Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 161

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 28. maí, var haldinn 161. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 11.35. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Rannveig Ernudóttir (P), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 22. janúar 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um tillöguna, dags. 15. maí 2019:

    Lagt er til að strax verði brugðist við þeim athugasemdum/frávikum/ábendingum frá Heilbrigðiseftirliti sem átta frístundaheimili hafa fengið og ekki hefur verið brugðist við. Það er óboðlegt að athugasemdum/frávikum/ábendingum frá Heilbrigðiseftirlitinu sé ekki sinnt strax.

    Samþykkt. SFS2018100119

    -    Kl. 11.40 taka Guðrún Gunnarsdóttir og Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs 28. mars 2019 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um tillöguna, dags. 16. apríl 2019: 

    Lagt er til að starfsemi skólaráða í grunnskólum Reykjavíkur verði könnuð með það að leiðarljósi að skoða hversu lýðræðisleg starfsemi þeirra er með tilliti til þess að hlustað sé á rödd nemenda og tekið mark á þeirra framlagi til betra samfélags í grunnskólum borgarinnar. 

    Samþykkt. SFS2019040027

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stöðu innritunar í leikskóla í maí 2019, dags. 27. maí 2019. SFS2019030198

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Góð staða er á innritun barna í leikskóla borgarinnar fyrir haustið. Búið er að bjóða langstærstum hluta þeirra barna sem verða 18 mánaða 1. september næstkomandi eða rúmlega fimmtán hundruð börnum pláss í leikskóla. Einungis 48 börn sem eru 18 mánaða og eldri eru á biðlista skv. nýjustu tölum. Þá er byrjað að bjóða yngri börnum pláss, sem verða 14-17 mánaða í haust og hefur þegar rúmlega 100 börnum verið boðið í leikskóla, sem sagt meirihluta barna sem eru með umsókn á þessum aldri. Betur gengur að fylla laus pláss á leikskólum borgarinnar samhliða úrbótum á vinnuumhverfi s.s. að fækka börnum á hvern starfsmann.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram ársuppgjör skóla- og frístundasviðs 2018. SFS2018090028

    -    Kl. 12.54 víkur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks árétta að fjárhagsáætlun er almennt ætlað að gefa fyrirheit um raunverulegan rekstrarkostnað. Fram hefur komið í ábendingum fulltrúa stjórnenda á starfsstöðvum að áætlun fyrir næsta ár er að mörgu leyti ábótavant, kostnaður víða vanáætlaður og nánast ógerlegt að mæta hagræðingarkröfum. Enn fremur kom fram að innri leiga vegna húsnæðis er hærri en gerist í öðrum sveitarfélögum, sem skekkir samanburð og leiðir til hærri kostnaðar við skólagöngu reykvískra barna. Full ástæða er til að endurskoða vinnulag við fjárhagsáætlanagerð, til að áætlun endurspegli væntan raunkostnað og sé í takti við það sem víðast tíðkast í öðrum sveitarfélögum. Vönduð og raunhæf fjárhagsáætlun sem endurspeglar raunverulegan rekstur skóla borgarinnar, bætir kostnaðarvitund stjórnenda og styrkir þá um leið til að mæta þeirri ábyrgð og þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Misskilnings gætir í bókun Sjálfstæðismanna því undir þessum lið var fjallað um ársuppgjör liðins árs en ekki fjárhagsáætlun næsta árs. Á hitt ber að líta að sviðið hefur óskað eftir auknum fjárheimildum til að mæta halla á auknum rekstrarkostnaði, sem ekki hefur verið verðbættur að fullu undanfarin ár.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. janúar til desember 2018. SFS2018060175

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit yfir ferðir starfsmanna skóla- og frístundasviðs og kjörinna fulltrúa, október til desember 2018, dags. 14. maí 2019. SFS2018060173

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir styrki skóla- og frístundaráðs árið 2017. SFS2019050121 

    Guðrún Edda Bentsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á stöðu framkvæmda við grunnskóla Reykjavíkurborgar.

    Ámundi V. Brynjólfsson, Agnar Guðlaugsson og Kristján Sigurgeirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um ráðningu í stöðu skólastjóra við Rimaskóla, dags. 16. maí 2019. SFS2019030153 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Rimaskóla Þórönnu Rósu Ólafsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Helga Árnasyni fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs ágúst til desember 2019, með fyrirvara um breytingar. SFS2017050059

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 152. fundi skóla- og frístundaráðs, um myglu í húsnæði frístundamiðstöðva. SFS2019010156

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. maí 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 152. fundi skóla- og frístundaráðs, um lausn húsnæðisvanda sjö frístundaheimila. SFS2018100118

    -    Kl. 13.55 víkja Magnús Þór Jónsson og Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    -    Kl. 14.00 víkja Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir af fundinum.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva skora á skóla- og frístundaráð og borgaryfirvöld í Reykjavík að koma með framtíðarlausn í húsnæðismálum frístundmiðstöðva, félagsmiðstöðva og frístundaheimila. Mikilvægt er að skóla- og frístundaráð fái skýr svör frá umhverfis- og skipulagssviði og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar varðandi hvað gera eigi í málefnum þeirra starfsstaða sem glíma við óviðunandi húsnæði og/eða eru í tímabundnu húsnæði vegna myglu eða annars sem hefur áhrif á aðstöðuna. Til að geta uppfyllt gæðakröfur sem að fylgja samþykktum stefnum, frístundastefnu og menntastefnu þá þarf aðbúnaður að vera í lagi. Framkvæmdastjórar óska eftir að úttekt á öllu húsnæði frístundamiðstöðva, frístundaheimila og félagsmiðstöðva sem fyrirhugað hefur verið að ráðast í frá því 15. maí 2018, R14120116 og ráðstafanir gerðar þar sem aðstöðunni er ábótavant. Starfshópur um bætt starfsumhverfi í frístundastarfi skilaði skýrslu 25. apríl 2018 og gert var ráð fyrir að tillögur úr þeirri skýrslu kæmu til framkvæmda haustið 2018 og árið 2019. Vinna þarf tímalínu varðandi framkvæmdir og forgangsraða þannig að hafist verði handa þar sem aðstaðan er verst. Mikilvægt er að umhverfis- og skipulagssvið og skrifstofa eigna og atvinnuþróunar sem hafa það hlutverk að sjá um að útvega skóla- og frístundasviði viðunandi húsnæði sé skýrt og það séu til skýrir verkferlar.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 14:10

Skúli Helgason Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek