Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 160

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 14. maí, var haldinn 160. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 9.02. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Starfsþróun grunnskólakennara í Reykjavík: Viðhorf skólastjórnenda, dags. í apríl 2019. SFS2019050089

    Ingvar Sigurgeirsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9.18 tekur Sigríður Björk Einarsdóttir sæti á fundinum.

    -    Kl. 9.30 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í grunnskólum og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur fagna samantektarskýrslu Ingvars Sigurgeirssonar um viðhorf skólastjóra til starfsþróunar grunnskólakennara borgarinnar. Í henni er farið yfir ólíkar hugmyndir sem fulltrúar félaganna telja brýnt að verði teknar upp og ræddar á samráðsvettvangi stjórna félaganna með það að markmiði að efla kennara í störfum þeirra og virkja sérfræðikunnáttu samstarfsfólki sínu og nemendum til heilla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfsþróun er gríðarlega mikilvægur hluti af skapandi lærdómssamfélagi og nú liggur fyrir yfirgripsmikil úttekt Ingvars Sigurgeirssonar og Lilju M. Jónsdóttur á starfsþróun grunnskólakennara í Reykjavík þar sem byggt er á viðhorfum skólastjórnenda í borginni. Skýrslan er mikilvægt innlegg í umbætur á fyrirkomulagi starfsþróunar í borginni þar sem er lofsvert að framboð á starfsþróun er mikið en styrkja þarf námskeiðahald í tilteknum greinum s.s. stærðfræði og náttúrugreinum. Mikilvægt er að grunnskólarnir í Reykjavík öðlist stærri hlutdeild í úthlutuðu fjármagni úr stærstu þróunarsjóðunum og að eftirfylgd með fjármagni sé betri. Sérstaka athygli vekur að engar upplýsingar liggja fyrir um nýtingu fjármagns til starfsþróunar í Vonarsjóði. Mikilvægt er að nýta tækifærið sem felst í nýjum samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs og menntavísindasviðs Háskóla Íslands til að nýta betur það fjármagn sem varið er til starfsþróunar kennara. Þá er nauðsynlegt að taka málið upp og leita eftir sjónarmiðum kennaraforystunnar og eiga gott samstarf við forystu kennara og skólastjórnenda um næstu skref.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

     

    Lagt er til að settur verði á fót starfshópur um framtíðarskipan stjórnunar í leikskólunum Suðurborg og Hólaborg með teymisstjórnun og aukið samstarf að leiðarljósi, í anda nýrrar menntastefnu Reykjavíkur. Áður samþykkt tillaga skóla- og frístundaráðs frá 28. febrúar 2019 um sameinaða yfirstjórn leikskólanna Suðurborgar og Hólaborgar er dregin til baka. Auglýstar verði stöður leikskólastjóra beggja leikskóla og faglegt sjálfstæði þeirra áréttað en lögð áhersla á aukið samstarf þeirra á sviðum fagstarfs, stjórnunar, mannauðsmála og rekstrar. Verkefni starfshópsins verði að móta og leggja fram tillögur varðandi aukið samstarf, breytta verkaskiptingu og betri nýtingu mannauðs og fjármagns í leikskólunum tveimur. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum stjórnenda, starfsfólks og skóla- og frístundasviðs. Hópurinn skal jafnframt hafa samráð við foreldraráð beggja leikskóla. Hópurinn skili tillögum sínum fyrir 1. desember 2019.

     

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2019010039

     

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

     

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Fulltrúar skóla- og frístundasviðs, ásamt fulltrúum ráðsins, hafa átt í góðu samtali við stjórnendur, kennara og foreldra í Suðurborg og Hólaborg í kjölfar umræðu sem spratt upp vegna tillögu um sameiginlega yfirstjórn leikskólanna, sem samþykkt var í ráðinu 28. febrúar 2019. Niðurstaða þessa samráðs er að meirihlutinn leggur til að málið verði sett í nýjan farveg, fyrri tillaga lögð til hliðar en sett af stað vinna við að móta framtíðarskipan stjórnunar í leikskólunum tveimur sem samræmist áherslum nýrrar menntastefnu um skapandi lærdómssamfélag og áformum um skipulagsbreytingar í anda dreifstýringar þar sem miðlægur stuðningur skóla- og frístundasviðs færist í auknum mæli nær vettvangi. Starfshópnum er falið að að útfæra slíkar hugmyndir um samstarf og teymisstjórnun leikskólanna með það að markmiði að létta álagi af leikskólastjórum, styrkja millistjórnendur í hlutverkum sínum og nýta betur fjármagn og mannauð í leikskólunum tveimur. Leikskólarnir verða áfram undir stjórn tveggja leikskólastjóra og er stefnt að því að samlegðaráhrifin af auknu samstarfi og teymisstjórnun muni skila bættu starfsumhverfi, betri rekstri og blómlegu leikskólastarfi fyrir börnin í hverfinu.

     

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði vilja leggja mikla áherslu á það að öll vinna um framtíðarskipan stjórnunar í leikskólunum Suðurborg og Hólaborg verði vönduð, fagleg og í góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila. Það hefur komið mikil og skýr andstaða frá foreldrum og starfsmönnum vegna þessara vinnu. Stöðugleiki í skólastarfi og starfsmannamálum er afar mikilvægur þáttur í stjórnun skóla, mikil ánægja hefur komið fram með þjónustu skólanna sem byggir á ólíkri faglegri nálgun og eykur fjölbreytileika og valkosti í skólamálum í hverfinu. Raddir foreldra, starfsfólks og íbúa í hverfinu eru ákaflega mikilvægar og nauðsynlegt að hlustað sé á þær af virðingu og skilningi.

     

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Jákvætt er að sjá að áður samþykkt tillaga um sameinaða yfirstjórn leikskólanna Suðurborgar og Hólaborgar hafi verið dregin til baka en hún mætti andstöðu á meðal starfsfólks leikskólanna en ólík stefna er rekin á leikskólunum og starfsfólk leikskólanna lagðist gegn hugmyndum um samrekstur. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur mikilvægt að raddir þeirra sem vinna á umræddum leikskólum og hafa þekkingu af aðstæðum komi að mótun framtíðarskipan innan leikskólanna. Í þessari tillögu kemur fram að faglegt sjálfstæði leikskólanna verði áréttað sem er jákvætt en að lögð verði áhersla á aukið samstarf þeirra á sviðum fagstarfs, stjórnunar, mannauðsmála og rekstrar. Fulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á mikilvægi þess að raddir starfsfólks og foreldra komi að framtíðarskipan leikskólanna.

     

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu margir starfsmenn hafa hætt á leikskólunum Hólaborg og Suðurborg eftir að Reykjavíkurborg upplýsti um áform sín um það að sameina þessa tvo skóla. Eins er óskað eftir upplýsingum um það hversu margir starfsmenn hafa sagt upp störfum en hafa ekki látið af störfum síðan þessi áform voru kynnt.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram erindisbréf stýrihóps um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík. SFS2018120032

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um sumarstörf í leikskólum 2019, dags. 8. maí 2019. SFS2018030076 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið fagnaðarefni hve góð viðbrögð hafa verið við verkefninu Sumarstörf í leikskólum sem sett var á laggirnar í fyrrasumar. Mikil ánægja hefur verið með verkefnið bæði af hálfu viðkomandi ungmenna og leikskólastjórnenda og nú liggur fyrir að búið er að ráða 84 sumarstarfsmenn úr þeim 250 umsóknum sem bárust um störfin. Sérstaklega er skemmtilegt að verkefnið virðist þegar hafa kveikt áhuga ungs fólks á því að velja nám í leikskólakennarafræðum.

    -    Kl. 10.28 taka Guðrún Kaldal og Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um leyfi til daggæslu barna í Reykjavík 2018, dags. 2. maí 2019 ásamt reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005. SFS2019050083 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði hafa áhyggjur af þeirri miklu fækkun sem hefur orðið í stétt dagforeldra. Dagforeldrar gegna veigamiklu hlutverki til þess að brúa bil á milli fæðingarorlofs og þess tíma þegar foreldrar fá úthlutuðu plássi á leikskólum Reykjavíkurborgar. Dagforeldrar eru mikilvæg viðbót við valkosti foreldra og geta í mörgum tilvikum verið hentugri kostur en hefðbundnir leikskólar. Dagforeldrar geta líka hentað til að jafna sveiflur þegar ásókn vex vegna stórra árganga eða breytinga í íbúasamsetningu hverfa. Hlúa þarf frekar að mikilvægu starfi og en um leið viðkvæmu starfsumhverfi dagforeldra.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um eftirlit með daggæslu barna í heimahúsum á árinu 2018, dags. 8. apríl 2019. SFS2019050082 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihluta í skóla- og frístundaráði þakka yfirferðina. Jafnframt er því beint til ráðherra að endurskoða reglugerð um daggæslu í heimahúsum. Falla ætti frá stífri kröfu um þrjár óboðaðar eftirlitsheimsóknir og leggja áherslur á fjölbreyttari og sveigjanlegri stuðnings- og eftirlitsaðgerðir þegar kemur að daggæslu í heimahúsum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. maí 2019, um þátttöku Reykjavíkurborgar í fundinum Borgir framtíðar sem haldinn verður í London 6. og 7. júní 2019. SFS2019050093

    Fylgigögn

  8. Lögð fram dagskrá Höfuð í bleyti 2019, uppskeruhátíðar frístundamiðstöðvanna í Reykjavík. SFS2019050087

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á könnun á viðhorfum foreldra barna í frístundaheimilum Reykjavíkurborgar 2018. SFS2019050094

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11.02 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram skýrslan Foreldrakönnun: Sumarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva 2018, dags. í janúar 2019. SFS2019050095

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á sumarstarfi frístundaheimila og félagsmiðstöðva 2019. SFS2019050096

    Fylgigögn

  12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um ráðningu í stöðu skólastjóra Foldaskóla, dags. 7. maí 2019.  SFS2019050084

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Foldaskóla Kristrúnu Guðjónsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Báru Jóhannsdóttur fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um ráðningu í stöðu leikskólastjóra Funaborgar, dags. 2. maí 2019. SFS2019050085

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Funaborgar Agnesi Jónsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um ráðningu í stöðu leikskólastjóra Rauðaborgar, dags. 9. maí 2019. SFS2019050086 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Rauðaborgar Dagbjörtu Svövu Jónsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Ástu Birnu Stefánsdóttur fyrir vel unnin störf.

    -    Kl. 11.58 víkur Sigríður Björk Einarsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 153. fundi skóla- og frístundaráðs, um stöðu tillagna um aðgerðir í starfsumhverfi grunnskólakennara. SFS2019020060

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir þá miklu og vönduðu vinnu sem hefur verið lögð í það að svara þessari mikilvægu fyrirspurn um aðgerðir í starfsumhverfi grunnskólakennara. Margt hefur unnist en ennþá eru nokkrir liðir sem ekki eru hafnir, þar sem fjárveiting hefur ekki verið tryggð. Það er gríðarlega mikilvægt og brýnt að fjármagni sé úthlutað í þessa liði sem fyrst svo að vinna geti hafist við þessar tillögur sem enn bíða þess að hrint verði í framkvæmd. Framlagt yfirlit er mikilvægt gagn fyrir kjörna fulltrúa að sinna hlutverki sínu í skóla- og frístundaráði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. maí 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 153. fundi skóla- og frístundaráðs, um athugasemdir frá Heilbrigðiseftirlitinu sem ekki hefur verið brugðist við. SFS2019020062

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir þá vinnu sem liggur á bak við það að taka saman þessar upplýsingar. Það vekur athygli að sjá að 22 leikskólar á samtals 26 starfsstöðvum og 12 grunnskólar hafa sent upplýsingar um að ekki hafi verið brugðist við síðustu athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 2018. Þessar upplýsingar voru sendar til umhverfis- og skipulagssviðs en engin viðbrögð fengist þaðan. Það er grafalvarlegt að ekki hafi verið brugðist hratt og vel við athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skóla- og frístundaráð ber mesta ábyrgð á aðstæðum á sínum starfsstöðvum og þarf í því ljósi að setja fram skýlausa kröfu um að brugðist sé án tafa við öllum athugasemdum Heilbrigðiseftirlitsins, af hendi þeirra sem sjá um framkvæmdir eða viðbrögð á starfsstöðvum sínum.

    Fylgigögn

  17. Fram fer umræða um bruna í Seljaskóla 12. maí 2019. SFS2019050114

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla– og frístundaráð þakkar stjórnendum, starfsfólki, nemendum og forráðamönnum þeirra í Seljaskóla fyrir að hafa sýnt ótrúlega þrautseigju, fumleysi og fagleg vinnubrögð við erfiðar aðstæður vegna brunans í Seljaskóla. Nauðsynlegt er að tryggja öryggi barna og starfsfólks bæði til bráðabirgða og langframa og vinna við að kortleggja þá valkosti er þegar í fullum gangi. Einnig verður unnið hratt og örugglega í nánu samstarfi skólasamfélagsins og sviðsins að því að tryggja menntun og frístundastarf barna næsta haust.

    -    Kl. 12.13 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    -    Kl. 12.20 víkja Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Helgi Grímsson af fundinum.

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að öryggisúttekt verði gerð í öllum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

    SFS2019050116

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að athugað verði hvort að mygla finnist í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

    SFS2019050117

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir sundurliðun á því hversu miklu fjármagni hefur verið veitt til viðhaldsframkvæmda í öllum leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir þessum tölum sundurliðuðum per skóla á árunum 2018, 2017, 2016 og 2015.

    SFS2019050118

  21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað hafa margar viðbótardeildir verið opnaðar síðan í febrúar 2019 við leikskóla Reykjavíkur?

    SFS2019050119

  22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hefur verið opnuð ungbarnadeild við leikskólann Sunnuás? Ef svo er ekki, hverjar eru þá skýringarnar á því?

    SFS2019050120

Fundi slitið klukkan 12:46

Skúli Helgason Alexandra Briem

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudottir