No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Ár 2019, 30. júlí, var haldinn 164. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 14.00. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Gunnlaugur Bragi Björnsson (C), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Kristján Gunnarsson, staðgengill sviðsstjóra og Soffía Vagnsdóttir. Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á stöðu framkvæmda við grunnskóla Reykjavíkurborgar. SFS2019070076
- Kl. 14.06 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir jákvæðar undirtektir og skjót viðbrögð skóla- og frístundasviðs við beiðni um aukafund vegna stöðu framkvæmda við grunnskóla í Reykjavík. Afar mikilvægt er fyrir fulltrúa í skólanefndum að vera upplýstir um ástand skólahúsnæðis í sveitarfélagi sínu, sbr. e. lið 6. gr. laga nr. 91 frá 2008, þar sem segir að eitt af meginhlutverkum skólanefnda sveitarfélaga sé að sjá til þess að jafnan sé fyrir hendi viðeigandi húsnæði fyrir kennslu. Fjöldi ábendinga hafa borist um að skólahúsnæði sé víða ekki tilbúið til að kennsla megi hefjast í samræmi við áður samþykktar starfsáætlanir. Þessi aukafundur í skóla- og frístundaráði er liður í því að veita sem bestar upplýsingar um stöðu mála og getur því gefið tækifæri á að setja aukinn þrýsting á viðhaldsmál og breyta forgangsröðun í framkvæmdum á vegum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka sérstaklega öllu hlutaðeigandi starfsfólki borgarinnar fyrir þá miklu vinnu sem unnin hefur verið við þær umfangsmiklu framkvæmdir og fjölda viðhaldsverkefna á skólahúsnæði í Reykjavík á síðustu vikum.
- Kl. 14.26 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir ítarlega og góða kynningu á helstu framkvæmdum við skólahúsnæði í sumar. Ljóst er að unnið er mikið og gott starf við að bæta aðbúnað nemenda og starfsfólks á viðkomandi stöðum og að almennt viðhald á skólahúsnæði er í traustum farvegi. Full ástæða er til að þakka skólastjórnendum, kennurum, öðru starfsfólki skólanna, foreldrum og nemendum auk starfsfólks skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs fyrir þeirra hlut í að bregðast við þeim vanda sem upp hefur komið og auðsýnda þolinmæði í krefjandi stöðu. Skóla- og frístundaráð leggur áherslu á að mikilvægt er að bæta húsakost í Norðlingaskóla til að mæta auknum nemendafjölda, sem enn mun aukast á komandi árum í tengslum við uppbyggingu í hverfinu. Ráðið styður heilshugar áform um framkvæmdir við gang á Norðlingabraut, sem myndi bæta verulega nýtingu þess húsnæðis sem í dag þjónar þremur árgöngum í skólanum. Brýnt er að taka ákvörðun um þessa framkvæmd hið fyrsta og leggur skóla- og frístundaráð áherslu á að málið verði afgreitt á næsta fundi borgarráðs.
Agnar Guðlaugsson og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fundi slitið klukkan 15:17
Skúli Helgason Alexandra Briem
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir