Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 167

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 27. ágúst, var haldinn 167. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Geir Finnsson (C), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Grunnskólar Reykjavíkur: Úthlutun fjárhagsramma og rekstur, dags. í júlí 2019. SFS2019080108

    Hallur Símonarson og Guðjón H. Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12.43 tekur Guðrún Kaldal sæti á fundinum.

    -    Kl. 12.55 taka Guðrún Gunnarsdóttir og Sigríður Björk Einarsdóttir sæti á fundinum.

    Vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir vel unna skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla borgarinnar. Skýrslan staðfestir það sem bent hefur verið á árum saman og kjörtímabil eftir kjörtímabil að fjármagn til skólanna hefur verið vanáætlað með þeim afleiðingum að skólarnir fara ítrekað fram úr fjárhagsramma sínum. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að viðhaldi skólanna hefur ekki verið sinn sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Tekið er undir meginniðurstöður skýrslunnar að mismunandi skilningur virðist vera á milli skólastjórnenda og skóla- og frístundasviðs annars vegar og fjárveitingavalds borgarinnar hins vegar um hvað er nauðsynlegt fjármagn til reksturs á grunnskólum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa miklum áhyggjum á þessu alvarlega skilnings- og áhugaleysi meirihluta borgarstjórnar á nauðsynlegri fjárveitingu til skólamála. Kallað er eftir tafarlausri leiðréttingu á ósamræmi milli fjárúthlutunar og nauðsynlegrar fjárþarfar, ósamræmi sem hefur látið viðgangast allt of lengi með tilheyrandi rekstrarvanda skólastjórnenda og erfiðleikum í skólastarfi í borginni. Grunnskólar borgarinnar standa almennt fyrir því að nánast allir rekstrarliðir fá of knappt fjármagn segir í vandaðri og vel unninni skýrslu innri endurskoðunar, við það verður ekki unað lengur og er beinlínis virðingarleysi gagnvart þeim mikilvæga málaflokki sem skólastarf er.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar fyrir mikilvæga skýrslu um fjárhag og rekstur grunnskólanna í borginni. Skýrslan staðfestir það sem sviðið hefur haldið fram um árabil að þörf er á auknu fjármagni til grunnskólanna í borginni, úthlutunarlíkan vegna ráðstöfunar fjármagns er úrelt, svigrúm skólanna til hagræðingar er afar takmarkað og fjármagn til sérkennslu og kennslu barna með annað móðurmál en íslensku þarf að auka til að mæta þjónustuþörf. Nauðsynlegt er að mati meirihluta ráðsins að úthlutanir til grunnskóla byggi á réttum grunni og raunhæfum væntingum með tilliti til þeirrar þjónustu sem skólunum er ætlað að veita. Ljóst er af skýrslunni að núverandi líkan dugir ekki til þess og kallar á gagngera yfirferð. Innri endurskoðun tekur undir sjónarmið ráðsins um að gera þurfi nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar á vegum þjónustumiðstöðvanna með það að markmiði að störf sérfræðinga þjónustumiðstöðvanna fari í mun ríkari mæli fram innan veggja skólanna. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum haustsins að koma þeim málum í skýran farveg. Skóla- og frístundaráð mun nú vísa skýrslunni til borgarráðs og leggur áherslu á mikilvægi þess að rýna ábendingar Innri endurskoðunar vel í þeirri vinnu sem framundan er við að móta fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í grunnskólum og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur fagna framkominni skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar varðandi úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla borgarinnar. Skýrslan er mjög fagmannlega unnin, dregur upp raunsanna mynd af úthlutun til málaflokksins í borginni og er mikilvægt innlegg í fyrirliggjandi vinnu við endurskoðun úthlutunarlíkans borgarinnar. Fulltrúarnir leggja áherslu á það að horft verði til gildandi grunnskólalaga og þeirra krafna sem gerðar eru um skólastarf og skóla- og frístundaráð tryggi það fjármagn sem þarf til að allir skólar borgarinnar nái að sinna sínum faglegu og lögbundnu skyldum þegar nýtt úthlutunarlíkan liggur fyrir. Skýrsla Innri endurskoðunar er lykilgagn í endurskoðunarvinnu vegna þess líkans.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, þakkar fyrir góða kynningu á skýrslu, Grunnskólar Reykjavíkur, Úthlutun fjárhagsramma og rekstur. Leikskólastjórar óska eftir að farið verði í sambærilega úttekt á fjárhagsramma og rekstri leikskóla Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  2. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu ásamt minnisblaði sviðsstjóra dags. 21. júní 2019, drögum að reglum um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar, reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar, reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum, umsögn skólaráðs Kelduskóla, dags. 19. ágúst 2019 og umsögn skólaráðs Melaskóla, dags. 18. ágúst 2019:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að ákvörðun ráðsins frá 25. júní 2019 þar sem samþykktar voru nýjar reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar og breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar verði endurupptekin og málinu vísað að nýju til umsagnar foreldrafélaga þeirra skóla sem breyting mun hafa áhrif á. Frestur til að senda inn umsagnir verði veittur til 15. september 2019. Ráðið mun taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju að loknu umsagnarferli.

    Greinargerð fylgir. SFS2018110156

    Samþykkt.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir sjónarmið foreldra að falla eigi frá því að afleggja skólaakstur en þannig verði öryggi skólabarna best tryggt til og frá skóla. Foreldrar barna í Skerjafirði og í Grafarvogi hafa bent á að ekki eru til staðar öruggar göngu- og hjólaleiðir fyrir nemendur eða beintengdur strætó frá þessum hverfum að skóla auk þess sem um hættulegar umferðargötur er að fara. Á Suðurgötunni hafa því miður orðið banaslys á gangandi vegfarendum og í kjölfar slíks hörmulegs slyss á skólabarni var skólaakstur tekinn upp. Með það í huga og áralanga baráttu íbúa fyrir skólaakstri til að tryggja öryggi skólabarna telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks brýnt að forgangsraðað verði í þágu öryggis skólabarna með því að skólaakstur standi nemendum áfram til boða. Komið hefur í ljós að ábendingar fulltrúa Sjálfstæðisflokks á skóla- og frístundaráðsfundi 25. júní sl. og 18. júlí í borgarráði um að betur hefði mátt standa að samráði við foreldra áttu fullan rétt á sér og að mikilvægt væri að ákvarðanir verði ekki teknar fyrr en öllum aðilum málsins hefði gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Í jós hefur komið að þegar breytingar á reglum um skólaakstur voru samþykktar fyrr í sumar vantaði umsagnir sumra skólaráða og því þarf að taka upp málið á ný.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að senda tillögur um breytingar á fyrirkomulagi skólaaksturs og afhendingu strætókorta til umsagnar foreldrafélaga sem málið varðar. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi mistaka sem urðu í umsagnarferlinu og rétt er að biðjast velvirðingar á. Foreldrafélögin fá frest til 15. september til að skila inn umsögnum og síðan mun ráðið taka málið aftur til meðferðar, m.a. með hliðsjón af sjónarmiðum í umsögnum skólaráða og foreldrafélaga. Næstu vikur verða m.a. notaðar til samskipta við Strætó um leiðir til að koma til móts við óskir borgarinnar og foreldra um tryggt öryggi nemenda, ekki síst yngstu barnanna.

    Skúli Helgason og Valgerður Sigurðardóttir víkja af fundinum vegna vanhæfis og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur þar sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að haldin verði Barnabókamessa í þriðja sinn í samstarfi Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og Félags íslenskra bókaútgefenda þar sem kynntar verði nýjar íslenskar barna- og unglingabækur. Fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla í borginni verði gefinn kostur á því að kynna sér bækurnar, ræða við höfunda og útgefendur og þeim verði tryggt sérstakt fjármagn til að kaupa titla að eigin vali fyrir bókasöfn starfsstöðvanna á sérstöku kynningarverði. Barnabókamessan verði haldin dagana 11.-12. nóvember 2019 undir stúku Laugardalsvallar. Lagt er til að sérstök fjárveiting til grunnskóla og leikskóla vegna Barnabókamessunnar verði alls 9 milljónir, sem rúmast innan fjárheimilda skóla- og frístundasviðs.

    Greinargerð fylgir. SFS2019080088

    Samþykkt.

    Bryndís Loftsdóttir og Margrét Björnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Barnabókamessa er sameiginlegt framtak skóla- og frístundasviðs og Félags bókaútgefenda til að auka áhuga barna og ungmenna á lestri. Messan verður nú haldin í þriðja sinn í nóvember og þar gefst grunnskólum og leikskólum tækifæri til að bæta bókakost sinn á sérstöku kynningarverði og bjóða grunnskólanemum og leikskólabörnum að lesa og njóta nýútkominna barna- og unglingabóka. Skólarnir fá sérstakt fjármagn í þessu skyni, alls 9 milljónir króna sem er kærkomin viðbót við hefðbundna úthlutun til bókakaupa skólanna.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2019, um niðurstöður viðhorfskönnunar foreldra leikskólabarna 2019. SFS2019080106

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er afar ánægjulegt að sjá niðurstöður spurninga í viðhorfskönnun til foreldra barna sem sækja leikskóla í Reykjavík fyrir árið 2019. Foreldrar eru afar ánægðir með starf leikskólans og telja að börnum sínum líði vel í því faglega starfi sem þar er unnið. Hlutfall þeirra sem eru í heildina litið ánægðir með leikskólann og svara heildaránægjufullyrðingunni mjög eða frekar sammála eru 93,8% en 3,6% svara hvorki né. Almennt ríkti ánægja og jákvæðni í garð leikskólanna í Reykjavík og ber að þakka starfsfólki fyrir góð störf þó vissulega megi ekki líta framhjá því að alltaf er svigrúm til úrbóta þar sem við á. Því eru þessar viðhorfskannanir afar mikilvægt tæki til að gera leikskólana í Reykjavík enn betri.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
        
    Niðurstöður spurninga í viðhorfskönnun til foreldra barna í leikskólum Reykjavíkur leiðir í ljós að á heildina litið eru foreldrar ánægðir með leikskólana. Þrátt fyrir manneklu og aukið álag á starfsfólk hefur tekist að halda uppi góðu og faglegu starfi í leikskólunum sem ber að þakka stjórnendum, leikskólakennurum og starfsfólki fyrir þeirra góða starf.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. apríl 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, um tillöguna, dags. 20. ágúst 2019:

    Lagt er til að starfsmenn frístundaheimila fái frí þegar grunnskólar borgarinnar fara í vetrarleyfi. Þannig er gætt jafnræðis milli starfsmanna skólanna enda stendur nemendum ekki til boða þjónusta frístundaheimilanna í vetrarleyfum.

    Tillögunni er vísað frá. SFS2019040038

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja jákvætt að komið sé til móts við starfsfólk frístundaheimila í vetrarleyfum grunnskóla þannig að þeir starfsmenn sem eiga börn eigi þess kost að taka leyfi á vetrarfrísdögum til að vera með börnum sínum í vetrarfríinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs er í aðalatriðum sammála því að almennt sé gott að koma til móts við óskir starfsfólks um leyfi þar sem það er hægt. Eins og fram kemur í minnisblaði sviðsins er lítill raunmunur á aðstöðu vegna vetrarleyfa og nú þegar er reynt að koma til móts við slíkar óskir eftir getu. Ekki er talin þörf á sérstöku inngripi til að ganga lengra en þegar er gert.

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram reglur um stofnstyrki vegna daggæslu í heimahúsum ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. ágúst 2019 og eyðublaði vegna umsókna um stofnstyrk vegna daggæslu barna í heimahúsi. SFS2019080087

    Samþykkt og vísað til borgarráðs og jafnframt að frá samþykkt reglnanna geti þeir sem uppfylltu skilyrðin þann 1. janúar 2019 eða síðar sótt um stofnstyrk.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er hluti af stefnu núverandi meirihluta að efla dagforeldrakerfið í borginni og bæta gæði þess samhliða markvissri uppbyggingu á leikskólaþjónustu í borginni í tengslum við aðgerðaáætlunina Brúum bilið. Einn liður í því að styrkja dagforeldraþjónustuna er að hvetja til fjölgunar dagforeldra með því að bjóða nýjum dagforeldrum svokallaða stofnstyrki. Nýir dagforeldrar geta sótt um að fá 300 þúsund krónur í stofnstyrk og með samþykkt reglna um hann á þessum fundi er aðgerðin formlega komin til framkvæmda.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 11. júní 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um tillöguna, dags. 20. ágúst 2019:

        Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði harma það að ekki hafi tekist að klára Dalskóla. Starfsfólk og börn þurfa því áfram að vera í vinnuaðstöðu sem fylgir mikið rask. Það er því mikilvægt að takmarka öll óþægindi bæði fyrir börn og starfsfólk. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska því eftir að börn og starfsfólk fái góðan og næringarríkan mat sem uppfyllir viðmið Landlæknisembættisins og lög um grunnskóla kveða á um, á meðan á þessum framkvæmdum stendur. Það er mjög mikilvægt að tryggja það að svo verði þó svo að það sé kostnaðarsamt vegna framkvæmda. Börn og starfsfólk í Dalskóla hafa sýnt mikla þolinmæði og þrautseigju á þessum framkvæmdatíma. Skóla- og frístundaráð verður því að tryggja að heitar máltíðir geti verið afgreiddar í skólanum fram að áramótum eða þangað til mötuneyti skólans verði fullklárað og hægt er að fara að elda á staðnum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð áréttar að tryggt verði að nemendur og starfsfólk Dalskóla fái heitar máltíðir í skólanum með tímabundnum úrræðum þar til mötuneyti hins nýja skóla verður tilbúið til notkunar í byrjun næsta árs.

    Samþykkt. SFS2019060106

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla og frístundaráði fagna því að tillaga þeirra frá 11. júní um það að setja upp mötuneyti við Dalskóla hafi hlotið hljómgrunn og að mötuneyti verði starfsrækt í Dalskóla á meðan framkvæmdir standa þar yfir. Enda mikilvægt að tryggja að börn og starfsfólk Dalskóla fái góðan og næringarríkan mat sem uppfyllir viðmið Landlæknisembættisins og lög um grunnskóla kveða á um. Fulltrúarnir þakka fyrir þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í það að koma þessu til framkvæmdar.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. ágúst 2019 við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 162. fundi skóla- og frístundaráðs um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði. SFS2019060109

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka það að hafa þarf hraðar hendur varðandi ráðningar til þess að geta veitt þá þjónustu sem foreldrar hafa verið að sækja um fyrir börn sín. Það á eftir að ráða í 237 stöðugildi hjá skóla- og frístundasviði. Ótækt er að enn séu 1328 börn á biðlista í frístund. Fulltrúarnir leggja áherslu á að þung vinna verði áfram lögð í að klára ráðningar og biðlistum verði eytt. Enda bitna allar tafir á innritun mjög illa á börnum og foreldrum þeirra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka starfsfólki skóla- og frístundasviðs fyrir góða vinnu við að ráða í þær lausu stöður í leikskólum, skólum og frístundaheimilum sem búið er að ráða í.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrstu tölur um ráðningarmál sýna að búið er að ráða í 96-98% stöðugilda í leikskólum og grunnskólum og 76% í frístundastarfinu. Þetta eru í heildina betri staða en í fyrra og mun betri en næstu 2 ár þar á undan. Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að stöðugildum í leik og grunnskólum fjölgar um 44 á milli ára m.a. vegna fjölgunar barna. Þessu ber að fagna og staðfestir árangur þeirra aðgerða í mönnunarmálum sem ráðið og sviðið hafa samþykkt og ráðist í á undanförnum árum.

    -    Kl. 15.40 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  9. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu miklu fjármagni síðustu 5 ár (síðasta kjörtímabil + þetta fyrsta ár af þessu) hafi verið veitt til skóla- og frístundasviðs. Óskað er eftir því að fá þetta skilgreint niður á ár. Hafa þessar hækkanir náð að brúa þær hækkanir sem hafa orðið á vísitölum og verðbólgu?

    SFS2019080134

  10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að vita hvernig dreifing á námsgögnum hefur gengið eftir í upphafi þessa skólaárs, var öllum námsgögnum dreift áður en skólastarf hófst?

    SFS2019080135

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig verður sundkennslu háttað, á nýhöfnu skólaári, í þeim skólum þar sem nemendur hafa þurft að sækja hana í önnur hverfi eða jafnvel í önnur sveitarfélög?

    SFS2019080136

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir sundurliðun eftir leikskólum hversu margir leikskólakennarar eru þar að störfum og upplýsingum um hvort einhverjar deildir leikskólanna séu án starfandi leikskólakennara.

    SFS2019080137

Fundi slitið klukkan 16:03

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir