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Alvarlegt atvik í Austurbæjarskóla þar sem utanaðkomandi einstaklingur braut gegn barni í skólanum kallar á sérstaka yfirferð á þeim ráðstöfunum sem gerðar eru í skólum til að tryggja öryggi nemenda. Mikilvægt er að skoða fljótt og vel hvort auka megi viðbúnað til að lágmarka líkur á að slík atvik endurtaki sig. Við búum í opnu samfélagi og viljum halda því áfram en öryggi barna í skólum verður að tryggja. Skóla- og frístundaráð mun fara ítarlega yfir verkferla, viðbúnað og upplýsingagjöf á næsta fundi sínum og ræða leiðir til úrbóta.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 19. september 2019, þar sem tilkynnt er að Sigríður Arndís Jóhannsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Lífar Magneudóttur og að Sara Björg Sigurðardóttir og Líf Magneudóttir taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Sigríðar Arndísar Jóhannsdóttur og Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur. SFS2019060216

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2020, trúnaðarmál. SFS2019090193

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

    -    Kl. 13.05 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

  4. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar, dags. 19. september 2019, um viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2019. SFS2019090193

    Harpa Hrund Berndsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar eru mjög jákvæðar og er hækkun á nær öllum þáttum milli ára. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að starfsmenn skóla- og frístundasviðs eru að jafnaði jákvæðari og er skor þeirra hærra en meðaltal borgarinnar á öllum lykil árangursþáttum sem hækka allir milli ára. Þeir veikleikar sem þó sitja eftir snúa að þáttum sem geta grafið undan áhrifaríku starfi ef ekki er úr þeim bætt, þeir eru fyrst og fremst starfsmannaaðstaða og vinnuálag, og þörf á átaki til að bæta úr þeim liðum. Þó ber að líta til þess að lykilþættir sem snúa að starfsánægju, árangursríkum stjórnunarháttum, hvetjandi og jákvæðu starfsumhverfi og hæfi og áhugasemi starfsfólks mælast sterkir. Þeir þættir sem hækka mest milli ára á sviðinu eru vinnuaðstaða, sveigjanleiki í starfi og starfsmannastöðugleiki. Mikilvægt er að rýna vel niðurstöðurnar og hvernig megi bæta enn um betur ekki síst varðandi grunnskólann. Sérstakt áhyggjuefni er þó að þrátt fyrir að tölur um einelti og áreitni frá samstarfsfólki lækki milli ára þvert á borgina, þá hækka þær tölur á skrifstofum miðlægrar stjórnsýslu. Nauðsynlegt er að það sé kannað hvað veldur.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna skóla- og frístundasviðs. Fylgja þarf vel eftir niðurstöðum könnunarinnar og aðstoða þær starfsstöðvar sem skora lágt í könnuninni og eru að lækka milli ára. Mikilvægt er að starfsstöðvarnar bregðist við og geri umbótaáætlanir í þeim þáttum sem koma illa út og eru að lækka milli ára. Athygli vekur að niðurstöður þriggja lægstu þátta könnunarinnar eru hæfilegt vinnuálag, starfsmannastöðugleiki og vinnustaðstaða en lítil breyting hefur orðið í þessum þáttum milli ára. Ljóst er að fara þarf í aðgerðir til að draga úr vinnuálagi, auka starfsmannastöðugleikann og bæta vinnuaðstöðuna.

    -    Kl. 13.24 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á aðgerðum til að bæta heilsu og líðan starfsfólks á skóla- og frístundasviði. SFS2019090199

  6. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 29. mars 2019, þar sem tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um aukið nemendalýðræði er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2019, um tillöguna. SFS2019040004

    Lögð fram svohljóðandi tillaga Ásdísar Maríu Hrafnsdóttur og Bryndísar Ýrar Sigurþórsdóttur frá ungmennaráði Grafarvogs:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði, í samstarfi við mannréttinda- og lýðræðisráð, að auka nemendalýðræði í grunnskólum Reykjavíkur með því að gefa nemendum möguleika á því að ráðstafa hluta af fjármagni skólans.

    Greinargerð fylgir.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð hvetur til þess að fulltrúar nemenda í skólaráðum í grunnskólum borgarinnar fái tækifæri til að tjá álit sitt og taka þátt í umfjöllun um ráðstöfun fjármagns skólans, öryggi, húsnæði, aðbúnað og almenna velferð nemenda í skólastarfinu. Til að svo megi verða mælir ráðið með því að fulltrúum nemenda í skólaráðum verði tryggður viðeigandi stuðningur í samræmi við Handbók um skólaráð með því að þeir hafi sérstakan stuðningsaðila sem aðstoðar þá við að undirbúa hvern fund og vinna úr niðurstöðum hans.

    Samþykkt.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata fagna þessari tillögu og þeim áhuga á skólasamfélaginu og þess vilja til virkrar þátttöku sem í henni birtist. Nauðsynlegt er að rödd nemenda heyrist þar sem ákvarðanir um rekstur og starfsemi skólans eru teknar. Það er áhyggjuefni ef skólaráð eru ekki í öllum tilfellum slíkur vettvangur eins og lagt var upp með að þau yrðu. Lögð er áhersla á að skólaráð skuli vera virk og starfa í samræmi við handbók um þau sem gefin var út 2017. Sjá þarf til þess að nemendum séu kynnt skólaráðin og þeim veittur sá stuðningur sem þarf til að komast inn í þau mál skólans sem þau láta sig varða, ekki síður fjármál en önnur. Þar sem fjármagn til skólanna er á forræði skólastjórnenda þyrfti kanna hvernig hægt væri að útfæra nánari aðkomu nemenda. Mikilvægt er til að farið verið í könnun á starfsemi skólaráða, virkni þeirra og eftirfylgd með handbók. Í kjölfarið verði ráðist í endurskoðun á þeirri handbók og farið í vinnslu nýrrar samþykktar um hlutverk skólaráða í samráði við fulltrúa þeirra, þá sérstaklega nemenda, með áherslu á að efla upplýsingagjöf til nemenda og möguleika þeirra á virkri þátttöku.

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á stöðu framkvæmda við starfsstaði skóla- og frístundasviðs. SFS2019070076

    Agnar Guðlaugsson og Kristján Sigurgeirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjölmenningarráðs sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs á fundi borgarstjórnar og fjölmenningarráðs 30. apríl 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2019, um tillöguna: 

    Lagt er til að efla og fjölga brúarsmiðum á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar sem sinna starfi með börnum af erlendum uppruna ásamt því að veita skólum og foreldrum ráðgjöf.

    Greinargerð fylgir. SFS2019050100

    Samþykkt að vísa til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2020.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Kjósarhrepps um þjónustu og greiðslur milli skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Kjósarhrepps vegna barna og nemenda sem eiga lögheimili í Kjósarhreppi en njóta leikskólaþjónustu, eru í grunnskóla, frístundastarfi eða tónlistarskóla Reykjavíkurborgar á Klébergi ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. september 2019, um samninginn og fylgiskjölum. SFS2019010142 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. september 2019, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 16. september 2019. SFS2018080035

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vel hefur gengið að manna laus stöðugildi undanfarinn mánuð í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfinu. Nú eru eftir 38 ómönnuð grunnstöðugildi í leikskólum í stað ríflega 60 fyrir mánuði. Rétt er að hafa í huga að búið er að fjölga um 34 stöðugildi milli ára vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfið á leikskólum en engu að síður fjölgar ekki ómönnuðum stöðugildum frá sama tíma í fyrra. Í grunnskólum eru nú 22 lausar stöður í stað 40 fyrir mánuði og í frístund vantar nú að fylla í tæp 40 stöðugildi í stað 102 fyrir mánuði. Þar með er búið að ráða í yfir 91% stöðugilda í frístund og 98-99% stöðugilda í leikskólum og grunnskólum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir þá vinnu sem fór í það að svara fyrirspurn vegna stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði. Ekki hefur tekist að ráða í 129 stöðugildi hjá skóla- og frístundasviði sem veldur því að börn hafa verið send heim af leikskóla vegna manneklu og ekki hefur verið hægt að taka inn öll börn á leikskóla sem var lofað plássi. Auk þess eru 174 börn á biðlista eftir vistun á frístundaheimili. Fulltrúarnir leggja áherslu á það að áfram verði lögð áhersla á það að þung vinna verði lögð í ráðningar enda bitna allar tafir illa á börnum og foreldrum þeirra.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leikskóla sem hafa sent börn heim vegna manneklu, frá 168. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019090105 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir greinargott svar við fyrirspurninni. Harma þeir að einn leikskóli hafi á þessu hausti þurft að senda börn heim vegna manneklu og vonast fulltrúarnir til þess að það vel gangi að ráða í þau lausu stöðugildi sem eru á skóla- og frístundasviði.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um biðlista eftir leikskólavist, frá 168. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019090106

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir greinargott svar við fyrirspurninni. Vonast fulltrúarnir til þess að vel gangi að ráða í lausar stöður svo að hægt sé að bjóða þeim 49 börnum sem eru á biðlista pláss sem fyrst.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um biðlista eftir dvöl á frístundaheimili, frá 168. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019090107

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir greinargott svar við fyrirspurninni. Vonast fulltrúarnir til þess að vel gangi að ráða í lausar stöður svo að hægt sé að bjóða þeim 174 börnum sem eru á biðlista pláss sem fyrst.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans vilja árétta það að miðað við nýjustu upplýsingar eru 105 börn á biðlista eftir vistun á frístundaheimili en ekki 174. Það er mikilvægt að hér komi fram að ýmislegt hefur verið gert síðan tiltekið svar við fyrirspurninni var skráð. Tölur á borð við þessar eru flæðandi, enda á starfsfólk sviðsins hrós skilið fyrir skilvirk og hröð handtök á stuttum tíma.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ráðningar á skóla- og frístundasviði, frá 168. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019090108 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir þá vinnu sem fór í það að svara fyrirspurn vegna stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði. Ekki hefur tekist að ráða í 129 stöðugildi hjá skóla- og frístundasviði sem veldur því að börn hafa verið send heim af leikskóla vegna manneklu og ekki hefur verið hægt að taka inn öll börn á leikskóla sem var lofað plássi. Auk þess eru 174 börn á biðlista eftir vistun á frístundaheimili. Fulltrúarnir leggja áherslu á það að áfram verði lögð áhersla á það að þung vinna verði lögð í ráðningar enda bitna allar tafir illa á börnum og foreldrum þeirra.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sundkennslu haustið 2019, frá 167. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019080136

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. september 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu tillagna um aukinn stuðning við dagforeldra í Reykjavík, frá 156. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2019030199 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir svarið. Það er mikilvægt að fá góða skýringu á því hver staðan er á auknum stuðningi við dagforeldra í Reykjavík sem voru samþykktar í skóla- og frístundaráði þann 9. október 2018. Fulltrúarnir leggja áherslu á það að áfram verði haldið af krafti til þess að klára alla þessa níu þætti sem samþykktir voru.

    -    Kl. 15.45 víkja Anna Metta Norðdahl og Guðrún Kaldal af fundinum.

    Fylgigögn

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði leggja það til að skóla- og frístundasvið skoði þann möguleika á að breyta húsnæði Kelduskóla – Korpu í sameiginlegan leik- og grunnskóla með tilliti til kostnaðarmats. Enn fremur verði vilji skólasamfélagsins og foreldrafélagsins kannaður. Þegar hefur verið samþykkt að hefja rekstur svipaðra skóla í Reykjavík. Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á nýja skólagerð fyrir börn á aldrinum 2 ára til 16 ára þar sem styrkleikar leikskóla, grunnskóla og frístundar fléttast saman í skóla sem geta dregið fram það besta í hverju barni. Álíka tillaga um rekstur Kelduskóla Korpu kom fyrst fram hjá starfshópi um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Staðarhverfi í Grafarvogi í apríl 2016.

    Frestað. SFS2019090285

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvernig frímínútnagæslu er háttað við grunnskóla borgarinnar og hvaða reglur gildi um slíka gæslu? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir skólum.

    SFS2019090287

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvort atvik sem varða öryggi barna í leik- og grunnskólum og á frístundaheimilum séu skráð og hvernig sé unnið með þær upplýsingar.

    SFS2019090288

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvernig umferðaröryggi barna er tryggt við skóla borgarinnar. Við hvaða grunnskóla eru gangbrautarljós eða sérmerktar upplýstar gangbrautir og hvaða skólar eru með gangbrautavörslu.

    SFS2019090289

  21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvort reglulega fari fram umferðartalning við grunnskóla borgarinnar á starfstíma skólanna?

    SFS2019090290

  22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig hefur skóla- og frístundasvið brugðist við og tekið á því þegar skólar og starfsstaðir lækka á milli ára í starfsánægjukönnunum?

    SFS2019090291

  23. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu innleiðingar verkefnisins Aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi sem fór af stað á síðasta kjörtímabili.

    SFS2019090292

Fundi slitið klukkan 16:00

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
171._fundur_sfrads_24._september_2019.pdf