Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 162

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 11. júní, var haldinn 162. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.35. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Pawel Bartoszek (C), Rannveig Ernudóttir (P) og Sanna Magdalena Mörtudóttir (J). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Eva Sóldís Bragadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Menntastefna Reykjavíkur til 2030, mótun stefnu og innleiðing á fyrstu mánuðum, dags. í júní 2019. SFS2017010019

    Fríða Bjarney Jónsdóttir, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Guðrún Hjartardóttir og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ný menntastefna Reykjavíkur var samþykkt samhljóða í borgarstjórn á afmæli Barnasáttmálans 20. nóvember 2018. Stefnumótunarferlið tók 2 ár og er talið að allt að tíu þúsund manns hafi komið að verkinu í þéttu samráðsferli þar sem niðurstaðan er fjölþætt stefna með sterka tilvísun í aðalnámskrá og Barnasáttmálann þar sem áherslan er á að byggja upp alhliða þroska, hæfni og færni barna sem þekkja styrkleika sína, trúa á eigin getu og fá stuðning og leiðsögn um hvernig þau geti látið drauma sína rætast. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að hefja innleiðingu menntastefnunnar og var Nýsköpunarmiðja menntamála sett á fót til að styðja starfsstöðvar um alla borg við innleiðingu stefnunnar. Þar er fylgt þeirri sýn að mikilvægt sé að viðhalda þeirri sterku áherslu á víðtækt samráð og forystuhlutverk skólasamfélagsins sem var lykillinn að þeirri víðtæku samstöðu sem skapaðist um mótun stefnunnar og megináherslur hennar um hæfniþættina fimm: félagsfærni, sjálfseflingu, sköpun, læsi og heilbrigði.

    -    Kl. 12.43 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. júní 2019, um úthlutun úr B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Látum draumana rætast ásamt yfirliti yfir umsóknir í B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs og reglur um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs vegna styrkja í B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs, trúnaðarmál. SFS2019040020

    Frestað.

    Anna Metta Norðdahl, Haraldur Sigurðsson, Magnús Þór Jónsson og Jón Ingi Gíslason víkja af fundinum vegna vanhæfis.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. apríl 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2019, um tillöguna:

    Lagt er til að starfsmenn frístundaheimila fái frí þegar grunnskólar borgarinnar fara í vetrarleyfi. Þannig er gætt jafnræðis milli starfsmanna skólanna enda stendur nemendum ekki til boða þjónusta frístundaheimilanna í vetrarleyfum.

    Frestað. SFS2019040038

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs á fundi borgarráðs 14. febrúar 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. júní 2019, um tillöguna:

    Lagt er til að borgaryfirvöld samþykki að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snúa að borgum og með formlegum hætti. Sérstaklega skal hugað að innleiðingu heimsmarkmiðanna í allt leik- og grunnskólastarf borgarinnar. Heimsmarkmiðin eiga erindi til nemenda á öllum skólastigum og ekki síst til leikskólabarna. Mikilvægt er að borgaryfirvöld samþykki að hefja markvissa vinnu að uppfræða börnin um heimsmarkmiðin strax í leikskóla. Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu. Grunnskólar eru hvattir til að nýta sér þetta og að leggja áherslu á heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Nú þegar ættu að vera komin veggspjöld með heimsmarkmiðunum í alla skóla landsins, á öllum skólastigum. Hægt er að nýta veggspjöld til að gera markmiðin sýnilegri og þannig verði þau nýtt í auknum mæli til að leggja áherslu á mikilvægi hvers einasta heimsmarkmiðs enda eiga þau erindi inn í alla okkar tilveru. Það er von Flokks fólksins að skólar finni fyrir hvata úr öllum áttum til að innleiða heimsmarkmiðin og að sá hvati komi þá allra helst frá Reykjavíkurborg.

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. SFS2019020092

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vinna við innleiðingu menntastefnunnar er í fullum gangi og sú stefna endurspeglar með mjög markvissum hætti þá grundvallarsýn sem birtist í heimsmarkmiðunum. Rétt þykir að setja innleiðingu menntastefnu í forgang og það er mat okkar að ekki sé skynsamlegt að ráðast í viðamikið innleiðingarferli á hliðstæðum markmiðum samhliða þeirri vinnu. Af þeim praktísku ástæðum greiðum við atkvæði gegn tillögunni, þótt málefnið sé sannarlega mikilvægt. Þá skal því haldið til haga að ýmsar starfsstöðvar sviðsins eru í reynd að innleiða heimsmarkmiðin að eigin frumkvæði, m.a. undir merkjum Réttindaskóla Sameinuðu þjóðanna.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 7. mars 2019, um að lagfæra skólalóð Vogaskóla. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. apríl 2019, um hugmyndina. SFS2019030068

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. júní 2019, um samþykkt borgarráðs á tillögu borgarstjóra um hækkun á hámarksviðmiði nemendafjölda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Waldorfskólans Sólstafa ásamt fylgiskjölum. SFS2019030078

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. júní 2019, um samþykkt borgarráðs á tillögu borgarstjóra um að Hjallastefnunni Grunnskólum ehf. verði heimilað að hefja kennslu í 5. bekk við Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík frá og með skólaárinu 2019-2020. SFS2019020123

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði fagna því að Barnaskólinn í Reykjavík fái nú leyfi til skólastarfs á miðstigi. Sjálfstæðir skólar, og þar með taldir Hjallastefnuskólar, hafa verið litrík viðbót við skólaflóruna í Reykjavík. Leyfi til skólastarfs á miðstigi er því jákvætt skref í átt til aukinnar fjölbreytni og fleiri valkosta í borginni.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. maí 2019, um hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs vegna skólaársins 2018-2019. SFS2019010076

    Fylgigögn

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. maí 2019, um nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs 2019. SFS2019050001

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. júní 2019, um barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019. SFS2019060055

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 152. fundi skóla- og frístundaráðs, um vinnuaðstöðu starfsfólks frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbæjar. SFS2019010155

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva harma þann seinagang sem tengist aðstöðumálum Gufunesbæjar. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir framkvæmdastjóra Gufunesbæjar og frá yfirmönnum SFS til SEA og USK-sins hafa engin svör borist hvorki er varðar tillögur um að bæta bráðabirgðaaðstöðuna í skrifstofugámunum né framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Framkvæmdastjórar ítreka að svör fáist sem allra fyrst en því miður er þetta ekki einsdæmi er varðar óljósa stöðu húsnæðis og aðstöðu frístundastarfsins hjá SFS.

    -    Kl. 14.50 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júní 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 152. fundi skóla- og frístundaráðs, um stærð hjartarýmis frístundaheimila og félagsmiðstöðva. SFS2018110077

    Fylgigögn

  13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði harma það að ekki hafi tekist að klára Dalskóla. Starfsfólk og börn þurfa því áfram að vera í vinnuaðstöðu sem fylgir mikið rask. Það er því mikilvægt að takmarka öll óþægindi bæði fyrir börn og starfsfólk. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska því eftir að börn og starfsfólk fái góðan og næringarríkan mat sem uppfyllir viðmið Landlæknisembættisins og lög um grunnskóla kveða á um, á meðan á þessum framkvæmdum stendur. Það er mjög mikilvægt að tryggja það að svo verði þó svo að það sé kostnaðarsamt vegna framkvæmda. Börn og starfsfólk í Dalskóla hafa sýnt mikla þolinmæði og þrautseigju á þessum framkvæmdatíma. Skóla- og frístundaráð verður því að tryggja að heitar máltíðir geti verið afgreiddar í skólanum fram að áramótum eða þangað til mötuneyti skólans verði fullklárað og hægt er að fara að elda á staðnum.

    Frestað. SFS2019060106

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

     

    Skóla- og frístundaráð beinir því til forsætisnefndar að breyta samþykkt um ráðið á þá leið að Samtökum sjálfstætt rekinna skóla verði heimilað að skipa áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráð. Eðlilegt er að sjálfstætt starfandi skólar sem sinna lögbundnum verkefnum sem ráðið hefur eftirlitsskyldur með hafi áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins.

    Frestað. SFS2019060107

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu ráðninga í kennarastöður í grunnskólum Reykjavíkur fyrir skólaárið 2019-2020. Óskað er upplýsinga um stöðu ráðninga á frístundaheimili í grunnskólum Reykjavíkur fyrir skólaárið 2019-2020. Óskað er upplýsinga um stöðu ráðninga á leikskólum Reykjavíkur.

    SFS2019060108

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvort allir grunnskólar Reykjavíkur hafi fullnægt markmiðum aðalnámskrár hvað tónmenntakennslu varðar skólaárið 2018-2019. Þá er jafnframt óskað svara við því hvort allir grunnskólar borgarinnar hafi á að skipa tónmenntakennurum.

    SFS2019060109

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig hyggjast skólayfirvöld í Reykjavík bregðast við því alvarlega ástandi sem komið er upp í Hagaskóla þar sem húsnæðið er orðið heilsuspillandi bæði fyrir nemendur og starfsfólk þar sem koltvísýringur hefur mælst of hár í lofti og kennslustofurnar orðnar of litlar miðað við nemendafjölda. Samkvæmt niðurstöðum mælinga verkfræðistofunnar Mannvits er meðalstyrkur koltvísýrings í lofti í öllum skólastofum of hár og uppfyllir ekki kröfur núgildandi byggingareglugerðar. Þá standast kennslustofur í elstu byggingum Hagaskóla ekki reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis þar sem hver og ein kennslustofa er ekki nema 47 fermetrar en samkvæmt reglugerð á kennslustofa með 22-28 nemendum að vera minnsta kosti 60 fermetrar.

    SFS2019060110

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Komið hefur í ljós að mygla í þaki Fossvogsskóla er talsvert meiri en talið var í fyrstu og hefur leitt til þess að þaksperrur eru skemmdar vegna raka og þær þurfi að fjarlægja. Í ljósi þess má búast við að framkvæmdir við skólann geti tafist. Óskað er upplýsinga um hvort umræddum framkvæmdum verði lokið fyrir skólabyrjun í haust og ef ekki til hvaða ráðstafanna verði gripið.

    SFS2019060111

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu framkvæmda og viðgerða við Breiðholtsskóla og hvenær þeim ljúki.

    SFS2019060112

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um stöðu framkvæmda og viðgerða við Seljaskóla og hvenær þeim ljúki.

    SFS2019060113

Fundi slitið klukkan 15:12

Skúli Helgason Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudottir