Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 168

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 10. september, var haldinn 168. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.30. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 22. ágúst 2019, þar sem tilkynnt er að Diljá Ámundadóttir Zoëga taki sæti í skóla- og frístundaráði og að Geir Finnsson taki sæti sem varamaður í ráðinu. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 6. september 2019, þar sem tilkynnt er að Egill Þór Jónsson taki sæti í skóla- og frístundaráði. SFS2019060216

    -    Kl. 12.38 tekur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir sæti á fundinum.

    -    Kl. 12.48 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrslan Heilsa og lífskjör skólanema á Íslandi, dags. í desember 2018. SFS2019090021

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kristján Ketill Stefánsson, Almar Halldórsson, Ársæll Már Arnarsson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir kynningar á rannsókn vegna líðan nemenda í grunnskólum. Það er mikilvægt að unnið sé markvisst með þessar niðurstöður þar sem virkni, líðan og skóla- og bekkjarandi nemenda í 6. – 10. bekk í Reykjavík hefur dalað lítilega á undanförnum 3 árum. Enn fremur eru niðurstöður um dalandi sjálfsálit og aukning í einelti hjá börnum áhyggjuefni. Það þarf að sporna við því að hver nýr árgangur (6. bekkur) síðustu 3 ár hefur sýnt aðeins verri útkomu enn sá fyrri. Mikinn breytileika má finna milli skóla og því nauðsynlegt að nýta þessar niðurstöður og bregðast strax við með umbótaáætlunum og þá sérstaklega í þeim skólum sem koma verst út.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir kynningu á könnunum á líðan og heilsu nemenda. Sérstaklega skal hrósa fyrir hve alvarlega og vel hugað var að persónuverndarsjónarmiðum þegar svona viðkvæman hóp er um að ræða. Því má fagna að svör eru almennt mjög jákvæð, en þó áhyggjuefni að svör versna milli ára þvert á spurningar og í öllum landshlutum. Áhugavert að heyra mögulegt orsakasamhengi við þróun þjóðfélagsmála, efnahagshruns og meðfylgjandi streitu á uppvaxtarárum þeirra barna sem fæddust 2004-2007, þó erfitt sé að staðfesta slíkt. Áhyggjuefni er að sjá að einelti sé að aukast og veruleg notkun á rafrettum kallar á sérstök viðbrögð. Mikilvægt er að brugðist sé við þeirri þróun og er það til marks um gagnsemi þess að fylgjast vel með líðan og heilsu. Þau gögn gefi vísbendingar snemma, áður en ástand versnar verulega. Aðstæður og svörun milli skóla eru töluvert mismunandi og tilefni til að meta þarfir þeirra út frá aðstæðum.

    Fylgigögn

  3. Diljá Ámundadóttir Zoëga er kosin varaformaður skóla- og frístundaráðs.

  4. Lögð fram Matarstefna Reykjavíkurborgar 2018-22, dags. í apríl 2018. SFS2019090022

    Heiða Björg Hilmisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Matarstefna Reykjavíkurborgar sem samþykkt var á vormánuðum 2018 er metnaðarfull og byggir á heildstæðri sýn á matarmenningu í borginni allri. Markmiðin eru skýr: að auka fjölbreytni í fæðuframboði og auka hollustu og gæði matar m.a. út frá hugmyndafræði sjálfbærni. Stefnan boðar aðgerðir til að nýta matinn betur og minnka þar með matarsóun og almennt vinna að bættri matarmenningu í borginni. Mikilvægt er að innleiða sem fyrst lykilaðgerðir sem fylgja stefnunni s.s. um að grænmetisréttir standi til boða í skólamötuneytum, matreiðslufólk fái þjálfun í matreiðslu grænmetisrétta og starfsfólk mötuneytanna eigi kost á fræðslu og starfsþróun í tengslum við aukna fjölbreytni skólamáltíða. Nú hefur verið skipaður stýrihópur um næstu skref við innleiðingu stefnunnar, m.a. með forgangsröðun aðgerða sem er mikilvægt til að tryggja að markmið stefnunnar nái fram að ganga.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja löngu tímabært að hefja innleiðingu matarstefnunnar, enda var matarstefnan samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar 15. maí í fyrra eða fyrir rúmlega ári síðan. Hafist var handa um stefnumótun skólamáltíða í mars 2016. Síðan eru liðin þrjú og hálft ár. Nú á að skipa enn einn stýrihópinn til að innleiða stefnuna. Þetta sýnir metnaðarleysi meirihlutans og ranga forgangsröðun þegar kemur að börnum í borginni. Mikilvægt er að meirihlutinn standi einhuga að baki matarstefnunni, sem augljóslega samrýmist manneldismarkmiðum Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins, í stað þess að varpa fram óábyrgum hugmyndum, tvist og bast, sem fara gegn manneldismarkmiðunum. Það verður ekki séð að innleiðing stefnunnar krefjist sérstakrar samþykktar. Það hefði átt að gerast sjálfkrafa fyrir rúmlega ári síðan þegar stefnan var samþykkt.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn er einhuga um að innleiða þegar samþykkta stefnumörkun í matarmálum borgarinnar. Afvegaleiðing fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og aðdróttanir um að ekki ríki samstaða í þeim efnum er rakinn þvættingur og ekki til þess fallinn að skapa samvinnu og traust um jafn mikilvægt mál og Matarstefnu Reykjavíkur, lýðheilsu fólks og baráttuna gegn loftslagsvánni. Orðræða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er ámælisverð. Þrátt fyrir að þeim sé bent á hið sanna í málinu þráskallast þeir við í pólitískum tilgangi og gegn betri vitund.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Því er vísað til föðurhúsanna að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins séu með aðdróttanir um að ekki ríki samstaða í meirihlutanum um matarstefnuna. Fésbókarfærsla fulltrúa Vinstri grænna segir allt sem segja þarf um samstöðuleysi meirihlutans í þessum efnum: ,,Við ættum að draga verulega úr framboði dýraafurða eða hætta alfarið að bjóða upp á þær í mötuneytum borgarinnar.."

    Fylgigögn

  5. Lögð fram drög að áherslum og forgangsröðun skóla- og frístundaráðs 2019-2022, trúnaðarmál. SFS2019020034

    Samþykkt. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

    Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

  6. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu ásamt Stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025:

    Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að skipa starfshóp um frekari innleiðingu á stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík, sem var samþykkt 3. október 2017. Starfshópur sem skipaður var í kjölfar samþykktar stefnunnar skilaði af sér innleiðingaráætlun til ársloka 2019 með óskum um að skipaður væri annar starfshópur til að vinna að innleiðingaráætlun til ársins 2025. Í frístundastefnunni er mikil áhersla lögð á að virkja börn og unglinga til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi og er skóla- og frístundasvið með starfsemi fyrir aldurshópinn sem sækir þjónustu til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og frístundamiðstöðva. Mikilvægt er að fylgja frístundastefnunni varðandi þann aldurshóp og koma með tillögur um innleiðingu hennar til 2025 varðandi starfsþætti sem snúa að skóla- og frístundastarfi skóla- og frístundasviðs. Einnig er lagt til að starfshópurinn leggi mat á árangur þeirra innleiðingar sem þegar hefur farið fram er varða verkefni frístundastarfs skóla- og frístundasviðs.

    Samþykkt. SFS2019090024

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva lýsa yfir ánægju með að skipa eigi starfshóp um frekari innleiðingu á stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík, sem var samþykkt 3. október 2017. Mikilvægt er að innleiðingu frístundastefnunnar sé fylgt eftir allt til 2025 og að meta eigi árangur innleiðingarnar.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 11. júní 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. september 2019, um tillöguna: 

    Skóla- og frístundaráð beinir því til forsætisnefndar að breyta samþykkt um ráðið á þá leið að Samtökum sjálfstætt rekinna skóla verði heimilað að skipa áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráð. Eðlilegt er að sjálfstætt starfandi skólar sem sinna lögbundnum verkefnum sem ráðið hefur eftirlitsskyldur með hafi áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins. 

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. SFS2019060107

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
        
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að tillagan hafi verið felld, enda eðlilegt að sjálfstætt starfandi skólar sem sinna lögbundnum verkefnum sem ráðið hefur eftirlitskyldur gagnvart hafi áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans samþykkja í grunnatriðum það sjónarmið, með vísun í framsett minnisblað, að til séu margir hópar sem störf ráðsins hafa áhrif á og sem gætu haft bæði hag af aðkomu að fundum og átt jákvæð og gagnleg innlegg í mál sem hér eru rædd. Fundir ráðsins eru þó nú þegar mjög fjölmennir og ætti að bæta fleiri áheyrnarfulltrúum í hópinn yrðu þeir fljótt nær því að kallast ráðstefnur. Almennt er þó jákvætt að það sé skoðað með hvaða hætti aðkoma nýrra aðili að fundum sé sem gagnlegust og uppbyggilegust. Því er eðlilegt að það sé skoðað með jákvæðum augum að í einhverjum tilfellum sé þeim aðilum boðið að sitja fundi þegar málefni sem þeim tengjast beint eru rædd. Sá skýri fyrirvari þarf þó að vera að staða einkarekinna skóla er ólík öðrum skólum borgarinnar að því leyti að þar er um að ræða lögaðila sem eru í samningsbundnum rekstri fyrir skóla- og Frístundasvið og þiggja fyrir það greiðslur. Ekki verður tekið undir það sjónarmið að fulltrúar slíkra aðila eigi heima á þeim fundum þar sem samningar, skilmálar eða afstaða sviðsins eða borgarinnar gagnvart þeim sem gagnaðila eru til umræðu.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2019 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 15. ágúst 2019 um viðbrögð við erindum varðandi skólaráð Kelduskóla. SFS2019080073

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um embættisafgreiðslu sviðsstjóra, dags. 3. september 2019, eitt mál. SFS2019020033

    Fylgigögn

  10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að könnun verði gerð á notkun útikennslustofa í borginni með það að markmiði að hægt verði að nýta þær betur. Kortlagning þeirra verði nýtt til að hvetja til frekari notkunar þeirra og til samnýtingar milli hverfa, skóla og leikskóla. Þannig gefst tækifæri fyrir fleiri skóla, leikskóla og frístundaheimili að nýta útikennslustofurnar enda er útinám hluti af aðalnámskrá.

    Frestað. SFS2019090103

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hve margir af starfsmönnum frístundaheimila og frístundamiðstöðva eru háskólanemar? Svarið óskast sundurliðað eftir háskólum og eftir sviðum, í tilfelli Háskóla Íslands.

    SFS2019090104

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu margir leikskólar hafa orðið að senda börn heim vegna manneklu frá 1. september 2019. Hversu mörg börn hafa verið send heim og í hvað margar klukkustundir.

    SFS2019090105

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að fá upplýsingar um það hversu mörg börn eru á biðlista eftir leikskólavist og hafa ekki fengið boð um vistun.

    SFS2019090106

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu mörg börn eru á biðlista eftir því að komast inn á frístundaheimili.

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það í hvað mörg stöðugildi á eftir að ráða hjá frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, leikskólum og grunnskólum Reykjavíkurborgar.

    SFS2019060108

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að skýrsla sem átti að skila í nóvember 2017 um húsnæðismál tengd reglum um félagsmiðstöðvar og frístundaheimili verði kláruð og niðurstöður kynntar ráðinu. Mikilvægt er þó að ráðsmönnum sé strax á næsta fundi kynnt hvar verkefnið er statt. 

    SFS2018100120

    -    Kl. 15.36 víkja Haraldur Sigurðsson, Soffía Pálsdóttir og Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    -    Kl. 15.45 víkja Guðrún Gunnarsdóttir, Sigríður Björk Einarsdóttir, Magnús Þór Jónsson, Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Helgi Grímsson, Jón Ingi Gíslason og Kristján Gunnarsson af fundinum.

Fundi slitið klukkan 15:50

Skúli Helgason Alexandra Briem

Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir